Ómarkviss umræða um aðskilnað ríkis og kirkju

Hjalti Hugason, 14. July 2011 16:24

 

Spunameistarar í þjóðkirkjunni láta iðulega að því liggja að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað. Hingað til hefur það einkum verið gert til að slá á umræður um aðskilnað. Nú síðast hefur Örn Bárður Jónsson þó staðhæft þetta líklega til að mýkja viðbrögð við þeirri tillögu stjórnlagaráðs að fella brott ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá.  Markmið spunameistara er þó ætíð hið sama: að drepa umræðu á dreif í stað þess að stuðla að markvissri, upplýstri og upplýsandi umræðu.

Það er misskilningur að málflutningur á borð við þennan gagnist kirkju og kristni í landinu. Vilji menn verða að liði í því sambandi ættu þeir frekar að fara að dæmi Þóhallar Bjarnarsonar prestaskólakennara og síðar biskups. Um aldamótin 1900 tók hann frumkvæði í málefnalegri umræðu um aðskilnað og gekk þar feti framar en þjóðkirkjan á hans tíð. Opinber stefna hennar var aukið sjálfstæði í áframhaldandi sambandi við ríkisvaldið. Hann ræddi aðskilnað sem raunhæfan möguleika og  vildi taka þátt í að móta með hvaða hætti hann yrði.

Villandi málflutningur

Það er rangt að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað. Hið rétta er að allt frá setningu stjórnarskrár 1874 hefur aðgreining kirkju og ríkis staðið yfir og frá 1998 má segja að þessar tvær stofnanir séu að fullu aðgreindar stofnunarlega séð. Þjóðkirkjan er nú skilgreind sem sjálfstætt trúfélag og persóna að lögum með sjálfstæða eignhelgi.

Þá hefur fjárhagsleg aðgreining ríkis og kirkju einnig átt sér stað miðað við það sem var ungann úr 20. öldinni. Sú aðgreining varð með samningi um afsal fornra kirkjueigna í hendur ríkisvaldsins gegn því að það standi skil á launagreiðslum tiltekins fjölda kirkjulegra starfsmanna að teknu tilliti til fjölda þeirra sem í þjóðkirkjunni eru.

Þetta þýðir ekki að aðskilnaður hafi orðið. Til þess að svo verði þarf ekki aðeins að fella niður 62. gr. stjórnarskrárinnar heldur og að nema úr gildi sérstök lög um þjóðkirkjuna og fella hugtakið þjóðkirkja almennt úr lögum. — Þar með er að vísu ekki sagt að evangelísk-lútherska kirkjan hætti að að vera þjóðkirkja í einhverri merkingu. Úr því sker þjóðin ein með því að snúa baki við kirkju sinni, segja sig úr henni og láta af því að þiggja þjónustu hennar í gleði og þraut. Kirkja er ekki fyrst og fremst þjóðkirkja af því hún er skilgreind svo í lögum heldur vegna samfylgdar sinnar við einhverja þjóð eða mikinn meirihluta hennar.

Er aðskilnaður nauðsynlegur?

Hvaða nauðsyn ber til þess að nema úr gildi ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og e.t.v. ganga enn lengra í aðskilnaðarátt?

Ein rök sem oft eru tilfærð eru að trú eigi að vera einkamál fólks. Á það skal að sjálfsögu fallist enda hefur verið svo um langt skeið hér á landi. Trúmál hafa e.t.v. ekki verið einkamál frá því trúfrelsi var komið á með stjórnarskránni 1874 en urðu það í vaxandi mæli frá 9. áratug 19. aldar er tekið var að setja lög um utanþjóðkirkjufólk og síðar skráð trúfélög. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Íslendingar undirgengust á 20. öld stuðluðu að hinu sama. Loks batt jafnræðisregla stjórnarskrárinnar frá 1995 (65. gr.) endahnút á þá þróun. Engin ástæða er til að skipta hér um trúfrelsishefð til að gera trúmál að persónulegu einkamáli hvers og eins. Í því sambandi skal vísað til pistils míns um bleikt og blátt trúfrelsi sem birtist fyrir skömmu hér á Pressunni.

Önnur rök fyrir aðskilnaði eru að þannig sé mögulegt að auka jafnræði fólks og félaga á sviði trúmála. Það er mikið þjóðþrifamál á tímum vaxandi fjölhyggju og að því ber að keppa. Það er þó misskilningur að aðskilnaður ríkis og kirkju sé eina leiðin til að ná jöfnuði. Sérfræðingar eru almennt sammála um að þjóðkirkjufyrirkomulag á borð við það sem hér tíðkast brjóti ekki í bága við trúfrelsi og að í því felist ekki skylda til að mismuna trúfélögum. Það er vel mögulegt innan núverandi ramma að veita öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum sambærilega lagalega stöðu og þjóðkirkjan hefur þótt hún væri látin halda táknrænni sérstöðu vegna sögu sinnar, stærðar og sérstæðs hlutverks meðal þjóðarinnar allt til þessa.

Loks er því oft haldið fram að lýðræðislegt ríkisvald í fjölhyggjusamfélagi eigi ekki að hafa nein afskipti af trúfélögum. Það er einfaldlega álitamál sem mögulegt er að hafa mismunandi skoðanir á. Engin ástæða er til að hrapa að breytingum í þá veru hér meðan allur þorri fólks kýs að tilheyra þjóðkirkjunni og að notfæra sér þjónustu hennar t.d. við áfanga á lífsleiðinni frá vöggu til grafar. Sé þess gætt að trú sé einkamál hvers og eins og auk þess keppt að því að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé sem jöfnust mælir ekkert gegn því að í landinu sé fylgt markaðri stefnu í trúarrétti er rúmi ákvæði um þjóðkirkju a.m.k. enn um sinn.

Hér hefur afstaða verið tekin gegn ýmsum illa grunduðum staðhæfingum sem jafnan skýtur upp í umræðum um aðskilnað ríkis og kirkju. Það skal þó á engan hátt fullyrt að það skipti sköpum hvort kveðið sé á um þjóðkirkju í stjórnarskrá okkar eða ekki. Undirritaður hallast samt frekar að því að það skuli gert í einhverri mynd þar til markvissari umræða hefur átt sér stað en hingað til hefur tíðkast. Kirkjuskipanina þarf þó að umorða og dempa, t.d. með að kveða á um hana á eftir trúfrelsisákvæðum en ekki á undan þeim eins og nú er gert í stjórnarskránni.  Þá verða einnig að koma inn ákvæði um stöðu allra trú- og lífsskoðunarfélaga áður en vikið er að þjóðkirkjunni sérstaklega. 

Í komandi pistli verður fjallað um það að hverju þurfi helst að huga verði ákvæði um þjóðkirkjuna fellt brott úr stjórnarksrá okkar.