Nútíma raunvísindi á Íslandi: Fyrstu skrefin

Allt frá því að land byggðist hafa Íslendingar lagt stund á þau viðfangsefni, sem við í dag köllum raunvísindi (þ.e. stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði og efnafræði). Þetta á ekki síst við um stjörnufræði og stærðfræði og hafa mörg dæmi um slíka iðju verið rædd á þessari bloggsíðu og í heimildum, sem bent hefur verið á í fyrri færslum.

Þessi ákveðna færsla er tiltölulega stutt. Hér verður látið nægja að telja upp nokkra íslenska frumherja á hinum ýmsu sviðum nútíma náttúruvísinda (þ.e. raunvísinda, jarðvísinda og lífvísinda) á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Þótt talsvert hafi nú þegar verið skrifað um þessa fyrstu kynslóð íslenskra vísindamanna, er mikið verk enn óunnið hvað varðar sögu raunvísinda á Íslandi á tuttugustu öld. Mikið starf bíður því (vísinda)sagnfræðinga við frekari umfjöllun og greiningu á þróun nútíma raunvísinda á Íslandi og áhrifum þeirra á líf almennings og menntun og menningu þjóðarinnar

Upphaf nútíma raunvísinda á Íslandi

Það var ekki fyrr á nítjándu öld sem hinar ýmsu verkfræði- og raunvísindagreinar urðu að sjálfstæðum námsgreinum við evrópska og bandaríska háskóla. Sú breyting olli því meðal annars, að menn gátu nú loksins útskrifast með háskólagráðu í greinum eins og verkfræði, stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði og efnafræði.

Fljótlega eftir að hið nýja fyrirkomulag var innleitt í Danaveldi, fyrst með tilkomu Fjöllistaskólans (Den Polytekniske Læreanstalt) árið 1829 og síðan með stofnun Stærðfræði- og náttúruvísindasviðs Kaupmannahafnarháskóla (Det Matematisk-naturvidenskabelige Fakultet) árið 1850, hófu nokkrir Íslendingar þar nám, ýmist í verkfræði eða náttúruvísindum. Enginn úr þessum fámenna hópi útskrifaðist þó með háskólagráðu fyrr en 1890. Þekktastur þeirra er sennilega Þorvaldur Thoroddsen, sem verður að teljast einn merkasti náttúruvísindamaður Íslendinga fyrr og síðar.

Ástæður fyrir brotthvarfi frá námi voru margvíslegar. Stundum buðust námsmönnum stöður heima á Íslandi, meðal annars sem kennarar vð Lærða skólann (sjá t.d. hér), sumir skiptu um svið og enn aðrir misstu hreinlega áhugann eða dóu ungir.

Silfurtorgið í Kaupmannahöfn í kringum 1900. Þarna má sjá hið glæsilega hús þar sem Fjöllistaskólinn var til húsa á árunum 1890 til 1957. Í húsinu var ekki aðeins kennd verkfræði, heldur fór öll kennsla Kaupmannahafnarháskóla í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði fram þar, að minnsta kosti til ársins 1921, þegar Niels Bohr stofnunin tók til starfa.

Fyrsti Íslendingurinn, sem lauk magisterprófi í raunvísindum í Kaupmannahöfn var eðlisfræðingurinn Nikulás Runólfsson, en hann útskrifaðist 1890. Fyrsti íslenski verkfræðingurinn, Sigurður Thoroddsen lauk prófi 1891 og fyrsti dýrafræðingurinn, Bjarni Sæmundsson, þremur áum síðar. Árið 1896 lauk Helgi Jónsson prófi í grasafræði og 1897 varð Helgi Pjeturss svo magister í jarðfræði.  Ásgeir Torfason lauk prófi í efnafræði árið 1903 og  Ólafur Dan Daníelsson í stærðfræði 1904.

Þess má geta, að Nikulás Runólfsson starfaði aldrei sem eðlisfræðingur á Íslandi. Það gerði hins vegar Þorkell Þorkelsson, sem varð næstur á eftir Nikulási til að ljúka magisterprófi í eðlisfræði. Það var árið 1903.

Árið 1905 varði Helgi Pjeturss doktorsritgerð í jarðfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn og 1909 hlaut Ólafur Dan einnig doktorsnafnbót við skólann fyrir rannsóknir sínar í stærðfræði. Árið 1910 varði Helgi Jónsson svo doktorsritgerð í grasafræði við Hafnarháskóla.

Nútíma raunvísindi náðu fyrst alvöru fótfestu í íslensku skólakerfi við stofnun stærðfræðideildar við Menntaskólann í Reykjavík árið 1919. Það voru þeir Ólafur Dan Daníelsson og Þorkell Þorkelsson sem einkum áttu heiðurinn að uppbyggingu deildarinnar, en tilvist hennar hafði mikil og varanleg áhrif á þróun raunvísinda á Íslandi.  Á næsta ári á stærðfræðideildin aldarafmæli, og ég leyfi mér að vona að haldið verði upp á þau tímamót með veglegum hætti.

 

Örfá orð um fyrstu löggiltu íslensku stjörnufræðingana

Fyrstur Íslendinga til að ljúka háskólagráðu í stjörnufræði var Skagfirðingurinn Sturla Einarsson. Hann tók BA-próf í greininni við Minnesotaháskóla í Minneapolis árið 1905 og hlaut síðan doktorsnafnbót (Ph.D.) í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1913.  Sturla starfaði aldrei á Íslandi, enda fluttist hann fjögurra ára gamall með foreldrum sínum til Vesturheims.

Það er athyglisvert, að doktorsritgerð Sturlu fjallar um svipað efni og næsti stjörnufræðimenntaði Íslendingurinn, Steinþór Sigurðsson, tók fyrir í magisterritgerð sinni við Kaupmannahafnarháskóla árið 1929. Um var að ræða útreikninga á brautum svokallaðra Trójusmástirna. Nánar verður fjallað um þetta atriði í komandi færslu um Sturlu og verk hans.

Stjörnuathugunarstöð Hafnarháskóla. Þarna var stjörnufræðideildin til húsa 1861-1996 og þarna nam Steinþór Sigurðsson sína stjörnufræði hjá Elis Strömgren. Fyrir framan húsið stendur stytta af Tycho Brahe.

Að lokum má nefna, að næstu tveir Íslendingarnir, sem luku prófi í sjarnvísindum á eftir þeim Sturlu og Steinþóri, skrifuðu einnig doktorsritgerðir um efni, sem tengdust einu og sama stjarnfræðilega fyrirbærinu, í þetta sinn sólinni. Ritgerð Trausta Einarssonar við Göttingenháskóla árið 1934 fjallaði um möguleika þess að gera samfelldar athuganir á sólkórónunni og Þorsteinn Sæmundsson tók fyrir áhrif sólarinnar á jörðina í ritgerð sinni við Lundúnaháskóla 1962 (sjá til dæmis hér og hér).

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.