Um mig

Ég er dr. Arngrímur Vídalín, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sérsvið mitt eru norrænar miðaldabókmenntir, en ég rannsaka einnig og kenni íslenskar bókmenntir síðari alda, þjóðsögur og ævintýri. Samhliða þessum greinum kenni ég ritlist.

Einkum hef ég beint sjónum mínum að rannsóknum á jöðrun og afmennskun í bókmenntum, en einnig á hinu yfirskilvitlega og á lærdómsritum fyrri alda. Þá hef ég töluvert rannsakað verk Þórbergs Þórðarsonar.

Til hvers að læra bókmenntir?

Kennslusýn mín er sú að aldrei skuli kenna nokkuð hefðarinnar einnar vegna, heldur þurfi ætíð að vera skýrt markmið með sérhverju viðfangsefni kennara og nemenda í kennslustofunni hverju sinni. Hver einasti íslenskukennari fær reglulega framan í sig spurninguna: Til hvers eigum við að læra íslensku? Spurningunni fylgja iðulega einstaklingsmiðuð nytjarök: Íslenska (bókmenntir og málfræði) mun ekki gagnast mér vegna X. Hvað sem annars er gert í kennslustofunni mun nemandi aldrei sjá sér gagn í því nema kennarinn hafi skýra sýn á efnið sem hann kennir og geti miðlað henni til nemenda.

Bókmenntanámskeið mín á Menntavísindasviði eru í og með hugsuð til að hjálpa verðandi kennurum að takast á við þessa spurningu: Hvers vegna vil ég – eða hvers vegna á yfirhöfuð að – kenna bókmenntir? Jafnframt legg ég áherslu á að kenna bókmenntafræðilegar aðferðir með því að láta nemendur glíma við texta og greiningu þeirra, því fátt býr kennara betur undir það verkefni að kenna öðrum bókmenntir. Jafnframt kenni ég skapandi nálgun á tungumálið og skrif og í námskeiðinu Ritlist og bókmenntir læra nemendur um bókmenntagreinar með því að skrifa þær sjálfir.

Ég tek gjarnan að mér að leiðbeina grunn-, meistara- og doktorsnemum sem rannsaka vilja bókmenntir eða bókmenntakennslu.

Fyrri störf

Áður en ég hóf störf við Háskóla Íslands starfaði ég sem framhaldsskólakennari, fyrst við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og svo við Háskólabrú Keilis, þar sem ég kenndi málfræði og íslenskar bókmenntir fyrri og síðari alda.

Þá hef ég tekið að mér gestakennslu við fáeina erlenda háskóla, svo sem Háskólann í Slesíu í Katowice þar sem ég var gestalektor eitt misseri (2016), Jagíellónska háskólann í Kraká, Háskólann í Boulder, Colorado og Tartuháskóla. Auk þess hef ég stundað rannsóknir sem gestafræðimaður við Árnasafn í Hafnarháskóla (2014, 2018) og Harvardháskóla (2016).

Fyrir utan fræðimennsku hef ég skrifað fáeinar ljóðabækur. Nýjasta bók mín, Gráskinna (Sæmundur 2019), er mín fyrsta skáldsaga.