Fjölbreyttar MA ritgerðir frá liðnu ári

Jón Karl Helgason, 25/01/2017

Á liðnu ári var ég leiðbeinandi eða meðleiðbeinandi að þremur MA ritgerðum; einni í þýðingafræði, einni í ritlist og einni í miðaldafræðum. Natalia Kovachkina lauk við rússneskar þýðingar á átján íslenskum smásögum sem hún valdi og ritaði formála að. Nokkrar þýðingana hafa þegar birst í rússneskum tímaritum og fleiri eru væntanlegar en skemmtilegast væri þó að þetta tilkomikla safn kæmi út á bók í Moskvu fyrr eða síðar. Jóhannes Ólafsson lauk við íslenska þýðingu sína á skáldsögunni Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson. Ber hún titilinn Uggur og andstyggð í Las Vegas: Villimannslegt ferðalag að hjarta ameríska draumsins og kemur væntanlega út hjá Forlaginu síðar á þessu ári. Í nóvember var Jóhannes í viðtali á Rás 1, Ríkisútvarpinu, um Thompson og þýðingu sína. Loks má nefna MA ritgerð Shirley N. McPhaul, "Vikings and Gods in Fictional Worlds: Remediation of the Viking Age in Narrative-Driven Video Games" en þar er fjallað um nýtt og spennandi efni; tölvuleiki sem sækja sér innblástur í norræna goðafræði og fornsögur. Ég vil óska þeim öllum til hamingju með MA gráðurnar og þessi metnaðarfullu lokaverkefni.