Trúmálaréttur fyrir 21. öldina?

Hjalti Hugason, 21. July 2011 18:44

 

Nú er frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem óðast að taka á sig endanlega mynd. Þar með kemur röðin að okkur hinum að taka afstöðu til þess. Hér verður staldrað við þær greinar frumvarpsdraganna sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi trúmálabálk stjórnarskrárinnar, þ.e. sjötta kaflann, en í honum er að finna ákvæði um trúfrelsi og kirkjuskipan.

Ný bygging

Eins og við var að búast er lagt til að efni trúmálabálksins verði sameinað mannréttindaákvæðunum og fylgi þeim inn í annan kafla væntanlegrar stjórnarskrár. Þá er grein um kirkjuskipan færð aftur fyrir trúfrelsisákvæðin. Um trúfrelsi og kirkjuskipan er þannig fjallað í 15. og 16. gr. frumvarpsdraganna í beinu framhaldi af frelsi menningar og mennta en næst á undan félagafrelsi.

Þessi breytta bygging er til bóta en engin efnisleg rök eru fyrir því að fjalla um trúfrelsi án beinna tengsla við aðra þætti mannréttinda. Þá er ekki mögulegt að setja fram kirkjuskipan í nútímasamfélagi nema í framhaldi af trúfrelsisákvæðum. Á 19. öld voru aftur á móti forsendur fyrir því að líta á trúfrelsi sem afleiðingu af þjóðkirkjuskipan líkt og gert er í núgildandi stjórnarskrá. Þessi nýja skipan efnisins er því í takt við tímann.

Hér skal þó bent á að betur færi á að kveða á um trúfrelsið í beinu framhaldi af skoðunar- og tjáningarfrelsi (11. gr.). Trúfrelsi er aðeins frelsi til skoðunar og tjáningar á ákveðnu sviði sem rétt þykir að taka út fyrir sviga.

Ný áhersla á einstaklinga

Í núgildandi trúmálabálki er fyrst kveðið á um stöðu og rétt trúarlegra stofnana (kirkjuskipan í 62. gr.) og félaga (63. gr.) en loks kveðið á um frelsi einstaklinga (64. gr.). Í frumvarpsdrögunum er þessu snúið við þar sem gengið er út frá einstaklingnum líkt og gert er í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum frá 20. öld. Þetta er eðlileg áherslubreyting og í takt við aukna einstaklingshyggju frá því sem var á 19. öld er við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá.

Í núgildandi stjórnarskrá er vissulega lögð áhersla á frelsi einstaklinga í trúarefnum þar sem kveðið er á um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ né megi krefja neinn um að „inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að“. Fyrrgreinda ákvæðið er óþarft eftir að jafnræðisregla núgildandi stjórnarskrár (65. gr.) var tekin upp 1995 en hliðstæðu hennar er að finna í 5. gr. frumvarpsdraganna. Vissulega má einnig líta svo á að síðarnefnda ákvæðið sé óþarft eftir þær breytingar sem orðið hafa á greiðslum til trúfélaga (þ.e. sóknargjaldi og hliðstæðu þess) frá 1874. Þó geta komið upp aðstæður þar sem reynir á ákvæðið eins og nýlegur dómur frá Mannréttindadómstól Evrópu sýnir.

Óbreytt trúfrelsishefð

 Af trúfrelsisgreininni er annars ljóst að lagt er til að áfram verði gengið út frá þeirri trúfrelsishefð sem hér hefur verið við lýði allt frá setningu stjórnarskrárinnar 1874 sem vissuelga hefur þróast lítið eitt í tímans rás. Hún felst í frelsi til að aðhyllast hvaða trú eða lífsskoðun sem er, að skipta um trú og að iðka hana án teljandi takmarkana einslega eða opinberlega — nú eða hafna allri trúariðkun.

Þetta hefur löngum verið kallað „jákvætt“ trúfrelsi sem er ekki að öllu leyti heppilegt (sbr. pistil minn hér á Pressunni um bleikt eða blátt trúfrelsi). Til er önnur trúfrelsishefð sem byggir á því að áskilja einstaklingum sem víðtækast frelsi frá trúarlegum áreitum a.m.k. í almannarými. Sögulegar aðstæður ráða að mestu hvor leiðin er farin í hverju landi og þá einkum með hvaða hætti lýðræðisþróun og nútímavæðing varð á hverjum stað og hvernig kirkjan beitti sér í því efni. Í Frakklandi var kirkjan t.a.m. varðhundur einveldisins og varð því byltingunni að bráð ekki síður en konungsvaldið. Hér á landi var kirkjan aftur á móti virk í nútímavæðingunni. Hún þróaðist því í átt til aukins frjálsræðis í takt við samfélagið að öðru leyti. Engar brýnar ástæður virðast nú til að söðla um í þessu efni.

 Ljóst er að trúfrelsi af því tagi sem hér tíðakst verður að setja skorður. Í núgildandi stjórnarskrá er það gert með tvennum hætti. Annars vegar eru settar skorður við að trúfélög kenni eða stuðli að því að eitthvað sé framið sem er gagnstætt „góðu siðferði eða allsherjarreglu“. Hins vegar er undirstrikað að einstaklingur geti ekki skorast undan „almennri þegnkyldu“. Í frumvarpsdrögunum er mælt með að trúfrelsi séu aðeins settar þær skorður „sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi“. Þetta er að sönnu teygjanlegt orðalag en þó vart loðnara en nú er. Þá verða aldrei tekin af tvímæli í þessu efni í eitt skifti fyrir öll heldur verður að ætla löggjafa og dómstólum að skera úr um það hvar mörkin liggja milli hins leyfilega og óleyfilega í þessu efni hverju sinni.

Kubbslegt orðalag

Hér skal bent á að orðalag trúfrelsisgreinarinnar er kubbslegt og klossað miðað við greinina um skoðana- og tjáningarfrelsi (11. gr.). Þar segir svo fallega: “Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar“. Í trúfrelsisgreininni segir hins vegar: „Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.“. Væri ekki betra að segja: „Öll erum við frjáls trúar okkar og lífsskoðana og eigum rétt á að að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga“? — Vegna þess sem á eftir kemur þarf svo væntanlega að taka fram að sama máli gegni um lífsskoðunarfélög.

Jöfnuður en ekki aðskilnaður

Ekki er mælt fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og/eða trúfélaga í frumvarpsdrögunum heldur stefnt að meiri jöfnuði trúfélaga sem og þeirra og lífsskoðunarfélaga, þ.e. félaga sem aðhyllast veraldlegar lífsskoðanir, t.d. húmanisma, og bjóða upp á borgaralegar athafnir á merkisdögum mannsævinnar frá vöggu til grafar.

Þessi meginstefna kemur fram með tvennum hætti. Annars vegar er kveðið á um að stjórnavöld skuli vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Líkt og nú er  raun á ætlar Stjórnlagaráð löggjafanum að ákveða í hverju þessi vernd sé fólgin. Hins vegar er í frumvarpsdrögunum ákvæði um að setja megi landinu opinbera kirkjuskipan þó hún eigi í framtíðinni að koma í lögum en ekki stjórnarskrá.

Kirkjuskipanin

Ákvæði frumvarpsdraganna um kirkjuskipanina (16. gr.) ber annars öll merki hrossakaupa. Í því felst vissulega að kirkjuskipanin er felld brott úr stjórnarskránni. Það má túlka sem sigur þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Þeir sem eru á öndverðum meiði geta hins vegar hrósað sigri í því að kveða má á um kirkjuskipan ríkisins í lögum sem öðlast sömu festu og kirkjuskipan stjórnarskrárinnar nú.  Ætli þessi lagagrein verði sú eina sem stjórnarskráin ver með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu? Ekki er að sjá að þessi breyting hafi neina praktíska þýðingu verði heimildarákvæðið nýtt. Það er eftirlátið löggjafanum að ákveða og mun hann væntanlega hafa náið samráð við þjóðkirkjuna um málefnið þar sem hún hefur ríkastra hagsmuna að gæta.

Ekki er ljóst hvernig Stjórnalagaráðsmenn hugsa sér að koma kirkjuskipan ríkisins fyrir í lögum. Við okkar aðstæður virðist raunar aðeins ein leið fær til þess. Hún felst í því að 1. mgr. 1. gr. þjóðkirkjulaganna frá 1997 verði breytt. Nú hljóðar málsgreinin þannig: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“  Breyta má henni í kirkjuskipan með því að segja í staðinn: „Evangelísk-lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Hún er sjálfstætt trúfélag“. Ákvæði frumvarpsdraganna krefst þá þjóðaratkvæðagreiðslu komi til breytingar á fyrri lið tillögunnar (kirkjuskipaninni) en ekki þeim síðari (um sjálfstæði kirkjunnar) þar sem þegar er kveðið á um það í lögum.

Þjóðkirkjan þarf að hysja upp um sig buxurnar

Tillögur Stjórnalagaráðs um trúfrelsi og kirkjuskipan boða ekki róttækar breytingar. Byggt er í meginatriðum á þeirri hefð sem hér hefur ríkt frá 1874 enda blasa ekki við augljósar ástæður til að bylta henni. Ákvæðin eru þó einfölduð og þau færð til nútímahorfs. Meginbreytingin felst í því að jöfnuður milli trúfélaga sem og trú- og lífsskoðunarfélaga er stórum aukin. Það er til mikilla bóta og veldur því að svo hefðbundinn trúmálaréttur sem þó kemur fram í frumvarpsdrögunum getur mætt vaxandi fjölhyggju á 21. öld.

Þó er ljóst að tillagan skapar ákveðið óvissuástand fyrir þjóðkirkjuna. Einkum á þetta við ef löggjafinn ákveður að nýta ekki heimild til að setja ríkinu kirkjuskipan í lögum strax við gildistöku nýrrar stjórnarskrár nái frumvarp Stjórnlagaráðs fram að ganga.

Þjóðkirkjan hefur verið ótrúlega þögul um framtíðarstöðu sína í þessu efni —næstum svo að líkja má við strút í sandi. Nú þarf hún að hysja upp um sig buxurnar og ræða við þjóðina, Alþingi og ríkisstjórn um hvort hún vilji að kveðið á sé á um kirkjuskipan ríkisins í lögum og þá hvernig og hvers vegna. Í því efni dugar ekki hefð og saga. Lög verða að horfa til framtíðar. Þjóðkirkjan hlýtur að taka frumkvæði í umræðunni um kirkjuskipan framtíðarinnar, tilgang hennar og inntak.

Ómarkviss umræða um aðskilnað ríkis og kirkju

Hjalti Hugason, 14. July 2011 16:24

 

Spunameistarar í þjóðkirkjunni láta iðulega að því liggja að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað. Hingað til hefur það einkum verið gert til að slá á umræður um aðskilnað. Nú síðast hefur Örn Bárður Jónsson þó staðhæft þetta líklega til að mýkja viðbrögð við þeirri tillögu stjórnlagaráðs að fella brott ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá.  Markmið spunameistara er þó ætíð hið sama: að drepa umræðu á dreif í stað þess að stuðla að markvissri, upplýstri og upplýsandi umræðu.

Það er misskilningur að málflutningur á borð við þennan gagnist kirkju og kristni í landinu. Vilji menn verða að liði í því sambandi ættu þeir frekar að fara að dæmi Þóhallar Bjarnarsonar prestaskólakennara og síðar biskups. Um aldamótin 1900 tók hann frumkvæði í málefnalegri umræðu um aðskilnað og gekk þar feti framar en þjóðkirkjan á hans tíð. Opinber stefna hennar var aukið sjálfstæði í áframhaldandi sambandi við ríkisvaldið. Hann ræddi aðskilnað sem raunhæfan möguleika og  vildi taka þátt í að móta með hvaða hætti hann yrði.

Villandi málflutningur

Það er rangt að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað. Hið rétta er að allt frá setningu stjórnarskrár 1874 hefur aðgreining kirkju og ríkis staðið yfir og frá 1998 má segja að þessar tvær stofnanir séu að fullu aðgreindar stofnunarlega séð. Þjóðkirkjan er nú skilgreind sem sjálfstætt trúfélag og persóna að lögum með sjálfstæða eignhelgi.

Þá hefur fjárhagsleg aðgreining ríkis og kirkju einnig átt sér stað miðað við það sem var ungann úr 20. öldinni. Sú aðgreining varð með samningi um afsal fornra kirkjueigna í hendur ríkisvaldsins gegn því að það standi skil á launagreiðslum tiltekins fjölda kirkjulegra starfsmanna að teknu tilliti til fjölda þeirra sem í þjóðkirkjunni eru.

Þetta þýðir ekki að aðskilnaður hafi orðið. Til þess að svo verði þarf ekki aðeins að fella niður 62. gr. stjórnarskrárinnar heldur og að nema úr gildi sérstök lög um þjóðkirkjuna og fella hugtakið þjóðkirkja almennt úr lögum. — Þar með er að vísu ekki sagt að evangelísk-lútherska kirkjan hætti að að vera þjóðkirkja í einhverri merkingu. Úr því sker þjóðin ein með því að snúa baki við kirkju sinni, segja sig úr henni og láta af því að þiggja þjónustu hennar í gleði og þraut. Kirkja er ekki fyrst og fremst þjóðkirkja af því hún er skilgreind svo í lögum heldur vegna samfylgdar sinnar við einhverja þjóð eða mikinn meirihluta hennar.

Er aðskilnaður nauðsynlegur?

Hvaða nauðsyn ber til þess að nema úr gildi ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og e.t.v. ganga enn lengra í aðskilnaðarátt?

Ein rök sem oft eru tilfærð eru að trú eigi að vera einkamál fólks. Á það skal að sjálfsögu fallist enda hefur verið svo um langt skeið hér á landi. Trúmál hafa e.t.v. ekki verið einkamál frá því trúfrelsi var komið á með stjórnarskránni 1874 en urðu það í vaxandi mæli frá 9. áratug 19. aldar er tekið var að setja lög um utanþjóðkirkjufólk og síðar skráð trúfélög. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Íslendingar undirgengust á 20. öld stuðluðu að hinu sama. Loks batt jafnræðisregla stjórnarskrárinnar frá 1995 (65. gr.) endahnút á þá þróun. Engin ástæða er til að skipta hér um trúfrelsishefð til að gera trúmál að persónulegu einkamáli hvers og eins. Í því sambandi skal vísað til pistils míns um bleikt og blátt trúfrelsi sem birtist fyrir skömmu hér á Pressunni.

Önnur rök fyrir aðskilnaði eru að þannig sé mögulegt að auka jafnræði fólks og félaga á sviði trúmála. Það er mikið þjóðþrifamál á tímum vaxandi fjölhyggju og að því ber að keppa. Það er þó misskilningur að aðskilnaður ríkis og kirkju sé eina leiðin til að ná jöfnuði. Sérfræðingar eru almennt sammála um að þjóðkirkjufyrirkomulag á borð við það sem hér tíðkast brjóti ekki í bága við trúfrelsi og að í því felist ekki skylda til að mismuna trúfélögum. Það er vel mögulegt innan núverandi ramma að veita öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum sambærilega lagalega stöðu og þjóðkirkjan hefur þótt hún væri látin halda táknrænni sérstöðu vegna sögu sinnar, stærðar og sérstæðs hlutverks meðal þjóðarinnar allt til þessa.

Loks er því oft haldið fram að lýðræðislegt ríkisvald í fjölhyggjusamfélagi eigi ekki að hafa nein afskipti af trúfélögum. Það er einfaldlega álitamál sem mögulegt er að hafa mismunandi skoðanir á. Engin ástæða er til að hrapa að breytingum í þá veru hér meðan allur þorri fólks kýs að tilheyra þjóðkirkjunni og að notfæra sér þjónustu hennar t.d. við áfanga á lífsleiðinni frá vöggu til grafar. Sé þess gætt að trú sé einkamál hvers og eins og auk þess keppt að því að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé sem jöfnust mælir ekkert gegn því að í landinu sé fylgt markaðri stefnu í trúarrétti er rúmi ákvæði um þjóðkirkju a.m.k. enn um sinn.

Hér hefur afstaða verið tekin gegn ýmsum illa grunduðum staðhæfingum sem jafnan skýtur upp í umræðum um aðskilnað ríkis og kirkju. Það skal þó á engan hátt fullyrt að það skipti sköpum hvort kveðið sé á um þjóðkirkju í stjórnarskrá okkar eða ekki. Undirritaður hallast samt frekar að því að það skuli gert í einhverri mynd þar til markvissari umræða hefur átt sér stað en hingað til hefur tíðkast. Kirkjuskipanina þarf þó að umorða og dempa, t.d. með að kveða á um hana á eftir trúfrelsisákvæðum en ekki á undan þeim eins og nú er gert í stjórnarskránni.  Þá verða einnig að koma inn ákvæði um stöðu allra trú- og lífsskoðunarfélaga áður en vikið er að þjóðkirkjunni sérstaklega. 

Í komandi pistli verður fjallað um það að hverju þurfi helst að huga verði ákvæði um þjóðkirkjuna fellt brott úr stjórnarksrá okkar.

Gengur fólk óbundið til vígslubiskupskosninga?

Hjalti Hugason, 6. July 2011 09:47

 

Íslenskir kjósendur kannast vel við frasann „að ganga óbundinn til kosninga“. Þetta er algengasta yfirlýsing stjórnmálamanna við hverjar alþingiskosningar. Íslenskir stjórnmálaflokkar ganga alltaf  „óbundnir til kosninga“. Af þeim sökum ráða hrossakaup en ekki niðurstaða kosninga oftast úrslitun um hvaða ríkisstjórn tekur við völdum hverju sinni. Flokkar sem hafnað er í kosningum hreiðra iðulega um sig í ríkisstjórn.

Eru hendur kjörmanna óbundnar?

Vegna vígslubiskupskjörs sem nú stendur yfir í þjóðkirkjunni virðist ekki óeðlilegt að snúið sé lítillega upp á frasann og spurt: Ganga kjömenn óbundnir til þeirra kosninga? Svar mitt er: Nei!

Í vígslubiskupskjöri taka engir þátt á grundvelli persónulegs kosningaréttar eins og í almennum kosningum í samfélaginu. Í vígslubiskupskjöri hefur aðeins lítill hópur fólks, leiks og lærðs, kosningarétt og aðeins vegna launaðra eða ólaunaðra trúnaðarstarfa sem viðkomandi gegnir í þjóðkirkjunni. Það bindur hendur þeirra sem kosningarétt hafa og veldur því að þeir hljóta að vega og meta persónuleg sjónarmið sín í ljósi stöðu sinnar í kirkjunni og þeirra skyldna sem þeir hafa undirgengist í því sambandi.

Sem kunnugt er er íslenska þjóðkirkjan opin þjóðkirkja sem ekki krefst sérstakrar trúarlegrar játningar af óbreyttum félagsmönnum sínum eða þeim sem leita þjónustu hennar. Öðru máli gegnir um þau sem taka að sér launað starf á vegum kirkjunnar sem beinlínis lýtur að boðun hennar, sálgæslu, fræðslu eða öðru kirkjulegu starfi í þröngum skilningi. Málefnaleg rök eru fyrir að krefjast að þau starfi á grundvelli evangelísk-lútherskrar játningar. Sama máli gegnir um öll þau sem taka að sér trúnaðarstörf sem fela í sér formlega ákvarðanatöku í kirkjunni. Hér er átt við sóknarnefndarfólk, fulltrúa á kirkjuþingi eða fólk í hliðstæðum hlutverkum en úr þeirra röðum koma kjörmenn í vígslubiskupskjöri.

Fleira er skuldbindandi en játningarnar

Það er ekki aðeins játningargrunnur þjóðkirkjunnar sem bindur hendur þeirra sem taka að sér trúnaðarstörf á hennar vegum. Þar koma einnig til lög um þjóðkirkjuna eða jafnvel almenn lög, t.d. stjórnsýslulög, starfsreglur sem kirkjuþing setur, sem og formlega samþykkt stefna þjóðkirkjunnar í ýmsum efnum m.a. á sviði jafnréttis.

Eðlilegt hlýtur að vera að kjörmenn í vígslubiskupskjöri hugleiði hvernig persónulegt mat þeirra standist skoðun í ljósi samþykkta af þessu tagi. Það er því alls ekki hægt að segja að þeir gangi óbundnir til kosninga á sama hátt og ef um alþingis- eða sveitastjórnakosningar væri að ræða.

Í jafnréttisstefnu kirkjunnar er m.a. að finna eftirfarandi markmið:

 Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis

sem tryggt er í lögum.

Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á

jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.

Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Þessi markmið hljóta að koma til álita við komandi vígslubiskupskjör þar sem tveir karlar gegna nú biskupsembætti í þjóðkirkjunni.
Eru biskupkosningar lýðræðislegar?

Stundum er því haldið fram að lýðræði og jafnrétti séu grunngildi sem ekki eigi að stilla upp sem andstæðum eða taka annað fram yfir hitt. Í ljósi þess mætti spyrja hvort mögulegt sé að ætlast til þess að tekið sé tillit til jafnréttissjónarmiða í kosningum þar sem þær eru aðferð til lýðræðislegrar ákvarðanatöku hvort sem um er að ræða beint lýðræði eða fulltrúalýðræði.

Hér skal ekki tekin almenn afstaða í þessu efni. Aðeins skal bent á að vígslubiskupskosningar eru ekki fyrst og fremst lýðræðislegar heldur eru þær miklu fremur „kanónískar“, þ.e. byggðar á kirkjulegri hefð fremur en lýðræðislegri.

 

Biskupar eru kallaðir til þjónustu við þjóðkirkjuna í heild eða a.m.k. ákveðinn hluta hennar þegar vígslubiskupar eiga í hlut. Þeir verða því hirðar allra þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni. Þeir eru hins vegar aðeins kjörnir af örlitlum hluta þessa hóps, tæplega 150 manns þegar vígslubiskup í Skálholti er kosinn.

Eins og fram er komið öðlast enginn kosningarétt í vígslubiskupskjöri vegna aðildar sinnar að kirkjunni heldur vegna sérstaks umboðs sem kjörmenn hafa aflað sér sem því að taka að sér skuldbindandi trúnaðarstörf í kirkjunni eins og á hefur verið bent.

Þá eru biskupar kosnir til tíma sem aðeins takmarkast af eftirlaunaaldri þeirra — nema einstaklingur sem kjörinn er ákveði sjálfur að láta af embætti fyrir þann tíma, t.d. eftir ákveðinn árafjölda í starfi. Þetta síðast talda atriði dregur mjög úr því lýðræði sem þó felst í vígslubiskupskjöri. Í lýðræðislegum kosningum eru menn almennt aðeins valdir til takmarkaðs kjörtímabils og verða síðan að afla sér endurnýjaðs umboðs. Það er einn helsti burðarás lýðræðis.

Aðeins andlitslyfting?

Þau atriði sem hér hafa verið nefnd veikja lýðræðislega hlið vígslubiskupskosninga mjög. Jafnframt gera þau það þeim mun mikilvægara að tekið sé tillit til annarra þátta en óhefts frelsis kjörmanna. Þar vegur jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar þyngst sé hún á annað borð hugsuð öðru vísi en sem einföld andlitslyfting.