Skýrsla Rannsóknanefndar og Kirkjuþing

Hjalti Hugason, 25. June 2011 17:41

Sigrún Óskarsdóttir og

Hjalti Hugason

Skýrsla Rannsóknanefndar og Kirkjuþing

Skýrsla rannsóknarnefndar Kirkjuþings um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni var afhent forsætisnefnd Kirkjuþings föstudaginn 11. júní sl. Umræða um hana hefur að mestu náð að síga í hefðbundið íslenskt far: Hún hefur verið persónugerð og að miklu leyti snúist um hvort núverandi biskup eigi að fara frá, eða hvort honum beri þvert á móti að leiða það uppbyggingarstarf sem framundan er. Það er miður að sjónarhornið hefur orðið svo þröngt.

Ábyrgð einstaklinga

Með þessum orðum er ekki gerð tilraun til að draga athygli frá þeim athugasemdum sem gerðar eru í skýrslunni við framgöngu tilgreindra einstaklinga, stjórna eða ráða. Þau sem þar eru nefnd hljóta  að líta í eigin barm og vega og meta hvort þau njóti áfram traust í kirkjunni. Til þess þarf tíma og tilfinningalegt svigrúm. Hér verður ekki sest í dómarasæti yfir þeim.

Upphaf en ekki endir umræðu

Við sem þetta ritum sátum nýafstaðið aukakirkjuþing sem kallað var saman vegna útgáfu  skýrslunnar er hún hafði legið frammi yfir hvítasunnuna sem er annatími  í kirkjunni. Mörg þeirra sem kölluð voru til að bregðast við skýrslunni á þinginu hafa því líklega verið í tímaþröng að kynna sér hana. Almennar umræður um efni hennar urðu nær engar. Skýrslan er hátt í 340 bls. og drög að ályktun þingsins var ekki lögð fram fyrr en á þinginu sjálfu. Trúlega hafa margir þingfulltrúar talið sig varbúna til að tjá sig um skýrsluna. Á þinginu var því einungis tekið fyrsta skrefið í að vinna úr skýrslunni. Stóra verkerfið framundan er að að skoða gagnrýni hennar, ábendingar til úrbóta, sem og það sérfræðilega efni sem hún miðlar um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis.

Það var mikilvægt  að kalla saman kirkjuþing  eins fljótt og unnt var  eftir útkomu skýrslunnar. Undirbúningur að þeim úrbótum sem mælt er með í skýrslunni þolir ekki frekari bið. Þar er um að ræða verklagsreglur um meðferð kynferðisafbrota í kirkjunni, stóraukna fræðslu um slík brot og endurskoðun á samstarfi kirkjulegra embætta og stofnana í meðferð slíkra brota.

Kirkjuþing á komandi hausti hlýtur að leggja grunn að því að eftirleiðis verði gætt fyrirmyndavinnubragða í þessum viðkvæmu málum. Forvarnir þjóðkirkjunnar og viðbragðsáætlun verða jafnframt þróaðar áfram. Þingið þarf enn fremur að gaumgæfa fleiri þætti þessarar viðmiklu skýrslu og bregðast við efni hennar.

Er kirkjan lokaður klúbbur?

Við lestur Rannsóknarskýrslunnar vaknar sú áleitna spurning hvort þjóðkirkjan hafi brugðist við neyðarópi þolendanna í „biskupsmálinu“ eins og lokaður klúbbur.

Þjóðkirkjan er stór og oft er rætt um að innan hennar gæti andstæðra fylkinga.

Er það svo?  Standa klerkar og trúnaðarmenn þvert á móti þétt saman þegar á reynir? Ríkir traust og samstaða inn á við, jafnvel hlýðni og undirgefni studd guðfræðilegum og trúarlegum undirtónum, en vantraust og efasemdir út á við? Var þess vegna svo lengi daufheyrst við og þagað um neyðaróp kvennanna?

Sé spruningunum svarað játandi er vafamál hvort skipulagsbreytingar í kirkjunni nægja einar og sér til að vinna bug á vandanum. Það er til bóta að skilgreina valdmörk, koma í veg fyrir uppsöfnun valds og áhrifa hjá fáum einstaklingum, efla lýðræði og gegnsæi og afmarka boðleiðir. Á sama tíma er mikilvægt að rýna í félags- og stofnunarmenningu kirkjunnar, brjóta upp hefðbundin tákn og ramma sem viðhalda leyndarhyggju og samstöðu á fölskum grunni og endurheimta með því laskað traust.

Framtíð þjóðkirkjunnar hlýtur að felast í þessu. Kirkja getur verið þjóðkirkja af mörgum og ólíkum ástæðum: vegna stærðar sinnar, lögfræðilegrar stöðu eða hvernig hún skilur hlutverk sitt svo nokkuð sé nefnt. Þó er ljóst að skorti trúnað og traust milli kirkju og þjóðar er tómt mál að tala um þjóðkirkju.

Hvernig á  kirkjan að mæta þolendunum?

Hvernig mætir kirkjan svo þolendunum þegar skaðinn er skeður? Við því er  ekki til neitt eitt svar. Þolendur eru fleiri en einn og því um mismunandi reynslu, tilfinningar og persónuleika að ræða.

Hér hlýtur fyrsta skrefið þó ætíð að felst í opnum samskiptum við hvern og einn þolanda þar sem gagkvæmur trúnaður, traust og virðing eru til staðar. Með stuðningi fagfólks þarf hverjum þolanda að gefast kostur á að finna leið til að finna málinu farveg á sínum eigin forendum. Eftir það  ferli er hugsanlega  kominn tími til að ræða sátt við kirkjunna og mögulega fyrirgefningu á mistökum, vanrækslu eða jafnvel brotum sem framin  að hafa verið..    

Hvernig sættist kirkjan við fortíð sína?

Skugginn af „biskupsmálinu“ mun grúfa yfir þjóðkirkjunni enn um sinn.  Hún þarf  að svara fyrir sjálfri sér og örðum ágengum spurningum um það hvernig slíkir atburðir gátu átt sér stað á upplýstri öld sem við héldum að sú 20. væri er leið að lokum hennar. Hún þarf að sættast við eða a.m.k. sætta sig við þennan þátt í fortíð sinni eins og ýmsa aðra þætti sem hafa reynst henni sárir. — Hvernig gerir hún það?

Hér finnast ekki einföld svör. Vakandi sjálfsrýni kann þó að hjálpa til og þá ekki síst til þess að reyna að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Það er styrkur kirkjunnar að geta tekist á í ýmsum álitamálum.  Það að sitt sýnist hverjum ber ekki að líta á sem flokkadrætti og rýg heldur taka ögruninni, leiða mál til lykta með ábyrgri umræðu og stefna að lausnum..

Gagnrýnisraddir í þjóðkirkjunni eru hluti af samvisku hennar. Þær eru óþægilegar en ógna kirkjunni ekki né stefna einingu hennar í hættu. Það sem gæti hinsvegar ógnað kirkjunni eru gamalgróin varnarviðbrögð sem kjúfa kirkjuna og einangra hana frá umhverfinu.

 

Skólinn og lífsskoðanirnar — III

Hjalti Hugason, 19. June 2011 20:53

 

Í tveimur pistlum hér á Pressunni hefur sá sem þetta skrifar velt vöngum yfir tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkur að reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trú- og lífsskoðunarfélög. Þar hefur athyglinni m.a. verið beint að hlutverki skólans þegar um fræðslu um trú og lífsskoðanir er að ræða sem og samvinnu og samspili heimila og skóla á því sviði. Þar koma þó fleiri að málum, m.a. trú- og lífskoðunarfélög og þá einkum þjóðkirkjan. Því verður sjónum að lokum beint að samspili skólans og þjóðkirkjunnar eða annarra trú- og lífsskoðunarfélaga ef því er að skipta.  

Aðkoma kirkjunnar

Það er óumdeilt að foreldrar eða forráðamenn barna eiga rétt á að menntun, fræðsla og trúarleg og siðferðileg mótun barnanna sé í samræmi við trú eða lífsskoðanir þeirra sjálfra. Það eru því ætíð þessir nánustu aðstandendur sem ráða ferðinni um siðræna uppeldismótun barna hvort sem þeir sjálfir, skólinn, þjóðkirkjan, önnur trú- eða lífsskoðunarfélög eða einhverjir enn aðrir veita börnum svo fræðslu og mótun á þessu viðkvæma sviði.

Hér á landi hafa þó langflestir foreldrar af fúsum og frjálsum vilja skuldbundið sig gagnvart þjóðkirkjunni þegar um andlegt uppeldi barna er að ræða. Það er undirstrikað við sérhverja barnsskírn en þá er eftirfarandi texti lesinn og ætti ekki að koma á óvart þar sem skírn fer vart fram án samtals og undirbúnings:

Góð systkin. Þér eruð vottar þess, að þetta barn er nú skírt í nafni föður, sonar og heilags anda. Með því er lögð sú ábyrgð á yður, ástvini þess, að ala það upp í ljósi fyrirheitis skírnarinnar, kenna því að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orð hans og sakramenti og þjóna náunganum í kærleika. Guð veiti yður til þess náð sína.

Vissulega lítur þjóðkirkjan ekki á þetta sem skyldukvöð. Þvert á móti kallar hún fjölskyldu skírnarbarnsins til ábyrgðar um að það fái að kynnast þeirri trú sem það var skírt til eftir því sem þroski þess eflist. Þetta er forsenda þess að barnið geti tekið upplýsta, persónulega afstöðu til trúarinnar. Kirkjan vill einnig stuðla að þessu með fermingarfærðslunni sem stendur öllum unglingum til boða og flestir taka þátt í. Náin samvinna þjóðkirkju og heimila er því af hinu góða.

Margir foreldrar velja að sönnu að bera barn sitt til skírnar í öðru trúfélagi eða sleppa skírn með öllu. Þá er að sjálfsögðu ekki um aðkomu þjóðkirkjunnar að uppeldismótuninni ræða nema þess sé óskað sérstaklega.

Skóli og kirkja

Hér á landi gegndi lútherska kirkjan lykilhlutverki á vettvangi almenningsfræðslu allt fram á öndverða 20. öld. Fræðsla almennings ekki síst í lestri spratt raunar upp úr trúfræðslu kirkjunnar en til að byrja með var það einkum kirkjan sem taldi mikilvægt að almenningur væri læs til að hann gæti tileinkað sér hina réttu trú.

Á fyrstu áratugum 20. aldar tók skólakerfi loks að þróast hér fyrir alvöru og öðlaðist það í áföngum sjálfstæði frá kirkjunni. Kom það best fram í að skilið var á milli fræðsluhlutverks skólans og mótunarhlutverks kirkjunnar. Skólanum var eftir sem áður ætlað að annast fræðslu um kristna trú en nú á sínum eigin forsendum. Var það undirstrikað  með því að hætt var að gera sömu kröfur um kunnáttu barna í kristnum fræðum við lokapróf úr grunnskóla og við fermingu.

Eftir þessar breytingu getur kirkjan ekki lengur kallað skólann til ábyrgðar varðandi trúfræðslu hennar. Samstarf þjóðkirkju og/eða annarra trú- og lífsskoðunafélaga og almennra skyldunámsskóla verður því alfarið að fara fram á forsendum skólans með hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi og með vitund og samþykki foreldranna. Þar sem börnum er skylt að dvelja í skólanum á skólatíma verður einnig að huga sérstaklega að því að þau búi þar við trúfrelsi og trúarlegt jafnræði.

Sé þessara grundvallarsjónarmiða gætt og hlutverkaskiptingu kirkju og skóla virt ætti ekki að vera nauðsynlegt að byggja slíka eldveggi að óheimilt sé t.d. að kynna tómstundastarf á vegum þjóðkirkjunnar eða annarra trú- og lífsskoðunarfélaga í skólum með sambærilegum hætti og annað félagsstarf.

Á þessu sviði sem öðrum verðum við ætíð að virða barnið og fjölþættar þarfir þess og marka stefnu um uppeldi og fræðslu með heill þess í huga. Mannréttindaráð Reykjavíkur ætti að beita sér fyrir upplýstri og faglegri umræðu um þennan málaflokk í samvinnu við sem flest trú- og lífsskoðunarfélög nú þegar við siglum hraðbyri inn í vaxandi fjölhyggju og fjölmenningu. Það er meira ögrandi og gefnadi leið en útilokunarðaferðin.

Skólinn og lífsskoðanirnar — II

Hjalti Hugason, 16. June 2011 16:39

 

Að undanförnu hefur Mannréttindaráð Reykjavíkur unnið að tillögum að reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnir við trú- og lífsskoðunarfélög. Vissulega hefur gætt skiptra skoðana um tillögurnar. Sá sem þetta skrifar vakti m.a. athygli á nokkrum álitamálum í sambandi við þær í fyrri pistli hér á Pressunni.

Á það er mikilvægt að benda að í ályktun sinni segir Mannréttindráð m.a.: „Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar“. Þessari yfirlýsingu ber að fagna.

Tæknihyggja og menntun

Tæknihyggja hefur lengi verið eitt mesta mein íslensks skóla- og menntakerfis. Þar hefur verið lögð rækt við lestur, skrift og reikning og í framhaldinu það bókvit sem helst verður í askana látið. Minni rækt hefur verið lögð við verklega hæfni og listrænt skynbragð. Þá hafa námsgreinar sem lúta að félagslegum og siðfræðilegum álitamálum, gildismati að ekki sé sagt lífsskoðunum setið á hakanum en umfjöllun um slík efni eykur siðvit fólks.

Eflum gildislægar námsgreinar

Hér er líka að finna helsta veikleikann í félagsmenningu okkar. Við erum illa áttuð þegar við glímum við gildislæg álitamál. Líklega fór sem fór í Hruninu vegna þess að fólk í fjármálaheiminum og viðskiptalífinu bjó margt að tæknilegri færni á sínu sviði en var fávitar þegar kom að siðfræði og siðferði viðskipta. Slíkt er skaðleg blanda!

Ef fyrirbyggja á að hugarfar áranna fyrir Hrun verði að landlægu meini verðum við að stórauka kennslu í greinum sem efla gildameðvitund okkar og gera okkur hæfari til að meta ábyrgð okkar og skyldur í ólíkum aðstæðum daglegs lífs. Köllum þessar greinar lífsleikni, heimspeki, siðfræði, trúarbragðafræði, kristin fræði — hvað sem er! Aðeins að þær geri okkur hæfari til að meta hvað sé rétt og hvað rangt, hvað sé ábyrgt og hvað óábyrgt í hvaða hlutverki sem við gegnum.

Af þessum sökum er fyrrnefnd samþykkt Mannréttindaráðs Reykjavíkur svo mikilvæg. Efni hennar á svo sannarlega við um skóla um allt land! Í raun ættu yfirvöld menntamála að kanna hvernig staðið er að fræðslu á þessu sviði og stuðla að áframhaldandi þróun.

Foreldrar hafa úrslitavald

Siðvit, gildismat og gildameðvitund verður samt aldrei gert að skólanámsgrein þótt vissulega geti skólinn lagt mikið af mörkum á því sviði. Að þessu verkefni verða að koma fleiri bæði stofnanir og einstaklingar.

Sú mótun sem fram fer á heimilunum vegur að sjálfsögðu þyngst í þessu efni. Hún á sér stað allt frá frumbernsku og felst ekki síst í því fordæmi sem foreldrar gefa börnum sínum. Síðar á ævi barnanna koma síðan til ýmis konar félög og samtök, þar á meðal trú- og lífsskoðunarfélög. Í lífi flestra barna á leik- og grunnskólaaldri hér á landi er aðkoma þjóðkirkjunnar beinust.

Í mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að kemur skýrt fram að foreldrar  eða forráðamenn barna eiga rétt á að menntun, fræðsla og trúarleg og siðferðileg mótun barnanna sé í samræmi við trú eða lífsskoðanir þeirra sjálfra. Það eru því ætíð þessir nánustu aðstandendur barna sem ráða ferðinni um siðræna uppeldismótun hvort sem þeir sjálfir, skólinn, þjóðkirkjan, önnur trú- eða lífsskoðunarfélög eða einhverjir enn aðrir veita börnum svo fræðslu og mótun á þessu viðkvæma sviði. Hagsmunir barnanna felast þó tvímælalaust í því að sem best samvinna sé á milli allra sem koma að fræðslu þeirra og mótun.

Hlutverk skólanna

Þrátt fyrir að foreldrar fari með þennan frumlæga uppeldisrétt skuldbinda þeir sig með ýmsu móti í þessu efni eða eru jafnvel skyldugir til að hlíta aðkomu annarra að fræðslu barnanna — jafnvel þegar um siðferði og lífsskoðun er að ræða. Hér vegur þyngst að á Íslandi er skólaskylda en ekki aðeins fræðsluskylda. Foreldrum ber því að senda börn sín í viðurkennda grunnskóla en meðal skilgreindra hlutverka þeirra er að fræða nemendur um trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.

Vissulega ber skólastjórnendum að veita börnum undanþágu frá slíkri fræðslu ef hún stríðir gegn þeim lífsskoðunum sem foreldrar vilja að börnin mótist af. Hlutverk skólanna er þó aðeins að fræða um trúarbrögð og lífsskoðanir. Trúarleg innræting og boðun lífsskoðana á aftur á móti ekki heima í opinberum skyldunámsskólum eins og fram kemur fyrrnefndri í ályktun Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Því betur og faglegar sem skólarnir rækja hlutverk sitt því minni ástæða er fyrir foreldra að óska undanþágu.

Trú og lífsskoðanir eru gildur þáttur í mannlífi og menningu. Af þeim sökum ríður þeim mun meira á að fræðslu á því sviði sé vel sinnt því meiri sem fjölhyggja og fjölmenning í samfélaginu verður. Hér verður skólinn þó að starfa fyrir opnum tjöldum, foreldrar að vera vel upplýstir um námsefni og áherslur og samstarf heimila og skóla að vera sem nánast.

Það er gott að Mannréttindaráð Reykjavíkur láti þessi mál til sín taka. Betra væri þó að það beiti sér fyrir upplýstri umræðu en reglugerðum með pólitískum stimpli. Fagfólk á vettvangi ætti síðan að móta stefnu hvers skóla í samvinnu við foreldra með hagsmuni barnanna í huga sem og sérkenni nærsamfélagsins á hverjum stað.

Skólinn og lífsskoðanirnar — I

Hjalti Hugason, 15. June 2011 18:23

 

Tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur að reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trú- og lífsskoðunarfélög hafa mjög verið til umræðu að undanförnu. Í tillögunum er m.a vikið að heimsóknum fólks á vegum trú- og lífsskoðunarfélaga í skóla borgarinnar. Um þær segir m.a.:

Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, auglýsingar, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.

Í tillögunum er almennt gengið út frá því að í skólunum fari fram upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu. Á hinn bóginn kemur fram að skólar og frístundaheimili séu ekki vettvangur trúarlegrar boðunar eða iðkunar. Á þá aðgreiningu skal fallist og virðast tillögurnar almennt og yfirleitt málefnalegar miðað við þær forsendur.

Allar reglur skapa þó álitamál um hvað skuli leyft og hvað bannað.

Hvað er kynning?

Hér vakna t.d. spurningar um hvað það merki að „... kynningar tengdar starfi“ trú- og lífsskoðunarfélaga, þar á meðal þjóðkirkjunnar, séu óheimilar.

Er hér með öllu bannað að kynna börnum og unglingum félagsstarf sem þeim stendur til boða utan skólatíma og tengist trú- og lífsskoðunarfélögum? Slík kynning þarf ekki að krefjast sérstakrar heimsóknar. Hún getur allt eins falist í einfaldri upplýsingagjöf.

Í þessu efni verður að taka tillit til þess hvort annars konar félög fái að kynna starf sitt í skólunum. Sé svo virðist ljóst að hallað sé á trú- og lífsskoðunarfélög. Þá er ástæða til að hvetja Mannréttindaráð til að endurskoða afstöðu sína og heimila sambærilega kynningu á öllu því fjölbreytta tómstundastarfi sem nemendum stendur til boða. Sjálfsagt er þó að foreldrar séu vel upp lýstir um alla slíka kynningu.

Nýja testamentið — boðandi efni eða safn lykiltexta?

Einnig vakna spurningar um hversu langt bann við dreifingu á „boðandi efni“ sem tengist trú- og lífsskoðunum nái. Vissulega er skýrt  nokkuð með upptalningu hvað átt sé við með „boðandi efni“. Þar eru m.a. nefnd „fjölfölduð trúar- og lífsskoðnarrit“. Í því sambandi má þó spyrja hvort æskilegt sé að Nýja testamentið sem um langan aldur hefur verið afhent skólabörnu sé látið falla undir þá upptalningu.

Nýja testamentið er að sjálfsögðu þungamiðjan í trúarriti kristninnar. Það er þó álitamál hvort það sé „boðandi“ í sjálfu sér án útleggingar eða skýringa. Það hefur einnig að geyma fjölmarga lykiltexta vestrænnar menningar sem mikilvægt er að þekkja til burtséð frá trúarafstöðu. Þá er ómetanlegt við fræðslu um trúarbrögð að mögulegt sé að styðjast við frumgögn á borð við Nýja testamentið. Það hefur því gildi fyrir skólastarfið sjálft að börnin fái áfram þessa gjöf. Er raunar óskandi að mögulegt verði að afhenda þeim fleiri trúarrit eins og t.d. Kóraninn.

Dreifing gagna af þessu tagi þarf alls ekki að eiga sér stað með sérstakri heimsókn heldur geta kennarar dreift þessum ritum í tengslum við kennsluna þegar það fellur best að viðfangsefninu.

Fagfólk eða pólitíkusar?

Loks er álitamál hvort Mannréttindaráð Reykjavíkur ætti að hlutast til um að pólitíkusar í borgarstjórn setji eins nákvæmar reglur og stefnt er að með framkomnum tillögum. Foreldrar eiga frumlægan rétt til að ákveða fyrir hvaða mótun börn þeirra verða þegar um lífsskoðnir er að ræða. Þá eru leik- og grunnskólar borgarinnar vel mannaðir fagfólki sem er ágætlega hæft til að vega og meta hvernig hver skóli rækir uppeldis- og fræðsluhlutverk sitt best í samráði við foreldra og sátt við nærsamfélagið. Loks geta aðstæður í einstökum skólum verið með mjög ólíkar. Því getur verið að reglur annað tveggja taki ekki á vanda sem við er að glíma á vettvangi eða skapi jafnvel vanda þar sem enginn var fyrir.

Meginspurningin er því hvort það séu foreldrar og fagfólk á vettvangi eða borgarstjórnarpólitíkusar niður við Tjörn sem eiga að ákveða hvað eigi við og hvað ekki í þessum eða hinum skólanum.

Hlutverk Mannréttindaráðs

Mannréttindaráð rækir hlutverk sitt trúlega best með að beita sér fyrir upplýstri umræðu og fræðslu um hlutverk opinberra skóla í fjölmenningarsamfélagi. Það gæti einnig sett fram meginlínur og komið með ábendingar um álitamál sem vert sé að hafa í huga þegar um skólastarf, trú og lífsskoðanir er að ræða. Þær gætu verið á líkum nótum og fram koma í tillögum ráðsins að bindandi reglum.

Það virðist altént álitamál hvort ekki komi fram fullmikil forsjárhyggja í því að stjórnmálamenn taki jafnmikið frumkvæði af fagfólki og lagt er upp með í tillögunum.

Hinn óhefti andi

Hjalti Hugason, 12. June 2011 12:36

 

Á köldu sumri er hvítasunnan — heitasta hátíð kirkjunnar — runnin upp, hátíð heilags anda og upphafsdagur kristinnar kirkju.

Þetta tvöþúsund ára ævintýri hófst með látum. Lærisveinar Krists, hoknir af  ábyrðinni sem í því fólst að „prédika gleðiboðskapinn allri skepnu“, tóku allt í einu að sýna einkennilegt háttarlag. Þeir sem á horfði töldu þá „drukkna af sætu víni“. Löngu síðar spreytti íslenskt sálmaskáld sig á að lýsa atburðinum:

Skyndilega heyrðist hvinur,

sem hvasst er veður yfir dynur,

og fyllti húsið fljótt hjá þeim...

—   — —

Liðu tákn í lofti skæru,

sem leifturtungur bjartar væru,

og stettust yfir sérhvern þar...

—   — —

Allir fylltust anda hreinum,

Guðs andi kenndi lærisveinum

að tala ókunn tungumál...

Við vitum ekki hvernig þetta gerðist en það upplifðist eins og eldur félli af himni, að losnaði um tunguhaft og eyru opnuðust. Hvernig sem þetta allt saman var kom heilagur andi á óvart, raskaði reglu og olli fólki uppnámi.

Spyrja má hvar og hvernig þessi andi sannleika, endurnýjunar, frelsis og fagnaðar sé að verki í hinni stilltu og prúðu þjóðkirkju Íslands. Er hann ekki frekar að finna í frjálsum, óheftum trúsöfnuðum þar sem hvítasunnuundrið er daglegt brauð?

Andinn er frjáls. Hann starfar þegar og þar sem hann vill. Trú þjóðkirkjunnar er að heilagur andi vinni „náðarverk sitt í sálum kristinna manna með náðarmeðulunum, sem eru: guðs orð, bænin, skírnin og kvöldmáltíðin, eins og segir í Helgakveri.

Svo má líta á þetta frá annarri hlið. Í Galatabréfinu segir að „ávöxtur andans“ sé kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Þar sem þessi fyrirbæri einkenna mannleg samskipti og framkomu er andinn að verki.

Hér er að finna mælistiku sem kristnar kirkjur geta metið sjálfar sig eftir. Þar sem þessir ávextir andans eflast og dafna þar er hann að verki. Enginn söfnuður getur hins vegar tekið sér vald til að mæla annan á þennan kvarða. Hann er tæki til að finna bjálkann í eigin auga en ekki flísina í auga einhvers annars. Loks aðeins þetta: Andinn blæs ekki aðeins í kirkjunni heldur hvarvetna þar sem samskipti bera ofangreind einkenni. Andinn er óheftur!

Stöðluð hugvísindi

Hjalti Hugason, 9. June 2011 21:09

 

Um langt skeið hefur vinnumats- eða hvatakerfi verið við lýði við Háskóla Íslands. Öll störf háskólakennara en einkum rannsóknir eru metin og umreiknuð í stig eða punkta. Stundum hefur stigatalning þótt bera eiginlegt gæðamat ofurliði. Grunnhugmyndin er þó sú að raunverulegt akademískt mat eigi að vega salt við staðlaða stigagjöf.

Ugglaust hefur hvatakerfið eflt rannsóknir við Háskólann. Með því hafa þær verið metnar til fjár til hagsbóta bæði fyrir deildir og einstaka starfsmenn. Ekki má þó yfirdrífa áhrif kerfisins. Það er aðeins eitt af mörgum tækjum sem beitt hefur verið til að breyta Háskóla Íslands úr embættismannaskóla í rannsóknarháskóla. Nú er grunnnám á háskólastigi ekki helsta hlutverk Háskólans. Vaxtarbroddurinn felst í framhalds- eða rannsóknarnámi.

Það eru þó aðrir þættir sem líklega vega þyngra en hvatakerfið. Til dæmis hafa greinileg kynslóðaskipti orðið meðal háskólakennara. Auðvitað var marga framúrskarandi vísindamenn að finna meðal þeirrar kynslóðar sem hóf störf við Háskólann um miðbik síðustu aldar. Margir þeirra höfðu hins vegar ekki hlotið sérstaka menntun eða þjálfun til rannsókna. Þeir skildu hlutverk sitt við Háskólann líka fyrst og fremst svo að þeim bæri að byggja upp trausta grunnmenntun í sinni grein. Sú kynslóð sem tók við á síðari áratugum aldarinnar var hins vegar almennt með rannsóknarnám að baki. Nú eru rannsóknir líklega fremur lífsform flestra kennara við Háskóla Íslands en að þeir líti á þær sem skyldu sína í starfi. — Skyldi þetta breytast ef hvatakerfið væri fellt brott? Hvort ræður ferðinni ástríðan eða „gulrótin“?

Þessi breyting hefur haft veruleg áhrif á félagslegt hlutverk og stöðu háskólakennara. Auðvitað er það svo að margir kennarar við Háskóla Íslands hafa fjölþætt áhrif við mótun íslensks samfélags eða taka a.m.k. virkan þátt í samfélagsumræðunni. Nú er samt litið á háskólafólk sem sérfræðinga sem vissulega beri að tjá sig um málefni er tengjast sérgrein þess en ætti að halda sig við sinn leist að öðru leyti. Fyrir einni kynslóð voru fjölmargir háskólakennarar hins vegar í lykilhlutverkum í samfélaginu sem oft voru fjarri faggrein þeirra. Sérhæfing í samfélaginu hefur aukist og háskólakennarar einangrast.

Þessi þróun og einkum hvatakerfið hafa staðlað rannsóknir við Háskóla Íslands og þær aðferðir sem viðhafðar eru til að birta þær. Þetta á ekki síst við um rannsóknir í hugvísindum. Þá má líka segja að hugvísindarannsóknir hafi verið staðlaðar eftir viðmiðum sem sótt eru til annarra fræðasviða, félagsvísinda og jafnvel raunvísinda.

Fyrir nokkrum áratugum var bókin eða mónógrafína viðtekið form til að birta rannsóknarniðurstöður í hugvísindum. Það þótti kostur ef þær voru birtar þannig að breiður lesendahópur gæti kynnt sér þær, sem og að framsetningin væri lipur og ljós, janfvel með bókmenntalegu yfirbragði. Á þennan hátt var almenn menntun efld og lagður grunnur að því að mögulegt væri að hugsa um hin aðskiljanlegustu mál á íslensku. Nú er birting af þessu tagi litin hornauga. Niðurstöður á að birta í sérhæfðum tímaritsgreinum og helst á alþjóðlegum vettvangi.

Við hugvísindafólk höfum glöð og prúð tekið þátt í þessari stöðlun. Nú skipuleggjum við til dæmis almennt málþing okkar og ráðstefnur þannig að við fjöllum um viðfangsefni okkar í 20 mín. fyrirlestrum, tökum þátt í 10 mín umræðum um þau og birtum síðan afraksturinn í 8000 til 10. 000 orða greinum.

Einu sinni var sagt um mína fræðigrein, guðfræðina, að hún fælist í því að hugsa langar hugsanir. Auðvitað segir frasi á borð við þennan ekkert. Við biðjum um skýrari skilgreiningar nú á dögum. Hins vegar felst nokkuð í honum: Það tekur oft lengri tíma en 20 mín. og fleiri orð en 10. 000 að koma á framfæri nýjum túlkunum í hugvísindum. — Stefnum við hraðbyri inn í hættulega stöðlun sem heftir frekar en eflir nýsköpun í fræðigreinum okkar?

Bleikt eða blátt trúfrelsi?

Hjalti Hugason, 1. June 2011 09:58

 

Góðu heilli eru ýmis mál sem lúta að trúfrelsi og raunar öðrum þáttum trúarréttar í fjölhyggjusamfélagi tekin að skjóta upp kollinum jafnvel hér norður á hjaranum í einsleitninni og fásinninu.  Margt bendir jafnvel til að nýr skilningur á trúfrelsi sé að ryðja sér til rúms. Full ástæða er til að gefa þeirri þróun gaum.

Tvær meginleiðir eru viðhafðar til að útfæra trúfrelsi. Löng hefð er fyrir því að kalla aðra jákvæða en hina neikvæða. Vonlaust er hins vegar að að nota orðin jákvætt og neikvætt í hlutlausri merkingu. Þau eru hlaðin gildismati sem minnir á illt og gott. Hér skal því rætt um bleikt og blátt trúfrelsi í staðinn.

Bleikt

Bleikt trúfrelsi felst í því að staðinn er vörður um rétt fólks til að játa hvað trú sem er, iðka hana í einrúmi eða með öðrum, boða hana, bera tákn og klæðnað sem henni kann að heyra til, viðhafa matarvenjur sem henni fylgja og tjá hana að öðru leyti eins og samviskan býður hverjum og einum.

Helstu útmörk trúfrelsis af þessu tagi eru að ekki má í nafni trúar brjóta gegn almennum boðum og bönnum samfélagsins. Bleikt trúfrelsi takmarkast af þeim sökum af því að ekki má sniðganga almenn hegningarlög, hjúskaparlög, dýraverndarlög eða önnur lög sem til álita geta komið í nafni trúar. Það má heldur ekki nota til að skaða aðra frekar en nokkurt annað frelsi.

Almennt má þó segja að bleikt trúfrelsi byggist á því að sem flest sé leyfilegt og skorður við trúartjáninu séu sem fæstar.

Blátt

Í bláu trúfrelsi felst að réttur einstaklingins til að vera laus undan trúarlegum skuldbindingum eða jafnvel áreiti er varinn til hins ítrasta. Segja má að það feli í sér frelsi frá trú.

Í friðhelgu rými einkalífisns ræður hver og einn sjálfur hvaða áreitum hann hleypir að sér. Skyldur samfélagsins eða ríksivaldsins taka við í opinbera rýminu eða á almannafæri. Þar ríður á að takmarka notkun trúartákna og  og leitast við að það sé sem allra „hreinast“ af því sem dregur athyglina að trú. Markmiðið er opinbera rýmið sé algerlega veraldlegt.

Því er leitast við að setja stöðugt skýrari reglur um hvað sé leyfilegt og hvað bannað. Múslimskar konur mega ekki bera blæjur, kristnar mega ekki bera kross sem fer yfir ákveðna stærð og hættir þar með að vera hlutlaus skartgripur.

Bleikt eða blátt?

Bleikt og blátt eru ekki gildishlaðnir litir. Bleikt táknar þó oft hið kvenlæga en blátt hið karllæga. Oft er sagt að karlar vilji beinar línur en konur eigi auðveldara með óreiðu. Það eru þó ekki fyrst og fremst karl- og kvenlæg sjónarmið sem ráða úrslitum um hvort fólk aðhyllist bleik eða blátt trúfrelsi. Þar ráða sögulegar og samfélagslegalegar ástæður mestu.

Í árdaga lýðveldis var kirkjan almennt samtvinnuð ríkisvaldinu. Þar sem lýðræði komst á með byltingu er því eðlilegt að trúfrelsishefðin hafi mótast af bláa litnum. Bleikt trúfrelsi komst fremur á við hæga lýðræðisþróun án byltingar.

Þetta er í hnotskurn munurinn á lýðræðisþróun í Frakklandi þar sem blátt trúfrelsi ríkir og á Íslandi þar sem trúfrelsi er bleikt. Franska byltingin beindist ekki aðeins gegn Lúðvík XVI. og ríkisvaldi hans heldur líka gallíkönsku kirkjunni í Frakklandi. Því er fullkomlega eðlilegt að blátt trúfrelsi hafi þróast þar í landi frá byltingunni í lok 18. aldar og allt til þessa. Friðrik VII. Danakonungur afsalaði sér aftur á móti einveldi og ríkinu var sett þingræðisleg stjón. Ísland fylgdi í kjölfarið með stjórnarskránni 1874. Því varð aldrei nein dönsk eða íslensk bylting. Sögulegar forsendur skorti því fyrir bláu trúfrelsi hér.

Úr bleiku í blátt?

Á síðustu misserum hefur hópur fólks í Reykjavík verið upptekinn af því að okkur beri að yfirgefa hina bleiku trúfrelsishefð og taka upp hina bláu. Þetta yrði m.a. gert með því að byggja eldveggi milli hins andlega og trúarlega sviðs að hætti Frakka og útrýma trúartáknum af almannafæri. Á þennan hátt værum við vissulega að fjarlægjast  sögu okkar og bakgrunn og semja okkur að siðum t.d. Fransmanna.

Einu rökin fyrir hefðarrofi af þessu tagi væri að bláa leiðin hefði greinilega kosti umfram þá bleiku andspænis vaxandi fjölhyggju og fjölmenningu í samfélaginu. Þetta er alls ekki augljóst. Þjóðlegir og menningarlegir minnihlutahópar í vestrænum samfélögum hafa oft sterka trúarlega sjálfsmynd. Aðlögun þeirra að meirihlutanum verður ekki endilega greiðust með því að skerða möguleika þeirra til að iðka trú sína opið eins og blátt trúfrelsi býður. Bleikt trúfrelsi með sveigjanleg mörk getur allt eins vel tryggt aðlögun og einingu. Mikilvægur þáttur í jákvæðri aðlögun felst ekki síst í því að hver og einn fær að leggja rækt við eigin sjálfsmynd. — Breyting úr bleiku í blátt virðist raunar ekki þjóna beinum hagsmunum annarra en þeirra sem vilja auka veraldarhyggju í samfélaginu.

Ljósu litirnir blíva

Hvort sem trúfrelsi er bleikt eða blátt skiptir þó mestu að liturinn sé ljós, að fólk bíti sig ekki í afdráttarlausa stefnu eða pólitískan rétttrúnað heldur reyni að stuðla að slökun spennu og friðsamlegri sambúð trúarlegra minni- og meirihluta sem og hinna sem hafna allri trú.

Einkum þarf að fara varlega á þeim svæðum almannarýmisins þar sem fólk er skyldugt að dvelja eða dvelur hugsanlega á gegn vilja sínum. Þar ber m.a. að nefna skyldunámsskólann. Þar ætti fagfólk og foreldrar á hverjum stað að fá sem bestan stuðning við að þróa viðmið og leiðir sem henta öllum í trúarefnum eins og á öllum öðrum sviðum mannlífsins. Þar hæfir hvorki dökk blátt trúfrelsi né dökkbleikt — eða er það þá e.t.v. orðið rautt?

Loks er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að í fjölhyggjusamfélagi verður bleika og bláa trúfrelsið að vega salt. Markmiðið á því ekki að vera bleikt eða blátt trúfrelsi heldur þvert á móti bleikt og blátt!

.