Posts tagged: upplifun

hlustaði á Lindu Darling Hammond í dag

Edda Kjartansdóttir, September 1, 2011

Hún talaði t.d.  um að mikilvægt sé fyrir kennara að fá tækifæri til að bæta jafnt og þétt við þekkingu sína á því  fagi sem þeir kenna, og  að þeir verði líka að geta átt  fagleg samskipti við vinnufélaga sína og  geta lært hver af öðrum. Veröldin hefur breyst og kennarar verða að bregðast við þeim breytingum í starfi sínu. Nemendur eru ekki lengur í skóla til að læra hlýða, geta þulið upp staðreyndir eða gert sömu athafnir aftur og aftur. Í dag þurfa nemendur að læra að vinna með öðrum, skipuleggja vinnu sína og efla með sér gagnrýna hugsun og sköpunargleði.  Samfélagið krefst þess í dag að fólk búi yfir sérhæfðari hæfileikum en áður, sé sveigjanlegt og geti aðlagast breyttum aðstæðum og stýrt störfum sínum sjálft.

Mér fannst einnig áhugavert þegar hún ræddi um að í kennslustofu þar sem  nemendur fá að hafa áhrif á nám sitt þyrfti kennari að búa yfir enn meiri hæfni en kennari sem vinnur í kennaramiðaðri stofu.  Og einnig að hún skyldi nefna að þó mörgum virðist algjör kaos ríkja í kennslustofum þar sem nemendur er að einhverju leyti við stjórnvölinn þá sé raunin sú að þar er hinn leyndi strúktúr oft á tíðum mun meiri en sá sýnilegi í kennaramiðuðum stofum. Þessu man ég svo vel eftir í mínu starfi í Vesturbæjarskóla. Pælingarnar bak við skipulagið þar og það sem verkefni sem nemendur gátu valið sér áttu að kenna þeim,  voru bæði djúpar og gefandi.

Hún nefndi líka leiðbeinandi námsmat sem frábært kennslutæki. Auðvitað nefndi hún líka hinar ólíku hugmyndir um hvernig litið er á skólann og það sem gerist þar, annars vegar þá hugmynd að ekkert gerist nema fyrir tilstilli ytri mótivasjónar og svo þeirrar hugmyndar að allar manneskjur vilja læra nýja hluti og reyna að standa sig.

Gráa svæðið milli rannsókna og hins hagnýta nefndi hún líka og talaði um mikilvægi þess að brúa það. Nostalgískri spurningu um kennslustofuna sem rými þar sem allir safnast saman á sama tíma svaraði Linda mjög vel, lét ekki draga sig í þá gildru að að lofsyngja gömlu góðu dagana. Hún benti á að nám getu átt sér stað víðsvegar,það gerir bara meiri kröfur til kennara að sjá til þess að svo verði.

hlustaði á Zizek

Edda Kjartansdóttir, January 27, 2008

 í gær í troðfullum sal af fólki. Þurfti að sitja á gólfinu og var undir lokin farin að kvíða því hvort ég gæti staðið upp. Mér finnast pælingar hans skemmtilegar og áhugaverðar. Hitti a.m.k einn sem finnst hann bullari, ég get ekki dæmt um það en veit að auðvitað er hann ekki búinn að uppgötva sannleikann frekar en nokkur annar. Hann greinir og skoðar veröldina með sínum hætti og hefur skilið hluti út frá því sem hann upplifir og les. Hann ögrar og snýr viðteknum skoðunum á óvæntan hátt, sýnir fram á að margir fletir eru á málum. Mér finnst trúverðugt að náttúran sé bara ein stór kaos og það að einhverskonar harmonía ríki þar sé bábilja. Hins vegar finnst mér ekki alveg trúverðugt að náttúran fengi fráhvarfseinkenni ef snögglega væri hætt að menga. Skemmtileg hugmyndin um að endurvinnsluhugmyndir sé í raun kapítalískar hugmyndir um að eyða engu heldur nýta allt. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort hann hefur rétt fyrir sér með það að umhverfismálin séu/verði hin nýju trúarbrögð fólksins. Hann telur að það sé hættuleg braut því það ýti undir það að við tökum ekki þær hættur sem að jörðinni /okkur steðja alvarlega. Trúum í raun innst inni að við og hin mikla náttúra séum eitt og lifum í einhverskonar samræmi og munum því örugglega bjargast. Virðumst trúa því að við getum núllstillt náttúruna á ný og þá verði allt gott. Mér finnst eins og hann vilji helst að fólk vakni og geri sér grein fyrir því að það þarf að greina hlutina án þess að flækja trú eða einhverju yfirnáttúrulegu inn í þá greiningu. Horfast í augu við það að við erum á eigin vegum og berum ábyrgð á því hvert stefnir. Það þarf að leggja kalt mat á hlutina og gera það sem gera þarf. Ætli það sé framkvæmanlegt? Hver á að ákveða hverjir eiga að verða fyrir sem minnstu hnjaski og hverjir að missa spón úr aski sínum? Og hverjum á að treysta til þess? Ég sé það ekki alveg. Auðveldast leiðin er líklega að  bíða bara eftir að það sem gerist gerist og klóra lítilega í bakkann á meðan beðið er og leggja sitt af mörkum til að friðþægja sjálfan sig, t.d. með því að endurvinna það sem til tilfellur á heimilinu…