Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — II

Hjalti Hugason, 26. September 2011 14:28

Margir velta nú fyrir sér aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju. Í fyrri pistli hér á Pressunni var fjallað um réttarfarslegar hliðar aðskilnaðar. Hér verður vikið að ýmsum félagslegum og táknrænum flötum þess máls.

Ekki trúarleg 0-stilling

Réttarfarslegur aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju leiðir ekki til þess að hætt verði að halda hér jól — ekki einu sinni litlu-jól, ekki að skipt verði um fána, skjaldarmerki, þjóðsöng eða að endilega verði hætt að ganga til kirkju fyrir þingsetningu. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur heldur ekki í sér að hætt verði að kenna kristin fræði í grunnskólum eða guðfræði við HÍ. Þessu öllu væri þó líka mögulegt að breyta án þess að skilja að ríki og þjóðkirkju.

Okkur kann t.a.m. mörgum að finnast full ástæða til að skipta út þjóðsöngnum fyrir alþýðlegra lag og ljóð. Til þess þarf ekki að hrófla við 62. gr. stjskr. Það nægir að breyta 1. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga nr. 7/1983.

Verði kostnaður þingheims af fatahreinsun of mikill í framtíðinni eftir skrúðgöngur milli dómkirkju og Alþingishúss til þingsetningar, sbr. mótmælin í fyrra, má leggja athöfnina niður án breytinga á kirkjuskipan ríkisins. Verði slík breyting gerð má líka halda í athöfnina í lítið eitt breyttri mynd, líkt og t.d. er raun á í Svíþjóð þar sem tengsl ríkis og kirkju eru nú veikari en hér. Athöfnin yrði þá í boði kirkjunnar en ekki á vegum þingsins.

Í aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju felst sem sé ekki að samfélagið sé sett á trúarlegan núll-punkt.

Ekki bakkað út úr sögunni

Flest af því sem að ofan er talið eru ekki beinar afleiðingar af því að hér hefur ríkt þjóðkirkjuskipan frá 1874 heldur af að hér var tekið við kristni fyrir 1000 árum. Þessi langa samfylgd kirkju og þjóðar hefur sett óafmáanleg merki á sögu okkar og menningarhefð. Krossfáni okkar eins og hinir norrænu fánarnir eru t.d. sýnilegt ták um þessa sögu — hvorki meira né minna. Í norrænu fánunum felst sem sé engin trúarjátning nú á dögum. Vilji menn hins vegar fara í þá vegferð að breyta fánanum nægir að breyta 1. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið nr. 34/1944.

Svipuðu máli gegnir um kristinfræðikennslu í grunnskólum. Hlutverk hennar er ekki að leiða börn til kristinnar trúar. Það er hlutverk kirkjunnar þegar skírð börn eiga í hlut og þeirra foreldra sem bera börn sín til skírnar. Kennslu í kristnum fræðum er hins vegar ætlað að fræða börn um menningarhefð þjóðarinnar og Vesturlanda almennt, gera þau læs á menninguna. Kennsluna má því samþætta sögu og samfélagsfræðum. Kristnum fræðum er líka ætlað að þjálfa börn í að glíma við áleitnar lífsspurningar og gildismat. Kennslu í þeim má því líka flétta inn í lífsleikni, trúarbragðafræðslu, siðfræði- eða heimspekikennslu. Kennslu í kristnum fræðum er í öllu falli stýrt með námsskrá en ekki 62. gr. stjskr. eða hliðstæðu hennar.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felur ekki í sér að bakkað sé út úr sögu síðustu 1000 ára. Það verður aðeins gert með menningarbyltingu. Hér á landi virðast engar forsendur fyrir henni.

Er aðskilnaður eina svarið við fjölhyggju?

Í lýðræðissamfélagi sem er í örum breytingum og stefnir hraðbyri inn í aukna fjölhyggju skipir miklu að fengist sé af alvöru og heilindum við álitamál sem lúta að því hvernig best sé að samræma sögu þjóðarinnar og samtíð hennar. Í því sambandi ber að gefa því gaum að hvorki hefur menning okkar Íslendinga né menning kristinnar kirkju verið óbreytt í þau 1000 ár sem þjóð og kirkja hafa átt hér samleið. Í því efni gildir lögmálið: Framþróun eða dauði. Það skiptir því miklu að glæða forn tákn nýrri merkingu en leggja þau til hliðar ef það tekst ekki. Eins verðum við að vera opin fyrir nýjum birtingarmyndum gildismats og menningar sem hafa aðrar rætur en hinar kristnu.

Mörgum kann að virðist þetta verkefni of flókið ef taka á tillit til bæði veraldlegrar menningar og trúarlegrar. Því hyllast þeir til að mæta aukinni fjölhyggju með aðgreiningu á hinum veraldlegu og trúarlegu þáttum menningar og samfélags og útiloka þá trúarlegu sem mest úr opinberu rými. Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er liður í slíkri viðleitni. Hann einn og sér er þó ekki lausn á þeim flóknu viðfangsefnum sem aukin fjölhyggja hefur í för með sér. Þá má einnig færa rök fyrir því að mannréttindi verði ekki best tryggð í fjölhyggjusamfélagi með því að setja trúartjáningu auknar skorður eins og gert er þar sem ekki er aðeins greint á milli ríkis og kirkju á róttækan hátt heldur hins veraldlega og trúarlega sviðs almennt.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er því ekki óhjákvæmilegt svar við fjölhyggju.

Trúmálaréttur fyrir 21. öldina

Það er ögrandi viðfangsefni að glíma við hvernig menning okkar og saga verðar best fléttaðar saman við allar þær fjölbreyttu lífsskoðanir og gildismat sem fjölhyggjan færir okkur. Það verður að gera án forræðishyggju og stöðlunar. Því miður hefur kirkjan oftar en ekki mætt nýjum stefnum og straumum með þeim hætti á liðnum öldum. Ríkisvaldið getur fallið í sömu gryfju sé því beitt í þá veru að aðgreina hina veraldlegu og trúarlegu menningu um of í því skyni að tryggja einingu. Hugsanlega er betri leið að ríkisvaldið veitti öllum trú- og lífsskoðunarfélögum sem sambærilegastan stuðning.

Það er mikilvægt að einfaldar breytingar á lögformlegum tengslum ríkis og þjóðkirkju dragi ekki athygli okkar frá hinni eiginlegu örgrun fjölhyggjunnar sem kreft þess að 1000 blóm fái að blómstra í sama beði. Til þess að svo megi verða þarf að þróa trúmálarétt sem rúmar þá fjölbreytni sem þegar er til staðar í trúarflóru okkar og stuðlar að sem mestum jöfnuði trúar- og lífsskoðana.

Því ber ekki að hrapa að aðskilnaði sem „patentlausn“ heldur leita bestu leiðarinnar til að bregðast við fjölhyggjunni en til þess eru margar leiðir færar.