Gildin og stjórnarskráin

Hjalti Hugason, 24. November 2010 16:23

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Gildin og stjórnarskráin

Grundvallarreglur samfélags eru settar fram í stjórnarskrá. Þar þarf að kveða á með skýrum hætti hver réttur borgaranna er og hvernig samfélaginu skuli stjórnað, hvar valdmörk liggja og hvert hlutverk forseta, Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla er. Í stjórnarskrá verður einnig að setja fram grunngildi samfélags. Ekkert samfélag er án gilda né heldur verður samfélag byggt á einstaklingsbundnum gildum einum saman. Megingildin hljóta að vera sameiginleg eins og meginreglurnar. Á þessu tvennu hvílir samfélagsheildin og einingin — gildunum og reglunum.

Sameiginleg gildi samfélags geta komið fram á tvo vegu, beinan eða óbeinan. Okkur er ugglaust tamara að setja gildi okkar fram á óbeinan hátt. Þá er ekki fjölyrt um þau í opinberum textum heldur koma þau fram sem grundvöllur ákveðinna laga eða réttarreglna. Í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum kemur fram ákveðin samfélagssýn, út úr hegningarlögum má lesa mannskilning og afstöðu til umhverfisins út úr náttúru- og dýraverndarlögum svo dæmi séu tekin. Hin leiðin er að fjalla beint og opið um þau gildi sem byggt skal á í samfélaginu eða einstökum stofnunum þess. Það er ekki gert á mörgum stöðum í íslenskum lögum en eitt dæmi er að finna í 2. gr. laga um grunnskóla 2008 nr. 91 12. júní. Þar segir m.a.: „Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Skyldunámsskólinn er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins. Honum er ætlað að annast um börnin, dýrmætasta og viðkvæmasta þjóðfélagshópinn. Þar fer líka mótun uppvaxandi kynslóða fram — þeirra sem eiga að erfa landið og varðveita einingu þjóðarinnar í framtíðinni. Það er því ekki tilviljun að gildagrunnur hans sé skilgreindur.

Við sem þetta ritum teljum nauðsynlegt að sameiginleg gildi samfélagsins séu sett skipulega fram víðar en en í grunnskólalögum. Slíkt getur myndað viðspyrnu gegn óförum á borð við þær sem við gengum í gegnum í Hruninu. Margt bendir til að gildi okkar hafi verið óljós og á reiki og að það hafi ekki síst hrundið okkur fram af brúninni. Stundarhagsmunir fárra fengu forskot á langtímahagsmuni heildarinnar. Slíkt gerist ekki í samfélagi sem er meðvitað um gildi sín og byggir á öðru en kaldri nytjahyggju.

Ef samfélag á að hafa sameiginleg og vel skilgreind gildi verður að kveða á um þau í stjórnarskránni. Hún er langtímaminni samfélagsins, hluti af því lími sem heldur því saman. Ef það er ekki gert er hætt við að ráðandi öfl í pólitík hvers tíma þröngvi sínum gildum inn í einstaka kima og stofnanir samfélagsins. Öll stjórnmál eru gildishlaðin en gildismatið er mjög ólíkt frá einum flokki til annars. Fyrir einum er frelsi einstaklingsins helgur réttur þó það geti ógnað öryggi einhverra. Fyrir öðrum skiptir öryggi allra mestu máli þó það geti skert frelsi sumra einstaklinga og hópa. Hvort tveggja er fullgilt gildismat og milli þessarra andstæðu kosta og fjölmargra annarra verður að velja á hverjum tíma. Skilgreind gildi í stjórnarskrá geta dregið úr sveiflum, tryggt samhengi og unnið gegn öfgum.

Á hvaða gildum er mögulegt að byggja í stjórnarskrá? Þau verða að vera fá, skýr og almenn. Mannhelgi er eitt, samstaða er annað, jafn réttur allra án tillits til þess sem til mismununar kann að leiða hið þriðja, velferð öllum til handa í félagslegu, efnahagslegu og andlegu tilliti hið fjórða, „helgi“ náttúrunnar það fimmta og svo mætti áfram telja. Það ætti þó að varast að ganga of langt.

En hvaðan eru þessi gildi komin? Auðvelt er að rekja þau beint til kenninga Jesú frá Nasaret og segja þau kristin. Það má þó líka færa að því rök að þetta séu klassísk vestræn gildi, húmanistísk eða janfnvel sammannleg þegar dýpst er skoðað. Raunar skipta merkimiðar engu máli í þessu sambandi. Það er mikilvægara að við getum sammælst um nokkrar og einfaldar yðringar í þessa veru fremst í nýrri stjórnarskrá okkar. Það tryggir ekki réttlátt, mannúðlegt samfélag í landinu. Gildagrunnur af þessu tagi gæti aftur á móti reynst notadrjúgt vopn í baráttu gegn félagslegu ranglæti, hentistefnu, pólitískum tískubólum eða öðru því sem valdhafar á hverri tíð kynnu að glepjast af.