Viljum við kjósa kött í sekk?

Hjalti Hugason, 8. December 2010 10:19

 

Fyrir skömmu birti ég hér á síðunni og víðar pistil um trúmál og stjórnarskrárbreytingar einkum hvort bera ætti kirkjuskipan landsins (núv. 62. gr. stjskr.) upp til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu án frekari umræðu eða ekki. Nokkur umræða hefur skapast um pistilinn og nú er mál að draga saman nokkra þræði.

Umræðan virðist hafa skýrt það sem ég varpaði fram í pistlinum sem sé að það væri „galið“ að bjóða þjóðinni upp á sérstaka kosningu um þessa einu grein. Það væri líkt og að bjóða henni kött í sekk. Í raun skiptir hin umdeilda 62. gr. sáralitlu máli. Staða þjóðkirkjunnar veltur ekki á henni einni og hún kemur heldur ekki í veg fyrir breytingar. Allra síst stendur hún í vegi fyrir stefnumarkandi umræðu eins og einhver hefur haldið fram. Sú umræða er raunar þegar komin af stað.

Fjórar stefnur

Eins og ég les viðbrögð við pistli mínum um „þjóðkirkju í vari“ hafa fjórar meginlínur komið í ljós. Best er að byrja á þeim sem lengst vilja ganga í breytingum.

Einn af þeim sem bregt við heldur því fram að eina ákvæðið sem fram þurfi að koma í stjskr. sé um „rétt fólks til að iðka trú og stofna um það félag.“ Þessu er auðvelt að vera sammála. Hvað hann raunverulega á við skýrist þó í síðara viðbragði þar sem hann segir: „Er ekki máið að afnema sérlög um trúfélög og hafa bara ein lög um félög...“ Þarna liggur einmitt hundurinn — nú eða kötturinn — grafinn. Það hangir sem sé eilítið meira á spýtunni hjá sumum sem segjast aðeins vilja afnema kirkjuskipanina eina. Þeir vilja sumir algerlega „sekúlera“ stjskr. en er það ábyggilega besti kosturinn á tímum vaxandi fjölhyggju? Ég efast um það.

Önnur stefna kemur fram í ummælum nýkjörinnar stjórnlagaþingskonu sem segir að ekki sé góður kostur að „fella 62. gr. niður og setja ekkert annað ákvæði um stöðu trúmála í hennar stað“. Þar með mælir hún gegn ofangreindu sjónarmiði. Athyglisvert er þó að hún segir að umræða um trúmál í stjórnarskránni „megi alls ekki verða á kostnað annarra mikilvægra atriða sem þarf að taka afstöðu til“. Vissulega er þetta satt og rétt en hér er sett fram sjónarmið sem alltaf hefur verið ríkjandi við stjórnarskrárbreytingar frá 1874. Það hefur aldrei þótt tími, tækifæri eða ástæða til að ræða trúarlegan rétt sérstaklega. Þess vegna sitjum við uppi með 19. aldar ákvæði nú í upphafi 21. aldar. — Verður svo enn um sinn? Vonandi ekki.

Þriðja línan felst í því hvort núverandi trúfrelsisákvæði í 63., 64. og að nokkru leyti 65. gr. stjskr. nægi ekki til að setja leikreglur á sviði trúmála. Þetta er að mínu mati kostur sem verðskuldar alla athygli. Rétt væri þó að færa fyrri greinarnar tvær til nútímalegra horfs og staðsetja þær með öðrum mannréttindaákvæðum. Þarna þyrfti að kveða vel á um rétt fólks til trúarlegrar tjáningar en vernda líka stöðu þeirra sem vilja vera laus við slík áreiti.

Loks hefur komið fram fjórða stefnan sem felst í því að óska eftir enn nánari tengslum ríkis og kirkju og/eða trúfélaga til að tryggja að þau breyti í anda almennra mannréttinda. Þetta er sannarlega umdeild leið ef hún er aðeins farin með afdráttarlausari lagasetningu. Með samningum má þó komast lengra og ná því besta út úr hugmyndinni sem annars virðist ekki góð.

Markmiða er þörf

Áður en hrapað er að ákvörðun eftir klassísku íslensku munstri en það felst sem kunnugt í því að taka fyrst ákvörðun og sjá svo til hvort slampist ekki án stórslysa — eða a.m.k. Hruns — virðist þörf á að spyrja hvaða markmiðum við viljum ná með breytingum t. d. á 62. gr. stjskr. Ef við gerum það ekki fer fyrir okkur eins og frændum okkar í Svíaríki sem hugðust aðskilja ríki og kirkju um aldamótin 2000 en átta sig nú á því áratug síðar að það sem gerðist var aðeins tengslabreyting, “relationsförändring“, sem hefur bæði orðið jákvæð og neikvæð en ekki valdið neinu stórtjóni. Spurningin er sem sé: Hvert viljum við fara?

Viljum við veraldarvætt ríkisvald sem ekki sé skilgreint af neinum trúarbrögðum eða kirkjudeild? Ef svo er höfum við það nú þegar. 62. gr. stjskr. bindur ekki hendur ríkisvaldsins nema að einu leyti. Það má ekki setja þjóðkirkjunni löggöf sem brýtur í bága við lútherska guðfræði og hefð eins og hún er skilgreind í fimm ákveðnum höfuðjátningum lútherskrar kirkju. Ríkisvaldið sjálft er á hinn bóginn algerlega óháð lútherskri játningu. Kirkjumálaráðherra þarf t. d. ekki einu sinni að vera í kirkjunni.

Viljum við veraldarvætt samfélag sem ekki taki í neinu mið af lútherskri eða þess vegna kristinn hefð? Vera má að niðurfelling 62. gr. sé eitthver skref í þá átt. Það er þó fyrst og fremst þjóðfélagsleg og menningarleg þróun meðal þjóðarinnar sem sker úr um hvort þetta ástand kemur hér upp fyrr eða síðar. Kirkjuskipanin ræður raunar sáralitlu þar um. A.m.k kemur hún ekki í veg fyrir að þessar aðstæður skapist meðal þjóðarinnar. Það er þó alls óvíst hvort meirihluti þjóðarinnar telur þetta æskilegt markmið. Eins og horfir í dag virðist það þó lengra undan en margir huggðu um miðbik 20. aldar. Tímabil „sekúlaríseringarinnar“ er liðið í bili. Nú er rætt um endurkomu trúarbragða í Evrópu.

Viljum við hugsanlega aðeins aukið trúfrelsi og/eða aukið jafnræði trúfélaga? Það er mjög sanngjörn ósk sem auðvitað á að taka alvarlega. 62. gr. stjskr. ræður þó  ekki úrslitum í því efni. Niðurfelling hennar tryggir ekki þetta markmið og hún kemur tæplega heldur í veg fyrir það. Stjórnarskráin mælir vissulega fyrir um stuðning og vernd einu trúfélagi til handa. Hún bannar hins vegar ekki að öðrum sé veitt hliðstæð vernd. Mismunun trúfélaga er með öðrum orðum ekki óhjákvæmileg afleiðing 62. gr. stjskr.

Æskilegar breytingar

Hér hefur verið látið að því liggja að spurningin sem vert sé að spyrja sé ekki hvort hlaupa beri til og fella 62. gr. stjskr. brott eins fljótt og hægt er. Því skal þvert á móti haldið fram að við verðum að taka glímuna um það hvert við viljum fara þó svo það taki óhjákvæmilega einhvern tíma hjá einhverjum. Ýmsum markmiðum sem haldið hefur verið fram í aðskilnaðarumræðunni má þó ná með ákveðnum fínstillingum.

Margir velta með réttu fyrir sér hvort það sé eðlilegt að börn séu skráð í trúfélag (oftast móður) frá fæðingu eða ekki. Að vísu má færa fyrir þessu málefnaleg rök. Foreldrar (forráðamenn) fara með frumlægan uppeldisrétt barna og eiga því að hafa úrslitaáhrif á t. d. trúarlega mótun þeirra. Það er því tæpast óverjandi að barn fylgi móður í þessu efni þar til annars er óskað. Hins vegar má færa fyrir því mjög gild guðfræðileg rök að skráning í kristið trúfélag, þar á meðal þjóðkirkjuna, fari eingöngu fram við skírn. Hugsanlega hefur þjóðkirkjan hikað við að taka þetta skref vegna þess að með því má líta svo á að hún þrengi inntökuskilyrði sín, nálgist það að verða játningarkirkja en ekki þjóðkirkja sem sé öllum opin.

Aðrir benda á fjárhagslega mismunun trúfélaga. Vissulega grundvallast fjárhagstengsl ríkis og þjóðkirkju að mestu leyti á eignatilfærslu frá þjóðkirkjunni til ríkisins á 20. öld og eru því alls ótengd þjóðkirkjuskipaninni og 62. gr. stjskr. sem slíkri. Þó koma og til aðrar greiðslur frá ríki til sjóða þjóðkirkjunnar sem önnur trúfélög eiga ekki hlutdeild í.

Fastlega kemur til álita að breyta þessu atriði óháð kirkjuskipaninni. Til dæmis mætti hugsa sér að öll skráð trúfélög fengju fé frá ríkinu er næmi hlutfalli af umræddum greiðslum til þjóðkirkjunnar. Ætti hlutdeild hvers og eins að ráðast af höfðatölu í trúfélaginu, fjölda starfsstöðva og dreifingu þeirra um landið. Þá þyrfti og að taka tillit til þeirra samfélags- og menningarlegu hlutverka er hvert trúfélag gæti sýnt fram á að það gegndi meðal þjóðarinnar í heild en ekki aðeins eigin félagsmanna. Raunar mun þjóðkirkjan sjálf hafa bryddað upp á fyrirkomulagi af þessu tagi án árangurs.

Má  bjóða upp á samstarfskirkjulíkan?

Möguleikar á tengslum trúfélaga og ríkisvalds eru fjölmargir eins og skýrst hefur í þeirri umræðu sem hér var rakin. Einn möguleiki er svokallað samstarfskirkjulíkan sem lítið hefur farið fyrir í íslenskri umræðu.

Í því felst að öll trúfélög sem það vilja geta myndað tengsl við ríkisvaldið af líku tagi og þjóðkirkjan hefur nú. Til þess að öðlast þá stöðu þurfa frjáls trúfélög og fríkirkjur vissulega að afsala sér hluta af frelsi sínu og veita utanaðkomandi aðilum — einkum ríkinu — aukna innsýn í starf sitt. Auk þess er eðlilegt að krefjast að þau starfi í anda lýðræðis, jafnréttis og almennra mannréttinda. Í staðinn gætu þau öðlast hlutdeild í þeim (meintu) gæðum sem þjóðkirkjan nýtur nú, þ. e. njóta einhvers fjárhagslegs baklands og þess „móralska stuðnings“ sem ríkið veitir þjóðkirkjunni nú. Á þennan hátt væri janfstaða trúfélaga tryggð. Lífsskoðunarfélög ættu að sjálfsögðu að eiga kost á sömu stöðu.

Eftir stendur að „sekúlaristarnir“ verða að vinna þjóðina á sitt band vilji þeir ná markmiðum sínum. Þeir verða að sýna henni fram á að þeir hafi uppá eitthvað að bjóða sem sé ótvírætt betra en samfélag þar sem 1000 blóm fá að gróa í sama beði. — Eða erum við Íslendingar þegar orðin „sekúlaristísk“ þjóð sem vill fá að una glöð í efnishyggju í friði fyrir allri trú? Ég efast um það.

Þjóðkirkja í vari?

Hjalti Hugason, 2. December 2010 20:03

 

Að kvöli s.l. þriðjudags ræddi Kastljós við væntanlegan forseta (!) og varaforseta (!) Stjórnlagaþings 2011. Þeim tókst vel að slá tóninn fyrir komandi þingstörf og skapa þinginu traust meðal þjóðarinnar eftir lélega kjörsókn. Nú þarf þjóðin að standa með þingi sínu gegn stjórnmálastéttinni í landinu. Aðeins þannig tekst sú áhugaverða tilraun sem í Stjórnlagaþinginu felst: Að leggja grunn að nýju Íslandi. Snúist fjölmiðlar og/eða þjóðin gegn þinginu missir það marks. Alþingi hefur þá frítt spil með frumvarpið sem frá þinginu kemur. Ef svo fer verður verr af stað farið en heima setið.

Skammgóður vermir

Líklega hafa margir sem láta sig málefni þjóðkirkjunnar varða hlustað grannt eftir því sem fulltrúarnir tveir höfðu um kirkjuskipanina að segja. Bæði virtust sammála um að hún væri ekki eitt af stóru málunum sem fyrir þinginu lægju enda hefði þjóðkirkjan ekki leikið stórt hlutverk í aðdraganda Hrunsins. Ugglaust er það rétt. Samt hefðum við vissulega mátt standa miklu betur í ístaðinu á veltiárunum.

Ugglaust hafa margir andað léttar og litið svo á að þjóðkirkjan væri komin í var fyrir ágjöfinni sem vissulega reið yfir í haust m.a. í aðdraganda kosninganna til Stjórnlagaþings. Þetta var þó skammgóður vermir. Verðandi þingforseti (!) benti nefnilega á næsta mögulega leik í stöðunni er hann nefndi að bera ætti undir þjóðina í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu hver framtíð þjóðkirkjunnar ætti að vera. Vart þurfti mikið hugmyndaflug til að sjá fyrir sér slíkt þjóðaratkvæði í tengslum við kosningar um frumvarp Stjórnlagaþingsins í hverri mynd sem þær verða og hvenær sem til þeirra verður efnt.

Kórrétt en slæm hugmynd

Þetta er auðvitað alveg kórrétt hugmynd. Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar styður og verndar ríkisvaldið evangelísk-lúthersku kirkjuna „að því leyti“ sem hún er kirkja þjóðarinnar. Hvorki ríkið né kirkjan geta breytt eða slitið núverandi tengslum þessara stofnana. Þetta geta kirkja og ríki ekki einu sinni gert í samvinnu. Það er þjóðin ein sem getur skorið úr því hvort lútherska kirkjan skuli áfram vera þjóðkirkja eða ekki eins og kemur fram í 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Hugmyndin um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðkirkjuna er líka mjög praktísk hugmynd fyrir þau sem senn setjast á Stjórnlagaþing og ekki síst þau sem leiða eiga þingstörfin til farsælla lykta á fáum mánuðum.

Út frá öllum öðrum sjónarmiðum er hugmyndin hins vegar fráleit. Það væri galið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af þessum toga án stefnumarkandi umræðu.

Ef 3/4 hlutar þjóðarinnar greiða atkvæði á sama veg og þeir hafa svarað skoðanakönnunum Gallup undanfarin ár vaknar spurningin: Hvaða skipan á að taka við í íslenskri trúmálapólitík? Eiga ein lög að gilda um öll trúfélög hvort sem þau ná til eins prósents þjóðarinnar eða upp undir 80 af hundraði?  Þar ekki að setja trúarlega stórveldinu þrengri skorður en öðrum? Eiga e.t.v. engin lög að gilda og trúmál alfarið að vera persónulegt og einstaklingsbundið málefni? Það telja ýmsir. En er það örugglega farsælasta leiðin?

Ef þjóðin hins vegar hrekkur í íhaldsamri gír vaknar önnur spurning: Á þá óbreytt ástand að ríkja e.t.v. langt fram á 21. öldina? Það eru til margs konar afbrigði af tengslum ríkis og trúfélaga. Við verðum að velja það sem best er talið henta samtíðinni. Hvenær er eðlilegra að gera það en í tengslum við Stjórnlagaþing jafnvel þótt niðurstað þess kunni að verða að leggja til status quo?

Stjórnlagaþing 20. eða 21. aldar?

Íslenskt samfélag stefnir hraðbyri í átt til fjölmenningar. Í íslenska fjölmenningarsamfélaginu koma ólíka trúarskoðanir til með að skerpast líkt og gerst hefur í löndunum umhverfis okkur. Þar er hvarvetna tekið að ræða um endurkomu trúarbragða. Ný eða endurskoðuð stjórnarskrá verður að setja leikreglur á þessu sviði samfélagsins eins og á öllum öðrum mikilvægum sviðum og tryggja að þar ríki virðing og janfræði hvort sem um algera jafnstöðu verður að ræða eða ekki.

Stjórnlagaþing verður að búa vel um hnútana þegar um trúfrelsi og stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga er að ræða. Það verður líka að tryggja rétt þeirra sem standa utan allra slíkra félaga. Stjórnlagaþing kemst heldur ekki hjá því að gera tillögu um hvort afnema skuli núgildandi kirkjuskipan, breyta henni — t.d. á þann veg að henni verið fyrir komið í lögum en ekki stjórnarskrá — eða afnema með öllu. Taki þingið ekki afstöðu í þessu efni verður það áframhald af 20. öldinni í þessu efni en markar ekki upphaf þeirrar 21. Viljum við þannig Stjórnlagaþing?