Þekkingarleit og þekkingarblinda

Hjalti Hugason, 20. April 2011 15:47
Kunnur maður í íslenskum þekkingariðnaði er vanur að komast svo að orði að hlutverk hans sé að „sækja þekkingu“. Orðalagið vekur spurningar um hvað þekking sé og hvert hún sé sótt. 

Er þekking meira eða minna algildur veruleiki utan okkar sjálfra og teygjum við okkur eftir henni inn í framtíðina? Eða verður hún fyrst og fremst til innra með okkur þegar við fléttum saman staðreyndir, upplýsingar, hugmyndir, hugboð og tilfinningar? Er þekking innsýn í ytri, hlutlæg lögmál og staðreyndir eða er hún hluti af innra lífi einstaklinga og samfélaga? Fer það að einhverju leyti eftir fræðigreinum? Er þekkingarhugtak raunvísinda annað en þekkingarskilningur hugvísinda til dæmis guðfræðinnar? Verða háskólar ekki að hafna slíkri tvíhyggju og ganga út frá óklofnu þekkingarhugtaki?

Háskólar eru grundvallarstofnanir í þekkingarleit hvers samfélags. Hlutverk þeirra er jafnan talið vera að skapa þekkingu og miðla henni í rannsóknum og kennslu. Á síðari tímum höfum við einkum starfað í anda sóknarhugmyndarinnar. Aðaláherslan hefur legið á að skapa nýja þekkingu í samkeppni við fremstu háskóla heims og að miðla nýjustu þekkingu sem völ er á til stúdenta. Auðvitað skal ekki gert lítið úr þessum metnaði. Hitt tel ég þó að sé hollt að minnast að háskólum ber líka að varðveita þekkingu. Í þessu felst að raunveruleg þekking úreldist ekki með sama hraða og ný bætist við. Við þekkingarsköpun og þekkingarmiðlun er nauðsynlegt að hafa langtímasjónarmið í huga. Okkur ber að gagnrýna viðtekna þekkingu í ljósi nýjunganna og reyna nýsköpunina á grundvelli eldri þekkingar. Háskólar eru öðrum þræði hluti af langtímaminni hvers samfélags. Menningin felst að hluta til í samhengi, hefðum og venjum sem líka ná til vísinda og þekkingar.

Háskólar og starfsmenn þeirra eiga þó fyrst og fremst að vera í fararbroddi við að skapa þekkingu og miðla henni til stúdenta og samfélagsins í heild. Þetta getur verið hættuleg iðja þar sem þekking er öðrum þræði valdatæki. Nýjungar geta því ógnað stofnunum, embættismönnum, fyrirtækjum, hagsmunahópum og valdamiklum einstaklingum utan háskólanna. Þess vegna er akademískt frelsi mikilvægt. Háskólastarf á að vera ósnertanlegt, óháð og lúta fyrst og fremst eigin reglum þar á meðal siðareglum.

Frelsið leggur háskólafólki þó ríkar skyldur á herðar. Við berum skyldur við samfélagið sem skapar okkur svigrúm til að vinna að því mikilvæga hlutverki sem í því felst að leita nýrrar þekkingar. Við berum skyldur við Háskólann sem hýsir okkur innan vébanda sinna og verndar frelsi okkar. Við berum skyldur við okkur sjálf og akademískan heiður okkar og við erum skuldbundin hugsjón þekkingarleitarinnar. Svo mætti lengi telja.

Staða okkar krefur okkur um að gæta stöðugrar gagnrýni sem þarf að beinast bæði að því sem viðtekið er í þekkingarsamfélaginu og því sem nýtt er hvort sem um er að ræða byltingarkenndar nýjungar í fræðunum, hefðbundin „sannindi“ eða rétta og létta háskólapólitík. Einkum og sér í lagi ber okkur þó að ástunda sjálfsgagnrýni. Okkur ber til dæmis að spyrja hvort verið geti að við séum slegin þekkingarblindu eða hvort með okkur bærist eitthvað það sem flokkast getur undir þekkingarmótstöðu.

Það kann að vera að aðferðir fræðigreina okkar, túlkunarlíkön, mat, viðhorf eða heimsmynd sé með þeim hætti að með okkur leynist blindir blettir sem valda því að okkur yfirsést. Ýmis fyrirbæri kunna líka að ógna okkur í þeim mæli að við meira eða minna ómeðvitað beitum ritskoðun og þöggun jafnvel á vettvangi þekkingaröflunarinnar. Þar liggur einhver alvarlegasta hættan sem sérhver fræðimaður hlýtur að takast á við í eigin starfi. — Ert þú tilbúin/n til að leita að blindu blettunum, sjálfsritskoðuninni, þögguninni í þínu eigin fræðastarfi? Við ættum að vera skyld til að meta okkur sjálf í þessu efni með jöfnu millibili og fá jafnvel fyrir það punkta!

 

Hugvísindi á hliðarlínunni eða inni á vellinum?

Hjalti Hugason, 1. April 2011 21:31

Fyrir nokkrum vikum fékk ég það hlutverk að tjá mig um danska kirkjusöguritun eins og hún kæmi fyrir sjónir af minni íslensku sjónarhæð séð. Ég sagði eitthvað á þá leið að hún væri klassísk, vönduð, guðfræði-, hugmyndasögu- og menningarsöguleg sem og stofnunarleg en vart nægilega félagssöguleg og alls ekki félagsleg.  Vissulega stendur þetta mat mitt á brauðfótum. Það hvílir fremur á tilfinningu en traustri þekkingu. Hvernig mætti annað vera? Það er þó vonandi ekki reist á fordómum einum.

Við undirbúning erindis mín hnaut ég m.a. um eftirfarandi „stefnuyfirlýsingu“ mikilvirks og viðurkennds kollega:

En „samtidskirkehistorie“ er en selvmodsigelse. En historisk fremstilling beskæftiger sig netop med fortidens tanker og begivenheder, og af dem kan man bl. a. lære, at den ene “sag“ efter den anden i historiens lys blot er krusninger på overfladen, udtalelser og handlinger som ikke har intresse eller indflydelse på lang sigt, uanset hvor alvorlige de kan tage sig ud i samtiden. (M. Schwarz Lausten: Kirkens historie i Danmark. Århus 2008. Bls. 109)

Það er bæði satt og rétt að hefðbundin sagnfræði rekst á ýmsar hindranir við rannsóknir á samtímanum og sagnfræðingur getur ekki gert sértakt tilkall til að vera öllum öðrum dómbærari á framtíðina. Þegar um samtíðina er að ræða eru öll kurl til dæmis ekki komin til grafar hvað heimildir áhrærir. Fjarlægð hefur ekki fengist á viðfangefnið. Allar afleiðingar „atburða“ eru ekki komnar fram og staða sagnfræðingsins mitt í atburðarásinni kann að hafa áhrif á mati og túlkun. Sagnfræðingar hafna líka flestir frasanum um að sagan endurtaki sig. Þar með er framtíðin þeim að mestu lokuð bók eins og öðrum. En er málið alveg svona einfalt?

Sjálfur hef ég hallast að því að fræðigrein mín, kirkjusagan, og þar með sagnfræði almennt láti iðkendum sínum fyrst og fremst í té heimsmynd (pardigm), viðmið, líkön og aðferðir til að fjalla um fyrirbæri mannlegs lífs út frá víddunum tíma og rúmi. Viðfangsefni sögunnar eru oftast að meira eða minna leyti staðbundin þó vissulega geti þau líka verið alþjóðleg. Tímasetning og/eða samhengi í tíma skiptir svo alltaf máli í sögurannsóknum: Hvað geriðst á undan og hvað á eftir, hvað er orsök og hvað afleiðing?

Fyrrgreind verkfæri sagnfræðinnar koma þó að mínu viti alltaf að góðu gagni við könnun á fyrirbærum mannlífs og samfélags hvort sem um fortíð, nútíð eða framtíð er að ræða. Þau skapa ákveðið sjónarhorn, gagnrýna grunnafstöðu, yfirlit og samanburð sem gera það að verkum að mögulegt er að taka afstöðu til hugmynda, atburða, stefna og strauma eða annarra fyrirbæra samfélagsins og túlka þau á raunhæfan og málefnalegan máta í skoðanaskiptum við þau sem líta málin öðrum augum.

Af þeim sökum þykir mér illt í efni ef sagnfræðingar afsala sér umboði til að fjalla um samtímamálefni af þeim ástæðum að fræðigrein þeirra hljóti að einskorðast við veruleika sem kominn sé á skjalasöfn eða í aðrar viðlíkar geymslur. Þannig gera þeir sig óþarflega ómynduga og svifta samfélags- og samtímaumræðuna rödd sem vissulega þarf að hljóma.

Kirkjusagnfræðingur er eins konar bastaðrur, blendingur sagnfræðings og guðfræðings og sem slíkur fellur hann svo undir stærri flokk, þ.e. iðkendur hugvísinda. Það sem hér hefur verið sagt á því að breyttu breytanda við um aðrar greinar sem undir hugvísindin falla. Segja má að iðkendur þeirra, hugvísindafólk eigi tveggja kosta völ: Að stilla sér upp á hliðarlínunni og horfa á leikinn úr fjarska eða vaða inn á völlinn. Hugsanlega má nota ólík orð um hópana tvo. Kalla þau hugvísindafólk sem standa á hliðarlínunni en hin húmanista sem taka þátt í leiknum. Sé það gert ber þó að varast ýmsa óheppilega undirtóna sem í orðunum kunna að felast!

Trúmál í endurskoðaðri stjórnarskrá

Hjalti Hugason, 1. April 2011 21:28

Babýlonarútlegð hugsjónarinnar um heildarendurskoðun stjórnarskrár okkar í kjölfar Hruns 2008 er nú loks á enda. Stjórnlagaþing hefur að vísu umbreyst í stjórnlagaráð. Full ástæða er þó til að óska þeim þjóðkjörnu fulltrúum sem nú hafa hlotið endurnýjað umboð frá Alþingi allra heilla í ábyrgðarmiklu hlutverki. Jafnframt hljóta allir sem af þessari háleitu hugsjón hafa hrifist að kosta kapps um að leggja sitt af mörkum til að stuðla að sem farsælastri lausn.

Byggingarvandi

Eitt af þeim viðfangsefnum sem stjórnlagaráð mun glíma við er að um kirkju- og trúmál er fjallað í sérstökum kafla í núgildandi stjórnarskrá. Hann hefur að geyma svokallaða kirkjuskipan (62. gr.) og trúfrelsisákvæði (63. og 64. gr.). Afleiðingin er að þetta efni svífur í lausu lofti án lífrænna tengsla við aðra þætti stjórnarskrárinnar.

Engin efnisleg rök mæla með þessari efnisskipan þar sem trúfrelsi er órofa hluti almennra mannréttinda sem fjallað er um í næsta kafla á eftir. Hér er aðeins um sögulega hefð frá 1874 að ræða en í fyrstu stjórnarskrá okkar var fjallað um kirkjumál sem eitt af þeim sérmálum sem þjóðin fékk aukna sjálfsstjórn í.  Við þær aðstæður gat verið eðlilegt að setja fram sérstakan trúmálabálk. Varla er mögulegt að viðhalda þessari 19. aldar efnisskipan í nýrri eða endurskoðaðri stjórnarskrá.

Ný trúmálagrein

Hér með er lagt til að 62.–64. og eftir atvikum 2. málsgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar verði sameinaðar. Þá er lagt til að hin sameinaða grein verði færð yfir í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Virðist eðlilegt að hún komi á eftir greinum sem fjalla um almennt skoðana-, tjáningar-, og félagafrelsi. (þ.e. eftir núv. 74. gr.). Allt þetta efni mun svo væntanlega færast framar í stjórnarskrána.

Hin endurskoðaða grein gæti hljóðað á eftirfarandi hátt:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

 

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Hér er eins og sjá má byggt á grunni núgildandi trúfrelsisákvæða. Þó er gengið afdráttarlausar út frá rétti einstaklinga en nú er gert. Hinu breytta trúfrelsisákvæði er ætlað að að taka af tvímæli um skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á sviði lífsskoðana. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem standa vilja utan allra trú- og lífsskoðunarfélaga. Loks er því ætlað að jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga að teknu tilliti til stærðar þeirra, stöðu og starf og eftir því sem Alþingi ákveður með lögum (t.d. fjárlögum).

Útmörk trúfrelsis

Jafnræðisreglan (65. gr. stjskr.) kveður á fullnægjandi hátt á um að ekki megi skerða rétt fólks vegna trúar eða lífsskoðana. Af þeim sökum virðist óhætt að fella brott ákvæði um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ eins og segir í núv. 64. gr. stjórnarskrárinnar.

Hins vegar er ljóst að setja þarf trúfrelsinu útmörk og undirstrika að fólk geti ekki með skírskotun til trúar skorast undan „almennri þegnskyldu“ eins og segir í sömu grein.  Í því hlýtur m.a. að felast að öllum sé skylt að halda almenn lög samfélagsins í heiðri. Af þeim sökum virðist mega fella brott ákvæði um að ekki megi „kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“ eins og segir í 63. gr. En í því felst einmitt að ekki megi í nafni trúar brjóta gegn hegningarlögum eða hugsanlega öðrum lögum og koma þar hjúskapar- og dýraverndarlög einkum upp í hugann.

Þyki sjónarsviftir af hinu klassíska orðalagi 19. aldar í þessu efni má að ósekju skjóta því inn á viðeigandi stöðum í tillögugreininni hér að ofan.

Aukið jafnræði

Hér er lagt til að trú- og lífsskoðunarfélög verði lögð að jöfnu hvað stuðning og vernd ríkisvaldsins varðar eins og t.d. er gert í Noregi. Með lífsskoðunarfélögum er ekki átt við heimspekiklúbba upp og ofan heldur félög sem eru málsvarar einhverrar skilgreindrar trúarlegrar eða veraldlegrar sannfæringar og standa fyrir veraldlegum athöfnum (t.d. borgarlegum nafngjöfum, fermingum, giftingum og útförum).

Í þeirrri kirkjuskipan sem að ofan er lögð til aðeins sagt að sú kirkja sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra skuli hafa nokkra sérstöðu þar til löggjafa og þjóð kemur saman um að breyta ákvæðinu. Fær kirkjuskipanin þar með hlutlausari stöðu en nú er raunin og kveður fyrst og fremst á um táknræna sérstöðu vegna yfirburðastærðar, hlutverks og sögu lúthersku kirkjunnar í landinu.

Engin bylting

Einar og sér mundu breytingar á borð við þær sem hér eru lagðar til tæpast valda nokkurri byltingu. Ákvæði hennar þyrfti að útfæra í ýmsum sérlögum, meðal annars í lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög, hugsanlegum sérlögum um þjóðkirkjuna og e.t.v. fleiri lögum líkt og nú er gert.

Gildi hinnar endurskoðuðu trúfrelsisgreinar felst einkum í því hve víðan ramma hún myndar fyrir iðkun trúar og lífsskoðana í landinu og hversu mikið jafnræði hún rúmar. Hún samræmist því vaxandi einstakling- og fjölhyggju betur en núgildandi trúmálabálkur.