Hlutleysi eða „sekúlarismi“?

Hjalti Hugason, 31. January 2011 19:01

 

Í aðdraganda Stjórnlagaþings 2011 sem nú verður illu heilli að taka aukasnúning á hafa ýmsir orðið til að viðra skoðanir sínar á þeim hluta stjórnarskrárinnar sem að kirkju- og trúmálum lýtur. Í undirbúningi kosninganna vakti nokkra athygli hversu margir settu niðurfellingu 62. gr.  greinarinnar og þar með aðskilnað ríkis og kirkju á oddinn. Þrátt fyrir að kannanir hafi til langs tíma sýnt mikið fylgi við slíka breytingu var ófyrirséð hvert rými hún fengi í víðtækari umræðu um stjórnarskrána.

Í aðdraganda stjórnlagaþings

Hér verður ekki spá í spil þeirra sem kosin voru til Stjórnlagaþings né getum leitt að því hvaða afstöðu þau muni taka í þessu efni þegar til kastanna kemur. Sumir hafa líka látið í ljósi þá skoðun að þingið ætti ekki að fást við trúmálakaflann. Telja þeir slíkt ýmist ekki nauðsynlegt eða að tíma þingsins sé betur varið til annars. Ég sem þetta rita hef látið í ljósi gagnstæða skoðun og tel endurskoðun í hæsta máta tímabæra. Til frekari skýringa vísa ég til ýmissa fyrri pistla minna á þessum stað.

Stjórnlagaþingi 2011 er ekki ætlað að hefja störf á 0-punkti heldur var skipuð stjórnlaganefnd sem ætlað var að búa mál í hendur þingsins. Fyrir þá sem áhuga hafa á kirkju- og/eða trúmálapólitík hlýtur að vera áhugavert að kynnast viðhorfum nefndarmanna í þessu efni. Einn þeirra, Njörður P. Njarðvík skáld og prófessor emeritus, viðraði nú fyrir skömmu afstöðu sína á þessu sviði í áhugaverðu riti: Spegill þjóðar; Persónulegar hugleiðingar um íslenskt samfélag. (Reykjavík, Uppheimar. 2010.)

Ein trúarbrögð öðrum æðri?

Skoðunum sínum lýsir Njörður svo að það sé „í grundvallaratriðum rangt að ríki skipti sér af trú“, að rangt sé að „telja ein trúarbrögð í eðli sínu öðrum æðri“ og það sé „fráleitt að ein tegund kristindóms, ein gerð trúfélags, skuli njóta sérstakra forréttinda ... umfram önnur“ enda hljóti það að „teljast ósamrýmanlegt raunverulegu trúfrelsi“. Loks telur Njörður að með „nokkrum ótuktarskap [megi] kannski segja, að Ísland sé lúterskt lýðveldi sem umber aðrar tegundir trúar“. (S. 110)

Gagnrýnið sjónarhorn

Hér má taka undir sumt, annað orkar tvímælis og færa má rök að því að sumt sé beinlínis ranghermt.

Til dæmis skal tekið undir það álit að rangt sé að lýðræðisríki á 21. öld telji ein trúarbrögð í eðli sínu öðrum æðri og veiti því forskot fram fyrir önnur af þeirri ástæðu. Slíkt væri mismunun sem vart væri talin styðjast við málefnalegar ástæður. Það ber þó að undirstrika að þetta er ekki raunin hér á landi. Kirkjuskipanin í 62. gr. stjórnarskrárinnar skapar evangelísk-lúthersku kirkjunni ekki sérstöðu vegna þess að hún er af þeirri „tegundinni“ heldur vegna þess að hún er meirihlutakirkja. Hún var umgjörð utanum trúarlíf alls þorra þjóðarinnar þegar stjórnarskráin var sett og hefur haldið þeirri stöðu allt til þessa. Það er einvörðungu af þeirri ástæðu sem ríkisvaldinu er falið að strykja hana og vernda. Glati hún þessari meirihlutastöðu hlýtur kirkjuskipanin að missa grundvöll sinn. Ekkert bendir til þess að henni hafi nokkrun tíman verið ætlað að að vera trúarpólitísk yfirlýsing um gildi einnar trúar fram yfir aðra.

Meðal þess sem orkar tvímælis og skiptra skoðana gætir um er sú afstaða að það sé rangt að ríki skipti sér af trú. Víða um heim kveða lög á um stöðu og störf trúfélaga með einum eða öðrum hætti ýmist til þess að tryggja rétt þeirra eða setja starfi þeirra skorður. Þá orkar mjög tvímælis að þjóðkirkjuskipan á borð við hina íslensku hljóti að teljast ósamrýmanlegt raunverulegu trúfrelsi. Ýmsir mundu raunar segja þetta beinlínis rangt. Í hinni alþjóðlegu mannréttindaumræðu hefur það sjónarmið ekki verið ríkjandi að þjóðkirkjufyrirkomulag hljóti að brjóta í bága við trúfrelsi. Þar skiptir meira máli hvernig sú skipan er útfærð eða framkvæmd en fyrirkomulagið sem slíkt.

Lútherskt lýðveldi?

Það sem hér verður mótælt sem röngu er að Ísland sé lútherskt lýðveldi enda játar höfundur sig þar á hálum ís. Kirkjuskipan landsins hefur engin áhrif á stjórnskipan þess. Aldrei hefur þess verið krafist að forsetinn væri í þjóðkirkjunni öfugt við það sem gildir um þjóðhöfðingja Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þess er heldur ekki krafist að lögum að kirkjumálaráðherra sé í þjóðkirkjunni. Kirkjuskipanin hefur með öðrum orðum engin gagnvirk áhrif á ríkisvaldið. Tvísýnt er líka að ýmislegt sem hengt hefur verið á kirkjuskipanina, eins og Njörður P. Njarðvík  gerir t.d. með setningarathöf Alþingis, sé í raun hluti hennar eða afleiðing af henni. Hér er fremur um að ræða hefð þingsins sjálfs sem breyta má án þess að kirkjuskipan ríkisins verði felld brott. Helgistundin við þingsetninguna gæti jafnvel lifað slíka breytingu af.

Ástæðan fyrir því að mörgum kann að virðast Ísland lútherskt lýðveldi er að líkindum hversu sterkur mótunarþáttur lútherskur  mann- og samfélagsskilningur hefur verið í landinu s.l. 450 ár og er enn. Þar er enda að finna forsendu þess að lútherska kirkjan geti enn notið stöðu þjóðkirkju hér. Dragi verulega úr þeim áhrifum hljóta dagar kirkjuskipanarinnar að vera taldir.

„Sekúlarismi?“

Sjónarmið þau sem viðruð eru um tengsl ríkis og túfélaga í Spegli þjóðar kunna í fljótu bragði að virðast borin uppi af fullkomnu hlutleysi. Svo þarf þó alls ekki að vera. Allt eins má líta svo á að hér komi fram hreinræktaður „sekúlarismi“. Hann er allrar virðingar verður sem slíkur eins og allar málefnalega fram settar öfgalausar skoðanir. Þess ber þó að gæta að hann er ekki hlutlaus. Þvert á móti felur hann í sér markaða afstöðu. „Sekúlarismi“ ræður sums staðar för í samskiptum ríkis og trúfélaga eins og t.d. í Frakklandi. Hann er líka á pari við ýmsar þær tæknilausnir sem við Íslendingar höfum lengi verið býsna veik fyrir en hafa haft misholl áhrif fyrir þjóðfélag okkar. Auknu hlutleysi og jafnræði í trúarefnum er mögulegt að ná eftir ýmsum öðrum leiðum líkt og bent verður á í komandi pistli.

Viljum við koppalogn?

Hjalti Hugason, 20. January 2011 13:26

Enn eru áhöld um hvort Stjórnlagaþing 2011  muni fjalla um trúmálabálk stjórnarskrárinnar sem hefur að geyma kirkjuskipan landsins (62. gr.) og trúfrelsisávæði (63. og 64. gr.). Margir kunna að telja þetta jákvætt og boða frið þjóðkirkjunni til handa eftir stormasama tíma undangengin misseri.

Til að verja slíkt aðgerðaleysi þingsins er bent á að þjóðkirkjan hafi ekki leikið stórt hlutverk í Hruninu. Þá sé heldur ekki rétt að endurkoða stöðu þjóðkirkjunnar einmitt meðan hún glímir við þann sérstaka vanda sem hún á í nú vegna mála Ólafs heitins Skúlasonar. Hvort tveggja er í sjálfu sér rétt og satt.

En óskum við okkur slíks „Drottins dýrðar koppalogns“? Væri það gott fyrir þjóð, kirkju eða þjóðkirkju? Er ekki tími til kominn að gegnumlýsa einmitt þennan elsta hluta stjórnarskrárinnar?

Gott veganesti inn í 21. öldina?

Þegar fyrsta stjórnarskrá okkar var sett  leit stjórnarskrárgjafinn enn svo á að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. Stjórnarskráin tók enda aðeins til sérmála Íslendinga, innanlandsmálanna. Þetta mótar uppbyggingu hennar.

Í dönsku stjórnarskránni sem var fyrirmynd þeirrar íslensku var kirkjuskipanin fléttuð inn í stjórnskipan ríkisins fremst í plagginu en fjallað um trúfrelsið í sérstökum kafla aftan til í því áður en tekið var að fjalla almenn mannréttindi. Þegar kveða skyldi á um kirkjumál sem íslensk innanlandsmálefni var hins vegar úr vöndu að ráða um hvar staðsetja skyldi kirkjuskipanina. Niðurstaðan varð að gera hana að upphafsgrein í sérstökum trúmálakafla og kveða á um trúfrelsi í framhaldi af henni.

Þetta var eðlilegt eins og á stóð í því samtoga kyrrstöðusamfélagi sem hér var enn við lýði á síðasta fjórðungi 19. aldar.  Afleiðingin er hins vegar sú að enn í dag leggur stjórnarskráin höfuðáherslu á að þjóðin sé evangelísk-lúthersk þótt hér ríki samt sem áður  víðtækt frelsi til að iðka aðra trú eða hafna öllum trúarbrögðum. Er þetta gott vegarnesti inn í 21. öldina — öld fjölhyggjunnar?

Endurskoðunar er þörf

Hér skal því  haldið fram að víðtækar þjóðfélags- og hugarfarsbreytingar sem urðu á 20. öld valdi því að það sé bæði þjóð og þjóðkirkju til góðs að endurskoða trúmálabálkinn einmitt nú í tengslum við aðra þætti stjórnarskrárinnar. Þó virðist vart ástæða til að yfirgefa þá meginhefð sem trúfrelsið hefur þróast eftir hér á landi. Innan hennar er þó mögulegt að gera ýmis konar áherslubreytingar.

Trúmálabálkur 19. aldar tefldi eins og fram er komið lútherskri trú fram fyrir aðra trú og trú fram fyrir aðrar lífsskoðanir. Hann gengur líka fremur út frá hagsmunum trúfélaga eða -stofnana — einkum þjóðkirkjunnar — en réttindum einstaklinga og stuðlar fremur að einhæfni en fjölbreytileika. Öllu þessu má breyta án þess að hafna í því sem oft er kallað „neikvæð“ útfærsla trúfrelsis eða „sekúlarisma“. 

Forsendur endurskoðunar

Við endurskoðun á trúmálabálkinum er mikilvægt að ganga út frá nokkrum grunnforsendum sem leiða má út frá aukinni einstaklings- og fjölhyggju í trúarefnum. Meðal þeirra markmiða sem æskilegt væri að keppa eftir með breytingum má nefna eftirfarandi:

 1) Að  gengið sé út frá rétti einstaklinga í ríkari mæli en nú er gert.

 2) Að stuðlað sé að  jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum og  þar með auknu jafnvægi milli „jákvæðrar og neikvæðrar hliðar“ trúfrelsis.

 3) Að réttur fólks til að tjá trúar- eða lífsskoðanir sínar og iðka þær í einrúmi eða með öðrum sé tryggður („jákvæð hlið“).

 4) Að réttur fólks til að hafna slíkum skoðunum sé tryggður („neikvæð hlið“).

 5) Að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé jöfnuð eftir því sem eðlilegt má telja með tilliti til stöðu þeirra í samfélaginu sem m.a. endurspeglast í fjölda félagsmanna, fjölda starfsstöðva, þjónustu við aðra en eigin félagsmenn og almenn félagsleg og menningarleg hlutverk.

Koppalogn getur reynst svikalogn

Síðar verður kynnt tillaga um hvernig ná má þessum markmiðum en það má auðvitað gera á fleiri en einn veg. Hið mikilvæga er að stjórnskipunarlegur grunnur trúmálapólitíkurinnar í landinu verði útfærður í takt við kröfur tímans. Verði það ekki gert er hætt við að koppalogn í dag reynist svikalogn á morgun. Sú staða getur komið upp ef við höldum vegferð okkar áfram lengra inn í 21. öldina á sauðskinnsskóm í 19. aldarstíl í þessu efni.

Trúmálabálkur stjórnarskrárinnar er jafnmikilvægur og aðrir hlutar hennar þótt mörgum finnist trúmál ekki sami burðarás í samfélagi og menningu og áður var. Kaflann þarf því að vega og meta. Auðvitað kann Stjórnlagaþing 2011 að vera með öllu varbúið til þess m.a. vegna þess að markvissa umræðu um þessi mál hefur skort. Hvenær gefst þó betra tækifæri til þessa en einmitt nú í tengslum við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar?

Tveir dagar í einu — prédikun á nýársdegi

Hjalti Hugason, 1. January 2011 17:19

Textar: Sálmur 90. 12 og Lúkasar guðspj. 2. 21.

Náð sé með yður og friður frá Guð föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni!

Sólin rennur upp og hún sest einu sinni á sólarhring. Þannig afmarkar hún einn dag. Á aðventunni opnaði barnið einn glugga á dagatalinu í tilhlökkun til jólanna. Í klefa sínum dregur fangi eitt strik á vegg á hverjum degi fullur eftirvæntingar eftir frelsi sínu. Öldungurinn rífur einn miða af almanakinu frá Guðjóni Ó í bið eftir hvíldinni.

Við erum því vön að einn dagur líði í einu. Út á það gengur líka öll sönn lífsspeki: „Verið ekki áhyggjufull um morgundaginn“. „Hverjum degi nægir sín þjáning“. Gríptu daginn — carpe diem — eins og Hóras sagði — lifðu í nú-inu. Við vitum að við höfum aðeins daginn í dag. Gærdagurinn er liðinn og honum verður ekki breytt. Við ráðum engu um morgundaginn sem lýtur að því sem mestu skiptir — lífi eða dauða, heilsu eða  láni okkar eða þeirra sem standa okkur næst.  Allt er það í hendi Guðs og veitt okkur af náð. Við vitum hins vegar varla hvað okkur er fyrir bestu.

— — —

Í dag er þessu þó á annan veg farið. Í dag lifum við tvo daga í senn. Í dag er bæði nýársdagur og áttundi dagur jóla eða áttidagur. Þeir eru báðir mikilvægir og það væru mistök að láta annan hvorn framhjá sér fara án þess að gefa honum gaum. Þó hefur það jafnan verið þannig að annar skyggir á hinn. Þeim hefur auðvitað svo ekki alltaf lostið saman.

Árið hefur ekki alltaf hafist 1. janúar og því hefur ekki alltaf lokið 31. desember. Áramótin hafa flakkað þegar og þar sem þau eru á annað borð haldin. Meðan bændasamfélagið var og hét hér á landi skiptist árið til dæmis í tvennt, vetur og sumar. Misseraskiptin, sumarmál og veturnætur, skiptu þá meira máli en áramót. Nýársdagur á miðjum vetri fór þá hljótt hjá flestum.

Áttidagur var hins vegar einn af helstu hátíðardögum kirkjuársins þótt hann væri raunar fyrst og fremst fylgihnöttur jóladags. Sá dagur sem markar upphaf nýrrar viku eftir stórhátíð þáði og þiggur enn víða í kristinni kirkju helgi af stórhátíðinni, valdast eða magnast af henni og verður stórhátíð sjálfur. Þannig var um áttadaginn: Jóladagur, áttidagur og þrettándinn voru í fyrstu kristni landsins toppar jólahátiðarinnar og átti að halda á sama hátt og höfuðhátíð ársins, páskadag. Dagurinn í dag er því mikilvæg Krists-hátíð.

 Ég ætla mér enda að minnst beggja daganna, nýársdags og áttadags. Ef ég nefndi ekki nýársdaginn og umhugsunarefni hans hefði ég snúið baki við heiminum og einangrað mig í einhvers konar klausturgarði. Ef ég gleymdi hins vegar áttadeginum hefði ég týnt mér í ys og þys torgsins og mergðarinnar. Í dag þurfum við að ástunda tvenns konar guðfræði: Guðfræði Mörtu sem mæddist í mörgu eins og húsmóðir um áramót — og guðfræði Maríu systur hennar „sem valdi góða hlutann“, gleymdi sér í íhugun yfir leyndardómum trúarinnar.

Ég mun því flytja tvær prédikanir. — Þær verða þó aðeins hálfar hvor um sig!

— — —

Við skulum byrja á deginum sem vill gleymast í erli samtímans, áttunda degi jóla. Guðspjall hans er stutt, látlaust, næstum snubbótt. Það er eiginlega búið áður en það hefst. Þó kemur að vísu engill við sögu. Myndin er því ekki alveg í svart-hvítu:

Þegar átta dagar voru liðnir og hann skyldi umskera, var hann látinn heita Jesús, eins og hann var nefndur af englinum, áður en hann var getinn í móðurlífi.

Ég nefndi að áttidagur jóla, annar dagurinn í dag, væri fylgihnöttur eða fylgidagur jóladags. Þetta er því rökrétt umþenkingarefni í dag, elilegt framhald jólaguðspjallsins. Eins og skírn fylgir í kjölfar fæðingar hjá flestum íslenskum börnum, fylgdi nafngjöf og umskurn fæðinginu sveinbarna í Ísrael.

Ugglaust hefur fylgt þessu einhvert tilstand, „skírnarveisla“. Guðspjallið virkar þó svolítið hversdaglega á mig. Rútínur hverdaglífsins voru hafnar. Jesús var vígður inn í heim lögmáls, siða og venja. Hann fór í gegnum fyrsta ritúalið sem gerði hann fullgildan í samfélagi Gyðinga á sinni tíð. Hann hvarf á vissan hátt í fjöldann — varð hluti af heildinni.

Ef til vill var það hér en ekki fyrst og fremst í fæðingunni sem „Orðið varð hold“, „sannur Guð af Guði sönnum“ varð „sannur maður.“ Hér gekkst Kristur undir kröfur lögmálsins — skilmála þess sem í því felst að vera maður meðal annarra manna.

Fram að deginum í dag hefur kristnin verið í hlutverki Maríu, systurinnar sem varð altekinn af leyndardóminum og valdi hann fram yfir áhyggjurnar. Við höfum dvalið við jötuna, íhugað stórmerkin sem opinberuðust hirðingjunum „þegar engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði í kring um þá“.

Frá og með deginum í dag breytist sjónarhorið. Barnið, Jesús, hverfur inn í hverdaginn uns hann skýtur upp kolli í musterinu 12 ára eins og venjan fyrirbauð. Síðar hófst lokakafli stuttrar ævi: Þriggja ára starfstími og svo úrslitahrinan: Píslarganga, kross og dauði. Dagurinn í dag markar upphaf þessa ferils. Jesús var vígður, umskorin, til hlutverks Krists sem honum var ætlað frá öndverðu.

Hugsanlega er hlutverks áttadagsins að hrífa okkur út úr töfrandi myndheimi jólanna og endasenda okkur inn í hverdagsheim Mörtu, systurinnar sem mæddist í mörgu í ys og þys.

— — —

Einhvers staðar hér getum við svo horfið að hinum deginum í dag, nýársdegi, og hafið síðari prédikun dagsins.

Á nýársdag erum við á sérstakan hátt meðvituð um að tíminn líður, að hver dagurinn tekur við af öðrum. En því veitum við ekki verulega athygli í önn hverdagsins. Á áramótum er stundaglasið allt í einu tæmt. Kominn tími til að hvolfa því í enn eitt skipti og horfa á sandinn taka að falla, einu sinni, einu sinni enn.

Einmitt við það tækifæri erum við sérlega móttækileg fyrir þeirri bæn sem lexíu dagsins úr Gamla testamentinu lauk með:

Kenn oss að telja daga vora, að vér mættum öðlast viturt hjarta.

Þegar við vorum börn töldum við daga okkar, létum okkur hlakka til að þeir liðu, söfnuðust í ár sem bættust við aldur okkur og við yrðum stór, gætum farið að vinna í búð, orðið flugmenn, hárgreiðslukonur, eða hvað það var sem við óskuðum okkur, kannski prestar?

Nú þegar við erum orðin fullorðin er það aðeins eins ósk, einn draumur, ein hugsjón sem við getum með góðri samvisku alið með okkur: Að við mættum öðlast „viturt hjarta“, geta orðið viturt fólk, vitrir karlar og vitrar konur. — En hvað er það að vera vitur? Hver er vitur?

Mér er minnisstæð saga af barni sem spurði móður sína þessa. Henni varð svarafátt en reyndi að bregða upp dæmi eins og oft er gott í samræðum við börn: Ja, hvað finnst þér um hann afa þinn? — Afinn var þjóðþekktur fræðimaður og prófessor. Barnið svaraði: „Hann getur sorterað hluti og veit hvað allt heitir, en er það að vera vitur?“

Þetta er merkilegt svar og allt annað en barnalegt. Í raun endurómar það boðskap sem við mætum í síðari sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar:

Þá myndaði Drottin Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum skyldi vera nafn þeirra.

Adam flokkaði dýrin tvö og tvö og gaf þeim nafn. Hann gat sorterað og vissi hvað allt skyldi kallað. Það er þetta sem skilur manninn frá öðrum lífverum: Hann getur greint, flokkað og nefnt og komið þannig skipan á óreiðuna. — En barnið gerði meiri kröfur til hins vitra manns. Getur verið að það hafi meint að vitur maður verði líka að vita greinarmun góðs og ills, rétts og rangs og hafa dómgreind til að keppa eftir hinu góða en láta ekki einvörðungu stjórnast af eigin hag til skamms tíma? Verðum við ekki að gera þá kröfu til viturs manns, að hann sé félagslega vitur, hafi dómgreind og siðferilega vitund?

— — —

Á liðnum árum höfum við orðið að hrofast í augu við það, Íslendingar, að við erum ekki vitur þjóð. Siðferðilegri og félagslegri dómgreind okkar hefur verið stórlega áfátt. Við höfum gerst heimsk í þeirri merkingu að hugsun okkar hefur einvörðungu hverfst um þennan heim, efnisleg og efnaleg gæði. Við höfum líka upp skorið eins og við sáðum: Gæslumenn okka sváfu á verðinum og óvandað fólk fór ránshendi hvarvetna þar sem fé var að finna. Eftir situr blekkt þjóð, traust og samstaða hefur rofnað, andstæður í samfélaginu skerpst. Við höfum skipst í tvær raðir: Þau sem hafa allt til alls og hin sem skortir.

Þetta þurfti ekki að fara svona. Hrunið var ekki óhjákvæmilegt. Það er ekki í ætt við náttúruhamfarir eða stórstyrjaldir. Það er manngerður vandi og að langmestu leyti skapað af fólki úr okkar eigin röðum.

Nú á mótum tveggja ára, tveggja tíma, gamals og nýs er okkur hollt að staldra við og hugleiða stöðu okkar sem einstaklinga og þjóðar. Horfa djúpt í eigin barm, reyna okkur sjálf af heiðarleika og heilindum, taka undir hina eldfornu bæn:

Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta!

Hér er ekki um það eitt að ræða að kasta tölu á dagana, heldur meta þá í nýju ljósi, skipuleggja þá og veita nýtt inntak og merkingu. Gera þá tilgangsríka. Til þess höfum við góða hæfileika af skaparans eða náttúrunnar hendi. Öllum mönnum er í blóð borin gáfa að greina mun góðs og ills. Hitt er undir okkur sjálfum komið hvort við högum ferð okkar eftir þeim félagslega áttavita sem okkur er gefinn eða látum það hjá líða, leitum eigin hags eða hags heildarinnar, keppum eftir því sem best gagnast til lengri tíma eða látum stjórnast af stundarhagsmunum.

Látum þessi áramót ekki framhjá okkur fara án þess að við metum breytni okkar, lífsstíl og -stefnu í þessu ljósi. Gerum okkur líka grein fyrir því að ef við tökum eigin hag fram yfir þjóðarhag einangrum við okkur, reisum múra, köllum fram gjár. Ef við setjum hag heildarinnar í forgrunn byggjum við hins vegar brýr, sameinum, stuðlum að „gróandi þjóðlífi með þverrandi tár“. Er það ekki einmitt það sem við þörfnumst nú í byrjun árs 2011? — Erum við fús til að ganga til þess sameiginlega verkefnis? Guð gefi okkur náð til þess.

Dýrð sé Guð, förður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen 

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.