Samhengið í íslenskum bókmenntum

Það er í eðli tungumála að breytast og engar líkur til að við komumst hjá einhverjum breytingum á íslenskunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Eins og ég hef oft vikið að held ég að það sé hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að berjast af krafti gegn öllum breytingum, heldur verði að vega það og meta hverju sinni hvort málstaðurinn sé baráttunnar virði. Á því hafa menn auðvitað mismunandi skoðanir, en ég get t.d. hugsað mér þrjár gildar – og samtvinnaðar – ástæður fyrir að vilja sporna gegn ákveðinni málbreytingu. Í fyrsta lagi að hún minnki fjölbreytni málsins, í öðru lagi að hún geri okkur erfiðara um vik að skilja málfar undangenginna kynslóða, og í þriðja lagi að hún raski grundvallarþáttum málkerfisins – sem að vísu gæti reynst erfitt að skilgreina eða ná samkomulagi um hverjir séu. Ég hef ekki haldið uppi vörnum fyrir neina málbreytingu sem fellur undir einhverja þessara ástæðna.

„Okkar meginviðmið hlýtur að vera að halda íslenskunni í því fari að allur almenningur sé sæmilega læs á fornsögurnar í nútímalegum útgáfum. Það er sá þráður sem má ekki slitna“ skrifaði Jón Viðar Jónsson í Málvöndunarþættinum á Facebook í gær. Ég er alveg sammála honum um að það er æskilegt og mikilvægt að hið margrómaða „samhengi í íslenskum bókmenntum“ haldist. En það er samt rétt að hafa í huga að það er ekki síst íhaldssöm stafsetning sem gerir það að verkum að við getum lesið forna texta. Hljóðkerfið hefur tekið miklum breytingum frá fornu máli, ekki síst sérhljóðakerfið, en þær breytingar dyljast okkur vegna þess að fæstar þeirra koma fram í stafsetningunni. Ef þær gerðu það yrðu fornir textar mun erfiðari aflestrar fyrir nútímafólk.

Breytingar á beygingum og setningagerð verða hins vegar sjaldnast til þess að torvelda skilning á fornum textum. Verulegur hluti af málkunnáttu okkar er nefnilega óvirk kunnátta – orð, beygingar eða setningagerðir sem við skiljum þótt við notum það sjaldan eða aldrei sjálf. Þótt beygingin firðir um fjörðu og skildir um skjöldu sé löngu horfin úr málinu og enginn noti hana nú, nema þá í föstum orðasamböndum, átta flestir sig á því um hvaða orð er að ræða, og sú breyting sem orðið hefur torveldar því sjaldnast skilning. Margvíslegar setningafræðilegar breytingar hafa líka orðið frá fornu máli, einkum hvað varðar orðaröð en einnig afturbeygingu, háttanotkun, aukatengingar, eyður í setningum o.fl. Þær breytingar torvelda yfirleitt ekki skilning þótt frá því séu vissulega undantekningar.

Sama gildir um breytingar sem ekki eru gengnar yfir. Fólk sem segir mér langar skilur mig langar, fólk sem segir við hvorn annan skilur hvor við annan, fólk sem segir hjá sitthvorri skilur sinn hjá hvorri, fólk sem segir ef hann sé heima skilur ef hann er heima, fólk sem segir eins og mamma sín skilur eins og mamma hennar, fólk sem segir vegna lagningu skilur vegna lagningar, fólk sem segir rétta upp hendi skilur rétta upp hönd, fólk sem segir ég er ekki að skilja þetta skilur ég skil þetta ekki, meira að segja fólk sem segir það var hrint mér skilur mér var hrint. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða að allir sem segja báðir tónleikarnir skilji hvorir tveggja (eða hvorirtveggju) tónleikarnir enda virðist notkun þess fornafns vera fjarri málkennd meginhluta málnotenda.

Það sem gæti hins vegar torveldað skilning á fornum textum – og gerir það oft –  er það að orðaforði fornsagnanna er verulega frábrugðinn orðaforða nútímalesenda, ekki síst yngra fólks. Bæði koma fyrir í fornum textum ýmis orð sem eru horfin úr nútímamáli, og eins hafa ýmis orð aðra merkingu en nú – án þess að venjulegir lesendur átti sig endilega á því. Flestir þurfa því á einhverjum orðskýringum að halda við lestur fornsagna, og það er auðvitað matsatriði hvenær þörfin fyrir slíkar skýringar er orðin svo mikil að ekki sé lengur hægt að tala um að vera „sæmilega læs“ á textana. En þetta snýst ekki um breytingar á málkerfinu, heldur um orðaforða lesenda. Ef við viljum viðhalda samhenginu í íslenskum bókmenntum er miklu mikilvægara að auka orðaforða fólks með lestri og samtölum en berjast gegn einstökum breytingum á beygingu orða og fallstjórn.