Söfnuð ævintýri

Ég skrifaði í haust pistil um lýsingarhættina hafnaður, náður og lagður, í setningum eins og Ég var hafnaður af stelpu, Þjófurinn var náður og Bílarnir voru illa lagðir. Mörgum finnst þessar setningar rangar af því að sagnirnar hafna, og leggja stjórna þágufalli á andlagi sínu.

Þegar setningum með þessum sögnum er snúið í þolmynd mætti því búast við að andlagið – sem þá er gert að frumlagi – héldi falli sínu. Sögn og lýsingarháttur samræmist ekki aukafallsfrumlagi í persónu og tölu, heldur kemur sögnin fram í 3. persónu eintölu og lýsingarhátturinn í hvorugkyni eintölu. Því hefði mátt búast við að setningarnar yrðu Mér var hafnað af stelpu, Þjófnum var náð og Bílunum var illa lagt.

Um daginn rakst ég svo á þetta dæmi – vissulega hafði ég oft séð þetta kver áður en aldrei veitt orðalagi á titilsíðu athygli. En þarna stendur sem sé „Söfnuð af M[agnúsi] Grímssyni og J[óni] Árnasyni“. Sögnin safna stjórnar þágufalli eins og þær sem áður voru nefndar og því hefði maður búist hér við Safnað af M. Grímssyni og J. Árnasyni. En þarna er lýsingarhátturinn sem sé í fleirtölu og samræmist Íslenzk æfintýri, um miðja 19. öld – og það ekki hjá neinum bögubósum.