Vinnustofa með nemendum og kennurum Forfatterskolen

Screen Shot 2016-04-24 at 13.11.14

Eins og ritlistarnemar við HÍ gefa nemendur Forfatterskólans út útskriftarrit árlega.

Forfatterskolen í Kaupmannahöfn, einn þekktasti ritlistarskóli á Norðurlöndum, er nú í heimsókn á Íslandi. Með í för eru allir nemendur skólans og þrír kennarar, alls fimmtán manns. Tilgangurinn með heimsókninni er að kynnast íslenskum bókmenntum og menningu. Í þeim tilgangi hitta þau íslenska höfunda, taka þátt í viðburðum tengdum bókmenntum og ferðast um landið. Þau mættu til dæmis dæmis á útgáfukvöld Tunglsins 22. apríl.

Fyrr um daginn var efnt til sameiginlegrar vinnustofu með ritlistarnemum við HÍ og nemendum Forfatterskolen. Þema vinnustofunnar var sameiginleg saga Íslands og Danmerkur og sem kveikju notuðum við ávarp sem Halldór Laxness flutti þegar hann fékk Sonningverðlaunin við Hafnarháskóla árið 1969. Ótrúlega nútímalegt ávarp sem segir margt um sameiginlega sögu þessara landa, ekki síst á sviði menntunar og ritlistar. Rætt var um þessi mál í rúman klukkutíma. Síðan lásum við saman verk eftir tvo nemendur frá hvorum skóla, verk sem höfðu verið þýdd eða frumsamin á ensku. Þetta gekk ótrúlega vel og tóku nemendur beggja skóla virkan þátt í umræðum.

Fimmtudaginn 28. apríl klukkan 17 munu þessir hópar leiða saman hesta sína á ný. Þá verður efnt til upplestrar á Stofunni að Vesturgötu 3. Þá er meiningin að fimm nemar úr hvorum skóla lesi upp stutta texta á ensku auk þess sem Kristín Ómarsdóttir og ónefnt danskt skáld munu einnig koma fram.

Það er mikils virði fyrir ritlistarnámið hér á Íslandi að geta átt í samskiptum við nemendur og höfunda frá öðrum löndum og á það hef ég lagt talsverða áherslu í mínu starfi. Í þeim tilgangi heimsótti ég einmitt Forfatterskolen fyrir nokkrum árum og þá kviknaði þessi hugmynd að þau kæmu til Íslands en þau fara utan árlega til þess að víkka sjóndeildarhring nemenda sinna.

Verk Jónasar Reynis sýnt í Nemendaleikhúsinu

Screen Shot 2016-04-24 at 12.14.07Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands auglýsti í fyrravor eftir leikverkum handa útskriftarnemum sínum 2016 og var verk eftir hinn nýútskrifaða ritlistarnema Jónas Reyni Gunnarsson valið til sýninga. Verkið fékk heitið Við deyjum á Mars og var frumsýnt 22. apríl síðastliðinn. Það verður sýnt á hverju kvöldi til og með 3. maí. Miða má panta í gegnum netfangið midisvidslist@lhi.is.

Útskriftarefni eru: Aldís Amah Hamilton, Alexander Erlendsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Íris Tanja Flygenring, María Dögg Nelsson, María Thelma Smáradóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Snæfríður Ingvarsdóttir. Gestaleikkona í myndbandi er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Leikstjóri er Stefán Jónsson, fagstjóri leikarabrautar. Tónlist og hljóðmynd er á vegum Árna Rúnars Hlöðverssonar. Leikmynd, búninga og leikmuni sér Aron Bergmann Magnússon um. Leikmyndarsmiður er Egill Ingibergsson.
Handritsráðgjöf veittu Óskar Jónasson, Margrét Örnólfsdóttir.

Að koma verkum sínum á framfæri í Ameríku

Kevin LarimerFimmtudaginn 14. apríl flutti Kevin Larimer hádegiserindi í Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um mismunandi leiðir að útgáfu bókmenntatexta. Kevin er aðalritstjóri Poets & Writers, stærstu samtaka í Bandaríkjunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, sem þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta.

Kevin spjallaði um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu, allt frá bókmenntatímaritum, ritlistarsamkeppnum til umboðsmanna og útgefenda. Hann ræddi einnig um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum. Að lokum gaf hann íslenskum höfundum nokkur ráð um hvernig ætti að koma þýðingum á íslenskum verkum á framfæri hjá tímaritum og útgáfuhúsum í Bandaríkjunum.

Að erindinu stóðu Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Iceland Writers Retreat í samvinnu við námsbraut í ritlist við Háskóla Íslands.

Umsóknarfrestur um meistaranám í ritlist að renna út

Uppskriftabok2015 kapa

Árlega gefa ritlistarnemar út safnrit. Hér er bókin frá því í fyrra.

Umsóknarfrestur um meistaranám í ritlist rennur út 15. apríl. Umsóknum þurfa að fylgja ritsýni sem gefi góða mynd af umsækjanda sem höfundi. Þau mega vera ljóð, smásögur, brot úr leikþætti, sannsaga eða hvaðeina sem umsækjandi telur lýsa sér; hámark 30 síður. Útgefnir höfundar sem óútgefnir eru velkomnir. Rétt er að hvetja umsækjendur til að vanda frágang.

Þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins og tveimur fulltrúm sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, velur síðan úr innsendum umsóknum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir upp úr miðjum maí.

Ritlist hefur verið kennd á meistarastigi frá 2011 og alls hafa hátt í hundrað manns stundað námið á þeim tíma. Á hverju ári eru teknir inn um 20 nýnemar. Útskriftarnemar okkar hafa gefið út fjölda bóka á undanförnum árum og unnið til eða verið tilnefndir til allra helstu bókmenntaverðlauna landsins.