Alþjóðleg ráðstefna um óskálduð skrif haldin í Reykjavík 2017

Alþjóðlega ritlistarráðstefnan NonfictioNOW verður haldin í Reykjavík 2.–4. júní 2017. Eins og heiti hennar gefur til kynna er hún helguð óskálduðu efni af ýmsu tagi. Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu sinnar tegundar í heiminum en síðast þegar hún var haldin, í Flagstaff í Arizona, sóttu hana yfir 500 manns. Sambærilegur bókmenntaviðburður hefur ekki verið haldinn áður á Íslandi og því er mikill Logo Reykjavik 2017fengur að ráðstefnunni fyrir íslenskt bókmennta-samfélag. Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands en boðsfyrirlestrar verða í Hörpu og gefst öðrum en skráðum ráðstefnugestum kostur á að sækja þá gegn vægu gjaldi.

Að jafnaði sækja ráðstefnuna 400–500 manns hvaðanæva úr heiminum, höfundar, kennarar og stúdentar. Í málstofum eru tekin til umræðu hin mýmörgu form óskáldaðra skrifa, frá vídeóesseyjum til minningabóka og bókmenntalegrar blaðamennsku. Boðsfyrirlesarar eru þekktir höfundar úr þessum geira og meðal þeirra sem talað hafa á fyrri ráðstefnum má nefna Cheryl Strayed, Helen Garner, David Shields, Richard Rodriguez, Patricia Hampl, Phillip Lopate, Alison Bechdel, Rebecca Solnit og John Edgar Wideman.

Á ráðstefnunni í Reykjavík er gert ráð fyrir einum íslenskum boðsfyrirlesara og þremur erlendum. Búast má við 70–80 málstofum og viðburðum í tengslum við ráðstefnuna. Kallað verður eftir innslögum síðar á þessu ári og gefst þá íslenskum höfundum og fræðimönnum kostur á að senda inn tillögur að málstofum. Gert er ráð fyrir sérstökum málstofum um íslenskar bókmenntir úr þessum geira.

Heimasíða hefur verið sett upp fyrir ráðstefnuna í Reykjavík: http://www.nonfictionow.org/

Einnig má finna hóp á Facebook sem helgaður er ráðstefnunni: Friends of NonfictioNOW.

Stjórn ráðstefnunnar er skipuð rithöfundum og ritlistarkennurum frá Ástralíu, Íslandi, Singapore og Bandaríkjunum. Í henni sitja: Robin Hemley, stofnandi og forseti, David Carlin, varaforseti, Nicole Walker, varaforseti, Rúnar Helgi Vignisson, Alison Barker, Patrick Madden, Stacy Anne Murison, Elena Passarello og Heidi Stalla.

Ráðstefnan verður haldin á vegum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í íslensku ráðstefnustjórninni sitja Ásdís Sigmundsdóttir, aðjunkt í bókmenntafræði (ags@hi.is), Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði (gautikri@hi.is), og Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist (rhv@hi.is). Þeim til halds og trausts verður Margrét Guðmundsdóttir (mgu@hi.is), verkefnastjóri hjá Hugvísindastofnun.