Stjórnarskrá — samfélagssáttmáli

Hjalti Hugason, 26. November 2010 11:58

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Stjórnarskrá — samfélagssáttmáli

Stjórnarskrá er gott og gilt íslenskt orð sem mörgum er ugglaust kært. Það er því líklega að flestra mati óþarft að setja við það spurningarmerki eða leita að öðru betra. Það ætti þó að ósekju mega bregða á leik með það, merkingu þess og andblæ. Líta má á svo á að stjórnarskrá merki fyrst og fremst skrá eða skjal sem takmarkar vald þess sem stjórnar enda tóku þær fyrst að fá verulegt vægi er einveldi lagðist af. Óbeint veittu þær þannig þegnunum rétt. Stjórnarskrá kemur því að ofan, úr hendi konungs eins og styttan af Kristjáni 9. við Stjórnarráðið sýnir.

Í sumum löndum er ekki talað um stjórnarskrár heldur grundvallarlög. Það er til dæmis gert í Danmörku og fyrsta stjórnarskrá okkar var raunar aðlöguð þýðing af „Danmarks grundlov“. Heitið grundvallarlög felur í sér að þau mynda undirstöður samfélagsins, grunninn. Styrkur þeirra beinist neðanfrá og upp. Á grundvallarlögum og stjórnarskrá þarf svo ekki að vera mikill inntakslegur munur eins og samanburður á dönsku grundvallarlögunum og stjórnarskrá okkar sýnir. Hér er fremur spurt um hvaða tilfinningu og andblæ við viljum að endurskoðuð eða ný stjórnarskrá okkar miðli. Við, sem þetta ritum, lítum svo á að hugtakið sáttmáli, samfélagssáttmáli, henti vel í þessu sambandi.

Sáttmálshugtakið hefur magnaða undirtóna í vestrænni menningu. Í Biblíunni er bæði rætt um gamlan og nýjan sáttmála milli Guðs og manns. Svo má fara í allt aðra átt og tengja samfélagssáttmálann við róttæk byltingaröfl. Undirtónarnir eru þó alltaf jákvæðir: Sáttmáli endurnýjar rofin tengsl og kemur á skipan þar sem óreiða ríkti áður.

Veturinn 2008–2009 kom alvarlegur brestur í samfélag okkar. Hópur fólks hafði skapað sér svigrúm til að ráðskast með fé annarra og skildi eftir sig sviðna jörð sem langan tíma mun taka að græða upp. Atburðirnir afhjúpuðu veika innviði samfélagsins og áberandi galla á stjórnarfari landsins. Í einhverjum tilfellum hafði verið brotið gegn stjórnarskránni, í öðrum tilfellum opinberuðust veikleikar þeirrar stjórnskipunar sem hún leggur grunn að. Lykilstofnanir samfélagsins glötuðu trausti í áður óþekktum mæli. Í búsáhaldabyltingunni  lá við að samfélagseiningin rofnaði vegna eðlilegra mótmæla almennings gegn þeirri stöðu sem upp var komin. Það er blekking að líta svo á að einingin standi nú á eins traustum grunni og var fyrir Hrun, þó sá grunnur hafi ekki reynt eins traustar og margir ætluðu þegar á reyndi.

Á stjórnlagaþingi verður að stíga stórt skref í átt að nýjum samfélagssáttmála, nýrri sátt og einingu okkar á meðal. Þau sem til þingsins veljast verða að vera meðvituð um að þung ábyrgð er lögð á þeirra herðar. Saman verða þau að leita þeirra grundvallargilda sem þau treysta best til að mynda undirstöðu undir nýja samfélagseiningu. Í einingu og af heilindum verða þau að draga upp þær grunnreglur sem þau vita bestar og hyggilegastar til að tryggja réttlátt samfélag — samfélag jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar þar sem margbreytileiki fær að njóta sín. Í slíku samfélagi veður öllum best búið það öryggi sem glataðist í Hruninu.