Götur, grjót og Grænland

Karl Benediktsson, apríl 27, 2018

Þá er loksins komið vor. Lauf að spretta fram á trjám í Reykjavík og göturnar komnar undan slabbi. Eins og oft áður er ástand malbiksins ansi dapurt víða. Holurnar bíða fórnarlamba sinna þolinmóðar.

Og kjósendur bíða sveitarstjórnarkosninga. Umferðarmál og viðhald gatna er enn einu sinni reynt að gera að meiri háttar kosningamáli. Á teikniborðinu er margumrædd Borgarlína, sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um að veita framgang. En sumir flokkar og framboðslistar í borginni hafa allt á hornum sér varðandi línuna. Því er haldið fram – í fullri alvöru að því er virðist – að uppbygging á skilvirkum almenningssamgöngum sé bruðl og hégómi. Nær væri að greiða (enn) götu einkabíla, fjölga mislægum gatnamótum og halda bara götunum alminlega við.

Þetta finnst mér almennt harla ótrúverðugur málflutningur – nema kannski það síðasta: Engum blöðum er um það að fletta að ástand gatna er víða slæmt. Ónógu viðhaldi kann að vera um að kenna að talsverðu leyti, en sumt mega notendurnir sjálfir taka til sín: Útbreidd og oft óþörf nagladekkjanotkun hjálpar ekki til. Eitthvað má reyndar einfaldlega skrifa á reikning grjótsins sem notað er í yfirborð gatnanna. Basaltið okkar er einfaldlega hundlélegt sem efni í malbik. Reyndar svo slæmt að grjót er flutt inn frá öðrum löndum til að malbika allra umferðarþyngstu kaflana.

Þetta leiddi huga minn til okkar stórbrotna næsta nágranna, Grænlands. Þar vantar nú ekki grjótið maður! Þetta er að mestu leyti eðalgrjót frá forkambrískum tíma, semsagt háaldrað og af svipuðu tagi og algengast er í Skandinavíu, enda lágu þessi svæði saman áður en Ísland tróð sér upp á milli með eldgosum, frekju og liðónýtu basalti.

Frá Qaqortoq.

Grænlendingar standa um þessar mundir í stórræðum. Þar er verið að sprengja burt heilu fjöllin til að koma fyrir flugvöllum. Þetta er mikið mál í landi þar sem sléttlendi er nánast óþekkt og ýmsir hafa efast um efnahagslegar forsendur hinna nýju flugvalla, en það er önnur saga. Eitt slíkt stórverkefni er í gangi við bæinn Qaqortoq, stærsta þéttbýlisstað á sunnanverðu Grænlandi, á slóðum hinnar gömlu norrænu Eystribyggðar. Mætti ekki stofna hér til viðskiptasambands báðum þjóðum í hag? Hvernig væri ef Íslendingar sendu vorskip þessa bæjarleið til Eystribyggðar eftir almennilegu grjóti í göturnar okkar?