Niels Bohr og Íslendingar III: Íslandsheimsóknin 1951

Efnisyfirlit

Eins og minnst var á í II. kafla, olli sár sonarmissir því, að Niels Bohr aflýsti ferð sinni til Íslands sumarið 1934. Á næstu árum mun honum nokkrum sinnum hafa verið boðið aftur, án þess þó að til heimsóknar kæmi. En sumarið 1951 dró til tíðinda.

Um miðjan júní ræddi  blaðamaður Morgunblsðsins við frú Bodil Begtrup sendiherra Dana á Íslandi og skýrði hún frá því, að „Niels Bohr væri væntanlegur hingað 2. ágúst í sumar í boði Háskóla Íslands.“ Skömmu síðar kvisaðist það út, að Bohr væri alveg að koma og tilkynnti Þjóðviljinn, að hann kæmi hingað með Gullfossi 21. júní. Blaðið varð þó að draga í land daginn eftir, þegar í ljós kom, að Bohr væri reyndar um borð í Gullfossi, en á leið til Glasgow. Hann kæmi þó hingað 2. ágúst.

Bohr 65 ára, árið 1951.  Ljósmynd: Herdis og Herman Jacobsen.

Þrátt fyrir að vera að mestu hættur rannsóknum í eðlisfræði á þessum árum, var Bohr mjög önnum kafinn maður. Áhugi hans hafði um skeið beinst sérstaklega að þekkingarfræðilegum grunni vísindanna, en að auki vann hann ötullega að uppbyggingu danskra og evrópskra raunvísinda og var áberandi þátttakandi í alþjóðlegri umræðu um kjarnorku og friðarmál (sjá nánar í kafla IVb). Hann þótti reyndar frekar óskýr í máli og óáheyrilegur, en var samt eftirsóttur ræðumaður víða um lönd.

Sem dæmi um annríki Bohrs árið 1951, má nefna, að hann þurfti að fylgja bróður sínum, Haraldi, til grafar í janúarlok. Í lok maí var hann viðstaddur vígslu nýrrar eðlisfræðibyggingar í Lundi, þar sem tekin var fræg mynd af honum og Pauli að leika sér með skopparakringlu.

Bohr og Pauli leika sér með skopparakringlu í Lundi, 31. maí 1951. Mynd: Erik Gustafson. - Á minningarsíðu um Bohr í Þjóðviljanum í nóvember 1962 má sjá mynd af Bohr og Tage Erlander, forsætisráðherra Svíþjóðar, leika sér með snúðinn við sama tækifæri.

Snemma í júlí stóð Bohr svo fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn um þáverandi stöðu skammtafræðinnar (sjá myndband) og strax að því loknu var þar haldið sjöunda aðalþing Alþjóðasambands eðlisfræðinga (IUPAP). Um fyrri fundinn, Problems of Quantum Physics, var að sjálfsögðu fjallað í íslenskum blöðum:

Þar kemur þó ekki fram, að utan dagskrár áttu sér einnig stað óformlegar umræður um nýlegar hugmyndir um stofnun Evrópusamstarfs í kjarneðlisfræði. Af ummælum þeirra, sem voru á staðnum, má ráða, að þarna hafi að hluta verið lagður hugmyndafræðilegur grunnur að innra skipulagi hinnar merku stofnunar CERN (Conseil Européen pour la Recherche Nucléaire), meðal annars því, að æskilegt væri, að hin kennilega deild hennar yrði fyrst um sinn staðsett í Kaupmannahöfn (sjá nánar í kafla IVb).

 

Eftirvæntingin vex

Auglýsingaherferðin vegna komu Bohrs til Íslands hófst 26. júlí 1951, með þessari forsíðufrétt í Vísi:

Önnur blöð fylgdu í kjölfarið strax daginn eftir:

Baksíðufrétt Alþýðublaðsins, 27. júlí.

Tveimur dögum síðar tók Tíminn við sér með forsíðufrétt: Niels Bohr kjarnorkufræðingur væntanlegur: Flytur fyrirlestra við Háskóla Íslands, og sama dag lagði Alþýðublaðið út af væntanlegri heimsókn í leiðara: Þarft verkefni fyrir Háskóla Íslands. Fyrsta ágúst birti Dagur loks fréttina af heimsókninni undir fyrirsögninni Gistir Ísland.

Samhliða þessum fréttaflutningi tóku íslensku dagblöðin að sér að fjalla nánar um Bohr sjálfan og verk hans. Bæði Morgunblaðið og Alþýðublaðið létu þýða og endursegja ágætis yfirlitsgrein eftir P. Bergsøe, sem birst hafði í danska tímaritinu Hjemmet nokkru áður:

Morgunblaðið bætti svo um betur, 2. ágúst, með frumsaminni grein eftir Sv.Þ. (Svein Þórðarson eðlisfræðing?):

Í greininni er meðal annars rætt stuttlega við Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðing, sem þá var framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins.

Það var fyrst daginn fyrir komu Bohrhjónanna, sem dagblöðin upplýstu landsmenn um titil og innihald fyrsta og eina erindisins, sem Bohr hélt hér á landi:

Auglýsing um fyrirlestur Bohrs, „Frumeindirnar og þekking vor“, eins og hún birtist í Alþýðublaðinu 1. ágúst. Samskonar texti birtist í öðrum blöðum þennan sama dag.

 

Bohrhjónin stíga á land

Bohrhjónin komu hingað að morgni 2. ágústs með Gullfossi, flaggskipi íslenska flotans á þeim tíma.

Bæði Þjóðviljanum og Vísi tókst að skýra samdægurs frá komu hjónanna, minna á fyrirlestur Bohrs og láta þjóðina vita, að þau myndu dvelja í danska sendiráðinu á meðan á dvölini stæði.

Jafnframt fjallaði leiðari Vísis um heimsóknina undir heitinu Gagnmerk heimsókn. Þar segir meðal annars um væntanlegt erindi:

Fljótlega eftir að Gullfoss lagðist að bryggju, tókst blaðamanni Morgunblaðsins að ná stuttu „how do you like Iceland“ tali af Bohr og ljósmyndari blaðsins náði að smella af nokkrum myndum. Afraksturinn birtist daginn eftir:

Alexander Jóhannesson, rektor Háskóla Íslands, tekur á móti Bohrhjónunum,  Niels og Margrethe, um borð í Gullfossi 2. ágúst. Ljósmynd: Ólafur K. Magnússon.

Bohr ásamt Alexander rektor við landgöngubrúna á Gullfossi 2. ágúst. Ljósmynd: Ólafur K. Magnússon.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kom meðal annars fram, að eftir að þau hefðu komið sér fyrir í danska sendiráðinu, yrðu hjónin drifin til Þingvalla í fylgd með Begtrup sendiherra, Alexander rektor, og Einari Ól. Sveinssyni prófessor. Eftir Þingvallaferðina myndu hjónin hitta Steingrím Steinþórsson forsætisráðherra og sitja síðan kvöldverðarboð í danska sendiráðinu.

Bohrhjónin á Bessastöðum

Í bítið, föstudaginn 3. ágúst, munu hjónin hafa farið í skoðunarferð um Reykjavík og þegar nær dró hádegi var farið með þau til Bessastaða, þar sem þau borðuðu hádegisverð með forsetahjónunum.

Eftir hádegisverðarboð á Bessastöðum 3. ágúst. Talið frá vinstri: Sveinn Björnsson forseti, Margrethe Bohr, Georgia Björnsdóttir forsetafrú, Niels Bohr og Bodil Begtrup sendiherra. (Sjá forsíðu Morgunblaðsins, 4. ágúst.) Ljósmynd: Ólafur K. Magnússon.

Bohr og Sveinn forseti ræða málin að loknum hádegisverði, 3. ágúst. Mynd: Niels Bohr Archive, en ljósmyndari var sennilega Ólafur K. Magnússon.

Hér má geta þess, að áður en Bohrhjónin yfirgáfu Ísland sæmdi forsetinn Bohr stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu:

Þessi skemmtilega mynd eftir danska skopmyndateiknarann Bo Bojesen birtist í Politiken árið 1958 með textanum „ – og nu vil vor høje gæst gentage sin berømte forelæsnig om kædereaktioner ...“

Í Morgunblaðsgreininni frá 3. ágúst kemur fram, að á undan erindi Bohrs, kl. 20:30 um kvöldið, muni Bohrhjónin snæða hjá háskólarektor og eftir fyrirlesturinn verði þau í móttöku hjá Birni Ólafssyni kennslumálaráðherra í Ráðherrabústaðnum.

Niels og Margrethe í garði Alexanders háskólarektors og konu hans 3. ágúst. Myndin er úr minningargrein Alexanders um Bohr í nóvember 1962.

 

„Atómvísindin og grundvöllur mannlegrar þekkingar“

Fyrirlesturinn, sem allir biðu eftir, var loks haldinn föstudagskvöldið, 3. ágúst 1951, í hátíðarsal Háskóla Íslands. Fásagnir af atburðinum birtust fljótlega í öllum helstu dagblöðum landsins:

Morgunblaðsfréttin er til muna ítarlegri en hinar og hún hefst á þessari lýsingu:

Síðan eru rakin inngangsorð Alexanders háskólarektors, gefið yfirlit yfir erindi Bohrs, getið um viðbrögð áheyrenda og loks sagt frá þakkarávarpi Sigurðar Nordal:

Í viðtali, sem Valtýr Stefánsson tók við Bohr og Morgunblaðið birti 11. ágúst, segir Bohr meðal annars:

Ég veit ekki til þess, að erindi Bohrs hafi nokkurn tímann verið þýtt á íslensku. Handritið er hins vegar varðveitt á hinu merka skjalasafni, Niels Bohr Archive í Kaupmannaöfn, sem er helgað Bohr og verkum hans.

Besta íslenska yfirlitið um fyrirlestur Bohrs er að finna í dagblaðinu Vísi frá 8. ágúst:  Atómvísindin og grundvöllur mannlegrar þekkingar.

Fyrirsögnin á grein Vísis um erindi Bohrs.

Því miður hef ég ekki enn rekist á neitt myndefni frá atburðinum í hátíðarsal Háskólans, þetta föstudagskvöld. Ég set því hér í staðinn mynd af Bohr halda erindi á öðrum stað, árið 1955:

Bohr í ræðustól á Genfarfundinum 1955 um friðsamlega notkun kjarnorkunnar (sjá nánar í kafla IVc).

Mig minnir, að mér hafi einhvern tímann verið sagt, að fyrirlestur Bohrs hafi verið tekinn upp á stálþráð og þannig varðveittur. Þrátt fyrir talsverða leit, hef ég ekki enn fundið þessa upptöku og ekki heldur neinar ritaðar heimildir um það, að slíkur stálþráður sé til. Hins vegar fann ég upptöku af öðru erindi, sem Bohr flutti á ensku í Bandaríkjunum árið 1957 og hlusta má á hér: Atoms and Human Knowledge (Bohr hefur lesturinn kl. 7:28).

Til frekari fróðleiks má benda á nokkur rit á ensku með ýmsum erindum og ritgerðum Bohrs um svipuð efni og hann fjallaði um í Reykjavík 1951:

Ferðalög um landið

Daginn eftir fyrirlesturinn hófst yfirreið Bohrhjónanna um landið með ferð austur í Fljótshlíð í fylgd Þorkels Jóhannessonar prófessors, þar sem þau komu meðal annars við á Hlíðarenda og Sámsstöðum. Sunnudaginn, 5. ágúst, fór svo háskólarektor með þau og danska sendiherrann að skoða Gullfoss og Geysi, en ekki er vitað, hvort Geysir brást við með tilheyrandi stórgosi.

Við Geysi í Haukadal, 5. ágúst. Talið frá vinstri: Sigurður Greipsson skólastjóri, Niels Bohr, Alexander rektor, Margrethe Bohr og Bodil Begtrup sendiherra. Sigurður virðist halda á skóflu, svo hann hefur eflaust hvatt Geysi til dáða, með því að setja í hann sápu. Ljósmynd: Vigfús Sigurgeirsson.

Skömmu fyrir brottförina úr landinu fóru Bohrhjónin í bílferð um Borgarfjörð, Húnavatnssýslu og Skagafjörð og komu meðal annars við í Glaumbæ, áður en snúið var við. Með í för voru Sigurður Nordal prófessor og Begtrup sendiherra. Um þetta ferðalag er fjallað í ágætu viðtali, sem Valgtýr Stefánsson ritstjóri tók við Bohr og birtist daginn eftir að hjónin sigldu á brot með farþegaskipinu M/S Dronning Alexandrine:

Í viðtalinu kemur fram, að Bohr var mjög ánægður með heimsóknina og hlýlegar móttökur Íslendinga. Spáði hann og vel fyrir þjóðinni og menningu hennar.

Eftir heimsóknina

Þótt heimsókn Níelsar Bohr hafi vakið mikla athygli hér á landi á sínum tíma, er hennar ekki víða getið í erlendum sögubókum (né heldur íslenskum, ef út í það er farið). Það er þá helst, að á hana sé minnst í sumum ævisögum Bohrs, og þá í mesta lagi með einni setningu eða svo.

Áhrif heimsóknarinnar kynnu þó að hafa verið meiri, en margir halda. Fyrir utan það að hafa haft hvetjandi áhrif á unga Íslendinga til náms í raunvísindum, telja sumir, að hrifning Bohrs á Íslendingum og þjóðararfi þeirra, fornsögunum, hafi gert hann að óopinberum talsmanni þess, að Danir skiluðu Íslendingum handritunum. Samkvæmt bók Sigrúnar Davíðsdóttur frá 1999 (bls. 114-15, 118 og 123-24) mun Sigurður Nordal, sem var sendiherra Íslands í Danmörku 1951-57,  hafa verið þess fullviss, að Bohr hafi oftar en ekki beitt áhrifum sínum í þágu Íslendinga í handritamálinu.  Hvort svo var í raun og veru, veit ég ekki.

Niels Bohr var mikill aðdáandi Íslendingasagna og las oft upp úr þeim fyrir syni sína unga. Þennan  áhuga mun hann hafa fengið í arf frá föður sínum, Christian.

Að lokum þetta: Það vekur óneitanlega nokkra athygli, að íslensku blöðin nefna það hvergi, að meðan á heimsókninni stóð hafi Bohr hitt, eða haft samband við, íslenska raunvísindamenn. Ég get vart ímyndað mér, að þeir hafi ekki haft við hann einhver samskipti, að minnsta kosti vinur hans, Þorbjörn Sigurgeirsson. Í því sambandi má minna á, að innan árs frá heimsókninni hafði Þorbjörn tekið sér tímabundið leyfi frá starfi sínu sem framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs og var  farinn að vinna undir stjórn Bohrs við kennilegu deildina hjá CERN í Kaupmannahöfn (sjá nánar í kafla IVb).

Þorbjörn Sigurgeirsson í kringum 1950, en á því ári varð hann 33 ára. Ljósmyndari er óþekktur.

Til baka í efnisyfirlitið

 

Um Einar H. Guðmundsson

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands - Tölvupóstfang: einar@hi.is - Vefsíða: https://notendur.hi.is/einar/
Þessi færsla var birt undir Eðlisfræði, Efnafræði, Tuttugasta öldin. Bókamerkja beinan tengil.