Námsmat

1. WordPress vefur og tímaverkefni (30%)

Hver nemandi stofnar vef á WordPress.com og hefur frjálst val um sniðmát.

Vefurinn þarf að innihalda a.m.k. tólf síður eða færslur. Ein af síðunum á að heita Verkefni og þar eiga að birtast verkefni sem sett verða fyrir í tímum (sjá kennsluáætlun) og stóra vefgreiningarverkefnið sem fjallað er um í lið 2.

Efnistök á vefnum eru frjáls, en hafið skýr markmið með honum. Þetta getur til dæmis verið umfjöllun um ykkur sjálf, náms- og starfsferil, áhugamál og efni því tengt. Eða fréttavefur. Eða ímyndað fyrirtæki sem þið ætlið að stofna. Eða hvað sem er. Hafið markmiðin einungis skýr.

Í lok námskeiðsins verður lagt mat á vefinn og eftirfarandi haft til grundvallar:

 1. Er búið að stofna vefinn?
 2. Eru tímaverkefni öll inni á honum? (Sjá fyrir neðan).
 3. Uppbygging forsíðu
 4. Styður skipulag og efni við markmiðin
 5. Framsetning efnis á vefnum (texti, tenglar og myndefni)

Tímaverkefni sem eiga að vera á vefnum:

 1. Gera einn dæmigerðan notanda og notendasögu hans. Notandi og saga hans fyrir einn af neðangreindum vefjum (13. sept):
  1. https://www.tr.is
  2. https://hagstofa.is
  3. https://www.syslumenn.is
  4. https://www.utl.is
  5. https://www.logreglan.is
  6. https://www.stjornarradid.is
 2. Vefstefna / Drög að vefstefnu (13. sept).
 3. Greinargerð um mun á ferð og flæði notenda (27. sept).
 4. Greinargerð um flokkunaræfingu (4. okt).
 5. Stytta texta um helming og gera vefvænni (1. nóv). - sjá síðast í glærum dagsins.

Skil á verkefni: 2. desember.


2. Vefgreining (50%)

Verkefnið byggir á greiningu á íslenskum vef sem nemandi rýnir og skilar ítarlegri skýrslu. Samhliða þarf að gera samanburð við forsíðu annars sambærilegs vefs og sá vefur má vera erlendur.

Nemandi getur komið með tillögu að vef sem hann vill skoða eða kennarar úthlutar verkefni. Þetta geta verið vefir fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga eða félagasamtaka, valið er nokkuð opið. Vefir fjölmiðla og fréttavefir henta aftur á móti ekki vel í þessa greiningu.

Látið vita fyrir 11. október hvaða vefur og samanburðarvefur verða fyrir valinu.

Fjallið um vefinn út frá verkefnalýsingu hér fyrir neðan. Setjið saman niðurstöður ykkar í skýrslu (hámark 10 síður ef skýrsla væri sett upp í Word) ásamt skýringarmyndum og birtið á WordPress-vefnum ykkar. Hafið vefvæna framsetningu í huga við vinnslu verkefnisins.

Hafið einn flokk í leiðarkerfi vefsins sem heitir Verkefni. Setjið niðurstöður úr greiningunni þar undir.

Hafið umfjöllunina fyrst og fremst fræðilega fyrir utan lýsingu á eigin upplifun, styðjist við og vísið til lesefnis á námskeiðinu.

VERKEFNASKIL: Birtið greininguna á vefnum ykkar í síðasta lagi 18. nóvember. (Athugið að vefurinn þarf ekki að vera tilbúinn að öðru leyti fyrir þann tíma). Látið vita um leið hvaða fyrirkomulag þið viljið hafa á kynningu: örfyrirlestur eða myndband. (liður i).

Lýsing á verkefninu er í nokkrum hlutum (a til i). Styðjast má við þessa skiptingu í skýrslunni en þess þarf ekki. Gætið þess þó að öllum hlutum í henni séu gerð skil.

a. Viðtal við vefstjóra

Hafið samband við vefstjóra vefsins (eða annan ábyrgðarmann) og óskið eftir viðtali. Spyrjið vefstjóra út í:

 • markmið með vefnum
 • hvort vefurinn hafi vefstefnu og reglur um ritstjórn / skrif
 • hverjir séu markhópar
 • hve margir koma að vefnum innan fyrirtækisins
 • spyrjið um plön til næstu 2-3 ára og aðra þætti sem þið teljið að nýtist ykkur við gerð skýrslunnar

Helstu niðurstöður úr viðtali settar fram í skýrslunni.

b. Vefgreining - punktar

 • Hvaða áhrif hafði vefurinn á þig (first impression)? Talið út frá tilfinningu ykkar.
 • Hvað var það sem þið fyrst tókuð eftir?
 • Hvaða áherslur eru á forsíðunni?
 • Hversu auðvelt er að átta sig á megin markmiðum vefsins skv. viðtali við vefstjóra?
 • Endurspeglar forsíðan hlutverk og markmið vefsins?
 • Greinið skipulag vefsins. Þjónar hann þörfum notenda að ykkar mati?
 • Eru flokkar lýsandi og endurspegla hlutverk vefsins?
 • Hvernig kemur vefurinn út í snjallsíma og spjaldtölvu? Takið dæmi / skjáskot.

c. Sex lykilatriði í vefhönnun skv. Steve Krug

Steve Krug (Don‘t Make Me Think) segir að hönnun vefs eigi að vera miðuð við skönnun, ekki lestur. Sex mikilvæg atriði eru nefnd í bókinni. Uppfyllir FORSÍÐA vefsins þessar kröfur?

 1. Er skýr virðingarröð á forsíðu?
 2. Er skýr notkun á hefðum?
 3. Eru skýrt afmarkaðir þættir á síðunni?
 4. Er augljóst hvar megi smella?
 5. Er lítið af truflunum?
 6. Er efnið skannanlegt?

Lesið nánar um þessi áhersluatriði hjá Steve Krug í bókinni Don‘t Make Me Think, 3. kafla.

d. Samanburðargreining á FORSÍÐU annars vefs

Auk greiningar á vef eigið þið að bera FORSÍÐU vefsins sem er til skoðunar saman við forsíðu annars sambærilegs vefs (t.d. í samkeppni) út frá sömu sex atriðum Steve Krugs.

e. Framsetning á efni

Greinið framsetningu efnis á vefnum. Takið fyrir þrjár síður og/eða fréttir sem dæmi um meðferð texta, mynda og umbrots. Hvað er vel gert? Hvað má betur fara?

Setjið þessar þrjár síður upp á nýtt út frá því sem þið hafið lært í námskeiðinu um framsetningu efnis og birtið á vefnum ykkar.

f. Notendaprófun

 • Fáið fjóra notendur til að taka þátt í einfaldri notendaprófun, eða svokallaðri skæruliðaprófun, á vefnum. Þið getið sett upp prófun í beinu framhaldi af tímanum 11. október.
 • Fylgið leiðbeiningum frá kennslu og í lesefni
 • Helstu niðurstöður úr prófunum settar fram í skýrslunni. Tilgreinið hvaða úrbætur / lagfæringar mætti gera á vefnum út frá niðurstöðum prófana
 • Tilgreinið hvernig þið völduð notendur, hverjir tóku þátt (aldur, kyn, staða en ekki nöfn) og hvar prófanir fóru fram
 • Það er nóg að biðja notendur um að leysa verkefni á vefnum í tölvu. Fáið notendur til að lýsa upplifun sinni af vefnum í síma þó þeir leysi ekki öll verkefnin
 • Lýsið því hvaða verkefni notendur fengu og hvernig verkefnin gengu. Gott er að tilgreina, ef þið hafið tímamælingar, hvort verkefni hafi verið lokið og annað sem þið tókuð eftir
 • Allir þátttakendur þurfa að fá sömu verkefni

g. Aðgengisprófun

Greinið vefinn skv. WAVE mælingu - http://wave.webaim.org - og túlkið niðurstöðuna út frá því sem þið hafið lært um kröfur til aðgengis á vef (sbr. fyrirlestrar 25. október).

 1. Ná í WAVE plugin/extension í vafra eða fara inn á wave.webaim.org og slá inn lénið sem á að prófa. Nóg er að skoða forsíðu vefsins en tólið mælir hverja síðu fyrir sig.
 2. Skrá niður hve margar villur (errors) eru á vefnum og túlka þær eins og mögulegt er, þ.e. útskýra hvaða villur þetta eru og af hverju þær skipta máli. Allar þessar upplýsingar er að finna í WAVE tólinu. Tólið er keyrt í gegnum vefinn og þegar því er lokið er hægt að smella á fánann vinstra megin til að sjá villurnar. Við hverja villu er merkt hve oft hún kemur fyrir og blátt icon við hliðina á sem er hægt að smella á og fá nánari upplýsingar um hverja villu fyrir sig. Allt sem er rautt eru villur, gult eru viðvaranir. Sjá nánar hér: wave.webaim.org/help.
 3. Skoða skerpu/contrast á vefnum. Eru einhverjar contrast villur á vefnum? Hver margar eru þær þá? Contrast upplýsingarnar eru valdar efst í tólinu fyrir miðju.
 4. Athuga fyrirsagninar. Eru þær í réttri röð eða kvartar WAVE undan þeim? Hvaða stig (e. level - H1, H2...) vantar þá? Til að sjá upplýsingar um fyrirsagnirnar er iconið af blaði sem er neðst í leiðakerfinu vinstra megin valið.

h. Hraði vefsins

Mælið hraða vefsins skv. Google PageSpeed Insights og túlkið niðurstöðuna, þ.e. hvar úrbóta er þörf (eins og þið treystið ykkur til. Ekki er þörf á að fara í tæknilegar lýsingar).

Fjallið bæði um niðurstöðu fyrir Desktop og Mobile og getið þess hvaða einkunn vefurinn fær. Skjáskot af niðurstöðum er hjálplegt í skýrslunni.

i. Örkynning á niðurstöðum - kynning í tíma eða myndband

Með verkefninu þurfið þið að skila örkynningu (3-5 mínútur) þar sem þið fjallið um megin niðurstöður ykkar úr vefrýninni. Þið getið valið um eftirfarandi:

 1. Halda örkynningu í tíma 22. nóvember.
 2. Takið upp myndband, hlaðið því upp á YouTube eða Vimeo, og fellið inn (embed) á vefinn ykkar.

Þið hafið frjálsar hendur um hvernig þið vinnið kynninguna en hafið hugfast að koma kjarnanum úr niðurstöðu greiningarinnar skýrt á framfæri.


3. Heimapróf (20%)

Í byrjun desember verður heimapróf sem felst í nokkrum ritgerðaspurningum úr efni námskeiðsins (lesefni, fyrirlestrar og gestafyrirlestrar). Gert er ráð fyrir að það taki þrjá til fjóra tíma að leysa prófið, en þið fáið einn sólarhring til að svara því.

Dagsetning prófs: 6. desember kl. 9:00.