Stjórnarskrá — samfélagssáttmáli

Hjalti Hugason, 26. November 2010 11:58

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Stjórnarskrá — samfélagssáttmáli

Stjórnarskrá er gott og gilt íslenskt orð sem mörgum er ugglaust kært. Það er því líklega að flestra mati óþarft að setja við það spurningarmerki eða leita að öðru betra. Það ætti þó að ósekju mega bregða á leik með það, merkingu þess og andblæ. Líta má á svo á að stjórnarskrá merki fyrst og fremst skrá eða skjal sem takmarkar vald þess sem stjórnar enda tóku þær fyrst að fá verulegt vægi er einveldi lagðist af. Óbeint veittu þær þannig þegnunum rétt. Stjórnarskrá kemur því að ofan, úr hendi konungs eins og styttan af Kristjáni 9. við Stjórnarráðið sýnir.

Í sumum löndum er ekki talað um stjórnarskrár heldur grundvallarlög. Það er til dæmis gert í Danmörku og fyrsta stjórnarskrá okkar var raunar aðlöguð þýðing af „Danmarks grundlov“. Heitið grundvallarlög felur í sér að þau mynda undirstöður samfélagsins, grunninn. Styrkur þeirra beinist neðanfrá og upp. Á grundvallarlögum og stjórnarskrá þarf svo ekki að vera mikill inntakslegur munur eins og samanburður á dönsku grundvallarlögunum og stjórnarskrá okkar sýnir. Hér er fremur spurt um hvaða tilfinningu og andblæ við viljum að endurskoðuð eða ný stjórnarskrá okkar miðli. Við, sem þetta ritum, lítum svo á að hugtakið sáttmáli, samfélagssáttmáli, henti vel í þessu sambandi.

Sáttmálshugtakið hefur magnaða undirtóna í vestrænni menningu. Í Biblíunni er bæði rætt um gamlan og nýjan sáttmála milli Guðs og manns. Svo má fara í allt aðra átt og tengja samfélagssáttmálann við róttæk byltingaröfl. Undirtónarnir eru þó alltaf jákvæðir: Sáttmáli endurnýjar rofin tengsl og kemur á skipan þar sem óreiða ríkti áður.

Veturinn 2008–2009 kom alvarlegur brestur í samfélag okkar. Hópur fólks hafði skapað sér svigrúm til að ráðskast með fé annarra og skildi eftir sig sviðna jörð sem langan tíma mun taka að græða upp. Atburðirnir afhjúpuðu veika innviði samfélagsins og áberandi galla á stjórnarfari landsins. Í einhverjum tilfellum hafði verið brotið gegn stjórnarskránni, í öðrum tilfellum opinberuðust veikleikar þeirrar stjórnskipunar sem hún leggur grunn að. Lykilstofnanir samfélagsins glötuðu trausti í áður óþekktum mæli. Í búsáhaldabyltingunni  lá við að samfélagseiningin rofnaði vegna eðlilegra mótmæla almennings gegn þeirri stöðu sem upp var komin. Það er blekking að líta svo á að einingin standi nú á eins traustum grunni og var fyrir Hrun, þó sá grunnur hafi ekki reynt eins traustar og margir ætluðu þegar á reyndi.

Á stjórnlagaþingi verður að stíga stórt skref í átt að nýjum samfélagssáttmála, nýrri sátt og einingu okkar á meðal. Þau sem til þingsins veljast verða að vera meðvituð um að þung ábyrgð er lögð á þeirra herðar. Saman verða þau að leita þeirra grundvallargilda sem þau treysta best til að mynda undirstöðu undir nýja samfélagseiningu. Í einingu og af heilindum verða þau að draga upp þær grunnreglur sem þau vita bestar og hyggilegastar til að tryggja réttlátt samfélag — samfélag jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar þar sem margbreytileiki fær að njóta sín. Í slíku samfélagi veður öllum best búið það öryggi sem glataðist í Hruninu.

Öruggt samfélag

Hjalti Hugason, 25. November 2010 13:15

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023 og

Hjalti Hugason 7132

Öruggt samfélag

Samfélag er öruggt og gott þegar það uppfyllir grundvallarkröfur um réttlæti, jafnrétti og félagslega velferð, það er gerir öllum kleift að njóta sín á eigin forsendum. Í því velferðarsamfélagi sem hér hefur mótast á síðustu áratugum hefur markvisst verið unnið að því að bæta íslenskt samfélag og gera það öruggara fyrir borgarana. Jafnt aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu hefur verið forgangsatriði. Í hugum margra eru þetta jafn sjálfsögð réttindi og að allir hafi fæði og húsnæði og geti notið kosningaréttar og tjáningarfrelsis.

Sagan sýnir okkur að við getum aldrei tekið því sem gefnum hlut að fá að búa í góðu og öruggu samfélagi. Þessvegna er mikilvægt að í samfélagssáttmála okkar, stjórnarskránni, sé lagður grunnurinn að því að Íslendingar framtíðarinnar fái notið þeirra grundvallar mannréttinda sem gerir samfélagið öruggt og gott að lifa og starfa í. Þetta þarf að tryggja í nýrri stjórnarskrá.

Í 71. grein stjórnarskrárinnar er fjallað um friðhelgi einkalífsins. Þar segir m.a.: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“ Gildi þess að eiga öruggt athvarf á heimili sínu er ómetanlegt. Slíkt skjól er undirstaða þess að eiga gott og öruggt líf, hvort sem við búum ein eða deilum kjörum með þeim sem standa okkur næst.

Á undanförnum áratugum hefur umræða um ofbeldi sem oft fær þrifist innan veggja heimilisins orðið stöðugt ágengari. Hún hefur opnað augu okkar fyrir þeirri skelfilegu staðreynd að stundum stafar einstaklingum beinlínis ógn af friðhelgi einkalífsins. Nágrannar og skyldfólk veigrar sér oft við að skipta sér af því sem gerist innan veggja heimilis þó að grunur leiki á að ofbeldi sé þar framið. Jafnvel eru til mörg dæmi um það að lögreglan hiki við að hafa afskipti af heimilisofbeldi þrátt fyrir að fórnarlömb þess leiti hjálpar hennar. Við slíkar aðstæður snýst ákvæðið um friðhelgi einkalífsins upp í andhverfu sína. Í stað þess að verja hagsmuni allra nýtist það til þess að verja þá sem brotið hafa af sér, með því að brjóta gegn öðrum í eigin fjölskyldu. Bók Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem út kom fyrir jólin 2007 minnir okkur kröftuglega á þetta.  Við þurfum vonandi ekki aðra slíka sögu til að vakna til vitundar um þær skelfingar sem eiga sér því miður stað innan veggja sumra heimila, þar sem allt heimilsfólkið á  með réttu að njóta öryggis og verndar.

Við gerð nýrrar stjórnarskrár verðum við fyrst og síðast að hafa í huga hagsmuni þeirra sem veikast standa. Þegar ákvæðið um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verður endurskoðað verðum við í ljósi biturrar reynslu að huga sérstaklega að heill þeirra sem ekki búa við öryggi á sínu eigin heimili. Öryggi þeirra er um leið öryggi okkar allra. Samfélag er því aðeins öruggt og gott að allir sem í því lifa  búi við öryggi og skjól jafnt innan sem utan veggja heimilisins. Þess vegna verður að ganga út frá einstaklingum sem grunneiningu en ekki heimilinu. Mannhelgi og jafnrétti eru mikilvæg grundvallargildi  í því sambandi.

Sjórnarskrá er samfélagssáttmáli

Hjalti Hugason, 25. November 2010 10:10

Sjórnarksráin er sáttmáli þjóðarinnar. Hún á að tryggj gott og öruggt samfélag. Hún þarf því að byggja á skýrum grunngildum og og setja fram einfaldar meginreglur. Meira um þetta sjá:

http://www.youtube.com/watch?v=suVZThLDZek

Gildin og stjórnarskráin

Hjalti Hugason, 24. November 2010 16:23

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Gildin og stjórnarskráin

Grundvallarreglur samfélags eru settar fram í stjórnarskrá. Þar þarf að kveða á með skýrum hætti hver réttur borgaranna er og hvernig samfélaginu skuli stjórnað, hvar valdmörk liggja og hvert hlutverk forseta, Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla er. Í stjórnarskrá verður einnig að setja fram grunngildi samfélags. Ekkert samfélag er án gilda né heldur verður samfélag byggt á einstaklingsbundnum gildum einum saman. Megingildin hljóta að vera sameiginleg eins og meginreglurnar. Á þessu tvennu hvílir samfélagsheildin og einingin — gildunum og reglunum.

Sameiginleg gildi samfélags geta komið fram á tvo vegu, beinan eða óbeinan. Okkur er ugglaust tamara að setja gildi okkar fram á óbeinan hátt. Þá er ekki fjölyrt um þau í opinberum textum heldur koma þau fram sem grundvöllur ákveðinna laga eða réttarreglna. Í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum kemur fram ákveðin samfélagssýn, út úr hegningarlögum má lesa mannskilning og afstöðu til umhverfisins út úr náttúru- og dýraverndarlögum svo dæmi séu tekin. Hin leiðin er að fjalla beint og opið um þau gildi sem byggt skal á í samfélaginu eða einstökum stofnunum þess. Það er ekki gert á mörgum stöðum í íslenskum lögum en eitt dæmi er að finna í 2. gr. laga um grunnskóla 2008 nr. 91 12. júní. Þar segir m.a.: „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Skyldunámsskólinn er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins. Honum er ætlað að annast um börnin, dýrmætasta og viðkvæmasta þjóðfélagshópinn. Þar fer líka mótun uppvaxandi kynslóða fram — þeirra sem eiga að erfa landið og varðveita einingu þjóðarinnar í framtíðinni. Það er því ekki tilviljun að gildagrunnur hans sé skilgreindur.

Við sem þetta ritum teljum nauðsynlegt að sameiginleg gildi samfélagsins séu sett skipulega fram víðar en en í grunnskólalögum. Slíkt getur myndað viðspyrnu gegn óförum á borð við þær sem við gengum í gegnum í Hruninu. Margt bendir til að gildi okkar hafi verið óljós og á reiki og að það hafi ekki síst hrundið okkur fram af brúninni. Stundarhagsmunir fárra fengu forskot á langtímahagsmuni heildarinnar. Slíkt gerist ekki í samfélagi sem er meðvitað um gildi sín og byggir á öðru en kaldri nytjahyggju.

Ef samfélag á að hafa sameiginleg og vel skilgreind gildi verður að kveða á um þau í stjórnarskránni. Hún er langtímaminni samfélagsins, hluti af því lími sem heldur því saman. Ef það er ekki gert er hætt við að ráðandi öfl í pólitík hvers tíma þröngvi sínum gildum inn í einstaka kima og stofnanir samfélagsins. Öll stjórnmál eru gildishlaðin en gildismatið er mjög ólíkt frá einum flokki til annars. Fyrir einum er frelsi einstaklingsins helgur réttur þó það geti ógnað öryggi einhverra. Fyrir öðrum skiptir öryggi allra mestu máli þó það geti skert frelsi sumra einstaklinga og hópa. Hvort tveggja er fullgilt gildismat og milli þessarra andstæðu kosta og fjölmargra annarra verður að velja á hverjum tíma. Skilgreind gildi í stjórnarskrá geta dregið úr sveiflum, tryggt samhengi og unnið gegn öfgum.

Á hvaða gildum er mögulegt að byggja í stjórnarskrá? Þau verða að vera fá, skýr og almenn. Mannhelgi er eitt, samstaða er annað, jafn réttur allra án tillits til þess sem til mismununar kann að leiða hið þriðja, velferð öllum til handa í félagslegu, efnahagslegu og andlegu tilliti hið fjórða, „helgi“ náttúrunnar það fimmta og svo mætti áfram telja. Það ætti þó að varast að ganga of langt.

En hvaðan eru þessi gildi komin? Auðvelt er að rekja þau beint til kenninga Jesú frá Nasaret og segja þau kristin. Það má þó líka færa að því rök að þetta séu klassísk vestræn gildi, húmanistísk eða janfnvel sammannleg þegar dýpst er skoðað. Raunar skipta merkimiðar engu máli í þessu sambandi. Það er mikilvægara að við getum sammælst um nokkrar og einfaldar yðringar í þessa veru fremst í nýrri stjórnarskrá okkar. Það tryggir ekki réttlátt, mannúðlegt samfélag í landinu. Gildagrunnur af þessu tagi gæti aftur á móti reynst notadrjúgt vopn í baráttu gegn félagslegu ranglæti, hentistefnu, pólitískum tískubólum eða öðru því sem valdhafar á hverri tíð kynnu að glepjast af.

Virðing eða umburðarlyndi

Hjalti Hugason, 23. November 2010 12:41

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023 og Hjalti Hugason 7132

Virðing eða umburðarlyndi?

Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Margt sem áður þótti sjálfsagt er það ekki nú. Við getum ekki lengur gefið okkur að allir Íslendingar séu norrænir í útliti, eða mótaðir frá barnæsku af vestrænum hugsunarhætti og kristnum gildum. Fjölbreytileikinn er smátt og smátt að taka við af einsleitninni og spurningin er áleitin: Hvernig ætlar íslenskt samfélag að bregðast við?

Margt bendir því miður til þess að við sem samfélag höfum ekki staðið okkur sem skyldi við að aðlagast breyttum aðstæðum. Alltof oft heyrum við af því að þeim sem skera sig úr á einhvern hátt sé sýndur hroki og yfirlæti, ekki síst ef þau hafa ekki náð fullum tökum á íslenskri tungu. Þau sem hafa búið í öðru landi lengur eða skemur þekkja af eigin raun hve erfitt það getur verið að þurfa að tjá sig á öðru máli en móðurmálinu. Undir ákveðnum kringumstæðum getur það reynst flókið þegar umræðuefnið krefst orðaforða sem er viðkomandi framandi. Almennt er innfæddum Íslendingum sem ekki tala sérstaklega „góða íslensku“ sýndur mun meiri skilningur en þeim sem tala með hreim. Við þurfum að taka á þessum vanda og þeim fordómum sem koma fram í viðhorfum til þeirra sem eru hluti af samfélagi okkar en eiga íslensku ekki að móðurmáli.

Til þess eru vítin að varast þau. Margir benda á reynslu nágrannaþjóða okkar af breyttri samfélagsgerð sem innflutningur fólks af öðru þjóðerni hefur haft í för með sér. Vissulega hefur ekki allsstaðar gengið vel að byggja gott og öruggt fjölmenningarsamfélag. Af þeirri reynslu verðum við að læra. En við getum líka lært af reynslu okkar sjálfra við að glíma við fordóma gagnvart þeim sem skera sig úr fjöldanum. Á síðustu árum hefur vissulega ýmislegt breyst til batnaðar á meðal okkar.  Afstaða samfélagins til samkynhneigðra hefur til dæmis breyst mikið á skömmum tíma. Í framhaldinu hafa aðstæður samkynhneigðra einstaklinga batnað mikið. Við getum lært margt af þessari reynslu okkar. Það er vissulega hægt að taka á fordómum, ef vilji er til.

Fjölmenningarsamfélag er ekki valmöguleiki sem við stöndum frammi fyrir. Það er þvert á móti verkefni sem okkur ber að leysa. Fjölmenningarsamfélag verður að byggja á virðingu fyrir þeim sem skera sig úr. Umburðarlyndi nægir ekki. Það er ekki nóg að við umberum þau sem falla ekki undir staðalmynd hins íslenska borgara. Við verðum að virða þau sem jafningja og læra að meta það sem þau vilja og geta lagt til samfélags okkar. Virðing en ekki umburðarlyndi er lykillinn að góðu og öruggu samfélagi þar sem margbreytileiki nýtur sín og auðgar samfélagið.

Þetta þarf að vera leiðarljós við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir íslenskt fjölmenningarsamfélag.

Auðlindirnar og stjórnarskráin

Hjalti Hugason, 22. November 2010 10:00

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023.

Auðlindirnar og stjórnarskráin

Það er margt sem gerir fólk að þjóð umfram sameiginlega stjórnarskrá, lög og réttarreglur. Okkur Íslendingum er tamt að benda á sameiginlega tungu og sögu. Margir bæta við sameiginlegri trú. Á 21. öld má reikna með að svörin breytist. Stöðugt fleiri bætast í okkar raðir sem eiga annað móðurmál, aðra sögu og aðra trú. Við verðum að búa okkur undir að hér verði fjölmenningarlegt samfélag á borð við það sem gerist í grannlöndum okkar. Ef okkur auðnast að taka vel á móti þeim sem hingað kjósa að flytjast mun fjölbreytileikinn auðga samfélag okkar. Fjölmenning er því ögrun en ekki ógn.

Eitt munum við þó alltaf eiga sameiginlegt sem hér búum. Það er landið með auðlindum þess til lands og sjávar. Landið er ekki eign sem við megum ráðskast með út frá eigin skammtímahagsmunum, eftir því hvernig árar hverju sinni. Okkur er skylt að líta á landið sem ættarauð sem við höfum tekið í arf frá gengnum kynslóðum og ber að skila til óalinna í betra ástandi en við tókum við því. Þess vegna ber okkur að standa vörð um náttúru landsins, sporna við uppblæstri og draga úr útblæstri. Umhverfispólitík er þegar orðið málefni 21. aldarinnar og verður það í ríkari mæli eftir því sem árin líða. Hún snertir bæði líf okkar og framtíð í landinu og í heiminum.

Ísland er þó ríkt af auðlindum sem okkur ber að nýta til að leggja grunn að „gróandi þjóðlífi“. Þetta verðum við að gera með langtímasjónarmið í huga og umfram allt að gera heildstæðar rammaáætlanir um auðlindanýtinguna til langs tíma. Þar verður í ríkum mæli að ganga út frá sjálfbærni. Sjálfbærni er ekki slagorð heldur lykill að framtíðinni. Samkvæmt Brundtlandsskýrslunni frá 1987 (bls. 54) er sjálfbærni: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“

Þegar þessa hefur verið gætt verður að taka næsta skref. Það felst í því að ákveða hvernig auðlindirnar verða nýttar í þágu þjóðarinnar sjálfrar og þjóðarinnar allrar. Eignarhald á þeim verður að vera í höndum þjóðarinnar á óyggjandi hátt. Ekki ætti að vera heimilt að framselja nýtingu þeirra í annarra hendur lengur en nemur einni kynslóð og þá gegn raunhæfu gjaldi og búa verður svo um hnúta að meirihluti arðs  haldist í landinu, t.d. í formi mannvirkja. Þá ætti að nýta auðlindirnar þannig að sem flest framtíðarstörf verði hér innanlands. Í stjórnarskrá verður að setja ramma sem tryggja auðlinfanýtingu af þessu tagi.

Þegar hugsað er til framtíðar þarf að hugsa opið og hugsa stórt. Því skiptir miklu að litið sé á náttúrugæði í víðasta skilningi sem auðlindir. í dag vitum við ekki hvað telst auðlind á morgun. Það höfum við best séð á því endurmati sem nú örlar sem betur fer á hvað ósnortin víðerni landsins snertir.

Sókn, vörn eða samræða — á 21. öldinni

Hjalti Hugason, 19. November 2010 14:59

Hjalti Hugason 7132 og Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Sókn, vörn eða samræða — á 21. öldinni

Það eru til ýmis konar kirkjur, til dæmis ríkiskirkjur, þjóðkirkjur og fríkirkjur. Þá er einkum litið til stjórnskipunar. Það eru líka til meirihlutakirkjur og minnihlutakirkjur. Þá er litið til hlutfallslegrar stærðar þeirra. Svo er mögulegt að „flokka“ kirkjur út frá starfsháttum. Þá má tala um „sóknarkirkjur“, „varnarkirkjur“ og „samræðukirkjur“.

„Sóknar-“ og  „varnarkirkjurnar“ skynja sig ekki sem hluta af samfélaginu. Þær líta svo á að að þær eigi við andstæðinga að etja og spila ýmist sóknar- eða varnarleik.

„Sóknarkirkjurnar“ sækja fram með sístæðan boðskap sinn, fagnaðarerindið um Krist, oft í yddaðri eða skerptri mynd. „Varnarkirkjurnar“ hopa aftur á móti undan gagnrýni eða aukinni samkeppni, finna sig ofsóttar eða á sig hallað. Kirkjusagan vitnar um sókn og vörn í 2000 ár. 

Sókn og vörn kunna að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvitund kirkna þó með mismunandi móti sé. Leikfléttan segir nefnilega meira um kirkjurnar sjálfar og túlkun þeirra á stöðu sinni en raunverulegt umhverfi þeirra. Kristin kirkja hefur á liðnum öldum oft liðið vegna ofsókna en eigi að síður spilað sterkan sóknarleik. Hin líðandi kirkja er raunar ávallt sigrandi kirkja. Það er vegna þess að hún líður ekki ein. Hún líður með stofnanda sínum. Svo hafa líka stórar og sterkar kirkjur hrokkið í vörn af litlu tilefni. Það endar oftast illa. Meirihlutakirkjur eiga erfitt með að bregða sér í hlutverk píslarvotts.

Öldin okkar, 21. öldin verður öld fjölhyggjunnar. Nú verðum við að læra að lifa saman í sátt og samlyndi hvaðan sem við komum, hvert sem við stefnum, hvað sem okkur finnst eða hverju við trúum. Á því veltur velferð okkar og barna okkar í framtíðinni. Ella mun fjölhyggjan steypa okkur í glötun. Þessvegna er mikil þörf fyrir „samræðukirkjur“.

„Samræðukirkjur“ líta ekki svo á að þær séu á keppnisvelli heldur á torginu í þorpinu miðju — heimsþorpinu. Áður fyrr komu „öldungarnir“ eða hinir frjálsu karlar saman á torginu, réðu þar ráðum sínum og ráðskuðust með aðra. Nú verður torgið að vera vettvangur allra, kvenna og karla, ungra og gamalla, hinseigin og svona. Þar talar hver fyrir sig. “Samræðukirkjurnar“ setjast í hringinn til þess að taka þátt í samræðum.

Í þessu felst ekki undansláttur eða aðlögun að tíðaranda. Á torgi tekur enginn eftir rödd þess sem ekki finnst neitt, hefur enga skoðun eða trúir engu. Á torgi verður hver og einn að hafa skýran málstað og standa með honum. Á torgi þarf að hlusta, hugsa og tala frá hjartanu. Þetta reyna „samræðukirkjurnar“ að gera en vænta þess um leið að aðrir geri slíkt hið sama.

Jafnréttið og stjórnarskráin

Hjalti Hugason, 19. November 2010 13:18

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023 og Hjalti Hugason 7132

Jafnréttið og stjórnarskráin

Það er margt sem við tökum sem sjálfgefnu i samfélagi okkar. Þó að við tökum það sem sjálfgefnu í dag að konur hafi kosningarétt til Alþingis, hafa þær aðeins notið hans í tæpa öld. Við lítum einnig á það sem sjálfsagðan hlut að allir hafi aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum og svo mætti lengi telja. Það gleymist stundum að það eru ekki nema rétt 100 ár síðan lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta voru samþykkt á Alþingi. Þangað til gátu konur t.d. lært til læknis eða prests en höfðu samt ekki rétt til að gegna þessum opinberu embættum.

Fyrstu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi árið 1976. Síðan þá hefur margt breyst í íslensku samfélagi og jafnréttislögin hafa verið endurskoðuð með reglulegu millibili, nú síðast árið 2008. Nú þykir flestum sjálfsagt að konur gegni sömu embættum og karlar og konur eru meirihluti þeirra sem stunda háskólanám hér á landi. En þrátt fyrir að ýmislegt sé í höfn þá er vissulega ennþá margt eftir. Ennþá er talsvert langt í land þar til konur njóta jafnra launa og karlar og kynbundið ofbeldi er enn þann dag í dag stórt vandamál í íslensku samfélagi. Tvö stór mál sem íslenskar konur settu á oddinn á kvennafrídaginn í október s.l.

Víða út í heimi er litið svo á að Ísland sé fyrirmynd allra annarra landa þegar kemur að  jafnrétti kynjanna. Vissulega er það að mörgu leyti rétt, en það segir kannski meira um stöðu kvenna almennt úti í hinum stóra heimi, en ástandið hér. Við megum nefnilega ekki sætta okkur við neitt annað en algjört jafnrétti og að því hljótum við að stefna.

Fyrirmyndir skipta miklu máli þegar við hugum að því hvernig við getum náð markmiði okkar um algjört jafnrétti kynjanna. Þannig hafa konur eins og Vigdís Finnbogadóttir haft gífurleg áhrif og einfaldlega breytt hugmyndum fólks um hæfni kvenna til þess að gegna dæmigerðum „karlastörfum“. En það þarf meira til en góðar fyrirmyndir. Við þurfum sanngjarnan lagaramma, sem stendur vörð um velferð kvenna jafnt sem karla. Og við þurfum að tryggja grundvallarjafnrétti kynjanna í íslenskri stjórnarskrá.

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um útvíkkað jafnréttishugtak, sem vísar ekki bara til jafnréttis kvenna og karla. Oft hefur sú umræða orðið til þess að kynjajafnréttið fellur í skuggann. Það er óásættanlegt. Jafnréttisumræðan í stærra samhengi má aldrei verða á kostnað umræðunnar um jafnrétti kvenna og karla. Kynjajafnréttið varðar jú alla hópa, líka fatlaða, samkynhneigða, innflytjendur og svo framvegis. Fyrst og síðast skal það áréttað að jafnrétti kynjanna er ekkert náttúrulögmál. Það er heldur ekkert sem gerist bara með tímanum. Konur hafa hingað til þurft að sækja öll sín réttindi og oft hefur það krafist mikillar baráttu. Það er kominn tími til að breyta því. Jafnréttismál eru sameiginleg hagsmunamál beggja kynja, því það hlýtur að vera hagur okkar allra að dætur okkar og synir eigi sömu möguleika sem þátttakendur í íslensku samfélagi framtíðarinnar.

Pólitísk ábyrgð og aðhald

Hjalti Hugason, 18. November 2010 13:03

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Ábyrgð og aðhald

Það er misjafnt frá einu landi til annars hvernig stjórnmálamenn axla pólitíska ábyrgð. Víða er það svo að vakni grunur um að pólitíkus hafi á einhvern hátt misfarið með vald sitt, misnotað aðtöðu sína eða á annan hátt misstigið sig í hlutverki sínu  verður hann eða hún að hugleiða stöðu sína og oftar en ekki fara frá, segja af sér. Þetta er stundum nefnt heiðursmannaafsögn. — Slík afsögn er oftast ekki endalok á stjórnmálaferli heldur þvert á móti nýtt upphaf. Sá eða sú sem axlar ábyrgð getur snúið aftur með endurnýjað traust, jafnvel orðið leiðtogi.

Hér á landi er þetta því sem næst óþekkt fyrirbæri. Stjórnmálamenn sitja oftast af sér bylinn í skjóli flokka sinna. Hafa t.d. einhverjir stjórnmálamenn axlað ábyrgð eftir Hrun?

Hér er pólitískri ábyrgð oft blandað saman við annars konar ábyrgð, t.d. persónulega ábyrgð eða jafnvel persónulega sök. Þessu verður þó að halda aðskyldu. Stjórnmálaforingi ber pólitíska ábyrgð langt umfram það sem hann eða hún framkvæmir persónulega, tekur ákvörðun um eða lætur undir höfuð leggjast að hafa afskipti af. Pólitísk ábyrgð hefur heldur ekkert með sekt eða sakleysi að gera og er aðeins að hluta til lögfræðilegs eðlis. Pólitísk ábyrgð er félagslegt fyrirbæri, náskyld trausti og trúverðugleika.

Í landi þar sem skilningur á pólitískri ábyrgð er takmarkaður og stjórnmálamenn eru tregir til að axla hana þarf að vera ljóst hvernig þeir verða kallaðir til ábyrgðar. Lög og reglur verða þó seint sett um það hvernig laskað traust skuli endurvakið enda er það fyrst og fremst mál þess eða þeirrar sem glatað eða fyrirgert hefur trausti sínu. Við þurfum aftur á móti að setja okkur ramma um það hvernig stjónmálamenn, einkum ráðherrar, verða kallaðir til ábyrgðar, jafnvel í lögformlegri merkingu, á einhverju sem  hann eða hún hefur annað tveggja aðhafst ólöglega í embætti sínu eða vanrækt að gera af ásetningi eða fyrir mistök.

Lengi hafa stjórnmálamenn vísað til þess að í stjórnarskrá sé að finna ákvæði sem tryggi okkur aðhald með stjórnmálastéttinni, þ.e. forystumönnum hennar. Er þar átt við ákvæði 14. gr. stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð og landsdóm. Þess er skemmst að minnast þegar Alþingi stóð frammi fyrir þeirri prófraun að framkvæma þetta ákvæði. Þjóðarinnar er að meta hvort stjórnmálamenn stóðust prófið eða ekki. Að mati okkar varð niðurstaðan í öllu falli í þá veru að endurskoða þarf 14. gr. frá grunni. Það þarf að skerpa á ráðherraábyrgðinni, ganga þannig frá landsdómi eða þeim dómstól og/eða rannsóknarnefnd sem leysir hann af  hólmi að hann sé hafinn yfir deilur og standist nútímakröfur. Þetta er einn af þeim hlutum stjórnarskrárinnar sem bitur reynsla undangenginna missera sýnir og sannar að skrifa þurfi frá grunni. Stjórnarskrá þarf að tryggja pólitískt siðgæði og ábyrgð í landinu.

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Hjalti Hugason, 17. November 2010 13:34

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023 og

Hjalti Hugason 7132

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Umræður um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju hefur staðið með hléum í rúma öld. Allan tímann hafa rök með og á móti verið keimlík. Orðræðan hefur troðið marvaða. Eitt og eitt skref hefur þó verið tekið í átt að aðgreiningu eða jafnvel aðskilnaði.

Um miðja 19. öld hófst aðgreining ríkis og kirkju í danska ríkinu og fyrir alvöru hér á landi 25 árum síðar. Við gildistöku stjórnarskrárinnar 1874 komst hér á trúfrelsi og þjóðkirkja. Í lok 20 aldar var þjóðkirkjan loks skilgreind sem „sjálfstætt trúfélag.“ Þetta þýðir þó ekki að aðskilnaður hafi átt sér stað.

Margir möguleikar

Það er teygjanlegt hvað átt er við með aðskilnaði ríkis og kirkju og matsatriði hvenær hann hafi orðið. Áður en ákveðið verður að skilja að ríki og þjóðkirkju þarf að marka stefnu um hvaða markmiðum skuli náð.

Er nægilegt að öll trúfélög hafi sömu stöðu í samskiptum við ríkisvaldið? Á ríkið engin afskipti að hafa af nokkru trúfélagi? Á að setja trúfélögum svo þrönga ramma að tilveru þeirra sjái ekki stað í opinberu rými? Allt rúmast þetta undir aðskilnaði ríkis og kirkju. Sum módelin kæmu fastlega til álita. Önnur gætu brotið í bága við almenn mannréttindi ef þeim væri framfylgt til hins ýtrasta.

Í vestrænu lýðræðissamfélagi virðist ákjósanlegt að hið opinbera hafi sem minnst afskipti af trúmálum. Í velferðarsamfélagi má þó færa rök fyrir því að skilgreina þurfi a.m.k. ytri ramma um störf trúfélaga. Það er vegna þess að trúfélög geta auðgað velferðarkerfið en geta líka gengið nærri tilfinningum fólks. Slíkir rammar eru þeim mun mikilvægari því stærri og umsvifameiri sem trúfélög eru. Það er eitt af því sem mælir með tengslum og samstarfi hins opinbera og þjóðkirkjunnar.

Aðskilnaður frá sjónarhóli kirkjunnar

Frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar má færa ýmis rök sem mæla með aðskilnaði. Þau mikilvægustu eru að þannig mundi hún öðlast frelsi til að lifa og starfa einvörðungu á eigin forsendum.

Nú býr þjóðkirkjan hvorki við trúfrelsi né fullt félagafrelsi. Hún getur ekki hróflað við játningagrunni sínum og Alþingi ákveður meginþættina í stofnunarlegri uppbyggingu hennar. Hún hefur þegið það frelsi sem hún nýtur úr hendi Alþingis. Það getur með einföldum lagabreytingum skert frelsi hennar að nýju. Þetta er óásættanlegt þegar um minnihlutakirkjur er að ræða. Trú- og félagafrelsi er þeirra helgasti réttur. Frelsisskerðing kann hins vegar að vera réttlætanleg þegar meirihlutakirkja á í hlut og er eðlileg afleiðing af  þjóðkirkjuskipan.

Aðskilnaður frá sjónarhóli annarra trúfélaga

Önnur trúfélög geta litið þjóðkirkju hornauga og fært rök að því að forréttindi hennar séu ósanngjörn. Þau verða þó að vega inn þá ókosti sem í þjóðkirkjuskipan flest. Ekkert mælir gegn því að fleiri en eitt trúfélag njóti þeirra gæða sem í þjóðkirkjuskipan felast en fyrir þau verður að gjalda það sem þau kosta — þ.e. frelsisskerðingu. Oft er miðað við að trúfélag sem nær til 5 % þjóðar hafi umtalsverð samfélagsáhrif og taka þurfi verulegt tillit til trúfélags sem nær til 10 %, t.d. með því að veita þeim að einhverju leyti hlutdeild í þeim stuðningi sem ríkið veitir þjóðkirkjunni.

Trúfélög sem hafa náð því að hafa 5 eða 10% þjóðarinnar á meðlimaskrá sínum og kynnu að vilja öðlast opinbera stöðu verða að gangast undir sömu frelsisskerðingu og hún með því að veita hinu opinbera mun meiri innsýn og jafnvel íhlutunarrétt í starf sitt en nú er. Margir frjálsir söfnuðir og trúfélög voru í upphafi einmitt stofnuð til að losna undan ríkisafskiptum og kjósa tæpast að snúa baki við þeirri sögulegu arfleifð sinni.

Þess ber að geta að þjóðkirkja hefur vegna stærðar sinnar og stöðu skyldum að gegna við önnur trúfélög. Henni ber að vera helsti málsvari trúfrelsis og berjast fyrir því að smærri trúfélög fái notið þess til fulls. Það eru ekki síst trúarhreyfingar sem starfa meðal nýrra Íslendinga og búa því ekki að sögulegri hefð í landinu sem þurfa á slíkum bakhjarli að halda. Þá ber þjóðkirkjunni að gæta þess í samvinnu við ríkisvaldið að forréttindastaða hennar skerði ekki frelsi þeirra sem standa utan vébanda hennar og ganga varlega fram gagnvart þeim.

Aðskilnaður frá sjónarhóli ríkisins

Ríkið hefur einkum tvær ástæður til að huga að aðskilnaði. Önnur er sú að verða betra lýðræðis- og jafnréttisríki. Hin er hugsanlegur sparnaður.

Túlki ríkisvaldið skyldur sínar til að styðja og vernda þjóðkirkjuna of víðtækum skilningi getur það þrengt að öðrum trúfélögum. Einnig gæti verið að svo dragi saman með þjóðkirkjunni og öðru eða öðrum trúfélögum hvað stærð eða félagsleg hlutverk snertir að sérstaða þjóðkirkjunnar taki að orka tvímælis. Hér á landi virðist langt í þær aðstæður en komi þær upp eru tvær leiðir færar: Að auka aðskilnað ríkis og þjóðkirkju með því að draga úr sérstöðu hennar eða að veita þeim trúfélögum sem til greina kæmu hlutdeild í þeim kostum sem felast í stöðu þjóðkirkjunnar. Þ.e.a.s. ef þau eru fús til að kaupa þá stöðu með óskoruðu frelsi sínu. Sé sú leið farin kæmi til greina að ræða fremur um samstarfskirkjur en þjóðkirkjur en með því er átt við kirkjur sem starfa í samvinnu við ríkisvaldið t.d. á grundvelli laga og/eða samninga. Í þjóðkirkjuskipan eins og hún er nú felst mismunun trúfélaga. Í þjóðkirkjuskipaninni felst hins vegar ekki að ríkisvaldið þurfi að mismuna trúfélögum. Þvert á móti er ríkinu heimilt að styja öll trú- og lífsskoðunarfélög. Það ætti ríkisvaldið e.t.v. að gera ef litið er svo á að þau gegni raunhæfu hlutverki í velferðarsamfélagi 21. aldar.

Spurningin um sparnað af aðskilnaði ríkis og kirkju er flóknari. Þar til í byrjun 20. aldar var þjóðkirkjan sjálfbær stofnun sem stóð undir eigin rekstri með tekjum af eignum sínum. 1907 afhenti hún ríkinu forræði yfir meginþorra eignanna og sætti sig við að um 1/5 af prestaköllum hennar væri lagður niður gegn því að ríkið ábyrgðist launakostnað þeirra presta sem eftir voru. Út úr þessari 100 ára gömlu sögu getur ríkisvaldið ekki bakkað með því að láta eins og ekkert hafi gerst. Við aðskilnað yrði það að sjálfsögðu að skilja svo við kirkjuna að hún gæti að nýju staðið á eigin fótum. Það er ekki ljóst að slíkt uppgjör fæli í sér sparnað, a.m.k. til skamms tíma litið.  

Aðskilnaður frá sjónarhóli samfélags og þjóðar

Almennt hljótum við að spyrja hvort hér yrði betra samfélag eða betra þjóðlíf — hollara mannlíf — ef öll tengsl ríkis og trúfélaga yrðu rofin og trúfélögin e.t.v. útilokuð úr opinberu rými eins gert yrði ef keppt væri að „fullum aðskilnaði“. Rök kunna að vera til fyrir því. Þessháttar fyrirkomulag hefði þó ýmsa ókosti. Trúfélög óháð stærð gætu þá lokað sig af, myndað félags- og menningarkima, sem fremur skaða en styrkja samfélagsheildina. Það er að gerast í löndunum umhverfis okkur þar sem trúarlegu tjáningarfrelsi er að ýmsu leyti sniðinn þrengri stakkur en áður. Slíkt ástand kallar fremur fram spennu en aðlögun. Trúarbrögð verða að líkindum sterkari áhrifavaldar í samfélaginu á komandi áratugum en var raunin á síðustu á öld. Margt bendir til að hugmyndin um hið veraldarvædda samfélag sé í blindgötu.

Við kunnum og að vera stödd í þeim aðstæðum að í nánustu framtíð muni reyna meira á samhjálp, sjálfboðið starf og velferð sem byggir í ríkari mæli á óformlegu samfélagslegu neti en tíðkast hefur á næstliðnum áratugum er ríkið hefur að mestu verið ábyrgt fyrir velferðinni. Við slíkar aðstæður gegna trúfélög mikilvægu hlutverki, ekki síst gömul, stór og sterk trúfélög — hafi þau ekki misst sjónar á eðli sínu og köllun og orðið stofnanir meðal annarra ríkisstofnana. Þjóðkirkjan er góðu heilli þegar farin að laga sig að þessum breyttu aðstæðum með aukinni kærleiksþjónustu og hjálparstarfi. Slíkt mælir fremur með en móti tengslum hennar við ríkisvaldið.