DFS 67

.

DFS 67


DFS 67 er safn kvæðauppskrifta og ýmis konar samtínings, að mestu leyti frá 19. öld. Alls er safnið 552 blöð sem flest eru laus, en einnig er nokkuð um lítil kver. Stærð blaða er breytileg og pappírsgerð með ýmsu móti. Samtíningi þessum, sem er í mörgu tilliti nokkuð sundurlaus, hefur verið skipt niður í sjö hluta og blöð 1–531 tölusett með bláum lit, en 21 ótölumerkt blað rekur lestina. Safnið er nú varðveitt í hefðbundinni pappírsmöppu í Dansk Folkemindesamling í Kaupmannahöfn.

Einingarnar sjö eru auðkenndar með bókstöfunum A–G. A, B, C, F og G hafa að geyma margvíslegan fróðleik um leiki og skemmtanir, auk kvæðauppskrifta eftir öðrum handritum. Mest af þessu er skrifað af Jóni Sigurðssyni, en sitthvað mun einnig skráð af danska þjóðkvæðasafnaranum Svend Grundtvig og öðrum samstarfsmönnum Jóns. D hefur að geyma frumuppskriftir kvæða, sem ýmist voru skráð af Jóni sjálfum eða send honum. Í E, sem er alls 242 blöð, eru varðveittar uppskriftir þjóðkvæða sem bárust Hinu konunglega norræna fornfræðafélagi í Kaupmannahöfn í söfnunarátaki félagsmanna á árunum 1847–50. Þessum hluta skipti Svend Grundtvig niður í 16 sjálfstæð skjöl eða „archives“ og auðkenndi með Arch. A–R. Hvert þessara skjala merkti hann svo viðeigandi auðkenni og færði auk þess inn upplýsingar um sendanda, hafi þær ekki verið til staðar áður. Þessir tveir hlutar, D og E, varðveita frumheimildir einstakra gerða þjóðkvæða.

Ekkert efnisyfirlit fylgir DFS 67 en til er skrá yfir sagnadansa í E (H–L). Skrá þessi var unnin af Svend Grundtvig og er nú varðveitt ásamt öðrum vinnuskjölum hans í DFS 65.

Af efni handritsins hafa kvæðin í E einna helst verið notuð til útgáfu. Gildi þeirra felst einkum í varðveislunni, en flestar uppskriftirnar eru frumrit skrásetjara, auk þess sem nokkur kvæðanna eru með eigin hendi heimildarmanna. Margvísleg frávik við aðrar þjóðkvæðauppskriftir bera vott um faglega skráningu og virðast uppskriftirnar nánast undantekningarlaust vera lausar við leiðréttingar skrásetjara. Í þeim skilningi er hver og ein þeirra frumheimild og gildi þeirra þar með ótvírætt.

Skrá yfir efni DFS 67 er að finna í Opuscula XI, 2003. Í skránni er gerð grein fyrir ritum, þar sem vitnað er til safnsins og /eða innihalda prentuð kvæði eftir því. Ég hef auk þess skrifað tvær greinar um efni DFS 67. Sú fyrri snertir kvæðauppskriftirnar og útgáfu þeirra í Íslenzkum gátum, skemmtunum, vikivökum og þulum (í útgáfu Ólafs Davíðssonar), en sú síðari felur í sér útgáfu á stuttri þjóðsögn um huldukonu í barnsnauð:

.

•  1997. „(Ó)traustar heimildir. Um söfnun og útgáfu þjóðkvæða.“ Skálskaparmál 4, 210-226.

•  1997. „Draumur Guðríðar Skaftadóttur.“ Bókahnútur brugðinn Ólöfu Benediktsdóttur fimmtugri 4. febrúar 1997. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen. Reykjavík, 8-9.

.