Samstarfnefnd Nordursloda

Her eru markmid samstarfssjods Nordursloda a vegum Norraenu radherranefndarinnar:

Samstarfsáætlun um norðurskautssvæðið 2015-2017 (ráðherranefndartillaga til Norðurlandaráðs)

1. Inngangur

Á norðurskautssvæðinu gerast breytingarnar hratt og vandinn verður sífellt sýnilegri. Loftslagsbreytingar í heiminum valda náttúru og íbúum norðurskautssvæðisins miklum erfiðleikum. Meðalhitastig á norðurskautssvæðinu hækkar, ísbreiðan og hafísinn bráðna og opna aðgang að náttúruauðlindum á svæðinu. Þetta hefur afleiðingar fyrir náttúruna, samfélag og íbúa á norðurskautssvæðinu en skapar jafnframt ný tækifæri. Nýjar siglingaleiðir, vaxandi orkuþörf heimsins og tækniþróun gerir að verkum að hægt er að nýta auðlindir við þær erfiðu aðstæður sem ríkja á norðurslóðum. Norðurlönd vilja að við nýtingu þessara nýju tækifæra sem eru að skapast verði einstakri og viðkvæmri náttúru norðurskautssvæðisins sýnd virðing og tillitssemi. Jafnframt þarf að standa vörð um lífskjör og þróun íbúa á norðurslóðum. Sjálfbær atvinnulífsþróun og uppbygging nútímavelferðarsamfélags til hagsbóta fyrir íbúana er lykilatriði.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norðurskautssvæðið hefur frá árinu 1996 skilað sér í hundruðum verkefna, í starfsemi af ýmsu tagi á norðurskautssvæðinu og pólitískum aðgerðum sem snerta allt frá lofslagsbreytingum, umhverfi og náttúru, og sjálfbærri þróun til heilbrigðis, menningar og færniþróunar. Starfsemin hefur eitt sameiginlegt markmið: Að stuðla að sjálfbærri þróun þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni og velferð íbúa norðurskautssvæðisins.

Samstarfsáætlunin fyrir norðurskautssvæðið kemur til viðbótar við aðrar áætlanir, stefnumið og starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar sem snertir málefni svæðisins.

2. Markmið samstarfs Norðurlanda um norðurskautssvæðið

Norðurlönd ætla að tryggja sjálfbæra þróun á norðurskautssvæðinu

Sjálfbær þróun á norðurskautssvæðinu snýst um það að ná jafnvægi milli ábyrgðarfullrar stýringar á náttúruauðlindunum annars vegar og hins vegar atvinnulífsþróunar sem kemur íbúunum til góða. Breytingarnar á norðurslóðum geta haft í för með sér breytingar á hefðbundnum lífsháttum, búsetumynstri, uppbyggingu atvinnulífs, náttúru og umhverfi. Jafnframt eru mikil tækifæri til verðmætasköpunar, til dæmis við olíu- og gasvinnslu, námugröft, siglingar, fiskveiðar og ferðamennsku. Norðurlönd vilja að við nýtingu á þeim nýju tækifærum sem skapast á norðurskautssvæðinu verði náttúrunni og umhverfinu sýnd virðing og að staðinn verði vörður um lífskjör og þróun íbúanna.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautssvæðisins 2015-2017 á að stuðla að sjálfbærri þróun á norðurslóðum sem lifandi svæði. Markmið samstarfsáætlunarinnar fyrir norðurskautssvæðið er að styðja ferli, verkefni og framtak sem getur stuðlað að sjálfbærri þróun fyrir íbúa norðurslóða við þau skilyrði sem alþjóðavæðingin og loftslagsbreytingarnar móta.

Norræna ráðherranefndin hefur áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu og norrænu ríkin leggja öll áherslu á að ráðið og starfsemi þess hafi sterka stöðu. Samstarfsáætlun Norðurlanda um norðurskautssvæðið á að styrkja stöðu áherslumála Norðurlanda í Norðurskautsráðinu. Samstarfsáætlunin á að efla þróun Norðurlanda á norðurskautssvæðinu og skapa norrænt notagildi, þar á meðal með því að styðja starfsemi og verkefni Norðurskautsráðsins.

3. Þemu samstarfsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar um norðurskautssvæðið

Í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norðurskautssvæðið 2015-2017 er lögð á áhersla á eftirfarandi þemu.

Íbúarnir
Takast þarf á við ýmis úrlausnarefni í tengslum við þéttbýlismyndun og breytta lífshætti á norðurslóðum og samstarfsáætlunin um norðurskautssvæðið mun stuðla að því að fundnar verði góðar lausnir á viðfangsefnum sem snerta lýðfræðilega þróun, búsetumynstur, borgarskipulag og hreyfanleika. Áhrif breytinganna á norðurskautssvæðinu eru mismunandi fyrir karla og konur og jafnrétti er forsenda fyrir sjálfbærri þróun samfélaganna á norðurslóðum. Samstarfsáætlunin styður verkefni sem tengjast aðgangi að hefðbundnum mat, vatns- og matvælaöryggi og aðgerðir sem stuðla að bættri lýðheilsu. Sérstök áhersla er lögð á lífskjör frumbyggja og aðlögun þeirra að nýjum aðstæðum sem verða til vegna loftslagsbreytinga, alþjóðavæðingar og nýrra atvinnutækifæra. Aðgerðir sem efla menningar- og félagsauð íbúa á norðurskautssvæðinu og aðgerðir sem tengjast og styrkja þátttöku og áhrif barna og ungmenna í samfélaginu geta hlotið stuðning.

Samstarfsáætlunin um norðurskautssvæðið er þverfagleg og á að stuðla að því að sameina og samhæfa aðgerðir sem unnið er að á mismunandi sviðum og sem tengjast norðurskautssvæðinu á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og stofnana og vinnuhópa hennar.

Sjálfbær atvinnuþróun
Samstarfsáætlunin um norðurskautssvæðið mun styðja við sjálfbæra atvinnuþróun á norðurslóðum sem getur eflt grundvöll hugsanlegra nýrra atvinnutækifæra á öllu svæðunum kringum Norðurskaut og hjálpað til við að takast á við þau úrlausnarefni sem fylgja fjölbreyttara atvinnulífi á norðurskautssvæðinu. Samstarfsáætlunin mun stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, nýsköpun og grænum vexti, til dæmis hvað varðar siglingar, öryggi á sjó, fiskveiðar, ferðamennsku og sjálfbæra orku. Áhersla verður lögð á samspil atvinnulífs og samfélags, þar á meðal verkefni á sviði félagslegrar ábyrgðar atvinnulífsins (CSR).

Umhverfi, náttúra og loftslag
Samstarfsáætlunin um málefni norðurskautssvæðisins á að styrkja starf að málefnum sem snerta umhverfi og náttúru til að takast á við þau úrlausnarefni sem fylgja starfsemi manna innan og utan norðurskautssvæðisins, og að stuðla að varðveislu sérstæðrar og fjölbreytilegrar náttúru norðurskautssvæðisins. Samstarfsáætlunin mun styðja starfsemi sem eykur þekkingu á úrlausnarefnum sem snerta umhverfi og náttúru og sem stuðlar að aukinni þekkingu og fræðslu um það sem hægt er að gera staðbundið og svæðisbundið til að koma í veg fyrir eyðileggingu umhverfis, náttúru og sjávar á norðurskautssvæðinu.

Alþjóðlegar loftslagsbreytingar hafa sérlega víðtæk áhrif á norðurslóðum. Þess vegna þarf samstarfsáætlunin um málefni norðurskautssvæðisins að styðja við starfsemi sem veitir og miðlar þekkingu um það hvernig loftslagsbreytingarnar verða og hvaða áhrif þær hafa á norðurslóðum. Áætlunin mun styðja verkefni sem tengjast aðlögun og athuganir á því hvað hægt er að gera staðbundið og svæðisbundið til að draga úr neikvæðum áhrifum hlýnunar jarðar og losunar gróðurhúsalofttegunda og eiturefna í umhverfið.

Menntun og færniþróun
Samstarfsáætlunin um málefni norðurskautssvæðisins á að leggja lið verkefnum sem miða að aukinni menntun og færniþróun íbúanna, þar á meðal á grasrótarstigi og í starfsemi samtaka á norðurskautssvæðinu. Það felst meðal annars í því að efla samstarfsnet um nám og hæfni til að taka þátt í lýðræðislegum ferlum; færniþróun og aukningu afkastagetu í stað- og svæðisbundinni stjórnsýslu; þróun staðbundinnar þekkingar á sviði upplýsingatækni; og öðrum ráðstöfunum sem geta stutt íbúa norðurskautssvæðisins í áframhaldandi þróun sjálfbærs samfélags.

4. Áherslur í samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norðurskautssvæðið 2015-2017

Áhersla verður lögð á eftirfarandi atriði sem tengjast þemunum fjórum á tímabilinu 2015-2017:
– Starfsemi sem stuðlar að norrænu notagildi á norðurskautssvæðinu í tengslum við þau markmið, þemu og skilyrði sem koma fram í samstarfsáætluninni fyrir norðurskautssvæðið.
– Starfsemi sem er í samræmi við pólitískar áherslu í Norrænu ráðherranefndinni og áætlunum norrænu landanna fyrir norðurskautssvæðið.
– Starfsemi sem leggur starfi Norðurskautsráðsins lið, þar á meðal vinnuhópum og tímabundnum starfshópum Norðurskautsráðsins.

Norræna samstarfsnefndin (NSK) getur, innan ramma norrænu samstarfsáætlunarinnar um norðurskautssvæðið, árlega valið ákveðin áherslusvið til að tryggja að heildarsýn ráði við notkun fjármunanna.

5. Viðmið fyrir samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norðurskautssvæðið 2015-2017

Framkvæmd samstarfsáætlunarinnar um norðurskautssvæðið á eins og kostur er að fara fram með þátttöku íbúa og aðila á norðurskautssvæðinu, sérstaklega frumbyggja. Við mat á umsóknum verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

– Hvort umsóknin samræmist markmiðum og þemum áætlunarinnar.
– Hvort umsóknin sé í samræmi við starfsemi og áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar á þessu sviði.
– Hvort umsóknin hafi staðbundnar/svæðisbundnar rætur og stuðning.
– Hvort eiginfjármögnun sé þáttur í umsókninni og fari saman við aðra fjármögnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.
– Hvort umsóknin feli í sér framlag til faglegrar þekkingar og þróunar á viðkomandi sviði.
– Hvort umsóknin feli í sér norrænt notagildi og efli samstarfsnet á Norðurlöndum og norðurskautssvæðinu.
– Hvort umsóknin tilgreini norrænan verkefnastjóra og hvort þrjú norræn lönd hið minnsta taki þátt, sbr. gildandi reglur Norrænu ráðherranefndarinnar um verkefnastarf.
– Hvort jafnréttissjónarmið eru innbyggð í umsóknina.