Ljóð

Hér að neðan eru fáeinar tilraunir til ljóðagerðar:

 

einangrun

síðdegisþoka
eða kannski bara móðan
á röku glerinu

sem í leiðslu sé ég örveröld mína
speglast í stöðugri hulu augasteinanna,
einmana hraðferð inn í skært blindnætti

spurningar valda andvökunni
hver þú ert er mér hulið,
enn meir hvar þú ert,
kannski alls staðar
kannski hvergi

í andvaka draumi mínum sé ég andlit þitt fjarlægjast
svo mitt

 

mánudagar

á mánudögum
umturnast upphugsuð
tilvera mín

á mánudögum
ímynda ég mér styrk
sem knýr vilja minn
inn í bjartan daginn

í stöðugri martröð minni
vakna ég, á mánudögum,
og blindast
af þessu flöktandi ljósi
eigin lygi

 

sum okkar, stundum

(í minningu Guðmundar Árna Tómassonar)

við eigum ekkert
nema gagnsæjar myndir
stunda, sem ekki eru hér

við erum ekkert
nema flöktandi draumur
einhvers sem við ekki
getum snert; trúum
að þetta sé líf

og draumar
mega sín lítils
gegn króknandi veruleika
óróans

við skiljum ekkert
nema sum okkar, stundum,
þegar slokknar á draumvarpanum
og við missum sjónar
á sefandi lyginni

því við getum þá ekkert
nema skilið við veröld skugganna,
dáðst af geislum sólar...

 

vorboðinn

er
nakin hlýjan á komandi
dögum, gránandi svertan;
blíðan,
hvíslandi ástleitin kveðjuorð
í hrörnandi vetrarrökkri

gráta fuglar
á bíðandi greinum
króknandi veturinn;
fölnar logi leitandi ásjóna,
í ljósi hins himneska

kviknar einmana myrkur
hins þarflausa

blómgast kvíði,
grær angist;

úr fjarlægum nóttum
hryglir í örmagna
angistarstunum
vanborinna farsælda

leysingar

 

á stundum

á stundum
sem líða hjá eins og mínútur
get ég talið niður daga mína
með tifi sekúnduvísisins
hraðar og hraðar

 

vorblámi

bælt hungur einmana gleði
eftir hinu ókunna
lífi handan luktra dyranna

dauf ljós eða endurskin
meðvitaðrar innri þokumóðu
huglægra stunda

það er vor og grænkar hjarta
breiðandi út faðm sinn
mót blárri tilverunni

hylur hana sjónum

 

brosin í bænum

við forðuðumst brosin sem á okkur dundu
forðuðumst flúðum til eigin svipa
drekktum vor augum í augum hvor annars
titruðum hvort inní öðru

þó vissum við bæði við gátum ei flúið
vissum við báðar við vorum ei við
vissum vel báðir vissum við öll
vissum að við vorum þú

 

flog

vaxandi ljósfælnin boðar hans komu,
þú augunum lokar, birtan eykst enn
krjúpandi bíður þú skelfdur, hann birtist
ber brennandi sól þér í sálu

undir flóðlýstum skýjum þú andlit hans lítur
lítur og lítur, þig verkjar hið ytra
og innra þig sannleikur sker

þér ofar hann slengir í flöktandi himinn
þú snýst og þú snýst í flóðlýstum djúpum
hraðar og hraðar á skilningsins egg
grátbiður æpandi ljósið að þagna
vilt ei meir skilja vilt ei meir sannleikann sjá

og þú deyrð... og þú vaknar

hann kyssir þig blóðvotum vörum, þú biður:
veittu mér lausn

 

írskir dagar

dreary

days of
dualistic
disproportion

reducing (my?)
being to
cigarettes
reflections
insomnia

and (oh yes)
a

disturbingly
dull
desire for

desire

 

hommage to cummings

we are
for each
other
you said
once more
quoting
cummings

for? i
snarled (with
out you
grasping it)
implying disen
chantment and russ
ian nihilism

each other you
repeated softly
while gently
arranging freshly
picked flowers
into a vase

grrrrrmph i ex
clamated hinting
at rationalisation
introspective non-
intersubjective anti-
ontological existential
befindlichkeit

would you like
a banana
sandwich with
honey like
yesterday
you asked and
smiled

then laugh
leaning back
into my arms
i cried
accepting my
sunny
defeat

 

beijing

í dauðakalli
liðinna stunda,
óuppfylltrar framtíðar

ásækir þú mig
varnarlausan,
án flóttaleiða

ég sé þig ekki
einu sinni
lengur

þar sem þú hvolfist yfir mig

 

morgundagurinn

morgundagurinn er liðinn
án viðburða

fiðrildið gaf upp öndina
á köldu skrifborðinu

myrkrið er enn ókomið

það er úti

 

ekki

fylgdu mér ekki

inn í afkima ástríðunnar
þar sem ég hamast á eigin yfirborði
undir þvölum svitahjúp
svívirðilegra synda

hlustaðu ekki

eftir stigmagnandi andvörpunum
óreglubundnum hjartaslögunum
í sullandi krampa
sjúklegrar einangrunar

leitaðu mín ekki

í innviðum óræðrar vitfirringar
þaðan sem ástin knýr upp á yfirborð
afskræmdrar ásjónu
dauðvona slím hinna lifandi

 

ieva

horfi á eftir þér
aftur og aftur
inn í blákalda nóttina

finn óblíðan stinginn
aftur og aftur
ýfa æpandi hjartasár

hvísla svo nafn þitt
aftur og aftur
í þrúgandi þögn hins yfirgefna

hvísla þetta nafn

en ekki til þín
ekki til neins
til einskis

 

nóvember

fuglasöngsskertir

myrkramorgnar
finna sér leið
inn um hálfluktar dyr
áður kvaddra kennda

hér er ekkert ókomið
ekkert er ósagt
ekkert ógert

einnig þessi dagur fæðist andvana
og í skerandi þögn liðinna andartaka
greinist vart hryglukennt andvarp
dauðvona eftirvæntingar

 

uns jafnvel steinarnir gráta

og þá
er stundin
rennur upp
þú segir nei
ekki aftur
aldrei aftur
aldrei meir
get ekki meir
ég vil þér vel
gangi þér vel
hafðu það gott
vinur minn
þetta er best
svona

þá, elskan mín, þá
skal ég kyssa hendur þínar
strjúka vanga þinn
faðma þig að mér
hinsta sinni
hverfa svo á braut
og breiða úr söknuði mínum
breiða úr svíðandi kvölinni
uns jafnvel steinarnir gráta

 

tvær vikur

úti

sólskinsdagar
án enda

án miskunnar

ómennskt lognið
satanísk birtan
bæla af harðneskju
langþráðar nætur
í gegndarlausu kjökri fuglanna

ekki einu sinni tíminn
bærist

framtíð
er orðin að einberri hugmynd

og von
hefur enga tilvísun lengur

 

desembernótt

sest
hefur sólin þín

tapað áttum
svefnvana augun

vildi geta vanrækt þig
sniðgengið þig
ekki munað hver þú ert

en hjartað hungrar
eftir ástúð þinni
sálin sogar í sig
sérhvert bros þitt til mín

og óttinn sér aðeins þig
hverfa mér sjónum

litskrúðug ljósadýrð
bjartra væntinga
sprengir myrkrið
úti

inni
fær það ekkert hamið

 

shanghai

tímann
færir þessi
febrúar í austri
aftur til markleysis

ekkert
enn og aftur
í reglulegri ringulreið
vors sem ekki fæðist

 

myrka von

þetta er nóttin okkar

og við þreifum
hvort eftir öðru
í myrkri von
um geislandi andartak
óvæntrar snertingar

í ómældu svartnætti
syndum við
í straumlausri víðáttu
út til þolmarka
aðskildra huga

í dögun
er ég einmana rekald
ert þú einmana strönd

taktu við mér

 

dómsdagur

árunum fjölgar
orðunum fækkar

á endanum

verður rukkað
fyrir hin ósögðu