Alþingi víti til að varast

Hjalti Hugason, 11. November 2010 16:35

Hjalti Hugason og Arnfríður Guðmundsdóttir

Alþingi — víti að varast

Á öndverðu næsta ári munu tvö þing starfa á Íslandi, Alþingi og stjórnlagaþing.

Að öllu eðlilegu bæri stjórnlagaþingi að taka Alþingi sér til fyrirmyndar. Stjórnlagaþing sem kosið er til skamms tíma og til sérstaks hlutverks sem Alþingi alla jafna fer með. Alþingi er líka gömul stofnun með langa þinghefð, mótuð þingsköp og mikla uppsafnaða reynslu.

Nú víkur aftur á móti svo við að á þeim sem veljast til setu á stjórnlagaþingi hvílir sú skylda að líta fremur til Alþingis sem víti til að varast en fordæmis. Hér er ekki ráðist að heiðri löggjafarsamkomunnar sem slíkrar, því Alþingi sem stjórnarskráin kveður á um og er á meðal helgustu dóma þjóðarinnar. Hér er átt við samkomuna sem nú starfar við Austurvöll og vekur þjóðinni æ oftar blygðun, forundran og reiði.

Alþingi hefur lengi verið í  gíslingu gömlu flokkanna fjögurra, pólitískra valdablokka sem lifa sínu eigin lífi að því er virðist í takmörkuðum tengslum við þjóðina sjálfa sem þeim er þó ætlað að þjóna. Á Alþingi eru vart stunduð stjórnmál sem rísa undir nafni. Þar er ástunduð grunnfærin átakapólitík sem miðar frekar að því að koma höggi á andstæðinginn en að vinna að þjóðarhag nú þegar svo miklu skiptir að allir leggist á eitt. Afleiðingin er að vart hefur Alþingi nokkru sinni notið minni virðingar og trausts þjóðarinnar en einmitt nú.

Af þessum sorglegu ástæðum hvílir sú skylda á herðum þeirra sem veljast til setu á stjórnlagaþingi að sýna fram á að á Íslandi sé mögulegt að stunda stjórnmál, það er stefnumörkun fyrir samfélagið, án pólitískra flokkadrátta, án þrætubókar, án hagsmunapots og undirmála. Þeim sem taka sæti á stjórnlagaþingi ber að sýna og sanna að stjórnlagaþing sé þing þjóðarinnar sjálfrar; þing sem kosið er af þjóðinni og endurspeglar þjóðina í öllum sínum fjölbreytileika; þing sem helgar sig helstu hagsmunum þjóðarinnar sem er það að hér komist á réttlátt þjóðfélg byggt á lýðræði, jafnrétti og mannréttindum.