Posts tagged: valdefling

ég hugsa mikið um

Edda Kjartansdóttir, March 28, 2010

þessa bók núna og hér er smá hugleiðing efti lestur tæplega tveggja kafla

Teachers as reachers Qualitaive Inquiry as a Path to Empowerment

Kincheloe (2006) telur að hugmyndfræði sem á rætur að rekja til pósitívismans frá 19. öld lúri oft að baki því sem stefnumótunaraðilar og stjórnendur leggja til varðandi breytingar á námi og kennslu. Pósitívisiminn byggir á því í sem stystu máli að vísindamenn töldu að hægt væri að teikna upp hina sönnu mynd af heiminum. Þó við teljum líklega flest núorðið að veröldin sé síbreytileg og hin sanna mynd sé ekki til eru fæst okkar meðvituð um það að gamlar „úreltar“ hugmyndir hafa stundum áhrif á það hvernig við hugsum.

Kennarar þekkja sjaldan til þeirra afla eða hugmynda sem að baki geta legið og þegar þeim er bara ætlað að hlýða og gera eins og þeim er sagt fer mörgum þeirra að líða illa en þeir geta yfirleitt ekki skilgreint hvers vegna og eiga þvi erfitt með að eiga samræðu sín á milli, eða við aðra, um hvers vegna tiltekið mál vekur þeim þessi viðbrögð. Faglegt svigrúm þeirra minnkar og þar með dvín fagmennska þeirra, enda er ekki gert ráð fyrir að mikilvægt sé fyrir þá að styrkja hana. Faglegt vald kennara er dregið í efa og jafnvel alveg tekið af þeim. Sérfræðingar sem telja sig vera með alla huti á hreinu afhenda fólki tilbúna pakka með nákvæmum leiðbeiningum um orð og athafnir sem fylgja skal (Kincheloe, 2006).

Mjög nákvæmar kennsluleiðbeiningar sem jafnvel ganga svo langt að leggja kennurum orð í munn eru byggðar á þeirri hugmyndfræði að nám sé ekkert annað en ítroðsla. Nemendur eru viðtakendur og kennarinn á að fylla þá af visku, eða öllu heldur staðreyndum. Í þessu finnast einnig leifar af pósitívismanum sem taldi að eitthvað væri til sem væri absalút þekking, næstum því Þekkingin með stóru Þ-i sem allir gætu sannmælst um að væri rétt og sönn. Þessi hugmyndfræði ýtir undir mismunun nemenda því sú þekking sem yfirleitt er ákveðin sem sú mikilvægasta sprettur langoftast úr menningu meirihlutans og því verða minnihlutahópar mjög fljótt undir (Kincheloe, 2006).

Nákvæm viðmið um vinnubrögð sem fara skal eftir og staðlar eru af sama meiði. Ofurnámkvæm markmið í námsgreinum þar sem gert er ráð fyrir að allir nemendur nái árangri ef þeim er kennt á réttan hátt með þrautprófuðum aðferðum gera lítið úr hugmyndum sem gera ráð fyrir að kennarar þurfi að nálgast hvern nemanda á hans forsendum og tengjast honum til að kveikja áhuga hans á að afla sér þekkingar sem honum finnst skipta máli og nýtist honum vel. Tilætlan um vinnubrögð af þessu tagi draga úr fagmennsku kennara og hætt er við að skapandi og frjóir kennarar hverfi frá starfi (Kincheloe, 2006).

Kinchelohe gengur meira að segja svo langt að segja að þeir sem hafi þessar hugmyndir gagnvart kennurum, að það þurfi að mata þá með orðum og athöfnum og treysti þeim ekki faglegs svigrúms geti eins vel ráðið ómenntað ungt fólk til kennslu. Það sé ódýrara og að auki muni þau væntanlega ekki spyrja neinna spurninga enda líta þau ekki á sig sem fagmenn heldur einungis framkvæmdaraðila á leiðbeiningum annarra og því ekki þvælast fyrir í því ferli sem á að vinna samkvæmt.

Að mati Kinchelohe er eina leiðin fyrir kennara til að ná völdum á ný að stunda markvissar rannsóknir á eigin störfum með það að markmiði m.a. að skilja þá krafta sem þeir eiga við að etja. Hann telur mikilvægt að kennarar spyrji gagnrýnna spurninga og kafi undir yfirborðið, þ.e. geri tilraun til að skilja það sem er í gangi á hverjum tíma, í stað þess að taka bara við því sem að þeim er rétt af öðrum sérfræðingum. Með þeim hætti verði þeir meðvitaðri um störf sín og síður viljalaus verkfæri misvitra sérfræðinga sem hafa ekki endilega alltaf rétt fyrir sér né þeirra afla sem eiga rætur að rekja til gamaldags hugmyndafræði 19. aldar.

Þessar hugmyndir Kinchelohe tala mjög sterkt til mín. Ég tengi þær strax við þá óskilgreindu tilfinningu sem ég hef haft lengi um að einhverjir séu að draga vígtennurnar úr kennurum eins og ég orða það. Ég hef skrifað eitthvað þessu líkt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar bæði í skólaverkefnum og í dagbókum mínum.

Ég hef ekki náð að skilgreina þessar tilfinningar mínar eða öllu heldur tengja þær við neitt sem hönd á festir eða setja orð á það. En engu að síður eru þær raunverulegar fyrir mér og þær hafa valdið mér áhyggjum.

Ég geri mér grein fyrir að Kinchelohe er að skrifa inn í eilítið annan veruleika en við búum við á Íslandi, hann er að glíma við það sem tröllriðið hefur bandarísku skólakerfi undanfarin ár, sem eru svokallaðir „standardar“ sem allir eiga að ná og jafnvel er gengið svo langt þar að skólar sem ekki ná tilskildum árangri fá minni fjármuni en aðrir. Þessir standarar eru nokkurskonar viðmið sem allir eiga að læra og þar með þurfa kennarar að kenna til að svo megi verða. Kinchelohe gagnrýnir þetta kerfi mjög harkalega og færir að mínu mati trúverðug rök fyrir máli sínu. Það er vert að hugleiða þetta hér á landi líka því angi af þessum hugsunarhætti þekkist hér líka. Ég hef t.d. reynslu af því að sitja með reyndum kennurum sem eiga að kenna námsefni þar sem þeim eru lögð orð í munn. Þeim er uppálagt að kennslustundirnar eigi að kenna í ákveðinni röð, taka ákveðinn tíma og vissar setningar eiga þeir að endurtaka á vissum stöðum. Þetta getur skapað vandræði vegna þess að nemendahópar eru ólíkir, hafa mismikið úthald og/eða áhuga á viðfangsefninu og hlýðnum kennurum er gert erfitt fyrir að grípa til viðeigandi ráðstafana í kennslustundinni því fylgja skal þessu margreynda efni skilyrðislaust eins og það er uppsett. Þannig verður kennarinn áhrifalaus og virðist ekki valda starfi sínu og þá er hætta á því að nemendur missi trúna á honum . Í samtali sagði kennari mér að honum finnist erfitt að þurfa að segja orð annarra og samsinnnti því að nemendur sjái í gegnum það þegar það sem sagt er er forskrifuð rulla.

Ég hef líka kynnt mér agakerfi sem notuð eru í sumum skólum í Reykjavík og þau eru angi af sama meiði, hugmyndin um að afhenda kennurum úthugsað kerfi með leiðbeiningum um hvernig hrósa skal nemendum og útpældum samræmdum viðbrögðum við hegðunarbrotum eru til þess fallinn að draga úr fagmennsku kennara, þeim er ekki treyst til að hafa til að bera hæfni til að vega og meta aðstæður hverju sinni eða setja sínum nemendum mörk og viðmið um góða hegðun. Til að sefa kennarana er þeim talin trú um að þeir taki þátt í að móta reglurnar því töluverð forvinna er í hverjum skóla áður en kerfið er innleitt þar sem ákveðnir þættir eru ákvarðaðir í hverju skóla. Kinchelohe(2006) telur að hætta sé á að stundum sé fólk blekkt með því að það sé látið halda að það sé að fá svigrúm til ákvarðana, þegar í raun er bara verið að festa kerfið í sessi með einhvers konar afmörkuðu gervisvigrúmi. Alla vega er svigrúmið ekki til staðar vegna þeirrar hugmyndafræði að mikilvægt sé að kennarar hafi faglegt svigrúm, heldur er þetta nokkurs konar stjórnunarlegt valdatæki, sett inn til að auðvelda innleiðingu kerfisins vegna þeirra hugmynda að fólk vinni kerfinu fremur brautargengi ef það telur sig eiga hlutdeild í.

Heimild

Kincheloe, J. L. (2006). Teachers as reachers Qualitaive Inquiry as a Path to Empowerment. New York: Routledge.