Holdtekja í Kaupfélagsgilinu

Hjalti Hugason, 30. May 2011 12:40

 

Yfirlistssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur stendur nú yfir í Listasafni Akureyrar. Samtímis kom út bók — Undir rós (Eyja útgáfufélag 2011) — sem spannar feril Kristínar frá 1987. Myndheimurinn rúmar ótrúlega breidd frá hefðbundnum íkonum í eggtemperu og blaðgulli til stórgerðra verka í ull á grófum striga. Móðir Guðs frá Vladimir kallast hér á við Bredduna. Hér getur að líta bæði fæðingu og dauða. Myndirnar höfða til breiðs litrófs tilfinninga og kennda. Leiðin liggur um goðsögulegt landslag inn í heim helgisagna. Skyndilega stendur áhrofandinn síðan augliti til auglitis við eigin samtíð í kvöl sinni og sælu. Yfir öllu gnæfir Eilífðin, dulmögnuð í blárri birtu. Sýningin heillar í margræðni sinni.

Fyrir guðfræðing var stórbrotin reynsla að fylgjast með heimkomu Kristínar um 1995. Ung listakona kvaddi sér hljóðs með „nýjum“ tóni í íslenskri myndlist sem hún sótti til klassískrar íkonahefðar. Það veitti innblástur og djörfung að mögulegt væri flytja á þennan forna arf gegnum þær óravegalengdir í tíma og rúmi sem skilja að bysantínska menningu á fyrstu öldum kristni og Reykjavík undir aldamótin 2000. Þetta er einmitt sístætt hlutverk guðfræðinnar og kirkjunnar, að yfirfæra frumlæg tákn kristindómsins inn í samtímann. Að tefla saman tíma og eilífð.

Klassískur Kristsíkon er enginn venjuleg Jésúmynd heldur er hann farvegur og tákn fyrir nærveru Krists. Sérhver Kristsíkon er því tilvísun til þess að Orðið varð hold og bjó með oss. Í hefðarfestu sinni og óbreytanleika miðlar íkoninn jafnframt eilífðinni inn í síbreytilegt mannlíf. Kristín Gunnlaugsdóttir sýnir því gríðarlega dirfsku en jafnramt mikinn trúnað þegar hún yfirfærir tækni og hughrif íkonsins yfir á reynsluheim nútímakonunnar. Þetta líkist líka glímu kirkjunnar við miðla helgi á þann hátt að skiljist í kviku mannlífsins eftir Hrun.

Frammi fyrir Einstæðri móður (að ofan) skynjar áhorfandinn bæði hversdag og helgi. Konan á svörtu sokkunum með Bónuspokana er tæpast nokkur Krist-gerfingur. Við stöndum frekar andspænis hverdagshetju í reisn sinni og lægingu. Konan er staðgengill allra þeirra sem erfiði og þunga eru hlaðnir en er heitið hvíld. — Í sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur má sannarlega sækja bæði ögrun og hvíld. Við erum öll í brýnni þörf fyrir hvort tveggja.

Bent skal á heimasíðu listakonunnar: www.kristing.is

Tafir í vígslubiskupskjöri

Hjalti Hugason, 30. May 2011 12:39

 

Vonir stóðu til að vígslubiskupskjöri í Skálholti yrði lokið á þessu vori. Svo slysalega vildi þó til að ógilda varð fyrri umferð kosningarinnar sem fór fram í apríl s.l. og byrja aftur á byrjunarreit. Reikna má með að kosningin fari fram í tveimur umferðum og mun hún því standa ungann úr sumrinu.

Það er að vísu dapurlegt að ekki skuli hafa tekist að ljúka lokaðri 150 kjörmanna kosningu án stórvægilegra hnökra. Þó má segja lán í óláni að nú gefst tækifæri til að ræða þessi háu embætti þjóðkirkjunnar og hlutverk þeirra en ýmsum fannst skorta á slíka umræðu í upphaflegum aðdraganda kosninganna.

Óljós hlutverk

Vígslubiskupsembættin voru stofnuð í upphafi 20. aldar og þá einkum af þjóðernisrómantískum ástæðum. Það var þó ekki fyrr en í lok aldarinnar að um eiginlegar stöður varð að ræða. Fram að þeim tíma var vígslubiskupsnafnbótin heiðurstitill og ekki var ætlast til annars af þeim er þá báru en að þeir vígðu nýkjörinn biskup Íslands ef forveri hans féll frá í embætti. Eftir breytinguna hafa lög, reglugerðir og síðar starfsreglur þó vart skapað embættunum nægilega traustan grundvöll né skilgreint hlutverk þeirra á fullnægjandi hátt. Ekki skal dregið í efa að þeir sem gegnt hafa embættunum síðan þeim var breytt hafi gert það með reisn. Vígslubiskuparnir hafa þó löngum þótt nokkuð ósýnilegir í starfi þjóðkirkjunnar og óljóst hvaða verk þeim væri ætluð. Jafnvel hefur verið spurt hvort embættin séu nauðsynleg.

Engin formleg tillaga hefur þó komið fram um að leggja vigslubiskupsembættin niður. Hér verður það heldur ekki lagt til. Það kann enda að vera kostur fyrir þjóðkirkjuna að hafa á að skipa fleiri en einum biskupsvígðum einstaklingi í senn. Eins og á stendur hefur þjóðkirkjan þó ekki ráð á að hafa tvo menn á fullum launum í háum embættum sem mestmegnis virðast hafa ósýnilegum verkefnum að gegna og þurfa sérstaks rökstuðnings og skýringa við. Því er mikilvægt að virkja alla þrjá biskupana og gera störf þeirra vel sýnileg.

Þjóðkirkjan ætti að gera út á breiddina

Þrír biskupar skapa meðal annars mun breiðari snertiflöt við samfélagið en einum manni er fært. Biskupar hafa víðtækt umboð til að mæla fyrir munn þjóðkirkjunnar á öllum sviðum kirkjulífs, þjóðlífs og mannlífs. Enn er það líka svo að allur þorri fólks hlustar eftir því sem biskupar segja og bregst við því á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Auðvitað eru fráleitt allir sammmála því sem biskup segir. Nú orðið talar hann heldur ekki af meiri myndugleika eða valdi en hver annar. Orð biskups hafa nú í eyrum flestra aðeins þá vikt sem persónulegur trúverðugleiki hans sjálfs veitir þeim. Því er ljóst að þrír ólíkir biskupar höfða til þjóðarinnar í ríkari mæli en einn maður getur gert. Þess er full þörf í fjölbreyttu samfélagi samtímans.

Nú þegar vígslubiskupskjör stendur yfir er mikilvægt að spyrja hvernig þjóðkirkjan nýtir tækifærið best til að styrkja stöðu sína og virkja biskupsembættið. Augljóst er að hún ætti að gera út á breiddina. Það er mikilvægt að velja nýjan biskup með sóknarfæri í huga og taka tillit til þess hverjir fyrir eru í embætti.

Það gefur auga leið að aukinn trúverðugleiki vinnst með því að kjósa konu til að gegna biskupsembætti með þeim tveimur körlum sem fyrir eru. Með tveimur miðaldra einstaklingum vinnst aukin breidd með því að kjósa svo unga konu sem kostur er. Sé horft til þeirra sem fyrir eru er viðamikil stjórnunarreynsla ekki það sem helst skortir. Mikilvægara er að sú sem valin verður búi að fjölþættri reynslu af kirkjustarfi innan lands og utan sem og á samkirkjulegum vettvangi. Þá skiptir sköpum að konan sem valin verður hafi tekið þátt í þeirri fjölþættu samfélagsumræðu sem kirkjan verður að taka vaxandi þátt í á komandi árum. Öðlist þjóðkirkjan ekki sterkari rödd á því sviði alveg á næstunni er hætt við að hún einangrist til frambúðar. Loks er mikilvægt að hún búi að reynslu af teymisvinnu ef takast á að þróa biskupsembættið í þá átt sem rætt var um hér að framan.

Hvaða skilaboð senda kjörmenn?

Nú vill svo vel til að Sigrún Óskarsdóttir prestur í Árbæjarkirkju er ein þeirra sem gefið hefur kost á sér í vígslubiskupskjörinu. Hún uppfyllir vel þau viðmið sem hér voru talin. Það verður spennandi að sjá hvernig henni reiðir af í kjörinu, sem og hvaða skilaboð kjörmenn senda almennt út í kirkjuna og samfélagið með vali sínu.

Teningum kastað um þjóðkirkjuna?

Hjalti Hugason, 26. May 2011 15:03

 

Í sumar er líklegt að teningunum verði kastað varðandi framtíðarstöðu evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar í landinu.

Tvær leiðir

Ósennilegt er að Stjórnlagaráð komist hjá að hrófla við 62. gr. núgildandi stjskr. Hún hefur að geyma svokallaða kirkjuskipan landsins eða ákvæði þess efnis að þessi kirkja skuli kallast þjóðkirkja og að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda.

Tveir möguleikar virðast í stöðunni: Að ráðið aðlagi greinina breyttum tímum með endurskoðun á öllum sjötta kafla stjskr. eða það leggi til að greinin verði felld brott með tilvísan til 2. málsgr. 79. gr. stjskr. Þar segir hvernig það skuli gert, þ.e. með þjóðaratkvæði.

Mörgum — bæði innan og utan Stjórnlagaráðs — finnst síðari leiðin fýsilegri m.a. vegna þess að hún sparar ráðinu ómak. Þannig kemst það hjá að ræða trúarrétt en við Íslendingar erum ekki sterk á því svelli. Þeir sem vilja að þjóðin feti sig á ábyrgan hátt inn í fjölmenningu 21. aldar hallast frekar að því að umræða verði tekin um útfærslu trúfrelsis og stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu.

Slík umræða hefur ekki farið fram í þau tæplega 140 ár sem liðin eru frá því við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá. Er þá undanskilin lítilsháttar umfjöllun í tengslum við orðalagsbreytingu á annarri trúfrelsisgrein stjskr. við endurskoðun á mannréttindaákvæðum hennar fyrir tæpum 20 árum.

Markmið endurskoðunar

Það er raunar samdóma álit sérfræðinga sem um málið hafa fjallað að þjóðkirkjufyrirkomulag á borð við það sem hér hefur þróast á grundvelli 62. gr. stjskr. brjóti hvorki í bága við trúfrelsi né ákvæði mannréttindasáttmála sem Ísland á aðild að. Þá voru trúfrelsisákvæðin endurskoðuð í lok síðustu aldar eins og fram er komið. Stjórnlagaráð hefur þó fullt tilefni til að huga að því hvort ekki sé ástæða til að hnykkja betur á því en nú er gert að trúfrelsisákvæði stjskr. tryggi ekki eingöngu rétt fólks til að velja á milli þjóðkirkjunnar og annarra safnaða guðsdýrkenda. Þá þyrfti að fyrirbyggja enn frekar að fólki verði ekki mismunað eftir því hvort lífsskoðun þess er trúarleg eða veraldleg.

Sá sem þetta ritar hefur lagt til að Stjórnlagaráð endurskoði núgildandi ákvæði um þjóðkirkju og trúfrelsi með eftirfarandi markmiðum huga:

Að  gengið sé út frá rétti einstaklinga í ríkari mæli en trúfélaga.

Að stuðlað sé að  jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum.

Að réttur fólks til að tjá og iðka trúar- eða lífsskoðanir sé tryggður.

Að réttur fólks til að hafna slíkum skoðunum sé tryggður.

Að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé jöfnuð.

Ný trúfrelsisgrein

Þessum markmiðum má t.d. ná með að sameina 62.–64. gr. stjskr. í eina grein sem tengja ætti ákvæðum um almenn mannréttindi í stað þess að einangra þetta efni í sérstökum kafla eins og nú er gert.

Hin endurskoðaða grein gæti hljómað eitthvað á þennan hátt:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. 

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Þannig væri byggt á grunni núgildandi stjskr. og ákvæði hennar þróuð til aukins jafnræðis trúar og lífsskoðana á grundvelli þeirrar trúfrelsishefðar sem hér hefur tíðkast allt frá 1874. Margt bendir enda til að hún sé síst verr fallin til að mæta aukinni fjölmenningu en sú aðskilnaðarleið sem t.d. er farin í Frakklandi og miðar að fullum aðskilnaði hins veraldlega og trúarlega sviðs í samfélaginu. Ýmsir hafa þó orðið til þess að undanförnu að mæla fyrir þeirri aðferð hér.

Þjóðkirkjan er tilboð

Þegar hugað er að breytingum á 62. gr. stjskr. ber að hafa í huga að valdið liggur hjá þjóðinn sjálfri eins og fram kemur í 2. mg. 79. gr. stjskr.

Þjóðkirkjan er í raun opið tilboð til þjóðarinnar um samfylgd frá vöggu til grafar sem helst reynir á hjá flestum á merkisdögum mannsævinnar í gleði og þraut. Hingað til hefur þorri þjóðarinnar kosið að nýta sér tilboðið eins og fram kemur í háu hlutfalli hjónavígslna af öllum giftingum, sem og í hversu hátt hlutfall ungra barna hlýtur skírn og hátt hlutfall unglinga fermist. Er þá ónefnt að flestir kjósa sér kirkjulega útför.  Að sönnu er þessi tölfræði ekki mælikvarði á kirkjulega trú þjóðarinnar en sýnir þó að flestir kjósa samfylgd þjóðkirkjunnar í einhverri mynd.

Þá ber að gæta að þjóðkirkjan þjónar þjóðinni óháð trúarafstöðu á mun fjölbreyttari hátt en með kirkjulegum athöfnum. Víða myndar hún veigamikinn þátt í grenndarumhverfi og velferðarkerfi samfélagsins ekki síst í dreifðum byggðum þar sem ýmissar félagsþjónustu nýtur síður við en í þéttbýli.

Áður en núgildandi kirkjuskipan er breytt í grundvallaratriðum virðist full ástæða til að þjóðkirkjan geri enn betur grein fyrir hvernig hún sér hlutverk sitt í framtíðinni og hvert tilboð hún vill gera þjóðinni. Og að þjóðin fyrir sína parta taki afstöðu til þess hvort hún vilji þiggja það tilboð.

Af sambandi þjóðkirkju og þjóðar ættu tengsl kirkju og ríkis síðan að ráðast en ekki öfugt.

Þurfum við þrjá biskupa?

Hjalti Hugason, 23. May 2011 14:54

 

Nú þegar vígslubiskupskjör hefur dregist á langinn má ef til vill spyrja hvort íslenska þjóðkirkjan þurfi raunverulega á þremur biskupum að halda.

Má spara í yfirbyggingu?

Þjóðkirkjan er í raun agnarsmá þótt hún nái til meirihluta þjóðarinnar. — Við Íslendingar erum jú dvergþjóð. Þjóðkirkjan starfar í landi þar sem samgöngur í lofti og á landi eru greiðar og þar sem aðrar samskiptaleiðir eru með því besta sem gerist á byggðu bóli. Það ætti því ekki að vera hætta á að vandi skapist fyrir nokkurn mann að ná biskupsfundi eða torvelt verði fyrir biskup að vera í greiðu sambandi við söfnuði landsins og starfsmenn kirkjunnar. Þá er landinu skipt upp í föst tilsjónarsvæði undir forystu prófasta þannig að vel er vakað yfir kirkjulegu starfi um land allt. Biskupsverk í þröngum skilningi þurfa vart að vera svo umfangsmikil að þrjá þurfi til að anna þeim með þeirri aðstoð sem á er að skipa á Biskupsstofu. Sé samt svo má vel hugsa sér að greina skýrar á milli biskupshlutverksins og „veraldlegrar framkvæmdastjórnar“ í þjóðkirkjunni og fá síðarnefnda starfsþáttinn sérstökum starfsmanni er hefði jafnvel betri forsendur til að gegna honum en guðfræðimenntaður maður þótt biskupsvígður sé.

Þegar litið er til praktískra aðstæðna einna vaknar sú spurning óhjákvæmilega hvort ekki megi spara í yfirstjórn þjóðkirkjunnar með því að fækka biskupum hennar um tvo og verja þeim fjármunum sem sparast til grunnþjónustu í söfnuðum landsins og/eða auk sérþjónustu og kærleiksþjónustu við þá hópa sem standa höllustum fæti.

Guðfræði og niðurskurður

Mörgum finnst þó ugglaust að hér þurfi að hugsa hærra og vega inn guðfræðileg og jafnvel söguleg rök. Í því sambandi má þó minnast þess að vígslubiskupsembættin tvö voru ekki stofnuð fyrr en í upphafi 20. aldar og þá til að tryggja biskupi landsins vígslu án þess að sækja hana til Kaupmannahafnar. Lengst af voru vígslubiskupar sem kunnugt er valdir úr hópi presta, prófasta eða jafnvel guðfræðiprófessora er fengu biskupsvígslu en gegndu áfram fyrri störfum. Þjóðkirkjan sýndi þeim þannig heiður en þeir tóku í staðinn að sér trúnaðarhlutverk sem sjaldan reyndi þó á. Núverandi háttur, að vígslubiskupar sitji í fullu starfi á fornu stólunum, komst ekki á fyrr en rétt fyrir aldamótin. Vel má hugsa sér að hverfa að nýju til fyrri skipanar án teljandi skaða fyrir kirkjustjórnina í landinu.

Þess ber líka að gæta að með stofnun vígslubiskupsembættanna var valin mjög þjóðernisleg leið að biskupsvígslu. Á tímum heimastjórnar þótti óviðunandi að biskupar landsins sæktu vígslu til kirkju hinar fornu herraþjóðar. Innlendir vígslufeður skyldu geta veitt biskupsvígslu innanlands. Þetta var skiljanleg hugsun þá. Þjóðkirkjan var þó með þessu lokuð inni í þjóðlegri vígsluröð.

Vitanlega á að vígja biskup landsins á Íslandi í viðurvist sem flestra úr röðum kirkjunnar. Nú á dögum eru hins vegar litlar líkur á að fráfarandi biskup geti ekki vígt eftirmann sinn eða ekki sé alltaf til staðar biskupsvígður einstaklingur í landinu jafnvel þótt engir væru vígslubiskuparnir. Komi sú staða samt upp væri það fagurt og kirkjulega merkingarbært tákn að kalla biskup úr erlendri systurkirkju til að vígja nýjan biskup. Koma þar biskupar svokallaðra Porvoo-kirkna einkum til álita.

Nýtum það sem við höfum

En nú eru biskupar þrír í biskupsdæminu Íslandi og ekki hefur komið fram formleg tillaga um breyta því. Hér verður það heldur ekki lagt til. Það kann enda að vera kostur að hafa á að skipa fleiri en einum biskupsvígðum einstaklingi í senn. Eins og á stendur hefur þjóðkirkjan þó ekki ráð á að hafa tvo menn á fullum launum í háum embættum sem mestmegnis virðast hafa ósýnilegum verkefnum að gegna og þurfa sérstaks rökstuðnings og skýringa við. Því er mikilvægt að virkja alla þrjá biskupana og gera störf þeirra sýnileg.

Engin þörf virðist á að kjúfa jafnsmáa kirkju og okkar í þrjú biskupsdæmi. Það verður heldur vart gert án umtalsverðs kostnaðar. Ólíkt skynsamlegra virðist að þróa sameiginlega eða „kollegiala“ biskupsþjónustu í höndum þriggja einstaklinga í óklofnu biskupsdæmi. Slíkt gæti endurnýjað og eflt biskupsþjónustuna og þar með kirkjuna í landinu á skapandi hátt.

Eðlilegt er að biskup landsins sitji í Reykjavík, sé formaður biskupafundar og formlegur fulltrúi kirkjunnar út á við. Þá ætti að hluta til að skipta verkum milli biskupanna með starfsreglum eða jafnvel lögum og ganga í því út frá skiptingu landsins í umdæmi. Biskuparnir gætu svo að öðru leyti skipt með sér þeim fjölþættu hirðishlutverkum sem biskupsembættið felur í sér. Í því felst tilsjón með kirkjulegu lífi og starfi, forysta í boðun, fræðslu, líknarþjónustu og fjölþættu þróunar- og uppbyggingarstarfi auk fjölmargs annars sem biskupar annast ýmist sjálfir eða aðrir í umboði þeirra og undir þeirra leiðsögn. Að hluta væri verkum þannig skipt milli biskupa út frá landfræðilegum og lögformlegum umdæmum. Að öðru leyti gætu þeir skipt með sér verkum út frá menntun, reynslu, áhugamálum og öðrum persónulegum forsendum („náðargáfum“) þeirra þriggja sem biskupsembætti gegna hverju sinni.

Þrír biskupar skapa einnig mun meiri möguleika á sókn út á við en einum manni er fært. Biskupar hafa víðtækt umboð til að mæla fyrir munn kirkjunnar á öllum sviðum kirkjulífs, þjóðlífs og mannlífs. Enn er það svo að allur þorri landsmanna hlustar eftir því sem biskupar segja og bregðast við því á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Auðvitað eru fráleitt allir sammmála því sem biskup segir. Nú orðið talar hann heldur ekki af meiri myndugleika eða valdi en hver annar. Orð biskups hafa nú í eyrum flestra aðeins þá vikt sem persónulegur trúverðugleiki hans sjálfs veitir þeim. Því er ljóst að þrír ólíkir biskupar skapa kirkjunni breiðari snertiflöt við þjóðina en einn maður getur gert. Þess er full þörf í fjölbreyttu samfélagi samtímans.

Hvernig eigum við að kjósa?

Nú þegar vígslubiskupskjör stendur yfir er mikilvægt að spyrja hvernig við nýtum tækifærið best til að styrkja kirkjuna og virkja biskupsembættið. Svarið liggur í því að við eigum að gera út á breiddina. Við eigum að velja nýjan biskup með sóknarfæri í huga og taka tillit til þess hverjir fyrir eru í embætti.

Það gefur auga leið að aukinn trúverðugleiki vinnst með því að kjósa konu til að gegna biskupsembætti með þeim tveimur körlum sem fyrir eru. Með tveimur miðaldra einstaklingum vinnst aukin breidd með því að kjósa svo unga konu sem kostur er. Sé horft til þeirra sem fyrir eru er viðamikil stjórnunarreynsla ekki það sem helst skortir. Mikilvægara er að sú sem valin verður búi að fjölþættri reynslu af kirkjustarfi innan lands og utan sem og á samkirkjulegum vettvangi. Þá skiptir sköpum að konan sem valin verður hafi tekið þátt í þeirri fjölþættu samfélagsumræðu sem kirkjan verður að taka vaxandi þátt í á komandi árum. Öðlist þjóðkirkjan ekki sterkari rödd á því sviði alveg á næstunni er hætt við að hún einangrist til frambúðar. Loks er mikilvægt að hún búi að reynslu af teymisvinnu ef takast á að þróa bisuksembættið í þá átt sem rætt var um hér að framan.

Er Háskóli Íslands í einangrunarhættu?

Hjalti Hugason, 19. May 2011 19:06

 

Vorið er uppskeruhátíð í starfi Háskólans. Þá útskrifast flestir stúdentar. Eins og áskrifendur á Hi–starf verða líka varir við hefur tilkynningum um doktorsvarnir einnig rignt yfir síðustu vikur. Það minnir okkur á að Háskóli Íslands er nú eftir 100 ára starf orðinn fullgildur háskóli sem veitir menntun til æðstu gráðu háskólasamfélagsins á fjölmörgum fræðasviðum. Þessu ber að fagna. Vonandi tekst öllum deildum Hugvísindasviðs að taka þátt í þessari þróun og fjölga útskrifuðum doktorum jafnt og þétt á næstu árum.

Á öllum málum eru þó tvær hliðar. Það á einnig við um framfaramál. Löngum hefur verið um það rætt að Háskóli Íslands sé óvenju alþjóðlegur þrátt fyrir smæð sína og legu. Helsta skýringin á því hefur verið að langflestir kennarar hans hafa lokið rannsóknarnámi sínu erlendis ýmist austan hafs eða vestan. Heim komnir hafa þeir síðan myndað fræðasamfélög sem teygt hafa anga sína víða um heim. Er ekki hætt við að þetta breytist við það að doktorsnám festist í sessi við Háskóla Íslands?

Mér sem þetta ritar er minnisstætt þegar ég kom til baka úr námi við virtan háskóla erlendis. Þar kynntist ég höfundum ýmissa þeirra bóka sem lesnar höfðu verið í grunnáminu hér, gekk inn í stórt rannsóknarsamfélag, uppgötvaði bókasafn sem hafði að geyma flest sem hugurinn girntist og fékk þá tilfinngu að ég væri orðinn hluti af hinum stóra heimi. Þegar ég flutti heim óttaðist ég að einagrunin hæfist. Það var ekki alls kostar rétt. Vissulega var torveldara að nálgast gögn. Heimsóknir gestafyrirlesara voru þó síst sjaldgæfari og samstarf við erlenda háskóla virtist mun meira.

Það hafði líka komið spánskt fyrir sjónir að við þann háskóla sem ég hafði numið við var munstrið þetta: Stúdent innritaðist á unga aldri, lauk grunnnámi og rannsóknarnámi við sama skóla ef heppnin var með hlaut hann rannsóknarstöðu og síðan fasta kennarastöðu við sama háskóla. Hinu akademíska lífi var öllu lifað innan veggja sömu stofnunar ef til vill með stuttum heimsóknum á öðrum stöðum. Mína grein var hægt að stunda á tveimur stöðum í landinu. Á fimm ára námsferli man ég eftir tveimur sameiginlegum semínörum. Þess á milli var torvelt að rækja nokkur tengsl og takmarkaður áhugi virtist fyrir því meðal heimamanna. Mun fjölgun útskrifaðra doktora frá Háskóla Íslands færa okkur í það far sem hér var lýst og þar með auka einangrun íslensks háskóla- og rannsóknarumhverfis?

Benda má á margt sem hefur breyst síðan mín kynslóð lauk rannsóknarnámi. Þar munar mest um  að öll tengsl við umheiminn hafa gjörbreyst með tilkomu hinna rafrænu samskipta. Smæð bókasafna og skort á ýmis konar gögnum má nú bæta sér upp á annan og skilvirkari máta en þá var kostur. Þá hefur ferðakostnaður lækkað a.m.k. í meðalári. Tæknilega séð eru því varnir gegn einangrun betri nú en þá.

Hitt er annað mál að það er margt sem glatast við það ef stór hluti háskólakennara í framtíðinni hefur ekki notið þeirra gæða að hafa árum saman dvalið í stóru erlendu rannsóknarumhverfi, komist undir yfirborð þess, mótast af menningu annars lands og myndað tengsl sem vara lengi eftir að heim er komið. Þá mun fjölbreytnin líka smám saman minnka ef stöðugt fleiri hljóta alla sína menntun hér heima. Ekki er ég dómbær á það hvort einangrun af þessu tagi er skaðlegri á sviði hugvísinda en í öðrum fræðigreinum. Ég er alla vega sannfærður um að í þeim greinum sem ég þekki best er einhæfni skaðleg.

Samtímis því að doktorsnám eflist við Háskóla Íslands er full ástæða til að hefja mótvægisaðgerðir. Það er sem sé ekki nægilegt að tryggja að námið standist alþjóðlegar kröfur. Það þarf líka að sporna gegn einangrun og einhæfni.

Að ræða eða ræða ekki 62. gr. stjórnarskrárinnar

Hjalti Hugason, 19. May 2011 19:05

 

Í Fréttablaðinu 11. maí s.l. birtist hvatning frá nokkrum trú- og lífsskoðunarfélögum, baráttusamtökum fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnvel baráttusamtökum gegn trú til Stjórnlagaráðs um að „bera fram sérstaka tillögu um afnám 62. greinar stjórnarskrár Íslands og afnema þar með ákvæði um sérstaka vernd þjóðkirkjunnar.“ Telja þessi samtök vænlegast að sértæk tillaga um niðurfellingu greinarinnar verði lögð í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara kosningu um nýja stjórnarskrá.

Ljóst er að ákvörðunarvald um niðurfellingu eða breytingu á 62. gr. stjskr. er í höndum þjóðarinnar. Það mál verður því  að bera undir þjóðina í almennri atkvæðargreiðslu sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr. hvort sem það verður gert á grundvelli sértækrar tillögu, sem hluti af viðamikilum stjórnarskrárbreytingum eða við kosningar um alveg nýja stjórnarskrá.  Með áskoruninni er Stjórnlagaráð hvatt til að velja alveg ákveðna leið í þessu efni, þ.e. að fara bókstaflega að fyrirmælum 79. gr. stjskr. og einangra 62. gr. þannig frá öðrum greinum stjórnarskrárinnar. Svo virðist sem þessi leið sé farin til að koma í veg fyrir sérstaka umræðu um greinina.

Markmið þeirra sem undir hvatninguna rita er að afnema ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar og tryggja jafnrétti og fullt trúfrelsi einstaklinga óháð trúar- og lífsskoðunum þeirra. Þetta er í alla staði virðingarvert markmið sem keppa bera að. Meginhugsun þess kemur raunar þegar fram í 63.–65. gr. núgildandi stjórnarskrár. Þá ber þess að gæta að í innlendum og erlendum dómum hefur komið fram að þjóðkirkjuskipan á borð við þá sem fram kemur í 62. gr. stjskr. brjóti ekki í bága við trúfrelsi. Stjórnlagaráði ber þó vissulega að þróa þessa hugsjón áfram inn í 21. öldina. Það er hins vegar ekki víst að það verði best gert án umræðu um 62. gr.

Nú þegar liggur fyrir Stjórnlagaráði tillaga um að ná sama markmiði og að ofan getur en með uppstokkun á öllu efni sjötta kafla stjskr. og nýjum tengslum hans við mannréttindaákvæði stjskr. Þar er lagt til að öll trú og lífsskoðanir verði lagðar að jöfnu, að staða trú- og lífsskoðunarfélaga verði jöfnuð þannig að ríkið styrki og verndi öll slík félög sem óska skráningar og uppfylla þau skilyrði sem um hana gilda og að sérstaða meirihlutakirkjunnar í landinu verði frekar táknræn en lagalegs eðlis. Á þennan hátt er mögulegt að þróa þá trúfrelsishefð sem hér hefur ráðið för frá 1874 á farsælan hátt inn í fjölhyggju 21. aldarinnar.

Það er vonandi að Stjórnlagaráð reynist þeim vanda vaxið að taka einnig þann hluta stjórnarskrárinnar sem að trú- og kirkjumálum lýtur til málefnalegrar umræðu en hlaupi ekki frá vandanum með þeirri ódýru lausn sem fram kom í fyrrgreindri hvatningu.     

Að lokum skal Stjórnlagaráði óskað velfarnaðar í vandasömu starfi.

Vörn er ekki í boði!

Hjalti Hugason, 16. May 2011 10:44

 

Það er gaman á gleðidögum eftir sumarpáska. Gras er orðið svo grænt, tré laufgast svo sér mun dag frá degi, fuglasöngur ómar, kvöldin eru löng. Upprisan verður áþreifanleg. Við á mölinni förum þó illu heilli á mis við sauðburðinn.

Fagnaðarerindið blæs til sóknar

Milli upprisu og uppstigningar birtist Kristur lærisveinum sínum og staðfesti þannig undrið sem orðið var. Í lok Markúsarguðspjalls kveður hann þá svofelldum orðum samkvæmt gömlu biblíuþýðingunni: “Farið út um allan heiminn og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu...“. — Nýja þýðingin er vissulega ekki jafndramatísk! Síðan fylgir stórbrotið fyrirheiti: „En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."

Við lítum vissulega flest svo á að þessi stórmerki eigi ekki við okkur. Allt um það flytur kirkja samtímans sama gleðiboðskap um sigur lífs yfir dauða, réttlætis yfir ranglæti. Slík boð verða ekki flutt á trúverðugan hátt í vörn. Gleðiboðskapur sækir alltaf á. Að öðrum kosti skortir gleðina. Gleðidagarnir verða þá framhald föstunnar. Hugsanlega hefur íslenska þjóðkirkjan festst þar. Að undanförnu hefur hún spilað varnarleik.

Iðrun en ekki vörn

Vissulega hefur þjóðkirkjunni orðið á í ýmsum efnum undanfarin ár. Það á ugglaust við um leiðtoga hennar, starfsmenn, stofnunina sjálfa og einstaka söfnuði. Á vettvangi kirkjunnar hafa jafnvel verið framin brot. Við slíkar aðstæður er vörn síst í boði. Þegar svo stendur á ber kirkjunni að játa syndir sínar, iðrast, sýna yfirbót í verki og leita fyrirgefningar.

Í iðrun felst ekki vörn heldur hlífðarlaus sjálfsskoðun, gagnrýnið endurmat og vilji til að byrja upp á nýtt. Iðrun er heiðarleg bæn um fyrirgefningu og tilraun til að endurheimta trúverðugleika. Vörn felur aðeins í sér krampakennda tilraun til að halda áfram á sömu braut. Slíkt er ekki samræmanlegt fagnaðarerindinu og sæmir ekki evangelískri kirkju sem kennir sig við það.

Þjóðkirkjan okkar - hvert stefnir?

Hjalti Hugason, 14. May 2011 13:27

 

Þannig var spurt á athyglisverðu málþingi sem haldið var í safnaðarheimili Neskirkju nú fyrir skömmu. Margt var gleðilegt við þingið. Meðal annars var það óvenju fjölsótt og þátttakendahópurinn blandaður þegar um samkomu af þessu tagi er að ræða. Er ekki örgrannt um að „suðrænn saltfiskur“ sem í boði var annars staðar í byggingunni hafi dregið nokkuð að. Sýnir það að fjölbreytt kirkjustarf á sama stað og sama tíma getur örfað aðsókn. Fólk flæðir milli vistarvera og atburða. Áhrifin magnast.

Vinur er sá er til vamma segir

Frummælendur á þinginu voru sex til sjö eftir því hvernig er talið. Tengsl þeirra við þjóðkirkjuna reyndust mismikil. Sum höfðu sagt sig úr henni. Þau áttu þó öll sammerkt í því að vera hollir vinir kirkjunnar. Innlegg þeirra voru líka beitt hvert á sinn hátt.

Einn frummælenda glímdi sérstaklega við stöðu prestsins í samtímanum. Íslenska kirkjan er jú óneitanelga enn prestakirkja. Presturinn er nokkurs konar tákn eða ásjóna kirkjunnar. Málshefjandi lagði áherslu á að nú á dögum væri presturinn fyrst og fremst að „reyna að vera maður“. Þessi orð má auðvitað túlka með mörgu móti. Ég skildi þau þannig að ræðumaður teldi hlutverk kirkjunnar vera að standa með fólkinu í landinu, efla það og styrkja í að vera betra fólk og byggja upp gróandi þjóðlíf í góðir merkingu.

Annar ræddi um „gap“ sem komið væri fram milli kirkju og þjóðar sem sýnir að kirkjunni  hefur ekki tekist vel að gegna fyrrgreindu hlutverki — kannist hún við það og leitist við að rækja það. Ræðumaður kvað kirkjuna „stefna niður á við“ og að heilindi og traust skorti innan hennar. Sé svo er ekki að undra að traust og tiltrú skorti í garð kirkjunnar úti í samfélaginu en mat flestra frummælenda var að svo væri. Kannanir benda og í þá átt.

Sá þriðji taldi þjóðkirkjuna samofna valdastofnunum samfélagsins sem væri henni fjötur um fót. Hann spurði hvað kirkjan óttaðist varðandi aðskilnað frá ríkisvaldinu sem væntanlega yki svigrúm hennar til að vera kirkja.

Sá fjórði taldi mikið skorta á að þjóðkirkjan hlustaði á umhverfi sitt  og þjónaði lífinu í landinu og átti þar við bæði þjóðlífið og náttúruna.

Í heild ríkti athyglisverður samhljómur í máli þessara fjögurra frummælenda og ágengar spurningar hrönnuðust upp. Sá sem þetta ritar hugsaði: Vá! Það verður spennandi að heyra hvernig salurinn bregst við. Hér er komið af stað samtal um grundvallaratriði.

Kirkjan og guðfræðiumræðan

Í máli flestra framsögumanna kom fram óþol í garð þjóðkirkjunnar vegna þess hversu lengi hún hafi væri að taka afstöðu í ýmsum álitamálum sem hún hefur haft við að glíma upp á síðkastið. Mjög var þar bent á málefni samkynhneigðra og hjónavígslu þeirra í því sambandi.

Hér skal því ekki mótmælt að kirkjan hafi farið sér hægt í þessu máli á fyrri stigum og t.a.m. gert kirkjulega staðfestingu samvistar að of miklu máli. Það skal og játað að kirkjunni ber eðli sínu samkvæmt að vera í fararbroddi þegar um mannréttindi er að ræða.

Hinu má hins vegar ekki gleyma að það er ekki veikleiki kirkjunnar heldur styrkur ef hún leitast við að taka afstöðu út frá guðfræðilegum forsendum þrátt fyrir að það kunni að taka tíma. Án slíkrar umræðu á kirkjan á hættu að glata mikilvægum þætti í sérleika sínum og verða aðeins ein af félagsmálastofnunum samfélagsins. Það er að sönnu verðugt hlutverk en er kirkja Krists í raun kölluð til að vera það?

Þegar íslenska þjóðkirkjan er gagnrýnd fyrir seinagang í þessu ákveðna máli er líka mikilvægt að spurt sé: Hversu margar af kirkjum heims hafa tekið sömu afstöðu í þessu efni og hversu langan tíma hefur það tekið? — Sé sá samanburður gerður kemur í ljós að íslenska þjóðkirkjan er ein af örfáum sem  tekið hafa jákvæða afstöðu. — Þetta er ekki sagt til að réttlæta íhaldsemi heldur til að skapa raunhæfan samanburð.

Þegar guðfræðileg álitamál ber á góma á kirkjan að taka sér tíma, vega rök og meta og taka málefnalega afstöðu. Hún má hins vegar ekki eyða tímanum í deilur um keisararans skegg eða leitast við að gera mál guðfræðileg sem ekki eru það. Hún má heldur aldrei vera hrædd við að taka umdeilanlega ákvörðun ef hún álítur hana rétta.

Seinni hálfleikur

Segja má að kirkjufólk í þröngum skilningi hafi átt völlinn í  síðari leikhluta. Það var áberandi var hversu harðan varnarleik það spilaði. Ögrun frummælendanna var ekki gripin á lofti heldur var skeytum þeirra beint eitthvert annað eða reynt að brjóta af þeim oddinn.

Þverrandi traust var einkum talið beinast að kirkjustofnuninni eða kirkjustjórninni en ekki þjóðkirkjunni almennt. Festa í skírnar- og fremingarsiðum þjóðarinnar var talin sýna sterka stöðu safnaðarstarfs í landinu þótt fremur kunni að vera um almennt félagslegt fyrirbæri að ræða (svokallaða civil-religion). Þá var afstaða „almennings“ til kirkjunnar talin stafa af þekkingar- eða upplýsingaskorti sem leiðrétta bæri með öflugri almannatengslum.

Auðvitað má segja að í öllu þessu liggi ákveðinn sannleikur. Afleiðingin af málflutningunum varð hins vegar að þeirri kraftmikla og kjörkuðu umræðu sem lagt var upp með í fyrri hálfleik var drepið á dreif.  

Er rúm fyrir „idealisma“ í kirkjunni?

Undir lok umræðnanna benti einhver á að starf í þjóðkirkjunni krefðist raunsæis. Þar væri ekki pláss neinn fyrir „idealisma“! Alltaf er varasamt að henda ummæli á lofti og hætt við of- eða rangtúlkunum. — Svona yfirlýsing krefst þó vissulega umhugsunar.

Spyrja má: Hvers vegna komst Kristur upp á kant við farísea og fræðimenn? Jafnvel má hnykkja á og spyrja: Fyrir hvað var hann krossfestur? Var það fyrir raunsæi? Er ekki líklegra að það hafi verið fyrir „idealisma“ svona mannlega talað og séð með augum samtíma hans?

Ef ekki er pláss fyrir „idealisma“ í íslensku þjóðkirkjunni má velta því fyrir sér hvort þar rúmist þá hugsjón, kærleikur eða þess vegna trú.

Málþingið um daginn var um margt ögrandi og „inspírerandi“. Þar með er ekki sagt að það hafi að öllu leyti verið gott. Til þess að svo yrði skorti samræður um grundvallaratriði. — Um það sýnist þó vonandi sitt hverjum.