II: Uppbygging þekkingar og rökstuðnings

Vilt þú þá að augu mín rengi sína sjón?
Krísótemis í Elektru Sófóklesar, línu 923
(þýð. Helgi Hálfdanarson)

Ég tel mig vita að Guðni Th. sé forseti Íslands. En hvernig veit ég þetta (hvernig get ég rökstutt að ég veit þetta)? Vegna þess að ég fylgdist með kosningunum vorið 2016 og svo hef ég líka fylgst með Guðna Th. í fjölmiðlum. En hvernig veit ég að þetta eru góðar heimildir fyrir sannfæringu minni um að Guðni Th. sé forseti? Ég get eflaust rökstutt þetta á einhvern hátt en þá má hugsanlega spyrja aftur um rökstuðning og síðan enn einu sinni. Að feta sig aftur eftir keðju af þessu tagi hefur verið kallað þekkingarfræðilegt afturhvarf (e. epistemic regress) og þegar spurt er um uppbyggingu þekkingar eða rökstuðnings þá er spurt um hvert þessi keðja leiði og hvort afturhvarfið (eða hopunin) stoppi einhvers staðar. (Rétt að taka fram að keðjulíkingin getur verið blekkjandi - raunveruleg þekkingarfræðileg rakning er næstum aldrei einföld keðja heldur flókið net.) Hún getur farið í hring, hún getur haldið endalaust áfram eða hún getur stoppað einhvers staðar. Annar möguleiki er síðan að samþykkja efahyggjuna - en við látum hann liggja milli hluta hér.

Þessum þremur möguleikum hefur öllum verið haldið fram af ýmsum heimspekingum (dæmi um heimspekinga úr greinasafninu):

  1. Rökstuðningur sem fer í hring: samkvæmnishyggja (e. coherentism). T.d. Sellars.
  2. Rökstuðningur sem heldur áfram endalaust: óendanleikahygga  (e. infinitism). T.d. Klein.
  3. Rökstuðningur sem stoppar í undirstöðum: bjarghyggja (e. foundationalism). T.d. Chisholm.

Við lesum eftirfarandi texta:

  • Roderick M. Chisholm „The Myth of the Given“, Laurence BonJour „Can Empirical Knowledge Have a Foundation?“, Susan Haack „A Foundherentist Theory of Empirical Justification.“
  • Nagel „Rationalism and empiricism.“

Ítarefni:

Í þessum hluta munum við sérstaklega skoða tilraunir til að stoppa keðjuna, þ.e. til að finna einhvern grunn sem þarf ekki að rökstyðja frekar. Við munum greina kenningu Chisholm um að eitthvað sé gefið í reynslu sem við þurfum ekki að rökstyðja (eða sem rökstyður sig sjálft - sem er nokkurn veginn það sama skv. Chisholm). Einnig lesum við gagnrýnir Laurence BonJour á kenningar um grundvöll af þessu tagi og að lokum kenningu Susan Haack sem blandar saman bjarghyggju og samkvæmnishyggju í kenningu sinni um bjargkvæmnishyggju (tilbúið orð - endilega koma með betri þýðingu á foundherentism).

  • Einn beittasti gagnrýnandi hugmyndarinnar um „hið gefna“ í reynslu (höfundur hugtaksins „Goðsögnin um hið gefna“), og einn merkasti heimspekingur 20. aldar, er ameríski heimspekingurinn Wilfrid Sellars. Þeir sem vilja kynna sér Sellars og heimspeki hans geta byrjað á greininni um hann í Stanford Encyclopedia of Philosophy (sjá sérstaklega 4. hluta).

Roderick M. Chisholm „The Myth of the Given“

Í þessum texta færir Chisholm rök fyrir „hinu gefna“. Hann greinir kenninguna um hið gefna á eftirfarandi hátt (þar sem A er formleg, B er efnisleg og C er neikvæð):

  1. Sérhver fullyrðing sem við getum rökstutt að hafa þekkingu á er að hluta til rökstudd af fullyrðingum sem rökstyðja sjálfar sig (eða þurfa engan rökstuðning).
  2. Til eru fullyrðingar um sýndir sem rökstyðja sjálfar sig á þennan hátt (eða þurfa engan rökstuðning).
  3. Engar fullyrðingar rökstyðja sjálfar sig án þess að vera um sýndir.

Hann hafnar C en færir rök fyrir A og B.

Laurence BonJour „Can Empirical Knowledge Have a Foundation?“

Meginverkefnið í grein BonJour er að færa rök gegn því að grunnskoðanir (e. basic beliefs) séu mögulegar - þ.e. að til séu skoðanir sem ekki þarfnast rökstuðnings til að virka sem rökstuðningur fyrir aðrar skoðanir.

Rökfærsla bjarghyggjunnar er eitthvað á þessa leið:

  1. Skoðun B hefur einkennið φ.
  2. Skoðun með einkennið φ er líklega sönn.
  3. Þannig að – skoðun B er líklega sönn.

BonJour telur rökstuðning af þessu tagi nauðsynlegan til að einhver skoðun geti talist grunnskoðun. En þar sem grunnskoðun á ekki að þarfnast rökstuðnings fellir þessi - nauðsynlegi - rökstuðningar allar tilraunir til að finna grunnskoðanir.

Susan Haack „A Foundherentist Theory of Empirical Justification“

Haack gerir tilraun til að blanda saman bjarghyggju og samræmishyggju í kenningu sem hún kallar bjargræmishyggju (e. foundherentism). Kenningin byggir annars vegar á því innsæi að rökstuðningur fyrir því að skoðun sé sönn sé alltaf í formi annarra skoðana og röklegra tengsla þeirra (samræmishyggja). Hún byggir hins vegar líka á því innsæi að skoðanir byggðar á reynslu hafi aðra stöðu en skoðanir sem eru byggðar á ályktunum (bjarghyggja).

Einföld ályktun um að það sé rigning gæti byggt á eftirfarandi forsendum:

  1. „Mamma sagði að það myndi rigna.“
  2. „Þarna kemur blaut manneskja gangandi.“
  3. „Ég hef snertireynslu af því tagi sem undir venjulegum kringumstæðum orsakast af vatnsdropa á andlitinu.“

Forsendur 1 og 2 þarfnast sjálfstæðs rökstuðnings en forsendu 3 er ekki nánar hægt að rökstyðja því hún lýsir einfaldlega reynslu manns.

Um Susan Haack má fræðast hér. Árið 2015 birti hún mjög áhugaverða grein um þekkingarfræði „Þekkingarfræði: Til hvers?“, sem má nálgast hér.