Lestrardagbók og ritgerð

Námsmat í fyrsta hluta námskeiðsins er í tvennu lagi. Nemendur eiga í fyrsta lagi að halda lestrardagbók sem þeir skila vikulega og síðan hreinritaðri í byrjun fjórðu viku. Í öðru lagi eiga nemendur að skrifa eina ritgerð sem þeir skila í lok fjórðu viku.

Lestrardagbók (vægi 10%): Markmiðið er að nemendur þjálfist í að skrifa hjá sér hugleiðingar sínar um efnið sem þeir eru að glíma við hverju sinni. Hér skiptir ekki máli að skrifa skýran teksta með skotheldum rökfærslum heldur að skrifa hjá sér hugleiðingar sínar við lesturinn, að skrásetja glímuna við að skilja.

  • Nemendur skila lestrardagbók vikulega. Skilafrestur er á föstudegi og skal dagbókum skilað í Uglu.
  • Í hverri færslu skal fjalla um efni tengt öllu lesefni vikunnar. Nemendur þurfa þó ekki að fara kerfisbundið yfir hvern texta. Hver færsla ætti að vera um 500 til 800 orð.
  • Nemendur skila hreinritaðri dagbók eigi síðan en þriðjudaginn 30. janúar (frestur rennur út á miðnætti). Hreinritaðri dagbók skal skilað í Uglu. Nemendur ráða hvort þeir skila handskrifaðri dagbók (en þá er mikilvægt að skriftin sé læsileg - ef þessi leið er valin þarf að skanna textann og hlaða inn í Uglu) eða í öðru formi (æskilegt að dagbók sé skilað sem .pdf). Nemendur sem skila of seint verða dregnir niður um 0,5 í einkunn fyrir hvern dag sem líður.
  • Kennari fer yfir hreinritaða dagbók og gefur einkunn fyrir. Hann mun skoða slembiúrtak úr vikulegum skilum til að athuga hvort nemendur hafi sinnt því sómasamlega að skila vikulegum dagbókum. Nemendur sem skila ekki vikulegum dagbókum fá 0 í einkunn fyrir þennan hluta.

Ritgerð (vægi 15%): Markmiðið er að nemendur þjálfist í að skrifa formlegan texta um frumspekileg efni. Mikilvægt er að skrifa skýran texta og að færa góð rök fyrir máli sínu. Ritgerðin verður að byggja á heimildum og meðferð heimilda er mikilvægur liður í mati á ritgerðum. Eins er mikilvægt að frágangur sé góður.

Nemendur skrifa ritgerð um frumspekilegt efni sem tengist fornaldarheimspeki. Sé efnið utan við lesefnið námskeiðsins skal leita samþykkis kennara. Nemendur þurfa að afla sér heimilda um ritgerðaefni, en kennari getur verið þeim innan handar við það. Á námsbókasafni, efstu hæð Háskólabókasafns, eru valdar bækur í frumspeki (væntanlegt). Eins er ráðlegt að notast við efni á netinu eins og Stanford Encyclopedia of Philosophy.

Ritgerðin á að vera á bilinu 1500 til 2000 orð. Æskilegt er að nemendur setji ritgerðina upp með 12 punkta letri (Times New Roman eða sambærilegt), línubili 1,5 og með eðlilegum spássíum. Blaðsíðutal skal vera í fæti hverrar síðu. Nemendur eru hvattir til að vanda frágang ritgerða og huga vel að skráningu heimilda og tilvísunum í heimildir (ath. t.d. að skrá greinar úr Stanford Encyclopedia á réttan hátt – þ.e. fylgið upplýsingum í „Author and Citation Info“).

Á forsíðu skal koma fram:

  • Titill ritgerðar.
  • Nafn nemanda.
  • Nafn kennara.
  • Heiti námskeiðs.
  • Dagsetning.
  • Upplýsingar um orðafjölda.

Nemendur skila ritgerð í síðasta lagi sunnudaginn 4. febrúar (frestur rennur út á miðnætti) í Turnitin. Áður en ritgerð er send skal hún vistuð sem pdf skjal og á titill á vistuðu skjali að innihalda nafn nemanda („NAFN-Ritgerð“). Nemendur sem skila of seint verða dregnir niður um 0,5 í einkunn fyrir hvern dag sem líður.