Tími til kominn!

Karl Benediktsson, desember 15, 2010

Tillaga er komin fram á Alþingi um að seinka klukkunni um einn tíma til að færa landið nær því tímabelti sem það er í. Hádegi yrði þannig á... hádegi, eða því sem næst. Fólk eins og ég ætti auðveldara með að þreyja skammdegið með sínum annars myrku morgnum. Þetta er góð tillaga. Við erum þrátt fyrir allt líkamlegar og jarðneskar verur og andleg og líkamleg líðan okkar er háð umhverfinu. Ef við eigum kost á því að stilla samfélagið allt betur í takt við sólarganginn eigum við að sjálfsögðu að gera það.

Stundum er teflt fram gagnstæðum rökum, sér í lagi af fólki sem tengist viðskiptalífinu, sem vill stilla betur saman íslenskan tíma við helstu viðskiptalönd á meginlandi Evrópu. Þau rök eru stundum færð fram að það gangi alveg í Galisíu á NV-Spáni að vera í "röngu" tímabelti (Mið-Evróputíma) og enginn munur sé á líðan Galisíumanna og Portúgala þótt þeir síðarnefndu séu klukkutíma á eftir. En þá má spyrja: Hví velja Portúgalar ekki að fylgja Mið-Evróputíma? Það hlýtur að baka þeim ærin óþægindi í viðskiptum við nágrannana á Spáni að vera á öðrum tíma. En - Portúgalar kjósa samt að stilla klukkuna nokkurn veginn "rétt".

Segiði svo að landfræði skipti ekki máli!