III: Skilgreining þekkingar

Guðni Th. hefur verið myrtur en forsetaritari, af ótta við að þjóðin kjósi rangt í næstu Alþingiskosningum í tómu óðagoti, ákveður að fela þessa staðreynd og fær fjölmiðla í lið með sér. Þeir flytja fréttir um að hundur Guðna hafi verið drepinn af óðum og útúrdópuðum nágranna. Eiríkur Jónsson, blaðamaður, er á Bessastöðum og sér mann myrða Guðna Th. Hann flytur fréttir af þessu á vefmiðli sínum áður en aðrir miðlar birta fréttir af hundamorðinu. Þorlákur Björnsson les bara vefmiðil Eiríks Jónssonar þennan dag og veit ekkert um aðrar fréttir. Veit Þorlákur að Guðni Th. var myrtur?

Hefðbundin skilgreining þekkingar er: sönn rökstudd skoðun. Þessi skilgreining kemur frá Platoni (í Þeætetosi), sem segir að þekking sé sönn skoðun með logos (λόγος). Edmund Gettier ögraði þessari skilgreiningu í stuttri grein sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Eftir það hafa þekkingarfræðingar keppst við að bjarga skilgreiningunni eða finna aðra leið til að greina þekkingu.

Til að fá yfirlit yfir vandann við skilgreingu þekkingar sjá grein á Stanford Encyclopedia of Philosophy. Hér er fjallað um klassísku skilyrðin þrjú fyrir þekkingu (sannleikur, skoðun og rökstuðningur), um Gettiervandann og viðbrögð við honum.

Í þessum hluta lesum við eftirfarandi texta:

  • Edmund Gettier „Is Justified True Belief Knowledge?“, Gilbert Harman „Thought, Selections“ Linda Zagzebski „The Inescapability of Gettier Problems“.
  • Nagel „The analysis of knowledge.“

Ítarefni:

Annað:

Edmund Gettier „Is Justified True Belief Knowledge?“

Gettir lýsir fjórum dæmum þar sem skilyrðin þrjú fyrir þekkingu eru uppfyllt (sannleikur, skoðun og rökstuðningur) án þess að eðlilegt sé að tala um þekkingu.  Í kjölfarið hafa mýmörg Gettierdæmi verið búin til. Hefðbundin Gettierdæmi eru í eftirfarandi formi:

  • Maður hefur vel rökstudda en falska skoðun, s. Af s leiðir maður t. Svo vill til að t er sönn skoðun. Maður hefur þannig vel rökstudda sanna skoðun – en innsæið segir okkur að hún sé ekki dæmi um þekkingu.

Sagan skáletraða hér að ofan er ein útgáfa af Gettierdæmi (byggt á Harman) - sem er þó annars eðlis en sögur í hefðbundnu formi því í dæminu koma ósannar skoðanir hvergi við sögu.

Gilbert Harman „Thought, Selections“ 

Gilbert Harman reynir að mæta Gettierdæmunum með því að bæta fjórða skilyrðinu við: þekking er sönn rökstudd skoðun PLÚS eftirfarandi skilyrði:

  • f er ekki leidd af annarri skoðun sem er ósönn.

Harman kannar þetta skilyrði nánar og reynir að styrkja það enn frekar.

Linda Zagzebski „The Inescapability of Gettier Problems“

Linda Zagzebski telur allar tilraunir til að skilgreina þekkingu sem sanna skoðun PLÚS X (þar sem X stendur fyrir rökstuðning, orsakasamband eða eitthvað annað) veikar fyrir Gettierdæmum ef það er á annað borð einhver munur á rökstuðningi og sannleika. Hún telur okkur þurfa að lifa með þessari niðurstöðu og sætta okkur við heppni sem hluta af þekkingu.

Við skulum enda á öðru Gettierdæmi (byggt á Harman):

Eva Lín, öryggisvörður, sér Guðrúnu stinga frosnum fiski inn á sig og ganga út úr Krónunni. Hún eltir hana og sér hana taka fiskinn undan fötunum og stinga í poka. Eva Lín fer til yfirmanns Guðrúnar, Þorláks, og segir frá því að Guðrún hafi stolið fiski. Hún er viss um þetta. Án þess að Eva viti af því segir besti vinur Guðrúnar, Ágúst Heimir, yfirmanni Guðrúnar frá því seinna um daginn að tvíburi Guðrúnar hafi verið í Krónunni en Guðrún sé hins vegar á Norðurfirði. Hann bætir við að tvíburi Guðrúnar sé haldin stelsýki. Staðreyndin er hins vegar sú að Guðrún var í bænum og hún stal fiskinum. Ágúst Heimir var að ljúga. Yfirmaðurinn veit að Ágúst Heimir er stjórnlaus lygari og tekur ekkert mark á honum. Veit Eva Lín að Guðrún stal fiskinum?