Nú eru það afrískar smásögur

Fjórða bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins er nú komið út hjá bókaforlaginu Bjarti. Bindið geymir nítján sögur frá sautján löndum Afríku. Sú elsta er frá 1952 en sú yngsta frá 2017. Meðal þekktra höfunda sem eiga sögu í bindinu má nefna Nadine Gordimer, J. M. Coetzee, Naguib Mahfouz og Chimamanda Ngozi Adichie.

Flestir höfundanna hafa hins vegar aldrei komið við sögu á íslenskum bókamarkaði áður. Fyrir mig persónulega er sérstaklega gaman að geta birt Íslendingum sögur frá löndum eins og Marokkó, Tansaníu, Botsvana, Simbabve, Fílabeinsströndinni, Angóla, Kamerún, Sómalíu, Líbíu, Alsír og Túnis, svo dæmi séu nefnd, enda er afar sjaldgæft að sögur frá þessum löndum séu þýddar á íslensku.

Fyrir milligöngu J. M. Coetzees bauðst mér að dvelja í þekkingarsetri í Suður-Afríku í mánaðartíma við undirbúning bindisins. Þar hafði ég aðgang að góðu bókasafni sem var ómetanlegt þegar kom að því að semja inngang og kynningar á höfundum. Auk þess gat ég þar borið sagnavalið undir ýmsa sem höfðu sérþekkingu á afrískum bókmenntum. Einnig sótti ég bókmenntahátíð og hitti þá m.a. einn af höfundum bindisins, Lauri Kubuitsile frá Botsvana.

Ég segi í innganginum að í sögum bindisins endurspeglist margt af því sem Afríka og íbúar hennar hafi gengið í gegnum undanfarnar aldir. Eitt af því veigamesta er nýlendusaga álfunnar en næstum öll lönd Afríku hafa á einhverju tímabili lotið stjórn evrópskra nýlenduherra. Það skýrir af hverju svo margir höfundanna í þessu bindi hafa kosið að skrifa sögur sínar á málum sem eru upprunnin í Evrópu. Nýlenduarfleifðin er daglegt viðfangsefni í flestum löndum álfunnar og ekki alltaf auðveld viðfangs.

Ellefu þýðendur leggja okkur lið í þessu bindi og þýða þeir úr fjórum tungumálum, arabísku, portúgölsku, frönsku og ensku. Það eru, auk okkar ritstjóranna, þau Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Janus Christiansen, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Þórir Jónsson Hraundal. Við þökkum þeim kærlega fyrir alúðina sem þau hafa lagt í vinnu sína. Sjálfur þýddi ég sögur frá Egyptalandi, Simbabve, Tansaníu og tvær frá Suður-Afríku. Í þeim fáu tilfellum þar sem ekki tókst að þýða beint úr frummáli voru fengnir lesarar sem gátu borið íslensku þýðinguna saman við frumtextann.

Ritstjórar ritraðarinnar með mér eru þau  Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir og hefur samstarfið verið einstaklega gefandi. Fjögur bindi eru nú komin út á jafn mörgum árum og enginn bilbugur á ritstjórunum sem vinna nú hörðum höndum að síðasta bindinu, því evrópska.