Gengur fólk óbundið til vígslubiskupskosninga?

Hjalti Hugason, 6. July 2011 09:47

 

Íslenskir kjósendur kannast vel við frasann „að ganga óbundinn til kosninga“. Þetta er algengasta yfirlýsing stjórnmálamanna við hverjar alþingiskosningar. Íslenskir stjórnmálaflokkar ganga alltaf  „óbundnir til kosninga“. Af þeim sökum ráða hrossakaup en ekki niðurstaða kosninga oftast úrslitun um hvaða ríkisstjórn tekur við völdum hverju sinni. Flokkar sem hafnað er í kosningum hreiðra iðulega um sig í ríkisstjórn.

Eru hendur kjörmanna óbundnar?

Vegna vígslubiskupskjörs sem nú stendur yfir í þjóðkirkjunni virðist ekki óeðlilegt að snúið sé lítillega upp á frasann og spurt: Ganga kjömenn óbundnir til þeirra kosninga? Svar mitt er: Nei!

Í vígslubiskupskjöri taka engir þátt á grundvelli persónulegs kosningaréttar eins og í almennum kosningum í samfélaginu. Í vígslubiskupskjöri hefur aðeins lítill hópur fólks, leiks og lærðs, kosningarétt og aðeins vegna launaðra eða ólaunaðra trúnaðarstarfa sem viðkomandi gegnir í þjóðkirkjunni. Það bindur hendur þeirra sem kosningarétt hafa og veldur því að þeir hljóta að vega og meta persónuleg sjónarmið sín í ljósi stöðu sinnar í kirkjunni og þeirra skyldna sem þeir hafa undirgengist í því sambandi.

Sem kunnugt er er íslenska þjóðkirkjan opin þjóðkirkja sem ekki krefst sérstakrar trúarlegrar játningar af óbreyttum félagsmönnum sínum eða þeim sem leita þjónustu hennar. Öðru máli gegnir um þau sem taka að sér launað starf á vegum kirkjunnar sem beinlínis lýtur að boðun hennar, sálgæslu, fræðslu eða öðru kirkjulegu starfi í þröngum skilningi. Málefnaleg rök eru fyrir að krefjast að þau starfi á grundvelli evangelísk-lútherskrar játningar. Sama máli gegnir um öll þau sem taka að sér trúnaðarstörf sem fela í sér formlega ákvarðanatöku í kirkjunni. Hér er átt við sóknarnefndarfólk, fulltrúa á kirkjuþingi eða fólk í hliðstæðum hlutverkum en úr þeirra röðum koma kjörmenn í vígslubiskupskjöri.

Fleira er skuldbindandi en játningarnar

Það er ekki aðeins játningargrunnur þjóðkirkjunnar sem bindur hendur þeirra sem taka að sér trúnaðarstörf á hennar vegum. Þar koma einnig til lög um þjóðkirkjuna eða jafnvel almenn lög, t.d. stjórnsýslulög, starfsreglur sem kirkjuþing setur, sem og formlega samþykkt stefna þjóðkirkjunnar í ýmsum efnum m.a. á sviði jafnréttis.

Eðlilegt hlýtur að vera að kjörmenn í vígslubiskupskjöri hugleiði hvernig persónulegt mat þeirra standist skoðun í ljósi samþykkta af þessu tagi. Það er því alls ekki hægt að segja að þeir gangi óbundnir til kosninga á sama hátt og ef um alþingis- eða sveitastjórnakosningar væri að ræða.

Í jafnréttisstefnu kirkjunnar er m.a. að finna eftirfarandi markmið:

 Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis

sem tryggt er í lögum.

Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á

jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.

Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Þessi markmið hljóta að koma til álita við komandi vígslubiskupskjör þar sem tveir karlar gegna nú biskupsembætti í þjóðkirkjunni.
Eru biskupkosningar lýðræðislegar?

Stundum er því haldið fram að lýðræði og jafnrétti séu grunngildi sem ekki eigi að stilla upp sem andstæðum eða taka annað fram yfir hitt. Í ljósi þess mætti spyrja hvort mögulegt sé að ætlast til þess að tekið sé tillit til jafnréttissjónarmiða í kosningum þar sem þær eru aðferð til lýðræðislegrar ákvarðanatöku hvort sem um er að ræða beint lýðræði eða fulltrúalýðræði.

Hér skal ekki tekin almenn afstaða í þessu efni. Aðeins skal bent á að vígslubiskupskosningar eru ekki fyrst og fremst lýðræðislegar heldur eru þær miklu fremur „kanónískar“, þ.e. byggðar á kirkjulegri hefð fremur en lýðræðislegri.

 

Biskupar eru kallaðir til þjónustu við þjóðkirkjuna í heild eða a.m.k. ákveðinn hluta hennar þegar vígslubiskupar eiga í hlut. Þeir verða því hirðar allra þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni. Þeir eru hins vegar aðeins kjörnir af örlitlum hluta þessa hóps, tæplega 150 manns þegar vígslubiskup í Skálholti er kosinn.

Eins og fram er komið öðlast enginn kosningarétt í vígslubiskupskjöri vegna aðildar sinnar að kirkjunni heldur vegna sérstaks umboðs sem kjörmenn hafa aflað sér sem því að taka að sér skuldbindandi trúnaðarstörf í kirkjunni eins og á hefur verið bent.

Þá eru biskupar kosnir til tíma sem aðeins takmarkast af eftirlaunaaldri þeirra — nema einstaklingur sem kjörinn er ákveði sjálfur að láta af embætti fyrir þann tíma, t.d. eftir ákveðinn árafjölda í starfi. Þetta síðast talda atriði dregur mjög úr því lýðræði sem þó felst í vígslubiskupskjöri. Í lýðræðislegum kosningum eru menn almennt aðeins valdir til takmarkaðs kjörtímabils og verða síðan að afla sér endurnýjaðs umboðs. Það er einn helsti burðarás lýðræðis.

Aðeins andlitslyfting?

Þau atriði sem hér hafa verið nefnd veikja lýðræðislega hlið vígslubiskupskosninga mjög. Jafnframt gera þau það þeim mun mikilvægara að tekið sé tillit til annarra þátta en óhefts frelsis kjörmanna. Þar vegur jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar þyngst sé hún á annað borð hugsuð öðru vísi en sem einföld andlitslyfting.