Vinnustofa með nemendum og kennurum Forfatterskolen

Screen Shot 2016-04-24 at 13.11.14

Eins og ritlistarnemar við HÍ gefa nemendur Forfatterskólans út útskriftarrit árlega.

Forfatterskolen í Kaupmannahöfn, einn þekktasti ritlistarskóli á Norðurlöndum, er nú í heimsókn á Íslandi. Með í för eru allir nemendur skólans og þrír kennarar, alls fimmtán manns. Tilgangurinn með heimsókninni er að kynnast íslenskum bókmenntum og menningu. Í þeim tilgangi hitta þau íslenska höfunda, taka þátt í viðburðum tengdum bókmenntum og ferðast um landið. Þau mættu til dæmis dæmis á útgáfukvöld Tunglsins 22. apríl.

Fyrr um daginn var efnt til sameiginlegrar vinnustofu með ritlistarnemum við HÍ og nemendum Forfatterskolen. Þema vinnustofunnar var sameiginleg saga Íslands og Danmerkur og sem kveikju notuðum við ávarp sem Halldór Laxness flutti þegar hann fékk Sonningverðlaunin við Hafnarháskóla árið 1969. Ótrúlega nútímalegt ávarp sem segir margt um sameiginlega sögu þessara landa, ekki síst á sviði menntunar og ritlistar. Rætt var um þessi mál í rúman klukkutíma. Síðan lásum við saman verk eftir tvo nemendur frá hvorum skóla, verk sem höfðu verið þýdd eða frumsamin á ensku. Þetta gekk ótrúlega vel og tóku nemendur beggja skóla virkan þátt í umræðum.

Fimmtudaginn 28. apríl klukkan 17 munu þessir hópar leiða saman hesta sína á ný. Þá verður efnt til upplestrar á Stofunni að Vesturgötu 3. Þá er meiningin að fimm nemar úr hvorum skóla lesi upp stutta texta á ensku auk þess sem Kristín Ómarsdóttir og ónefnt danskt skáld munu einnig koma fram.

Það er mikils virði fyrir ritlistarnámið hér á Íslandi að geta átt í samskiptum við nemendur og höfunda frá öðrum löndum og á það hef ég lagt talsverða áherslu í mínu starfi. Í þeim tilgangi heimsótti ég einmitt Forfatterskolen fyrir nokkrum árum og þá kviknaði þessi hugmynd að þau kæmu til Íslands en þau fara utan árlega til þess að víkka sjóndeildarhring nemenda sinna.