Að kynna einhvern fyrir einhverju

Í málvöndunarþættinum á Facebook hefur oft verið gerð athugasemd við notkun sagnarinnar kynna og bent á að dauðir hlutir séu kynntir fyrir fólki en ekki öfugt. Í staðinn fyrir Hún kynnti mig fyrir þessari nýjung eigi því að segja Hún kynnti þessa nýjung fyrir mér eða Hún kynnti mér þessa nýjung. Það virðist ljóst að hegðun kynna sé að breytast – elstu dæmi sem ég hef fundið um kynna einhvern fyrir einhverju eru u.þ.b. þrjátíu ára gömul.

Þegar báðir nafnliðirnir sem fylgja kynna vísa til fólks má segja að það skipti ekki öllu máli hvor þeirra stendur í þolfalli og hvor stendur í þágufalli, annaðhvort sem andlag eða í forsetningarlið. Hún kynnti Svein fyrir Páli merkir nokkurn veginn það sama og Hún kynnti Pál fyrir Sveini – útkoman er í bæði skiptin sú að þessir tveir menn kynnast, Sveinn kynnist Páli og Páll kynnist Sveini. Ef einhvers konar virðingarmunur er á mönnunum sem um er að ræða er vissulega venja að hafa þann sem er neðar í virðingarstiganum í þolfalli – Hún kynnti mig fyrir forsetanum er venjulegra en Hún kynnti forsetann fyrir mér.

Áður gat þolfallsandlagið í samböndum eins og kynna einhvern fyrir einhverjum aðeins vísað til fólks. Þetta sést í skýringu sambandsins í Íslenskri orðabók: 'upplýsa e-n um nafn e-s að honum viðstöddum með það í huga að kynni takist'. Það virðast ekki vera nema nokkrir áratugir síðan farið var að nota þetta orðalag líka um hugmyndir og dauða hluti – kynna tillöguna fyrir Sveini, kynna samkvæmisdans fyrir henni o.s.frv. Þá fer röð liðanna að skipta máli – þótt Sveinn kynnist tillögunni er varla hægt að segja að tillagan kynnist Sveini, eða Sveinn og tillagan kynnist.

Það skiptir hins vegar máli í þessu sambandi að andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og Hún sendi þessa bók til mín eða Hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í Hún kynnti þessa nýjung fyrir mér eða Hún kynnti mér þessa nýjung verður þolfallsandlagið þessa nýjung ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist nýjunginni, mér, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að Hún kynnti mig fyrir þessari nýjung sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á mig að komast í kynni við þessa nýjung, og því er „eðlilegt“ að sá sem verður fyrir áhrifum komi strax á eftir sögn.

Ég held því að dæmi eins og Hún kynnti mig fyrir þessari nýjung megi skýra með því að málnotendum finnist eðlilegt að þolfallsandlag sé einhvers konar þolandi og hafi þess vegna tilhneigingu til að hafa persónuna í þolfalli næst á eftir sögninni. Það auðveldi svo eða ýti undir þessa tilhneigingu að málnotendur eru vanir því að röð liðanna skipti litlu máli þegar báðir vísa til persóna. Hugsanlega spila áhrif frá ensku þarna inn í líka, en þar er þetta reyndar einnig sitt á hvað.

Ég er ekki að mæla með þessari breytingu eða hvetja til þess að fólk láti hana afskiptalausa – það verður hver að eiga við sig. Hins vegar er hún meinlaus að því leyti að hún veldur engum misskilningi. Þótt okkur kunni að finnast Hún kynnti mig fyrir þessari nýjung órökrétt og/eða rangt erum við ekki í neinum vanda með að skilja hvað við er átt. Það er eitt megineinkenni tilbrigða í málinu – þau valda yfirleitt ekki misskilningi. Þess vegna geta þau lifað hlið við hlið í málinu, jafnvel langtímum saman.

Stjórnskipuleg staða íslensks máls

Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um tungumál, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, m.a. í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2007, og tillaga um þetta kom fram á Alþingi 2003. Í áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 2007 er þessara hugmynda getið en tekið fram að nefndin hafi „ekki tekið afstöðu til þess hvort þörf sé á því að geta þess í stjórnarskrá að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga“.

Með lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi. 1. grein laganna hljóðar svo: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein laganna er skýrt nánar hvað í þessu felist: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Í 8. grein segir enn fremur: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“ Og 12. grein laganna hljóðar svo: „Íslenska er opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Sérstakt álitaefni var hvort ástæða væri til að mæla í stjórnarskrá fyrir um stöðu tung­unnar sem opinbers máls íslenska ríkisins. Ákvæði sem lúta að tungumálum er að finna í stjórnarskrám 158 ríkja en einungis í 26 stjórnarskrám er tungumála að engu getið. Í mörgum stjórnarskrám Evrópuríkja er berum orðum mælt fyrir um hvaða tungumál sé opinbert mál ríkisins.“ Nefndin sem samdi skýrslu sem frumvarpið byggist á sagði þó ekki tímabært að setja ákvæði um tungumál í stjórnarskrá en taldi rétt að huga að því við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Undirbúningur að þeirri endurskoðun stóð einmitt yfir um sama leyti. Sumarið 2010 kaus Alþingi sérstaka stjórnlaganefnd sem skyldi semja drög að nýrri stjórnarskrá Íslands. Nefndin stóð m.a. fyrir þjóðfundi haustið 2010 þar sem 950 fulltrúar, valdir af handahófi úr þjóðskrá, settu fram og ræddu hugmyndir um hvað vera skyldi í nýrri stjórnarskrá. Íslensk tunga og verndun hennar kom þar oft fram, og í skýrslu nefndarinnar er lagt til að svohljóðandi ákvæði verði í nýrri stjórnarskrá: „Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“ Þar segir enn fremur:

„Nefndin er sammála um að í íslenskri tungu séu falin ómetanleg menningarverðmæti og hún því eitt af einkennum Íslendinga sem beri að vernda og efla. Því telur nefndin að kveðið skuli á um íslensku sem þjóðtungu í stjórnarskrá. Almennt ákvæði um íslenska tungu myndi fyrst og fremst leggja skyldur á herðar opinberum aðilum og yrði leiðarljós við lagasetningu. Ákvæðið feli ekki í sér að íslenska sé formlega gerð að opinberu tungumáli íslenska ríkisins og annarra opinberra aðila en grundvallist þó augljóslega á þeirri forsendu að störf íslenskrar stjórnsýslu o.s.frv. fari fram á íslensku. Nánari útfærsla á íslensku sem opinberu máli verði í höndum hins almenna löggjafa.“

Í framhaldi af starfi stjórnlaganefndarinnar var skipað sérstakt stjórnlagaráð sem lagði fram tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011. Í henni er ekkert ákvæði um þjóðtungu en hins vegar vikið að tungumáli á nokkrum stöðum. Í aðfaraorðum segir að „saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.“ Í 32. grein tillagna stjórnlagaráðs, um menningarverðmæti, segir: „Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veð­setja.“

Í 6. grein tillagnanna, um jafnræði, segir svo: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þessa grein segir: „Í ljósi þess að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum í inngangsgrein að frumvarpi þessu þykir nauð­synlegt að nefna að bann­að sé að mismuna fólki á grundvelli þessarar breytu. […] Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Ekki kemur fram í skýringunum eða öðrum gögnum stjórnlagaráðs hvers vegna ákvæði um ís­lensku sem þjóðtungu eða grunngildi hafi ekki verið sett í stjórnarskrártillögurnar, þrátt fyrir að „sterkar raddir“ hafi verð á lofti um það. Út frá því sem þarna segir má þó e.t.v. ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orði grundvöllur einhvers konar mismununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður. En einnig er rétt að benda á að fáum vikum áður en stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum hafði það verið fest í lög að íslenska væri þjóðtunga Íslendinga, eins og áður segir. Hugsanlegt er að það hafi verið talið nægjanlegt til að tryggja stöðu tungunnar, og óþarft eða óheppilegt að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá.

Tillögur stjórnlagaráðs hafa ekki hlotið afgreiðslu og þær breytingar sem undanfarið hefur helst verið til umræðu að gera á stjórnarskránni varða ekki íslenska tungu. Því er ekki útlit fyrir að tungan fái sess í stjórnarskránni á næstunni a.m.k.

Skólaforðun

Orðið skólaforðun er nýtt í málinu, varla nema fimm ára gamalt í mesta lagi, en hefur breiðst mikið út á þessu ári. Þetta er þýðing á school refusal (eða school avoidance) og á við það þegar börn og unglingar neita eða koma sér undan því að mæta í skóla. Ástæður þess geta verið bæði einstaklingsbundnar og félagslegar – erfiðleikar á heimili, andleg vanlíðan, einelti o.m.fl. sem ég ætla ekki að fara út í hér. Ég ætla hins vegar að skoða aðeins orðið skólaforðun sem margir eru ósáttir við.

Þótt skólaforðun sé nýtt orð á seinni hluti samsetningarinnar, forðun, sér nokkra sögu og kemur fyrir sem þýðing á avoidance í þremur íðorðasöfnum í Íðorðabankanum – söfnum úr læknisfræði, talmeinafræði og uppeldis- og sálarfræði. Í því síðastnefnda er það skýrt svo: „tilhneiging til að sneiða hjá samskiptum og koma sér undan vanda“. Í engu safnanna er þetta þó sjálfstætt uppflettiorð heldur gefið upp sem samheiti við hliðrun sem væntanlega ber að skilja svo að hliðrun sé talið heppilegra orð.

Ég fæ ekki séð að skólaforðun brjóti í bága við íslenskar orðmyndunarreglur. Viðskeytið -un er algengasta aðferð málsins við að mynda nafnorð af sögnum og er nær eingöngu notað á sagnir sem enda á -aði í þátíð – eins og forða gerir. Vissulega tengist forðun miðmyndinni forðast frekar en germyndinni forða en það er ekkert einsdæmi – við höfum orð eins og afvopnun sem oftast merkir afvopnast frekar en afvopna, blygðun sem tengist blygðast (germyndin blygða er löngu úrelt), sturlun sem tengist sturlast (germyndin sturla er ekki notuð í nútímamáli), o.fl.

Vitanlega er sögnin *skólaforða(st) ekki til. En samsett nafnorð sem enda á -un eru ekki endilega mynduð af samsettum sögnum, heldur er seinni hlutinn fyrst myndaður af sögn og öðrum lið svo skeytt framan við. Við höfum t.d. ekki sögnina *málvanda þótt samsetningin málvöndun sé til, ekki *gæðastjórna þótt gæðastjórnun sé til, ekki *kjarnorkuafvopna(st) þótt kjarnorkuafvopnun sé til, ekki *fæðingarsturla(st) þótt fæðingarsturlun sé til, o.s.frv.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að taka orðið forðun og setja skóla- þar framan við. Þótt einhverjir kynnu að vilja skilja skólaforðun þannig að það sé skólinn sem er að forðast eitthvað er það vitaskuld merkingarlega fráleitt og merking orðsins augljós af samhenginu. Merkingarvensl milli fyrri og seinni hluta samsettra orða eru með ýmsu móti og ekkert sem bannar að andlag en ekki frumlag sé notað sem fyrri liður þessarar samsetningar. Svipað dæmi er orðið skólaganga þar sem það er ekki skólinn sem gengur heldur nemendur sem ganga í skólann.

Stungið hefur verið upp á því að nota orðið skólafælni í staðinn fyrir skólaforðun. Þetta orð er til í málinu og er í sjálfu sér ágætt orð en það hefur hins vegar verið notað sem þýðing á schoolphobia. „Með því er átt við vissa tegund geðrænna vandkvæða, sem lýsa sér í því, að barn fæst ekki til að sækja skóla eða gefst upp við það“ segir í grein frá 1962. En skólaforðun er miklu víðtækari, eins og áður er nefnt. Því er skólafælni ótækt í þessari merkingu, enda er fælni hin venjulega þýðing á phobia.

Öðrum finnst eðlilegt að nota einfaldlega hið gamalkunna orð skróp. Það er vissulega stutt og lipurt en þó vitanlega alveg ótækt – bæði vegna þess að merking þess, 'uppgerðarveiki, (ástæðulaus) fjarvist úr skóla' á ekki við, og auk þess hefur orðið mjög neikvæðan blæ, eins og sést t.d. á samsetningunum skrópasýki, skrópasótt og skrópagemlingur, og á dæmigerðum parasamböndum og skyldheitum orðsins. Með því að nota skróp í þessari merkingu er gert lítið úr þeim alvarlegu vandamálum sem oft liggja að baki skólaforðun.

Ég get alveg fallist á að skólaforðun sé ekki sérlega gott orð og mér fannst það hræðilegt þegar ég heyrði það fyrst. En það er komið í almenna notkun og ég er farinn að venjast því. Yfirleitt held ég að það sé ekki skynsamlegt að hrófla við orðum sem fólk er farið að nota og þekkja enda þótt manni finnist þau ekki alls kostar heppileg – ekki nema fram komi stutt, lipurt og gagnsætt orð sem slær í gegn á stundinni eins og þegar þota kom í staðinn fyrir þrýstiloftsflugvél, eða tölva í staðinn fyrir rafeindaheili eða rafmagnsheili. Höldum okkur bara við skólaforðun nema slíkt orð komi fram.

Germynd er fyrir gerendur

Í gær varð nokkur umræða á Facebook um frásagnir fjölmiðla af ofbeldisverki sem var framið í fyrrakvöld þegar karlmaður hrinti konu fram af svölum. Ýmsir gagnrýndu að í fyrstu fyrirsögnum fjölmiðla hefði verið sagt „Kona féll fram af svölum“ þegar fram kæmi í fréttum að henni hefði verið hrint. Aðrir bentu á að í fréttunum kæmi fram að þótt vitni hefðu sagt að konunni hefði verið hrint hefði það ekki fengist staðfest hjá lögreglu fyrir birtingu fréttarinnar og því hefðu fyrirsagnirnar aðeins sagt það sem vitað var með vissu.

Á vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrirsögnin var upphaflega „Kona féll af svölum í Breiðholti“ seint um kvöld, var fyrirsögninni breytt snemma næsta morgun í „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“ og eftirfarandi athugasemd bætt við fréttina: „Frétt uppfærð klukkan 06:30. Í fyrri útgáfu kom fram að konan hefði fallið fram af svölum. Inngangi fréttarinnar og fyrirsögn hefur verið breytt til samræmis við upplýsingar frá lögreglu.“ Vísir skrifaði líka frétt um málið snemma morguns með fyrirsögninni „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“ en á mbl.is var fyrirsögnin um morguninn „Alvarlega slösuð eftir fall“ þrátt fyrir að í fréttinni væri fullyrt að konunni hefði verið hrint.

Þetta minnti mig á fyrirlestur um ofbeldi gegn konum sem ég sá á netinu fyrir tveimur árum og skrifaði færslu um á Facebook – Halla Sverrisdóttir þýddi erindið svo og það birtist á Knúz. Þar var talað um hvernig við getum – meðvitað eða ómeðvitað – haft áhrif á þau hughrif sem kvikna hjá lesendum eða áheyrendum með mismunandi beitingu tungumálsins. Af orðalaginu Kona féll fram af svölum er eðlilegast að draga þá ályktun að um slys hafi verið að ræða, þótt ég skilji þau rök blaðamanna að meðan ekki hafi fengist staðfesting á ofbeldisverki sé rétt að fara varlega í staðhæfingum.

En þegar staðfest hefur verið að um ofbeldisverk var að ræða hafa fjölmiðlarnir fyrirsagnirnar samt í þolmynd, ekki germynd – þær beinast enn að þolandanum, ekki gerandanum. Þær hefðu getað verið Karlmaður hrinti konu fram af svölum eða Karlmaður framdi ofbeldisverk eða eitthvað slíkt. En þannig voru þær ekki – og þannig eru fyrirsagnir og fréttir sjaldnast. Gerandinn, sá sem er valdur að hinum fréttnæma atburði, er í skugganum – en þolandinn, sem olli ekki atburðinum en var staddur á röngum stað á röngum tíma, fær alla athyglina.

Mér dettur ekki í hug að blaðamenn séu vitandi vits að hlífa gerandanum í þessu dæmi eða öðrum svipuðum. En þarna er ákveðin hefð sem við þurfum að vinna gegn – hefð sem er mótuð af rótgrónum viðhorfum og viðheldur þeim. Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd.

Íslenskan og Evrópusambandið

Undanfarinn rúman aldarfjórðung hefur verið talsverð umræða um fullveldi Íslands í tengslum við þátttöku landsins í Evrópska efnahagssvæðinu og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Enginn vafi er á því að aðild að ESB hefði í för með sér nokkurt framsal fullveldis, þannig að nauðsynlegt yrði að breyta stjórnarskránni ef til aðildar kæmi. Spurningin er hvort og þá að hvaða marki slík fullveldisskerðing hefði áhrif á íslenska tungu og stöðu hennar – bæði réttar­stöðu og stöðu í samfélaginu og gagnvart öðrum tungum.

Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið (áður Evrópubandalagið) lagt áherslu á að virða þjóðtungur sambandsríkjanna. Í upphafi var ákveðið að opinber tungumál sambandsins skulu vera þau sex sem voru opinber mál stofnríkjanna, og þau áttu að hafa jafnan rétt. Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opinber mál sambandsins. Opinber tungumál ESB eru nú 24, fjórum sinnum fleiri en í upphafi. Þar að auki njóta nokkur tungumál sem töluð eru í ríkjum sambandsins sérstöðu sem hálfopinber mál, s.s. katalónska á Spáni og velska í Bretlandi.

Þótt stundum hafi komið fram hugmyndir um að fækka opinberum málum sambandsins hafa þær ekki fengið hljómgrunn og ekkert bendir til að slík grundvallarbreyting á málstefnu sam­bandsins verði í framtíðinni. Þvert á móti, eins og Gauti Kristmannsson prófessor hefur bent á: „Málstefna Evrópusambandsins hefur einnig þróast umtalsvert undanfarin ár og helgast það af öflugum pólitískum stuðningi við fjöltyngi í álfunni. Framkvæmdastjórn og Evrópuþingið hafa ítrekað ályktað um mikilvægi tungumála, tungumálakennslu og fjöltyngi þegnanna.“

Ef íslenska væri opinbert mál innan Evrópusambandsins myndi það tákna að fulltrúar landsins gætu talað íslensku á vettvangi þess og fundir yrðu túlkaðir á og af íslensku. Í raun hefur aðildin að EES þegar styrkt tunguna með starfsemi þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins þar sem stór hluti af lögum og reglum ESB er þýddur á íslensku. Gauti Kristmannsson segir: „Fullyrða má að þar fer fram einhver mesta endurnýjun og uppbygging íslenskrar tungu í dag. Án þess starfs væri íslenskan miklu fátækari en ella. Fátækari vegna þess að við þessar þýðingar verður ekki aðeins til réttarfars­legur grund­völlur og reglur til að vinna eftir heldur einnig ný orð, ný hugtök, ný svið tung­unnar.“

Í krafti aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu taka Íslendingar þátt í mennta- og vísinda­áætl­un­um Evrópusambandsins og hafa íslensk menning og íslensk tunga notið þess á ýmsan hátt. Þar má t.d. nefna þátttöku í verkefninu META-NET á árunum 2011-2013. Markmið þessa verk­efnis, sem náði til allra opinberra mála Evrópska efnahagssvæðisins og nokkurra hálfopin­berra, 30 alls, var einkum að koma upp rafrænum mállegum gagnasöfnum (texta­söfnum, orða­söfn­um, talsöfnum o.fl.) til að nýta í máltækni, t.d. vélrænum þýðingum, og auðvelda þannig sam­skipti fólks með mismunandi móðurmál. Með tilstyrk verkefnisins voru byggð upp marg­vísleg íslensk gagnasöfn sem eiga eftir að nýtast í máltækni og málrannsóknum á næstu árum.

Þótt Íslendingar tækju á sig einhverja skerðingu á stjórnarfarslegu fullveldi við inngöngu í Evrópusambandið yrði það síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því góð rök að staða tungunnar myndi styrkjast verulega við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007 „og er það sennilega kraft­mesta vítamínsprauta sem írsk tunga hefur fengið í áratugi ef ekki aldaraðir,“ segir Gauti Kristmannsson. Ólíklegt er samt að málefni íslenskunnar muni hafa úrslitaáhrif á það hvort Ísland gengur í Evrópusambandið einhvern tíma í framtíðinni.

Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám

Eitt af hlutverkum atviksorða er að standa með lýsingarorðum og ákvarða þau nánar. Því hlutverki gegna t.d. feitletruðu atviksorðin í setningunum Hann er ferlega leiðinlegur; Það er skelfilega ljótt að sjá þetta; Þetta er hrikalega sætt barn. En eitt af því sem er óvenjulegt í íslenskri setningagerð er að (sum) slík atviksorð er hægt að slíta frá lýsingarorðinu og láta þau standa fremst í setningunni í staðinn: Ferlega er hann leiðinlegur; Skelfilega er ljótt að sjá þetta; Hrikalega er þetta sætt barn. Merkingin er sú sama, en e.t.v. er meiri áhersla á atviksorðinu þegar það stendur fremst. Þetta er útilokað að gera í skyldum málum s.s. dönsku og ensku; *Terribly is he boring er alvond setning.

En reyndar gildir þetta ekki um öll atviksorð – ég held að fæstir geti sagt t.d. *Frekar er hann leiðinlegur, eða *Dálítið er ljótt að sjá þetta, eða *Mjög er þetta sætt barn. Það er ekki gott að átta sig á því hvaða atviksorð hægt er að hafa fremst í þessari setningagerð og hver ekki, en þó virðist sterk merking vera nauðsynleg – ferlega, skelfilega og hrikalega hafa sterkari merkingu en frekar, dálítið og mjög. Það er þó rétt að nefna að mjög gat staðið í upphafi setninga af þessu tagi í fornu máli – Mjög var sjá þunnleitur og ljótur ásýndarMjög var þar allt blóðugt í rúminuMjög var Auður þá elligömul o.s.frv.

Málið er þó snúnara en þetta, eins og ég áttaði mig á einu sinni þegar ég var að hlusta á Dýrin í Hálsaskógi – leikrit Thorbjørns Egner í þýðingu Huldu Valtýsdóttur. Þegar Lilli klifurmús hefur sloppið naumlega undan Mikka ref með því að stökkva upp í næsta tré byrjar hann strax að hæða rebba og segir Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám. Nokkru síðar í leikritinu fer Lilli ásamt Marteini skógarmús að ræða lagasetningu við Bangsapabba. Þegar Bangsamamma ber fyrir þá hunangskökur eins og góðri húsmóður sæmir segir Lilli: Mikið held ég að þær séu góðar! Samsvarandi setningar þar sem mjög væri sett í stað mikið eru hins vegar ótækar.

Hér virðist sama setningagerð vera á ferðum; atviksorð (mikið) fremst í setningu, en ákvarðar lýsingarorð sem stendur síðar í setningunni. En þetta atviksorð er ekki sérlega sterkt að merkingu og svipar að því leyti til mjög, enda orðin skýrð hvort með öðru í Íslenskri orðabók. Það mætti því búast við að þetta væru ótækar setningar, en það er öðru nær; þær eru fullkomlega eðlilegar. Því er ljóst að eitthvað fleira en merkingarstyrkur skiptir máli um þessa setningagerð. Varla er trúlegt að þessar setningar sýni einhverja sérstaka mállýsku í Hálsaskógi, og ekki er heldur sennilegt að um áhrif frá norska frumtextanum sé að ræða (þar er fyrri setningin t.d. Er det ikke veldig sørgelig at rever ikke kan klatre i trær).

En hér er ekki öll sagan sögð. Við nánari umhugsun áttaði ég mig á því að enda þótt mér fyndust áðurnefndar setningar með mikið fremst góðar og gildar gegnir öðru máli um setningarnar sem þær „ættu að“ vera leiddar af, þ.e. setningar þar sem mikið stendur næst á undan lýsingarorðinu; *Það er mikið sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og *Ég held að þær séu mikið góðar. Í þessum setningum verður að nota mjög. Nú veit ég að til er fólk sem getur notað mikið með lýsingarorðum á þennan hátt, en fyrir mér er það málleysa. En hvernig stendur á því að samt er hægt að hafa mikið fremst í setningu en ekki mjög – og mjög inni í setningu en ekki mikið?

Ég veit það ekki svarið, en hef látið mér detta í hug að mjög og mikið séu í raun víxlmyndir sama orðs, sem hafi með sér ákveðna verkaskiptingu. Þetta styðst við það að merkingin er sú sama, og beygingarlegur skyldleiki er líka fyrir hendi – miðstig beggja er meir/meira, og efsta stig mest. Það er ekkert einsdæmi að víxlmyndir hafi með sér einhvers konar verkaskipti eftir setningarstöðu. Nafnorðið sannleikur/sannleiki er yfirleitt sterkt í frumlagsstöðu, í nefnifalli (Sannleikurinn er sagna bestur, síður sannleikinn) en veikt í andlagsstöðu, í aukafalli (Segðu sannleikann, síður sannleikinn). En hvað sem þessu líður er enn margt óljóst um þessa setningagerð.

Bur

Haustið 2015 efndu Samtökin 78 til nýyrðasamkeppni sem var nefnd Hýryrði. Í kynningu á keppninni var sagt: „Fjölmörg orð eru til í hinsegin orðaforðanum sem enn hafa ekki fengið íslenska þýðingu, en hinsegin hugtök og orð endurspegla svo sannarlega þá breidd sem er til staðar í hinsegin samfélaginu. Það er mikilvægt að við getum öll talað um hinsegin reynslu og hinsegin líf á móðurmáli okkar.“ Meðal þeirra nýyrða sem óskað var eftir hugmyndum um voru „Ókyngreind frændsemisorð: Frænka/frændi – Kærasti/kærasta – Mamma/pabbi – Sonur/dóttir – Vinkona/vinur“.

Ein þeirra tillagna sem bárust í keppninni var að endurnýta orðið bur sem kynhlutlaust orð í kenninöfnum til hliðar við –son og –dóttir. Orðið bur er vissulega til fyrir í málinu og í orðabókum sagt merkja 'sonur' og vera karlkynsorð. Í þessari nýju notkun er gert ráð fyrir að orðið verði notað í hvorugkyni, með greini burið, og merking þess víkki – verði 'barn, afkvæmi'. Dómnefnd keppninnar tók þessu orði fegins hendi og þetta var ein þeirra tillagna sem hún mælti sérstaklega með. Orðið hefur eitthvað verið notað síðan og var m.a. tekið inn í frumvarp til laga um mannanöfn sem lagt var fram á Alþingi haustið 2018 en ekki samþykkt.

Orðið bur er komið af sögninni bera og rótskylt mörgum orðum af sama merkingarsviði – barn, (barns)burður, (tví)buri o.fl. Merkingarlega er ekkert því til fyrirstöðu að gefa því þessa víkuðu merkingu. Orðið er ákaflega sjaldgæft – í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn sem tekur til óbundins máls eru aðeins sex dæmi um það, og þó í raun aðeins fjögur því að í tveimur tilvikum er um sömu setningu að ræða í tveimur textum. Annars var orðið einkum notað í bundnu máli, og í seinni tíma máli kemur það varla eða ekki fyrir nema í skáldskap. Það er því lítil hætta á að þessi merkingarvíkkun valdi ruglingi.

Það á sér líka vel þekkt og viðurkennd fordæmi að taka orð úr eldra máli sem ekki eru lengur notuð og gefa þeim nýja merkingu. Orðið skjár merkti áður 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. En eftir að gluggar af því tagi urðu úreltir var orðið lítið notað. Upp úr 1970 var svo stungið upp á því að nota orðið í stað tökuorðsins skermur eða skermir sem hafði verið notað sem þýðing á screen – talað var um bæði sjónvarpsskerm(i) og tölvuskerm(i). Þetta orð sló strax í gegn þrátt fyrir andstöðu og nú er skermur nánast horfið úr málinu í þessari merkingu – þótt enn sé talað um lampaskerma.

Annað endurnýtt orð og ekki síður þekkt er sími sem var til en mjög sjaldgæft í fornu máli, einkum í hvorugkynsmyndinni síma, og merkti 'band, þráður'. Skömmu fyrir aldamótin 1900 var stungið upp á því að nota þetta ónýtta orð yfir nýjungina telefón sem Íslendingar voru þá farnir að frétta af þótt fyrirbærið hefði enn ekki borist til landsins. Ákveðið var að orðið skyldi vera karlkynsorð og merkingunni hliðrað aðeins til – sem lá beint við á þessum tíma þegar megineinkenni símans var einmitt þráðurinn, símalínurnar sem voru lagðar milli landa og um allt land. Þetta orð sló líka fljótlega í gegn og telefón hvarf að mestu úr notkun á öðrum áratug 20. aldar.

Hægt væri að nefna fleiri vel heppnuð dæmi um forn orð sem hafa verið fallin í gleymsku en endurvakin í nýrri – en skyldri – merkingu. Þær breytingar sem þarf að gera á kyni og merkingu orðsins bur eru smávægilegar og eiga sér skýr fordæmi. Mér finnst bur sérlega vel til endurnýtingar fallið og vonast til að það komist í almenna notkun.

Maður, manneskja – eða man?

Í fyrra varpaði Jón Steindór Valdimarsson alþingismaður fram þeirri spurningu hvort rétt sé að taka íslenskt lagamál til endurskoðunar og fara yfir það með kynjagleraugum. Það held ég að sé tímabært. Hann vísaði í skilgreiningu á nauðgun í 194. grein almennra hegningarlaga þar sem segir „Hver sem hefur sam­ræði eða önnur kyn­ferð­is­mök við mann án sam­þykkis hans ger­ist sekur um nauðgun“ og benti réttilega á að þessi orðanotkun „virð­ist ekki tala skýrt til kvenna“.

Saga þessa orðalags er reyndar forvitnileg. Í almennum hegningarlögum frá 1940 var upphaflega alls staðar talað um kvenmann í þessari lagagrein – sú hugmynd að karlar gætu verið þolendur kynferðisbrota var ekki komin til. Þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um breytingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna haustið 1991 var orðið manneskja sett í staðinn – væntanlega af því að frumvarpshöfundum hefur þótt orðið maður vísa um of til karlmanna í huga málnotenda.

Í áliti meirihluta allsherjarnefndar – fulltrúa allra flokka nema Kvennalistans – um frumvarpið segir hins vegar: „Enn fremur er lagt til að orðið „manneskja“ falli brott og í stað þess komi orðið: maður. Í íslensku máli tekur orðið maður bæði til karla og kvenna og þykir ekki fara vel á því í lagatexta að nota orðið manneskja“. Þessi breytingartillaga var samþykkt og því fór maður inn í endanlegan texta laganna og er þar enn eins og áður segir.

En minnihlutinn, fulltrúi Kvennalistans, var andvígur þessari breytingu: „Minni hlutinn styður þó ekki þær breytingartillögur sem lúta að orðalagi frumvarpsins, þ.e. að í stað orðsins „manneskja“ komi: maður og aðrar breytingar sem af því leiðir. Enda þótt orðið „maður“ sé oft notað bæði um karla og konur er rík hefð fyrir því í íslensku að orðið maður eigi aðeins við um karlmenn. [...] Ástæðulaust er að fúlsa við notkun hins kvenkennda orðs „manneskja“ þegar átt er við bæði kynin“.

Þarna var sem sé orðin athyglisverð breyting: Kringum 1970 barðist Rauðsokkahreyfingin fyrir því að fá það viðurkennt að konur væru líka menn. Það var mjög skiljanleg og eðlileg barátta. 20 árum síðar fannst Kvennalistakonum hins vegar orðið maður ekki vísa til sín. Það er líka mjög skiljanlegt og eðlilegt. Hin tvöfalda merking orðsins maður veldur því að það er að margra mati oft óheppilegt í hinni almennu merkingu. Hér vantar því heppilegt kynhlutlaust orð.

Það er víðar en í áðurnefndu lagafrumvarpi sem hefur verið reynt að nota orðið manneskja í þessum tilgangi – Ríkisútvarpið hefur t.d. undanfarin tvö ár valið manneskju ársins. En manneskja er kvenkynsorð og ekki sérlega heppilegt sem kynhlutlaust orð því að það tengist konum ekkert síður en maður tengist körlum. Ég gæti ekki sagt Hvað ertu að gera maður? við konu en ekki heldur Hvað ertu að gera manneskja? við karl. Nýlega hefur hins vegar verið stungið upp á því að nýta orðið man í þessum tilgangi.

Vissulega hefur man merkinguna 'ófrjáls maður, karl eða kona' (auk merkingarinnar 'kona' í skáldamáli) en er ákaflega lítið notað í nútímamáli, nema helst í samsetningunni mansal. Það er ekki einsdæmi að gömul en lítið notuð orð séu endurnýtt og þeim gefin ný merking – en þó oftast skyld, sbr. sími sem merkti 'band, þráður'. Kosturinn við man er að það er hvorugkynsorð og hefur hljóðfræðileg og merkingarleg tengsl við maður og manneskja. Ekkert er því til fyrirstöðu að nota orðið mansal áfram – merkingin 'skipulögð, ólögleg verslun með fólk sem einkum starfar sem verkamenn eða við vændi' fellur alveg að þessari nýju merkingu orðsins man.

Ég veit ekki til að þessi notkun orðsins man hafi breiðst út að ráði, en Helga Vala Helgadóttir hefur þó notað orðið þingman um sjálfa sig. Mér finnst þetta hreint ekki galið en hins vegar er ekki einfalt að breyta svo rótgrónum þætti málsins og skal engu spáð um framtíð þessarar málnotkunar. Ef eingöngu konur taka hana upp er hættan sú að fólk fari að tengja man við konur og það verði þá ónothæft sem kynhlutlaust orð – eins og manneskja.

Pabbi sinn

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hefur iðulega verið rætt um orðalagið hann er eins og pabbi sinn, og í Málfarsbankanum er varað við því: „Hún er alveg eins og pabbi hennar (ekki: „hún er alveg eins og pabbi sinn“).“ Það liggur samt fyrir að fjöldi fólks notar þetta orðalag – annars væri ekki amast svona oft við því. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er frá 1966 – „annar sagðist verða bóndi eins og pabbi sinn“. Dæmum á tímarit.is fer þó ekki fjölgandi fyrr en eftir 1990 og aðallega eftir aldamót.

Það er ljóst að eins og pabbi sinn hefur verið að breiðast út undanfarna áratugi og er nú líklega mál talsverðs hluta þjóðarinnar. Ekki verður enskum áhrifum kennt um þessa breytingu en hún er út af fyrir sig vel skiljanleg. Merkingarlega er þetta mjög svipað líkur pabba sínum þar sem enginn ágreiningur er um að nota skuli afturbeygingu – ef sagt er Siggi er líkur pabba hans er vísað til pabba einhvers annars en Sigga. Hinn setningafræðilegi munur er sá að í líkur pabba sínum er afturbeygða eignarfornafnið sínum hluti andlagsins, en í eins og pabbi sinn er sinn hluti samanburðarliðar.

Ástæðan fyrir því að ekki er (eða var) hægt að segja hann er eins og pabbi sinn er sú að afturbeyging getur yfirleitt ekki vísað yfir atvikstengingu, til frumlags aðalsetningarinnar – við getum ekki sagt *hann fór þegar pabbi sinn kom eða *hann fer ef pabbi sinn kemur eða *hann fór af því að pabbi sinn kom, heldur verðum að nota persónufornafnið hans. En öfugt við þessar tengingar getur atvikstengingin eins og ekki einvörðungu tengt heilar aukasetningar við það sem á undan kemur, t.d. Prófið var þungt eins og ég átti von á (samanburðarsetning feitletruð), heldur líka orðasambönd án sagnar (samanburðarliði), t.d. Prófið var þungt eins og í fyrra (samanburðarliður feitletraður).

Ég held að sú breyting sem hefur verið í gangi undanfarna áratugi stafi af breyttri skynjun málnotenda á samanburðarliðum. Þeir hafi áður verið skynjaðir sem (ófullkomnar) setningar með sögnina „ósagða“, ef svo má segja – Siggi er eins og pabbi hans (er) – en margir skynji þá nú sem setningarliði í staðinn, án sagnar. Þar með hafi þeir svipaða stöðu og forsetningarliðir og því geti afturbeygingin vísað yfir tenginguna eins og, til frumlagsins, á sama hátt og hún vísar yfir forsetningar – við segjum Siggi kom með pabba sínum en ekki pabba hans nema um sé að ræða pabba einhvers annars en Sigga.

En ef orðarunan á eftir eins og inniheldur sögn er sá möguleiki að skynja þetta sem setningarlið í stað setningar ekki fyrir hendi – og þá ætti afturbeyging líka að vera útilokuð. Ég er alinn upp fyrir daga þessarar breytingar og hún er ekki mitt mál (enn), og þess vegna get ég ekki fullyrt hvað er tækt og hvað ótækt hjá þeim sem hafa þessa breytingu í máli sínu. En ég held samt að fólk sem segir hann er eins og pabbi sinn myndi síður segja hann er alveg eins og pabbi sinn var fyrir 30 árum. Í seinna dæminu kemur sögn (var) á eftir eins og og þar er því ótvírætt um setningu að ræða en ekki bara setningarlið.

Reyndar er oft mælt með notkun afturbeygingar í öðrum setningagerðum þar sem bæði afturbeygt fornafn og persónufornafn kæmi til greina. Í kverinu Gætum tungunnar er sagt að heyrst hafi „Bílstjórinn sagði, að honum hefði tekist að aka þessa leið“ en rétt væri „... að sér hefði tekist ... (nema bílstjórinn sé að tala um annan en sig)“. Höfundur kversins, Helgi Hálfdanarson, sagði um þetta: „Í þessu sambandi er afturbeygða fornafnið nákvæmara en hitt; þar tæki það af öll tvímæli, en persónufornafnið ekki.“ Með sömu rökum hlyti Siggi er eins og pabbi sinn að teljast réttara en Siggi er eins og pabbi hans því að í seinna tilvikinu gæti verið átt við pabba einhvers annars eins og áður segir en afturbeygingin tæki af öll tvímæli.

Með þessu er ég bara að reyna að skýra þessa breytingu, en ekki réttlæta hana eða mæla með henni. Hins vegar er þetta orðalag löngu hætt að fara í taugarnar á mér og mér er eiginlega farið að finnast það eðlilegt og það gæti jafnvel hrokkið út úr mér einhver daginn.

Samhengið í íslenskum bókmenntum

Það er í eðli tungumála að breytast og engar líkur til að við komumst hjá einhverjum breytingum á íslenskunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Eins og ég hef oft vikið að held ég að það sé hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að berjast af krafti gegn öllum breytingum, heldur verði að vega það og meta hverju sinni hvort málstaðurinn sé baráttunnar virði. Á því hafa menn auðvitað mismunandi skoðanir, en ég get t.d. hugsað mér þrjár gildar – og samtvinnaðar – ástæður fyrir að vilja sporna gegn ákveðinni málbreytingu. Í fyrsta lagi að hún minnki fjölbreytni málsins, í öðru lagi að hún geri okkur erfiðara um vik að skilja málfar undangenginna kynslóða, og í þriðja lagi að hún raski grundvallarþáttum málkerfisins – sem að vísu gæti reynst erfitt að skilgreina eða ná samkomulagi um hverjir séu. Ég hef ekki haldið uppi vörnum fyrir neina málbreytingu sem fellur undir einhverja þessara ástæðna.

„Okkar meginviðmið hlýtur að vera að halda íslenskunni í því fari að allur almenningur sé sæmilega læs á fornsögurnar í nútímalegum útgáfum. Það er sá þráður sem má ekki slitna“ skrifaði Jón Viðar Jónsson í Málvöndunarþættinum á Facebook í gær. Ég er alveg sammála honum um að það er æskilegt og mikilvægt að hið margrómaða „samhengi í íslenskum bókmenntum“ haldist. En það er samt rétt að hafa í huga að það er ekki síst íhaldssöm stafsetning sem gerir það að verkum að við getum lesið forna texta. Hljóðkerfið hefur tekið miklum breytingum frá fornu máli, ekki síst sérhljóðakerfið, en þær breytingar dyljast okkur vegna þess að fæstar þeirra koma fram í stafsetningunni. Ef þær gerðu það yrðu fornir textar mun erfiðari aflestrar fyrir nútímafólk.

Breytingar á beygingum og setningagerð verða hins vegar sjaldnast til þess að torvelda skilning á fornum textum. Verulegur hluti af málkunnáttu okkar er nefnilega óvirk kunnátta – orð, beygingar eða setningagerðir sem við skiljum þótt við notum það sjaldan eða aldrei sjálf. Þótt beygingin firðir um fjörðu og skildir um skjöldu sé löngu horfin úr málinu og enginn noti hana nú, nema þá í föstum orðasamböndum, átta flestir sig á því um hvaða orð er að ræða, og sú breyting sem orðið hefur torveldar því sjaldnast skilning. Margvíslegar setningafræðilegar breytingar hafa líka orðið frá fornu máli, einkum hvað varðar orðaröð en einnig afturbeygingu, háttanotkun, aukatengingar, eyður í setningum o.fl. Þær breytingar torvelda yfirleitt ekki skilning þótt frá því séu vissulega undantekningar.

Sama gildir um breytingar sem ekki eru gengnar yfir. Fólk sem segir mér langar skilur mig langar, fólk sem segir við hvorn annan skilur hvor við annan, fólk sem segir hjá sitthvorri skilur sinn hjá hvorri, fólk sem segir ef hann sé heima skilur ef hann er heima, fólk sem segir eins og mamma sín skilur eins og mamma hennar, fólk sem segir vegna lagningu skilur vegna lagningar, fólk sem segir rétta upp hendi skilur rétta upp hönd, fólk sem segir ég er ekki að skilja þetta skilur ég skil þetta ekki, meira að segja fólk sem segir það var hrint mér skilur mér var hrint. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða að allir sem segja báðir tónleikarnir skilji hvorir tveggja (eða hvorirtveggju) tónleikarnir enda virðist notkun þess fornafns vera fjarri málkennd meginhluta málnotenda.

Það sem gæti hins vegar torveldað skilning á fornum textum – og gerir það oft –  er það að orðaforði fornsagnanna er verulega frábrugðinn orðaforða nútímalesenda, ekki síst yngra fólks. Bæði koma fyrir í fornum textum ýmis orð sem eru horfin úr nútímamáli, og eins hafa ýmis orð aðra merkingu en nú – án þess að venjulegir lesendur átti sig endilega á því. Flestir þurfa því á einhverjum orðskýringum að halda við lestur fornsagna, og það er auðvitað matsatriði hvenær þörfin fyrir slíkar skýringar er orðin svo mikil að ekki sé lengur hægt að tala um að vera „sæmilega læs“ á textana. En þetta snýst ekki um breytingar á málkerfinu, heldur um orðaforða lesenda. Ef við viljum viðhalda samhenginu í íslenskum bókmenntum er miklu mikilvægara að auka orðaforða fólks með lestri og samtölum en berjast gegn einstökum breytingum á beygingu orða og fallstjórn.