Tafir í vígslubiskupskjöri

Hjalti Hugason, 30. May 2011 12:39

 

Vonir stóðu til að vígslubiskupskjöri í Skálholti yrði lokið á þessu vori. Svo slysalega vildi þó til að ógilda varð fyrri umferð kosningarinnar sem fór fram í apríl s.l. og byrja aftur á byrjunarreit. Reikna má með að kosningin fari fram í tveimur umferðum og mun hún því standa ungann úr sumrinu.

Það er að vísu dapurlegt að ekki skuli hafa tekist að ljúka lokaðri 150 kjörmanna kosningu án stórvægilegra hnökra. Þó má segja lán í óláni að nú gefst tækifæri til að ræða þessi háu embætti þjóðkirkjunnar og hlutverk þeirra en ýmsum fannst skorta á slíka umræðu í upphaflegum aðdraganda kosninganna.

Óljós hlutverk

Vígslubiskupsembættin voru stofnuð í upphafi 20. aldar og þá einkum af þjóðernisrómantískum ástæðum. Það var þó ekki fyrr en í lok aldarinnar að um eiginlegar stöður varð að ræða. Fram að þeim tíma var vígslubiskupsnafnbótin heiðurstitill og ekki var ætlast til annars af þeim er þá báru en að þeir vígðu nýkjörinn biskup Íslands ef forveri hans féll frá í embætti. Eftir breytinguna hafa lög, reglugerðir og síðar starfsreglur þó vart skapað embættunum nægilega traustan grundvöll né skilgreint hlutverk þeirra á fullnægjandi hátt. Ekki skal dregið í efa að þeir sem gegnt hafa embættunum síðan þeim var breytt hafi gert það með reisn. Vígslubiskuparnir hafa þó löngum þótt nokkuð ósýnilegir í starfi þjóðkirkjunnar og óljóst hvaða verk þeim væri ætluð. Jafnvel hefur verið spurt hvort embættin séu nauðsynleg.

Engin formleg tillaga hefur þó komið fram um að leggja vigslubiskupsembættin niður. Hér verður það heldur ekki lagt til. Það kann enda að vera kostur fyrir þjóðkirkjuna að hafa á að skipa fleiri en einum biskupsvígðum einstaklingi í senn. Eins og á stendur hefur þjóðkirkjan þó ekki ráð á að hafa tvo menn á fullum launum í háum embættum sem mestmegnis virðast hafa ósýnilegum verkefnum að gegna og þurfa sérstaks rökstuðnings og skýringa við. Því er mikilvægt að virkja alla þrjá biskupana og gera störf þeirra vel sýnileg.

Þjóðkirkjan ætti að gera út á breiddina

Þrír biskupar skapa meðal annars mun breiðari snertiflöt við samfélagið en einum manni er fært. Biskupar hafa víðtækt umboð til að mæla fyrir munn þjóðkirkjunnar á öllum sviðum kirkjulífs, þjóðlífs og mannlífs. Enn er það líka svo að allur þorri fólks hlustar eftir því sem biskupar segja og bregst við því á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Auðvitað eru fráleitt allir sammmála því sem biskup segir. Nú orðið talar hann heldur ekki af meiri myndugleika eða valdi en hver annar. Orð biskups hafa nú í eyrum flestra aðeins þá vikt sem persónulegur trúverðugleiki hans sjálfs veitir þeim. Því er ljóst að þrír ólíkir biskupar höfða til þjóðarinnar í ríkari mæli en einn maður getur gert. Þess er full þörf í fjölbreyttu samfélagi samtímans.

Nú þegar vígslubiskupskjör stendur yfir er mikilvægt að spyrja hvernig þjóðkirkjan nýtir tækifærið best til að styrkja stöðu sína og virkja biskupsembættið. Augljóst er að hún ætti að gera út á breiddina. Það er mikilvægt að velja nýjan biskup með sóknarfæri í huga og taka tillit til þess hverjir fyrir eru í embætti.

Það gefur auga leið að aukinn trúverðugleiki vinnst með því að kjósa konu til að gegna biskupsembætti með þeim tveimur körlum sem fyrir eru. Með tveimur miðaldra einstaklingum vinnst aukin breidd með því að kjósa svo unga konu sem kostur er. Sé horft til þeirra sem fyrir eru er viðamikil stjórnunarreynsla ekki það sem helst skortir. Mikilvægara er að sú sem valin verður búi að fjölþættri reynslu af kirkjustarfi innan lands og utan sem og á samkirkjulegum vettvangi. Þá skiptir sköpum að konan sem valin verður hafi tekið þátt í þeirri fjölþættu samfélagsumræðu sem kirkjan verður að taka vaxandi þátt í á komandi árum. Öðlist þjóðkirkjan ekki sterkari rödd á því sviði alveg á næstunni er hætt við að hún einangrist til frambúðar. Loks er mikilvægt að hún búi að reynslu af teymisvinnu ef takast á að þróa biskupsembættið í þá átt sem rætt var um hér að framan.

Hvaða skilaboð senda kjörmenn?

Nú vill svo vel til að Sigrún Óskarsdóttir prestur í Árbæjarkirkju er ein þeirra sem gefið hefur kost á sér í vígslubiskupskjörinu. Hún uppfyllir vel þau viðmið sem hér voru talin. Það verður spennandi að sjá hvernig henni reiðir af í kjörinu, sem og hvaða skilaboð kjörmenn senda almennt út í kirkjuna og samfélagið með vali sínu.