Um mig

Ég stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum við Stendhal-háskólann í Grenoble frá 1988-1997. Aðaláhugasvið mitt í náminu voru franskar bókmenntir miðalda og endurreisnar, dýrlingar, alþýðutrú og þjóðsögur.

Ég hef kennt við Háskóla Íslands síðan 1997 og komið víða við í kennslu og rannsóknum. Þau námskeið sem ég hef kennt snúa flest að frönsku og frönskum bókmenntum, þýðingum og hugmyndasögu. Undanfarin ár hef ég unnið að rannsóknum á miðaldaskáldsögum, miðaldaþýðingum og útbreiðslu „efniviðarins frá Bretagne“ og er þátttakandi í verkefninu „La matière arthurienne aux XIVe-XVIe siècles en Europe“ (LATE). Þróun skáldsögunnar, frásagnartækni, bókmennta- og hugmyndasaga, smásögur og þýðingar eru meðal þess sem ég hef gaman af að fást við.

Ég vinn nú að íslenskri þýðingu á frönsku riddarasögunni Lancelot ou le Chevalier de la charrette (Lancelot eða Kerruriddaranum) eftir Chrétien de Troyes. Einnig tek ég þátt í verkefninu „Raddir kvenna“ og vinn að gerð smásagnasafns með verkum eftir ýmsa franska kvenrithöfunda (Marie de France, Marguerite de Navarre, Madame de La Fayette, George Sand, Colette, Marguerite Yourcenar, o.fl.). Ég er þátttakandi í rannsóknarhópi um birtingarmyndir syndarinnar í bókmenntum og skoða þar sérstaklega hvernig hugtakið og notkun þess breytist í meðförum þýðenda franskra riddarasagna á miðöldum.