Breyta þarf 62. gr. stjórnarskárinnar

Hjalti Hugason, 16. November 2010 11:35

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Breyta þarf 62. gr. stjórnarskrárinnar!

Í 62. gr. Stjórnarskrárinnar er að finna grunn að kirkjuskipan landsins. Greinin er barn síns tíma en hún á uppruna sinni í 45. gr.  Sjórnarskrár um hin sjerstaklegu málefni Íslands frá 1874. Þá hljómaði greinin svo:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og  skal hið opinbera að því leyti styðja hana og vernda.

Orðalagið mótaðist af því að Ísland var ekki sjálfstætt ríki á þessum tíma. Af þeim sökum er rætt um hið opinbera en ekki ríkisvaldið.

Ákvæðið um að lútherska kirkjan „skuli vera“ þjóðkirkja á Íslandi er afleiðing af hinu sama. Í dönsku stjórnarskránni frá 1849 sagði í 3. gr. (og segir enn í 4. gr.): „ Den evangelisk-lutherske Kirke er den danske Folkekirke og understøttes som saadan af Staten.“ Eins og fram kemur í textanum er hér aðeins um lýsingu á aðstæðum að ræða. Fram að stjórnarskránni hafði ekki ríkt trúfrelsi í Danmörku. Þjóðin var því lúthersk og lútherska kirkjan kirkja þjóðarinnar. Af þeim sökum þótti rétt og skylt að ríkið styrkti hana, þ.e. styddi við trúarlega menningu þjóðarinnar. Þar sem Ísland var hluti af danska ríkinu varð sama ástand að ríkja hér. Af þeim sökum var „lýsandi“ ákvæði dönsku stjónarskrárinnar gert að „fyrirskipandi“ ákvæði í stjórnarskránni um sérmál Íslands. Til þessa þarf að taka tillit við alla umræðu um 62. gr. 

Einnig er nauðsynlegt að 62. gr. segi alla söguna um kirkjuskipanina hvað stjórnarskrána áhrærir. Svo er ekki nú. Í 62. gr. segir eins og flestir vita:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum.

Síða er haldið áfram í 79. grein (síðari hluta):

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Lágmarksbreyting á 62. gr. er því að hún verði þannig:

Hin evangeliska lúterska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum. Samþykki Alþingi breytingu á kirkjuskipuninni skal bera það mál undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Málfarið ber 19. öldinni óneitanlega vitni og það þarf að samræma stíl væntanlegrar stjórnarskrár.

Síðan verður auðvitað að ræða hvort evangelísk-lútherska kirkjan sé enn þjóðkirkja á Íslandi eða ekki. Það er í raun ekki atriði sem slegið verður föstu með stjórnarskrárákvæði heldur hvílir það á gagnkvæmum tengslum þjóðarinnar og kirkjunnar á fjölmörgum sviðum lífsins hvort sem þjóðin í heild eða einstaklingar eiga hlut að máli.

Tvær víddir 62. gr. stjórnarskrárinnar

Hjalti Hugason, 14. November 2010 13:38

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

 

Tvær víddir 62. gr. stjórnarskrárinnar

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er að finna svokallaða kirkjuskipan landsins. Þar segir:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum.

Fyrri liðurinn er óbreyttur frá 1874 og  byggir á fyrirmynd úr dönsku stjórnarskránni frá 1849. Um miðja 19. öld var þetta frjálslynt og framsækið ákvæði sem greindi kirkjuna frá ríkinu og boðaði að þjóðin skyldi öðlast aukin áhrif í kirkjunni. Með þessu ákvæði tók því að örla á lýðræði í söfnuðunum.

Seinni liðurinn er viðbót frá 1914 sem ætlað var að gera kirkjuskipanina straumlínulagaðri. Ekki átti að þurfa þingrof, kosningar og staðfestingu nýs þings til að breyta kirkjuskipaninni eða fella hana úr gildi. Um 1920 var bætt við  ákvæði sem nú er að finna í 79. gr. stjórnarskrárinnar og kveðið á um að yrðu slík lög sett skyldi bera þau undir þjóðaratkvæði.

Í 62 gr. stjórnarskrárinnar er ekki kveðið á um að íslenska ríkið sé lútherskt. Þvert á móti var horfið frá  slíkri skipan með stjórnarskránum 1849 og 1874 enda mundi það ekki samræmast hugmyndum um nútímalegt lýðræðis- og fjölhyggjusamfélag.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er heldur ekki kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda evangelíska kirkju vegna þess að hún er lúthersk. Það væri mismunun.

Í 62. gr. stjórnarkrárinnar er aðeins kveðið á um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda lúthersku kirkjuna að „því leyti“ sem hún er þjóðkirkja, það er kirkja þjóðarinnar eða yfirgnæfandi meirihluta hennar.

Hér er með öðrum orðum sagt að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þá kirkju sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra. Þetta er jákvæð mismunun sem oftast er rökstudd með yfirburðastærð kirkjunnar, langri sögu hennar með þjóðinni og fjölþættum félags- og menningarlegum hlutverkum sem þessi stóra kirkja gegnir og önnur trúfélög hafa ekki gengið inn í í sama mæli og hún. Eitt af þeim hlutverkum er að þjóna öllum sem til þjóðkirkjunnar leita í gleði eða þraut, koma til móts við alla af virðingu, einlægni og kærleika, án þess að spyrja um kirkjuaðild eða trúarsannfæringu.   

Á stjórnlagaþingi þarf að ræða framtíð 62. greinarinnar í óbreyttri eða breyttri mynd — eða niðurfellingu hennar. Þá þarf að hafa í huga að hún hefur tvær víddir: Önnur lýtur að trúarpólitík og lögformlegri stöðu evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar. Hin er aftur á móti huglægari og lýtur að þjóðgildunum.

Hugsanlega fer afstaða margra til framtíðar 62. gr. eftir því um hvora vídd hennar er að ræða. Greinina þarf því að brjóta til mergjar, umorða og hugsanlega flytja framar eða aftar eftir atvikum. Svo er stóra spurningin hvort markmiðum hennar á 21. öldinni verði betur náð með allt öðrum hætti. — Það bíður til annars pistils að svara henni.

Trúfrelsi í stjórnarskrá

Hjalti Hugason, 13. November 2010 12:01

Hjalti Hugason 7132 og

Arnfríður Guðmundsdóttir 8023

Trúfrelsi í stjórnarskrá

Um trúmál er fjallað í heilum kafla aftarlega í núgildandi stjórnarskrá og er þar byggt á hefð allt frá 1874. Auk þess er að finna bann við mismunun vegna trúarbragða í 65. greininni, það er fyrstu grein mannréttindakaflans frá 1995. Trúmálakaflinn skiptist í tvennt: Kirkjuskipanina í 62. gr. og trúfrelsisgreinarnar (63. og 64. gr.).

Spyrja má hvort fjalla eigi sérstaklega um trúmál í stjórnarskrá umfram það sem gert er í jafnræðisreglunni. Svar okkar sem þennan pistil rita er já. Jafnræðisregla í núverandi eða breyttri mynd nægir ekki.

Íslenska samfélagið stendur á þröskuldi fjölmenningar. Að öllu eðlilegu mun það þróast í sömu átt og samfélög annars staðar í Evrópu þar sem fólk af mismunandi þjóðerni,, kynþáttum og trúarbrögðum lifir hlið við hlið eins og lagt var upp með er jafnræðisreglan var innleidd 1995. Það hlýtur að vera eðlilegt að í stjórnarskrá sé skapaður rammi fyrir það hvernig fólk sem hingað leitar fær sameinast íslensku samfélagi (t.d. með ákvæðum um ríkisborgararétt o. fl.) en jafnframt haldið sérkennum sínum. Við sjáum dæmi um mikilvægi hins síðarnefnda hjá Íslendingum í Vesturheimi.

Trúfrelsisákvæði  eru ekki hvað síst nauðsynleg til að verja mannréttindi fólks sem hefur flutt hingað búferlum. Það eru einkum þeir einstaklingar sem þurfa á trúfrelsi að halda. Trú og trúariðkun skipar oft veigamikinn sess í félagslegri og einstaklingsbundinni sjálfsmynd þeirra Eins þarf trúfrelsi að tryggja stöðu þeirra sem standa vilja utan trúfélaga eða hafna trú. Meirihlutinn, í okkar tilviki hin evangelísk-lútherska kirkja, þarf  ef til vill síður á útfærðara trúfrelsisákvæði að halda en því sem lagt er upp með í jafnræðisreglunni.

Í núverandi mynd eru trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar orðuð svo:

63. grein Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. grein Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.

Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

Mörgum kann að finnast sem í þessum greinum kveði við 19. aldar tón. Virðist að ósekju mega einfalda orðalag og fækka ákvæðum. Trúfrelsisgrein í stjórnarskrá 21. aldarinnar mætti t.d. orða svo:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Ekki má skerða borgaraleg réttindi neins vegna trúarbragða hans, né heldur má nokkur skorast undan almennri þegnskyldu vegna þeirra.

Ákvæðinu er ætlað að tryggja skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á hinu trúarlega sviði til jafns við það sem er á hinu veraldlega sviði. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og trúariðkunar. Ekki má t.a.m. skylda þá til að standa straum af trúarlífi annarra. Ef til vill er þetta of sjálfsagt til að það þurfi að kveða á um það í stjórnarskrá.

Vera má að jafnræðisreglan kveði með fullnægjandi hætti á um að ekki megi skerða rétt fólks vegna trúarskoðana. Hins vegar er ljóst að einhvers staðar þarf að setja mörk og undirstrika að einföld tilvísun til trúar leysi fólk ekki undan almennri félagsskyldu. Hér er litið svo á að ákvæði bæði um réttindi og skyldur glæði stjórnarskrárgreinina jafnvægi sem vert væri að halda í þrátt fyrir að um tvítekningu kynni að vera að ræða.

Ákvæðið virðist þó ná markmiðum sínum þannig orðað:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúarskoðana.

Hugsanlega þykir einhverjum eftirsjá af tilvísun til hins góða siðferðis og allsherjarreglunnar. Í það má að ósekju halda þó betra væri að vísa aðeins til þess að ekkert megi fremja sem brjóti gegn einhverjum sérlögum íslenska ríkisins. Þá gæti greinin hljóðað svo:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu sína. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn má vegna trúarskoðana skorast undan almennri þegnskyldu né fremja neitt sem gagnstætt er lögum.

Umfram allt ætti svo að færa trúfrelsisgreinina yfir í mannréttindakaflann sem vonandi fær táknrænni stöðu framar í hinni nýju stjórnarskrá en hann hefur nú. Vel færi á því að kveðið væri á um trúfrelsi næst á eftir almennu félagafrelsi.

Af sjötta kafla stæði þá 62. gr., kirkjuskipanin, ein eftir. Hún er þó kapítuli út af fyrir sig og þarfnast sérstakrar umræðu.

Maka fjölmiðlar krókinn á stjórnlagaþingi?

Hjalti Hugason, 12. November 2010 11:51

Hjalti Hugason og Arnfríður Guðmundsdóttir

Maka fjölmiðlar krókinn á stjórnlagaþingi?

Frambjóðendum til stjórnlagaþings barst á dögunum póstur ofan úr Hádegismóum, síðan hafa fleiri fylgt í kjölfarið. Markaðsfulltrúi Morgunblaðsins sendi fyrstur tilboð þar sem segir að blaðið muni „að venju“ veita frambjóðendum 40 % aflátt á öllum auglýsingum en kannanir sýni að með auglýsingum á þess vegum sé mögulegt að ná til 90 % þjóðarinnar. Síðan er boðið upp á val á milli fimm pakka. Kostar sá dýrasti eina milljón og sá ódýrasti einn tíunda af þeirri upphæð. Tilboð annarra eru með ýmsu móti allt eftir eðli miðilsins

Sem frambjóðendum ber okkur að sjálfsögðu að þakka þjónustu og afslátt. Hér fara hagsmunir frambjóðenda og fjölmiðla væntanlega saman. Þegar frambjóðendur eru á sjötta hundrað er auðvitað eftir heilmiklu að slægjast og líklegt að tilboðin afli miðlunum og eigendum þeirra töluverðra tekna.

Hér er þó maðkur í mysu. Með orðalagi sínu dró Mogginn stjórnlagaþingið nefnilega inn í far þar sem það á ekki heima. Það er engin venja að kjósa til stjórnlagaþings. Það kjör er einstakt í sinni röð. Til slíkrar samkomu hefur ekki verið kosið áður hér á landi.

Venjan sem blaðið vísar til er venja sem mótast hefur við prófkjör gömlu flokkanna fjögurra, hanaslagur um sætin á listunum, uppboðsmarkaður þar sem fjármunir ráða mestu um hver fær athyglina og oft því miður þingsætin. Niður í þetta fen vill Mogginn með tilboði sínu draga kosningarnar til stjórnlagaþings og þar með þingið sjálft. Viljum við það? Væntir þjóðin þess af okkur að við bítum á agnið? Við megum samkvæmt opinberum viðmiðum til dæmis kaupa tvo stóra pakka af mbl.is!

Með auglýsingum er hægðarleikur að ná til 90 % þjóðarinnar, en með hvað? Því er fljótsvarað: Áróður. Málstaður verður aftur á móti ekki kynntur í auglýsingu. Auglýsing rúmar ekki heila hugsun þegar um stjórnlög er að ræða, hvað þá hugsjón.

Til að halla ekki réttu máli skal þess getið að margir miðlar ætla einnig að bjóða fram aðra þjónustu en seldar auglýsingar í tengslum við kjörið og fyrir það skal þakkað.

Alþingi víti til að varast

Hjalti Hugason, 11. November 2010 16:35

Hjalti Hugason og Arnfríður Guðmundsdóttir

Alþingi — víti að varast

Á öndverðu næsta ári munu tvö þing starfa á Íslandi, Alþingi og stjórnlagaþing.

Að öllu eðlilegu bæri stjórnlagaþingi að taka Alþingi sér til fyrirmyndar. Stjórnlagaþing sem kosið er til skamms tíma og til sérstaks hlutverks sem Alþingi alla jafna fer með. Alþingi er líka gömul stofnun með langa þinghefð, mótuð þingsköp og mikla uppsafnaða reynslu.

Nú víkur aftur á móti svo við að á þeim sem veljast til setu á stjórnlagaþingi hvílir sú skylda að líta fremur til Alþingis sem víti til að varast en fordæmis. Hér er ekki ráðist að heiðri löggjafarsamkomunnar sem slíkrar, því Alþingi sem stjórnarskráin kveður á um og er á meðal helgustu dóma þjóðarinnar. Hér er átt við samkomuna sem nú starfar við Austurvöll og vekur þjóðinni æ oftar blygðun, forundran og reiði.

Alþingi hefur lengi verið í  gíslingu gömlu flokkanna fjögurra, pólitískra valdablokka sem lifa sínu eigin lífi að því er virðist í takmörkuðum tengslum við þjóðina sjálfa sem þeim er þó ætlað að þjóna. Á Alþingi eru vart stunduð stjórnmál sem rísa undir nafni. Þar er ástunduð grunnfærin átakapólitík sem miðar frekar að því að koma höggi á andstæðinginn en að vinna að þjóðarhag nú þegar svo miklu skiptir að allir leggist á eitt. Afleiðingin er að vart hefur Alþingi nokkru sinni notið minni virðingar og trausts þjóðarinnar en einmitt nú.

Af þessum sorglegu ástæðum hvílir sú skylda á herðum þeirra sem veljast til setu á stjórnlagaþingi að sýna fram á að á Íslandi sé mögulegt að stunda stjórnmál, það er stefnumörkun fyrir samfélagið, án pólitískra flokkadrátta, án þrætubókar, án hagsmunapots og undirmála. Þeim sem taka sæti á stjórnlagaþingi ber að sýna og sanna að stjórnlagaþing sé þing þjóðarinnar sjálfrar; þing sem kosið er af þjóðinni og endurspeglar þjóðina í öllum sínum fjölbreytileika; þing sem helgar sig helstu hagsmunum þjóðarinnar sem er það að hér komist á réttlátt þjóðfélg byggt á lýðræði, jafnrétti og mannréttindum.

Stjórnlagaþing til frambúðar?

Hjalti Hugason, 10. November 2010 16:09

Arnfríður Guðmundsdóttir og

Hjalti Hugason

Stjórnlagaþing til frambúðar?

Hugmyndin um stjórnlagaþing er stórkostleg. Á ögurstundu í sögu íslensku þjóðarinnar, í kjölfar efnahagslegs, stjórnmálalegs og félagslegs Hruns, var ákveðið að fara nýja leið. Alþingi afsalaði sér stjórnarskrárgefandi valdi sínu að svo miklu leyti sem núgildandi stjórnarskrá leyfir.

Samkvæmt stjórnarskránni er það sameiginlegt hlutverk þings og þjóðar að breyta grundvallarlögunum. Tvö þing samþykkja hverja breytingu og á milli er þjóðin spurð álits í alþingiskosningum.

Í kjölfar Hrunsins var hugsað hærra og boðuð heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Jafnvel var opnað fyrir þann möguleika að ný stjórnarskrá yrði sett, að byrjað væri upp á nýtt, að nýtt lýðveldi yrði stofnað, Nýtt Ísland.

Alþingi afklæddist við þetta tækifæri hluta valds síns og ákvað að framselja það til þjóðarinnar. Að aflokinni undirbúningsvinnu sem meðal annars væri í höndum 1000 manna þjóðfundar skyldi sérstakt þjóðkjörið þing, stjórnlagaþing, semja nýtt frumvarp til stjórnarskrár er síðan færi rétta boðleið um hendur Alþingis til þjóðarinnar.

Auðvitað má segja að Aþingi hafi tögl og hagldir þegar um endurskoðun stjórnarskrárinnar er að ræða, nú eins og alltaf. Framhjá því verður ekki komist. Ákvæði stjórnarskrárinnar um endurskoðun hennar verður ekki felld úr gildi með einu pennastriki, jafnvel ekki einum lögum. Óhjákvæmilega hefur Alþingi þó bundið hendur sínar bæði pólitískt og siðferðilega. Alþingi sem vill eiga von um að endurheimta glatað traust getur ekki bylt eða stungið undir stól því frumvarpi sem frá stjórnlagaþinginu kemur eins og til þess var stofnað og við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi nú um stundir.

Hitt er stærri spurning hvernig tryggja má þjóðinni beinni og breiðari aðkomu að stjórnarskrárgerð í framtíðinni. Það er áhugaverð spurning hvort ákvæði eigi að vera í nýrri stjórnarskrá um að kalla megi til stjórnlagaþings eða kalla eigi til slíks þings ekki einu sinni heldur annað tveggja reglulega — t.d. á 50 ára fresti — eða við sérstakar aðstæður — t.d. þegar ákveðin prósenttala þjóðarinnar óskar þess eða þegar Alþingi telur slíks þurfa. Alþingi gæti eftir sem áður hlutast til um smærri endurskoðanir eða breytingar á stjórnarskránni þess á milli.

Þá þarf að huga að því hvernig farið skuli með frumvörp slíks þings. Verði það að stjórnarskrárbundinni samkomu ættu frumvörp þess að fara beint til atkvæðagreiðslu þjóðarinnar án viðkomu hjá Alþingi. Einhverjum kann að finnast sú skipan losaraleg. Ef til vill finnst einhverjum að þannig gæti skort aðkomu sérfræðinga að mikilvægasta málefni þjóðarinnar. Mergurinn málsins er að þá sérfræðinga er alls ekkert frekar að finna á Alþingi. Á þennan hátt mætti byggja upp spennandi samspil Alþingis og stjórnlagaþings sem bæði störfuðu í umboði þjóðarinnar að sama markmiði, þ.e. að marka henni meginstefnu.

Siðferði stjórnlagaþings

Hjalti Hugason, 9. November 2010 10:50

Arnfríður Guðmundsdóttir og

Hjalti Hugason

Siðferði stjórnlagaþings

Lokaundirbúningur að stjórnlagaþingi 2011 er hafinn. Um 500 einstaklingar hafa svarað kalli, gefið kost á sér til þess mikilvæga hlutverks að semja tillögu að nýrri eða endurskoðaðri stjórnarskrá sem Alþingi og þjóðin mun síðan taka afstöðu til. Á þessum stóra og fjölskrúðuga hópi frambjóðenda — þar á meðal okkar sem þetta ritum — liggur sú skylda að gefa tóninn fyrir þann anda og það siðferði sem móta mun stjórnlagaþingið og tillögur þess. Sá andi mun sem sé ekki mótast einvörðungu á þinginu sjálfu heldur þegar í aðdragandanum, kosningunum og þó einkum og sér í lagi kosningaundirbúningnum.

Í kjöri til stjórnlagaþings stendur valið á milli einstaklinga. Þær kosningar sem fram undan eru eiga því á hættu að falla í það far sem mótast hefur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna, sem náðu hápunkti fyrir Alþingiskosningarnar árið 2007. Ef til vill hafa veikleikar lýðræðisins ekki opinberast skýrar í annan tíma. Með tilstyrk peningaafla var baráttan stunduð fremur í formi auglýsinga en gagnrýninnar og upplýsandi umræðu. Spyrja má hvar lýðræðislegum kosningum sleppir og hvar uppboðsmarkaður tekur við þar sem sæti á lista vinnst í krafti peninga en ekki málstaðar.

Illu heilli hefur verið opnað fyrir kosningaundirbúning af þessu tagi fyrir stjórnlagaþingið með því að nefna tvær miljónir króna sem æskilegt hámark fyrir það fé er einstakir frambjóðendur  mega verja til kynningar fyrir kosningarnar. Einhver kann að segja að miðað við verð á auglýsingamarkaði sé þetta þak hóflegt eða jafnvel lágt. En er það raunverulega svo? Er tryggt að í hópi frambjóðenda sé ekki að finna fólk sem farið hefur illa út úr Hruninu, fólk sem misst hefur störf sín eða stendur af öðrum ástæðum höllum fæti fjárhagslega? Er ljóst að tveggja milljón króna mörkin skerði ekki jafnræði þeirra gagnvart þeim sem haldið hafa eignum og störfum? Eiga þeir frambjóðendur sem haldið hafa fjárhagslegum styrk nú að bjóða þeim sem standa höllum fæti upp í dans upp á tvær milljónir?

Hvers konar kosningaundirbúnings væntir þjóðin af þeim sem sækjast eftir því að taka þátt í að móta henni grundvallarlög til frambúðar? Væntir hún kosningaundirbúnings með prófkjörsstíl eða lágstemmdari undirbúnings þar sem málefni fá að ráða för og kynning fer fyrst og fremst fram sameiginlega, með efni sem kjörstjórn dreifir inn á heimili landsins og tryggir jafna stöðu allra 500 frambjóðendanna?