III: Platon um frummyndir og eðli heimsins

Ein áhrifamesta og öflugasta kenning í frumspeki sem sett hefur verið fram er frummyndakenning Platons. Hún lifir enn góðu lífi í ýmsum kimum heimspeki og stærðfræði. Í þessum tíma ætlum við að skoða frummyndakenninguna aðeins nánar og sérstaklega hvernig Platon sér hana tengjast hinum efnislega heimi. Í Timajosi, sem Platon skrifaði að öllum líkindum seint á sínum höfundarferli - og þá eftir að hann hefur gagnrýnt eigin frummyndakenningu - , er þessum spurningum einmitt varpað fram. Í dag er þetta ekki eitt af mest lesnu verkum Platons en í margar aldir, alveg fram að upplýsingartímanum, var það áhrifamesta verk Platons.

Samtalið í Timajosi á að eiga sér stað daginn eftir að samtalið í Ríkinu fer fram. Verkið byrjar með upprifjun á mikilvægustu kenningu þess verks, sem er kenningin um sálina og hlutverk mismunandi borgara, sem Sókrates sér um, færist yfir í endursögn Krítíasar á sögu sem lagabætirinn Sólon sagði honum fjörgamall eftir egypskum manni (dæmigerð platonsk frásagnarflækja) um síendurtekna eyðingu og sköpun heimsins (þar sem sagan af Atlantis kemur fyrir). Síðan tekur stjarnfræðingurinn Timajos til máls og talar svo til óslitið til loka verksins. Hér er því ekki um eiginlega samræðu að ræða.

Við ætlum fyrst og fremst að skoða tvo kafla í verkinu.

  1. 27C-29A (bls. 652-3): Rök fyrir því að heimurinn sé skapaður eftir eilífri fyrirmynd. Rökin eru greind hjá Zeyl, sjá ítarefni.
  2. 48E-52D (bls. 671-675): Kenningin um „ílátið“ eða það sem fær form þegar heimurinn er skapaður með frummyndir sem fyrirmyndir.

Við lesum líka nýlega yfirlitsgrein eftir Freeland um heimsfræði í frumspeki Platons, þar sem hún tekur Timajos sérstaklega til umræðu.

Grundvallarspurning dagsins er: Hvernig tengjast frummyndir efnislegum og skynjanlegum hlutum, eða hvernig fá fyrirbæri eiginleika?

Lesefni:

  • Platon, Timajos, 27E-58C (þýð. Zeyl) (Ugla, texti 3a).
  • Fyrir þá sem hafa áhuga er grískur texti og þýðing hér.
  • Cynthia Freeland, „The Role of Cosmology in Plato's Philosophy“, í A Companion to Plato, ritstj. Hugh H. Benson, Blackwell, 2006 (Ugla, texti 3b).

Ítarefni: