Heilnæmt neysluvatn: Samantekt á niðurstöðum doktorsrannsóknar á gæðaeftirliti vatnsveitna

María Gunnarsdóttir, 03/11/2012


Íslands var eitt af fyrstu löndum til að lögleiða notkun innra eftirlits hjá vatnsveitum til að fyrirbyggja mengun neysluvatns. Þessi aðferð var sett í matvælalöggjöf árið 1995 þar sem neysluvatn var skilgreint sem matvæli og slíkum fyrirtækjum var skylt að innleiða fyrirbyggjandi innra eftirlit. Vatnsveitur byrjuðu að nota þessa aðferðafræði árið 1997 og í árslok árið 2009 fengu yfir 80% landsmanna vatn frá vatnsveitu með slíkt eftirlit.  Aðferðafræðinni var vel tekið af vatnsveitum og starfsmönnum þeirra sem nýttu tækifærið og gerðu ýmsar endurbætur á vatnsveitunum.  Rannsóknin sem hér er kynnt skoðar áhrif þessarar lagasetningar á heilnæmi neysluvatns, heilbrigði íbúa og greinir þann lærdóm sem hægt er að draga af rekstri vatnsveitna með slík kerfi.

Aðferðafræði við rannsóknina

Rannsóknin á áhrifum gæðaeftirlits vatnsveitna var þrískipt. Í fyrsta lagi var gerð rannsókn hjá sextán vatnsveitum á aðferðum, ávinningi og fyrirstöðum við innleiðingu og rekstur eftirlitsins. Þessi rannsókn var gerð með viðtölum og skoðun á aðstæðum og kerfinu.  Í öðru lagi var rannsakað hvort mælanlegur árangur væri á vatnsgæðum. Það var gert með því að skoða niðurstöður lögboðinna sýnatöku, sem heilbrigðiseftirlit hefur umsjón með,  hjá fimm vatnsveitum fyrir og eftir innleiðingu innra eftirlits.  Í þriðja lagi voru gögn um tíðni niðurgangs hjá sjö heilsugæslustöðvum, sem skráð eru skv. lögum um skráningaskylda sjúkdóma, borin saman fyrir og eftir innleiðingu innra eftirlits hjá viðkomandi vatnsveitum.

Innra eftirlit bætir rekstur vatnsveitna

Greining á reynslu af innra eftirliti dregur fram hvaða ávinningur er af innleiðingu og rekstri eftirlitsins og hvað þarf að vera til staðar til að viðhalda því. Helsti ávinningur er talinn vera breytt viðhorf starfmanna til vatnsgæða og mengunarhættu.  Önnur sterk áhrif voru talin vera bætt þekking á kerfinu, skipulagðari vinnubrögð, rekjanleiki og aukin vandvirkni.  Fyrirstöður og vanhöld sem komu í ljós voru þær helstar að ytri og innri úttektum á virkni kerfisins er ábótavant. Það eru lítil samskipti við notendur þó margir viðmælendur nefndu að slík samskipti væru mikilvæg. Ýmsir þættir sem eru áríðandi til að vel takist til með komu í ljós s.s. fræðsla og þjálfun starfmanna og þátttaka starfsmanna í innleiðingu kerfisins.  Einnig var talið mikilvægt að hafa kerfið einfalt, hafa góðar leiðbeiningar og framkvæma innleiðinguna í góðri samvinnu við viðkomandi heilbrigðisyfirvöld. Þegar fylgni milli ýmissa þátta var skoðuð kom m.a. í ljós að sterk fylgni var milli betri virkni kerfanna og stærðar vatnsveitu.  Aukin fræðsla eykur virkni og svo gera einnig reglubundnar innri og ytri úttektir. Algengustu faraldrar af völdum vatns, bæði hér á landi og erlendis, eru hjá minni vatnsveitum. Hér á landi hafa orðið a.m.k. tólf staðfestir vatnsbornir faraldrar síðan 1984 og allir hjá litlum vatnsveitum. En að fáir faraldrar hafi verið skráðir tryggir ekki að fleiri hafi ekki átt sér stað því opinberri skráningu vatnsborinna faraldra og mengunartilvika á neysluvatni hefur verið ábótavant.

 

Rannsóknin leiddi í ljós að þó að minni vatnsveitur hafi burði til að hafa virkt innra eftirlit er þörf á sérstökum stuðningi frá heilbrigðiseftirliti og yfirvöldum í formi leiðbeininga og fræðslu.  Niðurstöður úr þessari rannsókn eru notaðar til að taka saman leiðbeiningar fyrir vatnsveitur í þremur þáttum rekstrar veitnanna, þ.e. mannauðsstjórnun, úrbótum í rekstri og hvernig skal tryggja stuðning hagsmunaaðila.

Innra eftirlit eykur gæði neysluvatn

Rannsóknir á mælanlegum árangri við innra eftirlit sýndu að gæði vatnsins urðu betri og frávikum frá kröfum neysluvatnsreglugerð fækkaði. Tilfellum þar sem E.coli greindist, sem bendir til saurmengunar, fækkaði úr 1.28% í 0.32%. Vatnsveitur sem ekki hafa innra eftirlit eru 3.7 sinnum líklegri til að fá frávik frá neysluvatnsreglugerð og 2.2 sinnum líklegri til að hafa gerlafjöldi yfir 10 í hverjum millilítra og breytileiki í niðurstöðum er meiri hjá þeim veitum.

Innra eftirlit bætir heilsu íbúanna

Rannsókn á heilbrigði íbúa leiddi í ljós tölfræðilega marktækt færri tilfelli af niðurgangi þar sem innra eftirlit hafði verið innleitt, en niðurgangur er eitt helsta einkenni vatnsborinna veikinda. Af sjö vatnsveitum þar sem hægt var að fá upplýsingar fyrir og eftir innleiðingu innra eftirlits í vatnsveitunni voru fimm þar sem var marktækur munur á tíðni niðurgangs fyrir og eftir innleiðingu.  Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að vatnsveitur beri ábyrgð á hluta niðurgangstilfella.  Rannsóknir erlendis hafa leitt í ljós að tilfallandi þrýstibreytingar í dreifikerfi geti valdið mengun vatns. Þetta þrýstifall getur t.d. verið vegna rafmagnstruflana, skyndilegrar aukinnar notkunar í  kerfinu eða bilunar á leiðslum. Meiri hætta er þar sem vatnsleiðslur og fráveitulagnir eru í sama skurði eins og algengt er hér á landi. Einnig skapar það hættu á mengun ef lagnir eru orðnar gamlar og í slæmu ástandi.  Þessi rannsókn bendir til þess að við það að innleiða virkt innra eftirlit, með meðfylgjandi fyrirbyggjandi aðgerðum og verklagsreglum t.d. við viðhald og endurnýjun lagna, minnki tíðni niðurgangs um 14%. Þessar niðurstöður eru í samræmi við ýmsar erlendar rannsóknir. Bresk rannsókn sýndi að um 15% af niðurgangi mátti rekja til mengaðs neysluvatns og bandarísk rannsókn sýndi að 12% tilfella niðurgangs var vegna drykkjarvatns.

Aðgerðir til að tryggja neysluvatnsgæði

Rannsóknin leiddi í ljós að ýmissa aðgerða er þörf til að viðhalda góðum árangri í að tryggja gæði neysluvatns og bæta það sem á vantar. Aðgerðir vantar bæði hjá vatnsveitunum og hjá yfirvöldum bæði á sveitarstjórnarstigi og hjá ríkisvaldinu og stofnunum þess sem bera ábyrgð á gæðum vatnsins. Aðgerðum er skipt niður í fjóra þætti;  aðgerðir sem þarf að framkvæma af opinberum stofnunum ríkisins, aðgerðir sem stofnanir sveitarfélaga þurfa að annast, aðgerðir sem vatnsveiturnar eða samtök þeirra þurfa að framkvæma og ýmsar stuðningsaðgerðir sem þessir aðilar þurfa að vinna að saman.

 

Aðgerðir opinberra stofnanna ríkisins:

 1. Endurskoða núverandi neysluvatnsreglugerð og setja þar inn kröfur um innra gæðaeftirlit,  kröfur um viðhald og endurnýjun lagna, skerpa á kröfum um verndun vatnsbóla, upplýsingagjöf til notenda og hvernig eigi að tryggja gæði vatns hjá litlum vatnsveitum.
 2. Bæta skráningu á vatnsbornum faröldrum og mengunartilvikum. Einnig að bæta skýrslugerð eftir slík tilvik til að draga lærdóm af og fyrirbyggja að þau endurtaki sig. 
 3. Gera sameiginlegan lista á landsvísu yfir þær vatnsveitur sem eru eftirlitsskyldar og hverjar þeirra hafa innra eftirlit.
 4. Birta notendum á aðgengilegan hátt árlega hvernig neysluvatn uppfyllir kröfur neysluvatnsreglugerðarinnar, eins krafa hefur verið um í neysluvatnsreglugerð síðan 2001. Þessum upplýsingum eiga heilbrigðiseftirlitin að skila inn árlega til Matvælastofnunar skv. sömu reglugerð.
 5. Gera sérstakar leiðbeiningar fyrir heilbrigðiseftirlitin um hvernig beri að framkvæma ytri úttekt á innra eftirliti vatnsveitna. Þar á að koma fram tíðni eftirlits og viðbrögð ef kerfið uppfyllir ekki kröfur. Þessar leiðbeiningar þurfa að vera sérstaklega sniðnar að vatnsveiturekstri en ekki er hægt að notast við almennar reglur fyrir hefðbundin matvælafyrirtæki.
 6. Hafa frumkvæði af könnun á fjölda og ástandi rotþróa í nágrenni vatns og vatnsbóla.

 

Aðgerðir heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga:

 1. Heilbrigðiseftirlitin geri reglulega ytri úttektir á innra eftirliti vatnsveitna sem er eftirlitsskylt og sjá til þess að það sé virkt til að starfsleyfi sé í gildi eins og segir í reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur. Og jafnframt að fylgja því eftir að innra eftirliti sé komið á þar sem það hefur ekki verið gert.
 2. Skila árlega skýrslu til Matvælastofnunar um niðurstöður á sýnatökum á neysluvatni sbr. lið 3 í aðgerðir opinberra stofnanna hér að ofan.
 3. Fylgja því eftir að vatnsveitur setji samþykktir um umgengni og verndun á vatnsverndarsvæðum eins og heimild er fyrir í lögum.
 4. Bæta samskipti á milli aðila sem bera ábyrgð á gæðum vatns s.s. heilbrigðiseftirlits, heilsugæslu, sóttvarnalæknis og vatnsveitna á svæðinu.

 

Aðgerðir vatnsveitna og samtaka þeirra:

 1. Uppfylla kröfur löggjafans og koma á virku innra eftirliti þar sem það hefur ekki verið gert.
 2. Gera leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að því að innleiða innra eftirlit hjá vatnsveitum og taka þar mið af niðurstöðum rannsókna á árangri af innra eftirliti hér á landi og erlendis.
 3. Tryggja reglulega framkvæmd innri úttekta á innra eftirlitinu t.d. með tölvuforriti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nú hefur verið þýtt að tilstuðlan Samorku – samtaka veitufyrirtækja.  
 4. Miðla reynslu til annarra vatnsveitna um innra eftirlit og sérstaklega aðstoða minni veiturnar í því ferli.

 

Sameiginlegar stuðningsaðgerðir:

 1. Koma á reglulegri fræðslu og þjálfun í fyrirbyggjandi aðgerðum og aðferðafræði við innra eftirlit til að koma í veg fyrir mengun neysluvatns fyrir bæði vatnsveitur og heilbrigðisfulltrúa og aðra þá sem bera ábyrgð á gæðum og heilnæmi neysluvatns.
 2. Styðja sérstaklega minni vatnsveitur með fræðslu og þjálfun nær heimabyggð og útgáfu á einföldum leiðbeiningum.
 3. Styðja rannsóknir sem lúta að verndun vatns s.s. eins rannsóknir á leka og ástandi neysluvatnslagna, vatnafræðilegar rannsóknir og rannsóknir á ferðalagi örvera í jarðvegi til að geta með meiri vissu ákvarðað stærð verndarsvæða vatnsbóla.

 

Samantekt

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að árangur af innra eftirliti vatnsveitna er umtalsverður og hefur haft áhrif bæði á gæði neysluvatns og lýðheilsu. Þær hafa einnig leitt í ljós að á sumum sviðum vantar að tryggja viðunandi árangur. Opinberir aðilar og vatnsveitur sem bera ábyrgð á íbúarnir fái heilnæmt vatn ættu að hafa frumkvæði að því að koma þessum málum í fastmótað form með aðgerðaráætlun.  Hér hefur verið bent á nokkur atriði þar sem aðgerða er þörf og ættu að vera hluti af þeirri áætlun.  Mikilvægustu þættirnir eru leiðbeiningar og þjálfun, bæði heilbrigðisfulltrúa og starfsmanna veitnanna í aðferðafræði fyrirbyggjandi innra eftirlits og mengunarhættu með áherslu á reglulegar ytri og innri úttektir til að halda gæðakerfunum virkum. Einnig þarf að tryggja betri skráningu og eftirfylgni á því hvernig veiturnar uppfylla reglugerð um vatnsgæði og skráningu á frávikum og vatnsbornum faröldrum.  Þær upplýsingar þarf að gera aðgengilegar notendum. Opinberir aðilar og veitur munu með þessu frumkvæði sýna að trygging á gæðum neysluvatns er forgangsverkefni og þar ráði fyrst og fremst heilsa og velferð íbúanna ferðinni.

 

Nánari upplýsingar:

Gunnarsdóttir, M.J. (2012). Safe drinking water: Experience with Water Safety Plans and assessment of risk factors in water supply (doctoral dissertation). Available at http://hdl.handle.net/1946/13274.

Gunnarsdottir, M.J., Gardarsson, S.M., Bartram, J. (2012). Icelandic Experience with Water Safety Plans. Water Science & Technology 65 (2), 277-288. 

Gunnarsdottir, M.J., Gardarsson, S.M., Elliott, M., Sigmundsdottir, G., Bartram, J. (2012). Benefits of Water Safety Plans: Microbiology, Compliance and Public Health. Environ. Sci. Technol., 2012, 46 (14), pp 7782–7789(Open access:   http://pubs.acs.org/doi/full/10.1021/es300372h)

Gunnarsdottir, M.J., & Gissurarson, L.R. (2008). HACCP and water safety plans in Icelandic water supply: Preliminary evaluation of experience. J Water Health, 6(3), 377-382.

Safe drinking water: Experience with Water Safety Plans and assessment of risk factors in water SupplyÖryggi neysluvatns: Reynsla af innra eftirliti vatnsveitna og áhættuþættir mengunar

María Gunnarsdóttir, 28/05/2012

Presentation of a doctoral dissertation:  Access to adequate and clean drinking water is one of the fundamentals of a good and prosperous society. A comprehensive regulatory framework as well as institutional guidelines and procedures are necessary to secure this at any time. Iceland was one of the first countries to categorize drinking water as food in legislation passed in 1995. According to the legislation water utilities are obligated to implement systematic preventive management, Water Safety Plan (WSP), to ensure good quality water in conjunction with the regular external control by the regulator. The aim of the research is to evaluate the effect of the legislation on the utilities and whether it has had a measurable effect on the quality of drinking water and on public health. Part of the research is to look at risk from microbiological pollution and how far it can travel with groundwater. This is accomplished by using a model that incorporates hydrological and geological factors and comparing the results with an actual faecal contamination of drinking water that caused a norovirus outbreak in Iceland. The results of the research confirm several quantifiable beneficial effects of WSP on water quality and public health as well as on operation of water utilities. It analysis what has to be in place for successful operation of WSP and what obstacles were significant.

Kynning á doktorsverkefni:  Aðgangur að nægu og hreinu drykkjarvatni er ein af undirstöðum velferðar í hverju samfélagi. Mikilvægt er að tryggja að vatn njóti verndar bæði lagalega og í allri umgengi um vatnsauðlindina. Ísland flokkaði neysluvatn sem matvæli í matvælalöggjöf 1995. Með þeirri löggjöf voru lagðar skyldur á vatnsveitur að beita kerfisbundu fyrirbyggjandi innra eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns samhliða lögbundnu ytra eftirliti heilbrigðiseftirlits og var þar meðal fyrstu þjóða til að lögleiða innra eftirlit. Markmið þessarar rannsóknar er að meta áhrif þessarar lagasetningar á vatnsveitur og hvort þeirra áhrifa gæti í gæðum vatnsins og í heilsufari íbúa. Einnig eru skoðaðir áhættuþættir lífrænnar mengunar og hversu langt hún getur borist með grunnvatni og notað líkan sem byggir á vatnafræðilegum og jarðfræðilegum aðstæðum og niðurstöður bornar saman við saurmengun neysluvatns sem olli nóróveirufaraldri hér á landi fyrir nokkrum árum.  Niðurstöðurnar sýna tölfræðilega marktækan mun á bæði betri neysluvatnsgæðum og bættri heilsu íbúa þar sem vatnsveitur hafa sett upp innra eftirlit. Rannsóknin leiddi einnig í ljós ávinning af innra eftirliti í rekstri vatnsveitna, hvað þarf að vera til staðar til að það virki vel og hverjar hindranirnar eru.