Hallærisplan auðhyggjunnar

Karl Benediktsson, nóvember 8, 2018

Þegar ég fluttist til Reykjavíkur seint á unglingsárum, rétt fyrir 1980, var miðborgin svolítið tætingslegur skapnaður, svo vægt sé að orði komist. Ómalbikað Hallærisplanið var miðpunktur rúntsins og þeirrar unglingamenningar sem hafði orðið til í Reykjavík. Á ská handan þessarar miðju okkar óóöruggu tilveru var brúnaþung og ferköntuð Morgunblaðshöllin, sem skilgreindi mörkin milli hins jarðneska og himneska. Við hliðina var Fjalakötturinn, það rauðmálaða völundarhús, fúið og skakkt en heillandi á sinn hátt, og státaði af elsta bíósal Evrópu. Grjótaþorpið að baki leit út eins og versta fátækrahverfi. Og vel man ég eftir trérampinum undarlega sem lá upp á bílastæðið á þaki Tollhússins.

Sem sveitastrák fannst mér þetta allt frekar framandi og skrýtið, en skildi ekki almennilega hvað hér hafði gerst fyrr en ég fór að læra landfræði og meðal annars lesa um sögu borgarinnar og skipulag. Í stuttu máli er orsökin hér: Yfir smágerða sjálfsprottna byggð frá nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu hafði lagst grófgerð hugmyndafræðileg krumla. Módernískar hugmyndir sem mótuðust í Evrópu og Norður-Ameríku á tuttugustu öld í byggingarlist og skipulagsfræðum höfðu fundið sér farveg í Reykjavík. Borgin skyldi mótuð eftir þörfum einkabílsins og fagurfræði fúnksjónalismans. Skýrasta birtingarmynd þessarar hugmyndafræði, aðalskipulagið frá 1966, er sannarlega stórmerkilegt plagg á sinn ruddalega hátt.

En einungis rúmlega áratug síðar var tekið að fjara nokkuð undan hugmyndafræðilegu valdi módernismans. Baráttan um Bernhöftstorfuna á áttunda áratugnum markaði tímamót. Og þegar ég leit miðborgina fyrst augum var hún ekkert sérstaklega heildstæð. Allt virtist í biðstöðu. Sérstaklega var svæðið frá Lækjartorgi niður að höfn götótt og ljótt ásýndum.

Nú árið 2018 er loksins langt komið með að fylla í götin í miðborg Reykjavíkur, sem var sannarlega tímabært. Mér hugnast grunnhugmyndin ágætlega: Þétt borgarbyggð með verslunum neðst en íbúðum ofar. Miklar byggingaframkvæmdir hafa staðið yfir undanfarin ár. En undanfarna mánuði hafa nýbyggingarnar norðan Lækjartorgs verið að koma í ljós undan vinnupöllunum. Og mér dámar satt að segja ekki alls kostar það sem ég sé. Nýju húsin lýsa fullkomnu frati á sögu og sérkenni eldri byggðar í Kvosinni. Fagurfræði þeirra er fagurfræði hins alþjóðlega auðhyggjusamfélags, sneydd öllum tilvísunum til staðarins sjálfs. Íbúðirnar á efstu hæðunum eru svo dýrar að bara þeir ofurríku koma til greina. Viðeigandi er kannski að fyrsta verslunin sem tók sér bólfestu skuli hafa verið H&M – alþjóðleg keðja sem getið hefur sér orð fyrir að skeyta hvorki um skömm né heiður þegar staðbundið samfélag er annars vegar. Í miðborg Reykjavíkur er hér komið eins konar Hallærisplan auðhyggjunnar.