Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — I

Hjalti Hugason, 8. September 2011 16:47

Um nokkurt skeið hafa kannanir sýnt að stór hluti þjóðarinnar er fylgjandi breytingum á sambandi ríkis og kirkju. Oftast er þar átt við aðskilnað. Umræða um aðskilnað ríkis og kirkju hér er þó hvorki jafnáköf né marksækin nú og hún var fyrir 100 árum. Þá virtist mörgum aðskilnaður á næsta leiti.

En er ljóst hvað átt er við með aðskilnaði? Svo virðist ekki alltaf vera. Hugmyndir sumra virðast óljósar í því efni. Aðrir hártoga hugtakið á ýmsa lund eftir hentugleikum hverju sinni.

Aðgreining er ekki aðskilnaður

Aðgreining ríkis og kirkju sem stofnana er ekki það sem átt er við með aðskilnaði. Á einveldistímanum var ríki og kirkja eitt og hið sama í flestum löndum Evrópu. Undir lok 18. aldar hófst aðgreining þessara stofnana t.d. í Frakklandi. Með stjórnarskrá Dana (1849) hófst aðgreining í danska ríkinu og hér á landi 25 árum síðar með stjórnarskránni 1874.

Eftir þetta var kirkjan ekki órofa hluti af ríkinu heldur sérstök stofnun sem það gat „stutt og verndað“ eins og segir í stjórnarskránni. Ákvæði stjórnarskránna tveggja um þjóðkirkju og skyldur ríkisins við hana sýna hins vegar að ekki var um aðskilnað að ræða.

Aðskilnaður og sjálfstæði er ekki hið sama

Lungann úr 20. öldinni keppti þjóðkirkjan eftir að öðlast aukið sjálfstæði og sjálfsstjórn. Margir kirkjuleiðtogar staðhæfðu að þetta væru órofa þættir af eðli þjóðkirkjunnar. Hún gæti ekki gegnt hlutverki sínu án sjálfstæðis og hún ætti stjórnarskrárvarið tilkall til þess. Þeir byggðu á þjóðkirkjuguðfræði sem hafði kirkjupólitískar afleiðingar. Ýmsir leiðandi lögfræðingar höfnuðu hins vegar þessum skilningi, a.m.k. því að stjórnarskráin gæfi ádrátt um kirkjulega sjálfsstjórn.

Sjálfstæðisbarátta kirkjunnar á 20. öld bar þó þann ávöxt að hún öðlaðist víðtæka sjálfsstjórn eins og fram kemur í 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar 1997 nr. 78 26. maí en þar segir m.a.:

„Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“

Þetta þýðir þó alls ekki að aðskilnaður hafi orðið. Flestir sem börðust ákafast fyrir sjálfsstjórn kirkjunnar voru andvígir aðskilnaði hennar frá ríkinu. Þeir kepptu þvert á móti eftir auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í áframhaldandi tengslum við ríkið. Þá má ætla að flestir sem nú tala fyrir aðskilnaði láti sér í léttu rúmi liggja hvort kirkjan sé að meira að minna leyti sjálfstæð innan núverandi ramma.

Hvað er þá aðskilnaður?

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felst í því að öllum sértækum tengslum þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið er slitið. Þetta þarf ekki að þýða að ríkið hætti öllum afskiptum af trúarlífi í landinu þótt sumir tali fyrir því. Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felst þvert á móti í að trúfélag sem áður naut sérstöðu vegna tengsla sinna við ríkisvaldið er gert fullkomlega jafnstætt öllum trú- og helst einnig lífsskoðunarfélögum öðrum hvað réttarfarslega stöðu áhrærir. Með þessu er ekki sagt að saga þess, stærð og hlutverk geti ekki skapað því einhverja sérstöðu í samfélaginu. Hún er þá einkum óformleg en ekki lagaleg.

Hvernig er aðskilnaður gerður?

Nú eru tengsl ríkis og þjóðkirkju stjórnarskrárbundin, lögbundin, fjárhagsleg og táknræn. Hér verður vikið að þremur fyrstnefndu tengslunum.

Eigi að gera aðskilnað ríkis og kirkju verður í fyrsta lagi að fella þjóðkirkjugrein (62. gr.) stjórnarskrárinnar úr gildi án þess að nokkuð komi í hennar stað. Þetta má nú gera með lögum sem þó þarf að staðfesta með þjóðaratkvæðagreiðslu (samkv. 2. mgr. 79. gr. stjskr.). Eins og ég hef bent á hér á Pressunni („Þjóðkirkja í frjálsu falli?“) leggur Stjórnlagaráð til að millileið verði farin í þessu efni en í 19. gr. frumvarps þess segir:

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Í þessari tillögu felst ekki aðskilnaður þó ekki sé þetta fullkomin hliðstæða núgildandi þjóðkirkjugreinar.

Í öðru lagi verður að fella úr gildi fyrrgreind lög um þjóðkirkjuna eða í það minnsta breyta þeim mikið. Vegna stærðar og sérstöðu meirihlutakirkjunnar má vel færa rök fyrir því að um hana eigi að gilda sérstök lög en hún verði ekki látin heyra undir sömu lög og gilda um önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu (þ.e. lög um skráð trúfélög 1999 nr. 108 28. desember). Væri sérlögum haldið yrðu þau þó að vera einfaldari en svokölluð þjóðkirkjulög eru nú og mjög þyrfti að slaka á kröfum þeirra bæði til ríkisins og kirkjunnar.

Nú hljómar fyrsta málsgrein fyrstu greinar þjóðkirkjulaganna svo:

Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna.

Við hugsanlegan aðskilnað verður að fella síðari málsgreinina niður. Jafnframt verður að gaumgæfa þá fyrri vel. Vissulega má færa rök að því að þjóðkirkjuheitið geti áfram komi fyrir í lögum en þá í nokkuð annarri merkingu en nú. Auk þess yrði að búa svo um hnúta að Alþingi geti aðeins sett lög um ystu útlínur þjóðkirkjunnar. Veraldlegur löggjafi getur ekki sett lög um innri mál trúfélags sem ekki starfar í sérstökum tengslum við ríkið. Slíkt felur í sér skerðingu á trúfrelsi sem ríki getur ekki beitt nema ríkis- eða þjóðkirkja í lagalegri merkingu eigi í hlut.

Vegna þess hvernig fornar kirkjueignir sem þjóðkirkjan nýtur nú eru til komnar getur löggjafinn þó sett lög sem tryggja eftir aðskilnað 1) að þjóðkirkjan verði áfram lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðisríki (sjá pistil minn „Á að setja landinu kirkjuskipan?“ hér á Pressunni).

Þar með er komið að fjárhagstengslum ríkis og kirkju. Eigi að gera aðskilnað verður að koma málum þannig fyrir að kirkjan sé tvímælalaust fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir rekstri sínum. Raunar er málum þegar í stórum dráttum þannig fyrir komið. Núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru ekki hluti af þjóðkirkjuskipaninni heldur afleiðing af tilfærslu á forráðarétti og loks eignarhaldi á fornum kirkjueignum — rekstrargrundvelli kirkjunnar — frá þjóðkirkjunni til ríkisins á 20. öld. Við núverandi aðstæður getur ríkisvaldið þó haft bein áhrif á fjárhagsstöðu kirkjunnar t.d. með því að breyta upphæð sóknargjalda frá ári til árs. Slíkt fyrirkomulag er óeðlilegt eftir aðskilnað.

Eftir mögulegan aðskilnað verður kirkjan að njóta tryggingar fyrir því að rekstrarforsendur hennar breytist ekki skyndilega og á ófyrirséðan hátt milli ára. Eins og dæmin sanna kunna vissulega að gerast atburðir sem eru þess eðlis að kirkjan þarf að herða sultarólina líkt og aðrir. Þannig sýnir hún þjóð sinni samstöðu svo sem hún er skyld til. Ríkisvaldið á að öðru leyti ekki að ráðskast með rekstrargrundvöll hennar — síst eftir aðskilnað.

Í síðari pistli verður vikið að ýmsum táknrænni hliðum aðskilnaðar. Enn síðar verður svo spurt hér: Á að skilja að ríki og kirkju?