Rannsóknir

Ég starfa sem forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi og rannsóknir mínar eru nátengdar starfi setursins. Í rannsóknum okkar leitum við betri skilnings á áhrifum umhverfisbreytinga, svo sem hlýnunar og landnotkunar, á dýrastofna og landvistkerfi. Íslenskir mófuglar, einkum vaðfuglar, hafa verið okkar helsta viðfangsefni.

Aukin sókn manna í auðlindir náttúrunnar og fólksfjölgun á heimsvísu valda því að yfir stendur ein mesta hrina útdauða tegunda í jarðsögunni. Það tímabil jarðasögunnar sem nú stendur yfir er kennt við manninn (mannöldin Anthropocene) og einkennist af tapi á lífbreytileika vegna beinna (s.s. eyðingar búsvæða og ofveiði) og óbeinna (s.s. loftslagsbreytinga) umhverfisáhrifa. Þrátt fyrir að fjöldi tegunda gegni mikilvægum og vel þekktum hlutverkum í vistkerfum og sé mikils metinn af mönnum eru engin merki á lofti um að dragi úr hnignun lífbreytileika. Að bæta skilning á eðli og áhrifum umhverfisbreytinga á lífverur og vistkerfi er því afar brýnt og ein helsta áskorun vistfræðinnar.

Umhverfi lífvera er margbreytilegt í tíma og rúmi og sú fjölbreytni hefur mikil áhrif á stofna. Í þéttbýlum löndum felur landnotkun manna oft undirliggjandi breytileika í náttúrufari en landnotkun og náttúrulegir ferlar spila saman á mismunandi mælikvörðum og oft er erfitt að greina á milli. Þéttleiki fólks á Íslandi er enn afar lágur en breytileiki í náttúrufari, einkum hvað varðar jarðfræði og veðurfar mikill. Norðlæg staða Íslands þar sem kaldir og hlýir hafstraumar mætast og sú eldvirkni sem fylgir Atlantshafshryggnum skapa einstök tækifæri til að rannsaka áhrif ýmissa náttúrulegra ferla á stofnvistfræði dýra. Ýmsar rannsóknir á tengslum náttúrulegra ferla og stofnbreytinga dýra hafa verið gerðar á síðustu árum sem nýta þessar óvenjulegu aðstæður á Íslandi.