Trúfrelsi í stjórnarskrá

Hjalti Hugason, 13. November 2010 12:01

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Trúfrelsi í stjórnarskrá

Um trúmál er fjallað í heilum kafla aftarlega í núgildandi stjórnarskrá og er þar byggt á hefð allt frá 1874. Auk þess er að finna bann við mismunun vegna trúarbragða í 65. greininni, það er fyrstu grein mannréttindakaflans frá 1995. Trúmálakaflinn skiptist í tvennt: Kirkjuskipanina í 62. gr. og trúfrelsisgreinarnar (63. og 64. gr.).

Spyrja má hvort fjalla eigi sérstaklega um trúmál í stjórnarskrá umfram það sem gert er í jafnræðisreglunni. Svar okkar sem þennan pistil rita er já. Jafnræðisregla í núverandi eða breyttri mynd nægir ekki.

Íslenska samfélagið stendur á þröskuldi fjölmenningar. Að öllu eðlilegu mun það þróast í sömu átt og samfélög annars staðar í Evrópu þar sem fólk af mismunandi þjóðerni,, kynþáttum og trúarbrögðum lifir hlið við hlið eins og lagt var upp með er jafnræðisreglan var innleidd 1995. Það hlýtur að vera eðlilegt að í stjórnarskrá sé skapaður rammi fyrir það hvernig fólk sem hingað leitar fær sameinast íslensku samfélagi (t.d. með ákvæðum um ríkisborgararétt o. fl.) en jafnframt haldið sérkennum sínum. Við sjáum dæmi um mikilvægi hins síðarnefnda hjá Íslendingum í Vesturheimi.

Trúfrelsisákvæði  eru ekki hvað síst nauðsynleg til að verja mannréttindi fólks sem hefur flutt hingað búferlum. Það eru einkum þeir einstaklingar sem þurfa á trúfrelsi að halda. Trú og trúariðkun skipar oft veigamikinn sess í félagslegri og einstaklingsbundinni sjálfsmynd þeirra Eins þarf trúfrelsi að tryggja stöðu þeirra sem standa vilja utan trúfélaga eða hafna trú. Meirihlutinn, í okkar tilviki hin evangelísk-lútherska kirkja, þarf  ef til vill síður á útfærðara trúfrelsisákvæði að halda en því sem lagt er upp með í jafnræðisreglunni.

Í núverandi mynd eru trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar orðuð svo:

63. grein Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. grein Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.

Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

Mörgum kann að finnast sem í þessum greinum kveði við 19. aldar tón. Virðist að ósekju mega einfalda orðalag og fækka ákvæðum. Trúfrelsisgrein í stjórnarskrá 21. aldarinnar mætti t.d. orða svo:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Ekki má skerða borgaraleg réttindi neins vegna trúarbragða hans, né heldur má nokkur skorast undan almennri þegnskyldu vegna þeirra.

Ákvæðinu er ætlað að tryggja skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á hinu trúarlega sviði til jafns við það sem er á hinu veraldlega sviði. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og trúariðkunar. Ekki má t.a.m. skylda þá til að standa straum af trúarlífi annarra. Ef til vill er þetta of sjálfsagt til að það þurfi að kveða á um það í stjórnarskrá.

Vera má að jafnræðisreglan kveði með fullnægjandi hætti á um að ekki megi skerða rétt fólks vegna trúarskoðana. Hins vegar er ljóst að einhvers staðar þarf að setja mörk og undirstrika að einföld tilvísun til trúar leysi fólk ekki undan almennri félagsskyldu. Hér er litið svo á að ákvæði bæði um réttindi og skyldur glæði stjórnarskrárgreinina jafnvægi sem vert væri að halda í þrátt fyrir að um tvítekningu kynni að vera að ræða.

Ákvæðið virðist þó ná markmiðum sínum þannig orðað:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúarskoðana.

Hugsanlega þykir einhverjum eftirsjá af tilvísun til hins góða siðferðis og allsherjarreglunnar. Í það má að ósekju halda þó betra væri að vísa aðeins til þess að ekkert megi fremja sem brjóti gegn einhverjum sérlögum íslenska ríkisins. Þá gæti greinin hljóðað svo:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn má vegna trúarskoðana skorast undan almennri þegnskyldu né fremja neitt sem gagnstætt er lögum.

Umfram allt ætti svo að færa trúfrelsisgreinina yfir í mannréttindakaflann sem vonandi fær táknrænni stöðu framar í hinni nýju stjórnarskrá en hann hefur nú. Vel færi á því að kveðið væri á um trúfrelsi næst á eftir almennu félagafrelsi.

Af sjötta kafla stæði þá 62. gr., kirkjuskipanin, ein eftir. Hún er þó kapítuli út af fyrir sig og þarfnast sérstakrar umræðu.