Teningum kastað um þjóðkirkjuna?

Hjalti Hugason, 26. May 2011 15:03

 

Í sumar er líklegt að teningunum verði kastað varðandi framtíðarstöðu evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar í landinu.

Tvær leiðir

Ósennilegt er að Stjórnlagaráð komist hjá að hrófla við 62. gr. núgildandi stjskr. Hún hefur að geyma svokallaða kirkjuskipan landsins eða ákvæði þess efnis að þessi kirkja skuli kallast þjóðkirkja og að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda.

Tveir möguleikar virðast í stöðunni: Að ráðið aðlagi greinina breyttum tímum með endurskoðun á öllum sjötta kafla stjskr. eða það leggi til að greinin verði felld brott með tilvísan til 2. málsgr. 79. gr. stjskr. Þar segir hvernig það skuli gert, þ.e. með þjóðaratkvæði.

Mörgum — bæði innan og utan Stjórnlagaráðs — finnst síðari leiðin fýsilegri m.a. vegna þess að hún sparar ráðinu ómak. Þannig kemst það hjá að ræða trúarrétt en við Íslendingar erum ekki sterk á því svelli. Þeir sem vilja að þjóðin feti sig á ábyrgan hátt inn í fjölmenningu 21. aldar hallast frekar að því að umræða verði tekin um útfærslu trúfrelsis og stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu.

Slík umræða hefur ekki farið fram í þau tæplega 140 ár sem liðin eru frá því við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá. Er þá undanskilin lítilsháttar umfjöllun í tengslum við orðalagsbreytingu á annarri trúfrelsisgrein stjskr. við endurskoðun á mannréttindaákvæðum hennar fyrir tæpum 20 árum.

Markmið endurskoðunar

Það er raunar samdóma álit sérfræðinga sem um málið hafa fjallað að þjóðkirkjufyrirkomulag á borð við það sem hér hefur þróast á grundvelli 62. gr. stjskr. brjóti hvorki í bága við trúfrelsi né ákvæði mannréttindasáttmála sem Ísland á aðild að. Þá voru trúfrelsisákvæðin endurskoðuð í lok síðustu aldar eins og fram er komið. Stjórnlagaráð hefur þó fullt tilefni til að huga að því hvort ekki sé ástæða til að hnykkja betur á því en nú er gert að trúfrelsisákvæði stjskr. tryggi ekki eingöngu rétt fólks til að velja á milli þjóðkirkjunnar og annarra safnaða guðsdýrkenda. Þá þyrfti að fyrirbyggja enn frekar að fólki verði ekki mismunað eftir því hvort lífsskoðun þess er trúarleg eða veraldleg.

Sá sem þetta ritar hefur lagt til að Stjórnlagaráð endurskoði núgildandi ákvæði um þjóðkirkju og trúfrelsi með eftirfarandi markmiðum huga:

Að  gengið sé út frá rétti einstaklinga í ríkari mæli en trúfélaga.

Að stuðlað sé að  jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum.

Að réttur fólks til að tjá og iðka trúar- eða lífsskoðanir sé tryggður.

Að réttur fólks til að hafna slíkum skoðunum sé tryggður.

Að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé jöfnuð.

Ný trúfrelsisgrein

Þessum markmiðum má t.d. ná með að sameina 62.–64. gr. stjskr. í eina grein sem tengja ætti ákvæðum um almenn mannréttindi í stað þess að einangra þetta efni í sérstökum kafla eins og nú er gert.

Hin endurskoðaða grein gæti hljómað eitthvað á þennan hátt:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. 

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Þannig væri byggt á grunni núgildandi stjskr. og ákvæði hennar þróuð til aukins jafnræðis trúar og lífsskoðana á grundvelli þeirrar trúfrelsishefðar sem hér hefur tíðkast allt frá 1874. Margt bendir enda til að hún sé síst verr fallin til að mæta aukinni fjölmenningu en sú aðskilnaðarleið sem t.d. er farin í Frakklandi og miðar að fullum aðskilnaði hins veraldlega og trúarlega sviðs í samfélaginu. Ýmsir hafa þó orðið til þess að undanförnu að mæla fyrir þeirri aðferð hér.

Þjóðkirkjan er tilboð

Þegar hugað er að breytingum á 62. gr. stjskr. ber að hafa í huga að valdið liggur hjá þjóðinn sjálfri eins og fram kemur í 2. mg. 79. gr. stjskr.

Þjóðkirkjan er í raun opið tilboð til þjóðarinnar um samfylgd frá vöggu til grafar sem helst reynir á hjá flestum á merkisdögum mannsævinnar í gleði og þraut. Hingað til hefur þorri þjóðarinnar kosið að nýta sér tilboðið eins og fram kemur í háu hlutfalli hjónavígslna af öllum giftingum, sem og í hversu hátt hlutfall ungra barna hlýtur skírn og hátt hlutfall unglinga fermist. Er þá ónefnt að flestir kjósa sér kirkjulega útför.  Að sönnu er þessi tölfræði ekki mælikvarði á kirkjulega trú þjóðarinnar en sýnir þó að flestir kjósa samfylgd þjóðkirkjunnar í einhverri mynd.

Þá ber að gæta að þjóðkirkjan þjónar þjóðinni óháð trúarafstöðu á mun fjölbreyttari hátt en með kirkjulegum athöfnum. Víða myndar hún veigamikinn þátt í grenndarumhverfi og velferðarkerfi samfélagsins ekki síst í dreifðum byggðum þar sem ýmissar félagsþjónustu nýtur síður við en í þéttbýli.

Áður en núgildandi kirkjuskipan er breytt í grundvallaratriðum virðist full ástæða til að þjóðkirkjan geri enn betur grein fyrir hvernig hún sér hlutverk sitt í framtíðinni og hvert tilboð hún vill gera þjóðinni. Og að þjóðin fyrir sína parta taki afstöðu til þess hvort hún vilji þiggja það tilboð.

Af sambandi þjóðkirkju og þjóðar ættu tengsl kirkju og ríkis síðan að ráðast en ekki öfugt.