Er Háskóli Íslands í einangrunarhættu?

Hjalti Hugason, 19. May 2011 19:06

 

Vorið er uppskeruhátíð í starfi Háskólans. Þá útskrifast flestir stúdentar. Eins og áskrifendur á Hi–starf verða líka varir við hefur tilkynningum um doktorsvarnir einnig rignt yfir síðustu vikur. Það minnir okkur á að Háskóli Íslands er nú eftir 100 ára starf orðinn fullgildur háskóli sem veitir menntun til æðstu gráðu háskólasamfélagsins á fjölmörgum fræðasviðum. Þessu ber að fagna. Vonandi tekst öllum deildum Hugvísindasviðs að taka þátt í þessari þróun og fjölga útskrifuðum doktorum jafnt og þétt á næstu árum.

Á öllum málum eru þó tvær hliðar. Það á einnig við um framfaramál. Löngum hefur verið um það rætt að Háskóli Íslands sé óvenju alþjóðlegur þrátt fyrir smæð sína og legu. Helsta skýringin á því hefur verið að langflestir kennarar hans hafa lokið rannsóknarnámi sínu erlendis ýmist austan hafs eða vestan. Heim komnir hafa þeir síðan myndað fræðasamfélög sem teygt hafa anga sína víða um heim. Er ekki hætt við að þetta breytist við það að doktorsnám festist í sessi við Háskóla Íslands?

Mér sem þetta ritar er minnisstætt þegar ég kom til baka úr námi við virtan háskóla erlendis. Þar kynntist ég höfundum ýmissa þeirra bóka sem lesnar höfðu verið í grunnáminu hér, gekk inn í stórt rannsóknarsamfélag, uppgötvaði bókasafn sem hafði að geyma flest sem hugurinn girntist og fékk þá tilfinngu að ég væri orðinn hluti af hinum stóra heimi. Þegar ég flutti heim óttaðist ég að einagrunin hæfist. Það var ekki alls kostar rétt. Vissulega var torveldara að nálgast gögn. Heimsóknir gestafyrirlesara voru þó síst sjaldgæfari og samstarf við erlenda háskóla virtist mun meira.

Það hafði líka komið spánskt fyrir sjónir að við þann háskóla sem ég hafði numið við var munstrið þetta: Stúdent innritaðist á unga aldri, lauk grunnnámi og rannsóknarnámi við sama skóla ef heppnin var með hlaut hann rannsóknarstöðu og síðan fasta kennarastöðu við sama háskóla. Hinu akademíska lífi var öllu lifað innan veggja sömu stofnunar ef til vill með stuttum heimsóknum á öðrum stöðum. Mína grein var hægt að stunda á tveimur stöðum í landinu. Á fimm ára námsferli man ég eftir tveimur sameiginlegum semínörum. Þess á milli var torvelt að rækja nokkur tengsl og takmarkaður áhugi virtist fyrir því meðal heimamanna. Mun fjölgun útskrifaðra doktora frá Háskóla Íslands færa okkur í það far sem hér var lýst og þar með auka einangrun íslensks háskóla- og rannsóknarumhverfis?

Benda má á margt sem hefur breyst síðan mín kynslóð lauk rannsóknarnámi. Þar munar mest um  að öll tengsl við umheiminn hafa gjörbreyst með tilkomu hinna rafrænu samskipta. Smæð bókasafna og skort á ýmis konar gögnum má nú bæta sér upp á annan og skilvirkari máta en þá var kostur. Þá hefur ferðakostnaður lækkað a.m.k. í meðalári. Tæknilega séð eru því varnir gegn einangrun betri nú en þá.

Hitt er annað mál að það er margt sem glatast við það ef stór hluti háskólakennara í framtíðinni hefur ekki notið þeirra gæða að hafa árum saman dvalið í stóru erlendu rannsóknarumhverfi, komist undir yfirborð þess, mótast af menningu annars lands og myndað tengsl sem vara lengi eftir að heim er komið. Þá mun fjölbreytnin líka smám saman minnka ef stöðugt fleiri hljóta alla sína menntun hér heima. Ekki er ég dómbær á það hvort einangrun af þessu tagi er skaðlegri á sviði hugvísinda en í öðrum fræðigreinum. Ég er alla vega sannfærður um að í þeim greinum sem ég þekki best er einhæfni skaðleg.

Samtímis því að doktorsnám eflist við Háskóla Íslands er full ástæða til að hefja mótvægisaðgerðir. Það er sem sé ekki nægilegt að tryggja að námið standist alþjóðlegar kröfur. Það þarf líka að sporna gegn einangrun og einhæfni.

Að ræða eða ræða ekki 62. gr. stjórnarskrárinnar

Hjalti Hugason, 19. May 2011 19:05

 

Í Fréttablaðinu 11. maí s.l. birtist hvatning frá nokkrum trú- og lífsskoðunarfélögum, baráttusamtökum fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnvel baráttusamtökum gegn trú til Stjórnlagaráðs um að „bera fram sérstaka tillögu um afnám 62. greinar stjórnarskrár Íslands og afnema þar með ákvæði um sérstaka vernd þjóðkirkjunnar.“ Telja þessi samtök vænlegast að sértæk tillaga um niðurfellingu greinarinnar verði lögð í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara kosningu um nýja stjórnarskrá.

Ljóst er að ákvörðunarvald um niðurfellingu eða breytingu á 62. gr. stjskr. er í höndum þjóðarinnar. Það mál verður því  að bera undir þjóðina í almennri atkvæðargreiðslu sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr. hvort sem það verður gert á grundvelli sértækrar tillögu, sem hluti af viðamikilum stjórnarskrárbreytingum eða við kosningar um alveg nýja stjórnarskrá.  Með áskoruninni er Stjórnlagaráð hvatt til að velja alveg ákveðna leið í þessu efni, þ.e. að fara bókstaflega að fyrirmælum 79. gr. stjskr. og einangra 62. gr. þannig frá öðrum greinum stjórnarskrárinnar. Svo virðist sem þessi leið sé farin til að koma í veg fyrir sérstaka umræðu um greinina.

Markmið þeirra sem undir hvatninguna rita er að afnema ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar og tryggja jafnrétti og fullt trúfrelsi einstaklinga óháð trúar- og lífsskoðunum þeirra. Þetta er í alla staði virðingarvert markmið sem keppa bera að. Meginhugsun þess kemur raunar þegar fram í 63.–65. gr. núgildandi stjórnarskrár. Þá ber þess að gæta að í innlendum og erlendum dómum hefur komið fram að þjóðkirkjuskipan á borð við þá sem fram kemur í 62. gr. stjskr. brjóti ekki í bága við trúfrelsi. Stjórnlagaráði ber þó vissulega að þróa þessa hugsjón áfram inn í 21. öldina. Það er hins vegar ekki víst að það verði best gert án umræðu um 62. gr.

Nú þegar liggur fyrir Stjórnlagaráði tillaga um að ná sama markmiði og að ofan getur en með uppstokkun á öllu efni sjötta kafla stjskr. og nýjum tengslum hans við mannréttindaákvæði stjskr. Þar er lagt til að öll trú og lífsskoðanir verði lagðar að jöfnu, að staða trú- og lífsskoðunarfélaga verði jöfnuð þannig að ríkið styrki og verndi öll slík félög sem óska skráningar og uppfylla þau skilyrði sem um hana gilda og að sérstaða meirihlutakirkjunnar í landinu verði frekar táknræn en lagalegs eðlis. Á þennan hátt er mögulegt að þróa þá trúfrelsishefð sem hér hefur ráðið för frá 1874 á farsælan hátt inn í fjölhyggju 21. aldarinnar.

Það er vonandi að Stjórnlagaráð reynist þeim vanda vaxið að taka einnig þann hluta stjórnarskrárinnar sem að trú- og kirkjumálum lýtur til málefnalegrar umræðu en hlaupi ekki frá vandanum með þeirri ódýru lausn sem fram kom í fyrrgreindri hvatningu.     

Að lokum skal Stjórnlagaráði óskað velfarnaðar í vandasömu starfi.