Flóttamenn og félagsmálaráðherra

Karl Benediktsson, ágúst 28, 2015

Ég horfði á sjónvarpsfréttir í gær, þar sem fjallað var um flóttamenn og hræðilega atburði sem gerast nú upp á hvern dag í álfunni okkar. Fram kom meðal annars að Ísland ku hafa samþykkt að taka við hvorki fleiri né færri en 25 flóttamönnum á ári næstu tvö árin!

Félagsmálaráðherra fékk í fréttatímanum þá eðlilegu spurningu hvort ekki mætti hugsa sér að Ísland tæki á móti fleirum. Eins og plagsiður er hjá stjórnmálamönnum setti hún á allnokkra tölu án þess að svara á nokkurn hátt spurningunni. Hún talaði um hvers konar flóttamenn það væru sem valdir væru til að koma hingað - mest fólk úr hópum sem eiga víða mjög undir högg að sækja. Gott og vel - ber að skilja orð ráðherrans þannig að það séu bara ekki mikið fleiri sem tilheyra þessum hópum á meðal þeirra hundruða þúsunda sem flýja nú til Evrópu? Svona undansláttur fer ósegjanlega í taugarnar á mér.

Ísland hefur lengi komist upp með að komast afskaplega billega frá ábyrgð sinni sem ein af ríkustu þjóðum heims. Dyflinnarreglugerðin alræmda tryggir t.d. að langflestum sem sækja um hæli hér er snarlega vísað úr landi aftur til annarra Evrópulanda. Þessu verður að breyta.