Stigbreytist margur?

Orðið margur er talið lýsingarorð í öllum kennslubókum og tæplega er ástæða til að efast um þá greiningu – orðið hefur bæði dæmigerða beygingu og setningarstöðu lýsingarorða. Eina vafaatriðið er stigbreytingin, sem vissulega er eitt megineinkenni lýsingarorða, því að margur hefur ekki reglulegt miðstig eða efsta stig – myndirnar *margari og *margastur eru ekki til, heldur eru fleiri og flestur notaðar í staðinn. En það er svo sem ekkert einsdæmi að algeng lýsingarorð stigbreytist óreglulega – margur er þar í hópi með góður, gamall, lítill, mikill, slæmur og illur.

Skortur á reglulegri stigbreytingu dugir því ekki til að gera flokkun orðsins sem lýsingarorðs vafasama. En það er samt ekki alveg ljóst að það sé rétt að greina fleiri og flestur sem beygingarmyndir af margur. Setningarstaða miðstigsins og efsta stigsins virðist nefnilega vera verulega frábrugðin stöðu frumstigsins. Flest lýsingarorð geta staðið milli lauss greinis og nafnorðs, og hafa þá veika beygingu: Hinir góðu menn, Hinar skemmtilegu konur, Hið ágæta fólk. Þótt frumstigið sé vissulega algengast í þessari setningagerð – eins og í málinu yfirleitt – geta miðstig og einkum efsta stig einnig staðið þar: Hinir betri/bestu menn, Hinar skemmtilegri/skemmtilegustu konur.

Frumstig lýsingarorðsins margur er mjög algengt í þessari setningagerð: Hin mörgu andlit Indlands, Hinir mörgu aðdáendur Einars Áskels, o.s.frv. Hins vegar koma miðstigið fleiri og efsta stigið flestir varla eða ekki fyrir í þessu sambandi, og raunar virðist veik beyging efsta stigs (sem ætti að vera *flestu) ekki vera til. Á tímarit.is eru dæmin um lausan greini + fleiri/flestir + nafnorð teljandi á fingrum annarrar handar, og í Risamálheildinni sem hefur að geyma á aðra milljón orða finnast engin dæmi um miðstigið eða efsta stigið í þessu sambandi en aftur á móti tæp 800 dæmi um frumstigið. Hjá öllum öðrum algengum lýsingarorðum má finna fjölda dæma um a.m.k. efsta stigið í þessu sambandi.

Setningafræðileg hegðun orðanna fleiri og flestur er því bæði frábrugðin hegðun frumstigsins margur, og einnig frábrugðin hegðun miðstigs og efsta stigs annarra lýsingarorða. Aftur á móti haga fleiri og flestur sér að þessu leyti eins og ótvíræð óákveðin fornöfn – það er ekki hægt að segja *Hinir sumu menn, *Hinir nokkru menn o.s.frv. frekar en *Hinir fleiri menn, *Hinir flestu menn. Það er freistandi að segja að fleiri og flestir séu ekki beygingarmyndir af lýsingarorðinu margur, heldur sjálfstæð orð – og raunar ekki einu sinni lýsingarorð, heldur óákveðin fornöfn.

Sú niðurstaða myndi í fyrsta lagi byggjast á því að þau eru orðmyndunarlega óskyld margur, í öðru lagi á ólíkri setningarstöðu þeirra, og í þriðja lagi á því að flestur hefur aðeins sterka beygingu eins og óákveðin fornöfn (fleiri er venjulega talið veik beyging en það er í raun merkingarlaust vegna þess að orðið hefur alltaf þetta sama form). En kannski væri þetta of djörf ályktun. Kannski er ekki hægt að ganga lengra en svo að taka undir með Gísla Jónssyni sem sagði einu sinni: „Auðvitað er ekkert hafdjúp á milli sumra orðflokka, og sum orð eru vanddregin í dilk.“ Kannski verða fleiri og flestur að fá að vera hálfpartinn í lausu lofti milli lýsingarorða og óákveðinna fornafna – eins og kannski ýmis.