Og hvur sá Ás, sem ata þeir í kvæði

Jón Karl Helgason, 21/01/2017

Myth and "Nation Building" er titill á ráðstefnu sem Sorbonne-háskólinn og Grundtvig-lærdómssetrið í Árósum standa að í París 26. til 27. janúar næstkomandi. Þar mun hátt í tugur fræðimanna og -kvenna fjalla um hlutverk norrænna heiðinna goðsagna í þróun evrópskra þjóðríkja á nítjándu öld. Það kemur í minn hlut að fjalla um Ísland í þessu samhengi en fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "'Og hvur sá Ás, sem ata þeir í kvæði': Nordic Myth and Iceland's Independence Movement". Ætlunin er að skoða sérstaklega kvæði Jónasar Hallgrímssonar, þar á meðal "Hulduljóð" og "Ísland" en síðarnefnda kvæðið er ágætt dæmi um það hvernig íslenska þjóðskáldið vinnur úr erlendum fyrirmyndum í verkum sínum. Mun ég sérstaklega ræða tengsl kvæðisins við skrif Oehlenschlägers og Grundtvigs.