Posts tagged: sköpun

nýr fyrirlestur Ken Robinson

Edda Kjartansdóttir, May 31, 2010

hann kallar eftir byltingu í menntun og vitnar m.a. í Yates: "á hverjum degi göngum við á draumum barna og því skulum við stíga varlega til jarðar."

meira af The rise of the creative class

Edda Kjartansdóttir, May 1, 2008

sé að ég og Akio Morita stofnandi og fyrrverandi forstjóri Sony  erum sammála um að  fyrirtæki/stofnun þar sem aðeins stjórnendum er ætlað að hugsa þróast ekki áfram.  Allir verða að leggja sitt af mörkum og það dugar ekki að þeir lægra settu vinni bara störf sín með höndunum einum saman.  Hjá Sony var þess krafist að allir starfsmenn legðu vitsmuni sína líka í starfið. (Rise of the creative class. bls. 53). Ég er sammála því að aðeins þannig verður vinnustaður að skapandi vinnustað.  Það þarf að huga að þessu í skólum eins og margir hafa bent á og er mér mjög hugleikið, því mér finnst tilhneigingin of oft vera sú að líta þannig á að kennarar séu bara handverksmenn en ekki hugsuðir.  Ef við viljum skapandi skóla þá verða kennarar að vera hugsuðir! Ef kennurum er ekki treyst til að vera hugsuðir fara þeir smátt og smátt aðeins að geta unnið eftir forskrift annarra, þeir þjálfa ekki hugann og á endanum slokknar nánast á honum.

ég varð fegin

Edda Kjartansdóttir, January 21, 2008

þegar ég sá að Richard Florida flokkaði  "educators " með hinum skapandi stéttum sem hann telur að séu hinar vaxandi stéttir nútímans. Ég er að byrja að lesa bók hans "The rise of the creative class"  þar sem hann segir frá greiningu sinn á samfélaginu og setur fram kenningar um hvert við stefnum. Hann talar um að helstu breytingar frá 1950 til aldamóta séu á hinu félagslega sviði. Tengls fólks, starfsvettvangur, fjölskyldulíf og tímafaktorinn er það sem mestum breytingum hefur tekið. Fólk þarf að hafa samskipti  við margs konar fólk og geta unnið með því að fjölbreyttum úrlausnar efnum. Núna leggjum við ekki eins mikið upp úr því að vinna á sama stað alla starfsævina, gerum meiri kröfur til þess að á vinnustaðnum náum við að blómstra , höfum tækifæri til að  hafa áhrif og vinna að áhugaverðum málum með fólki sem manni líður vel með. Tími lélegra yfirmanna og frekra stjórnenda err liðinn.  Við vinnum ekki lengur verk af hlýðni einni saman. Fjölskyldulíf er orðið flóknara, maður, kona og börn saman alla ævi er ekki normið lengur. Mín börn og þín börn og fyrrverandi makar fylgir allt með í pakkanum. Þetta gerir miklar kröfur til fólks um að geta leyst flókin vandamál í sínu prívatlífi jafnt og á vinnustað. Það hvenær fólk vinnur vinnuna er ekki lengur aðalatriði, vinna og frístundir rennur saman og því enn mikilvægara að vinna sé gefandi.

Sköpunarþörfin er það sem drífur okkur áfram og það sem við eigum að næra.

Enda varla tilviljun að í auglýsingu frá Menntamálaráðuneytinu um umsóknir þróunasjóð grunnskóla er sagt:

"Skapandi hugsun, samstarf, jafnrétti og lýðræði í skólastofunni
Óskað er eftir verkefnum þar sem beitt er ýmis konar aðferðum við að örva skapandi hugsun nemenda með samstarf jafnrétti og lýðræði að leiðarljósi."

Auðvitað eru fleiri en ég að lesa bækur eftir fólk sem rýnir í það sem er að gerast í veröldinni .

Þegar ég verð komin lengra í bókinni vona ég að ég skilji betur hvernig hann sér fyrir sér að best sé að undirbúa börn undir það sem koma skal. Sem grunnskólakennari er það eitt af mínum aðaláhugamálum að reyna að skilja hvernig best er að ýta undir það að börn eigi betra með að takast á við lífið bæði í núinu og svo seinna sem fullorðnir einstaklingar. Tel reyndar löngu orðið úrelt að tala um að skólinn eigi að undirbúa börn undir lífið.  Það sem skiptir ekki síður máli er það líf sem þau eru að lifa á meðan þau eru í skólanum. Það sem þau læra þar taka þau að sjálfsögðu með sér inn í lífið framundan en ef ofmikið er hugsað um undirbúning fyrir það sem koma skal gleymist að huga að núinu. Það að láta einhvern hjakka í námsefni sem hann hefur engan möguleika á að læra af því það á að koma viðkomandi til góða seinna á lífsleiðinni er byggt á misskilningi, drepur niður áhuga og slævir sköpunarkraftinn.

Ég held að algjör lykilatriði séu:

  •  samskipti
  • áhrif á eigið nám 
  •  vinnubrögð. 

þetta ættu að vera helstu viðfangsefni skólanna í dag. Það er svo undir sköpunargleði hvers kennarahóps komið hvernig þeir nálgast þetta. Sem hluti af hinum skapandi stéttum  þá á útfærslan ekki að vefjast fyrir  þeim.